1961 - 1970

Bikarúrslit og stórbruni

Starfið við Hæðargarð efldist með hverju árinu og sigur á Íslandsmóti 5. flokks 1961 markaði ákveðin tímamót. Haustið 1967 komst Víkingur í úrslit bikarkeppninnar í knattspyrnu í fyrsta skipti, en tapaði fyrir KR. Árið 1969 bar Víkingur sigur úr býtum í annarri deild í fótbolta og tryggði sér sæti í efstu deild eftir langa bið. Víkingskonur urðu Reykjavíkurmeistarar í handbolta 1970. Mikil mildi þótti að engin slys urðu á fólki er skíðaskáli Víkings í Sleggjubeinsskarði brann til kaldra kola á páskanótt 1964, en um 50 manns voru í skálanum.

20. ágúst 1969. Víkingur og Breiðablik kepptu um sæti í efstu deild á Laugardalsvelli. Víkingar sigraði 3-2 í framlengdum leik og komst í 1. deild.

1961

Starfið í yngri flokkunum í fótbolta efldist með hverju árinu og árið 1961 kom að því að Víkingur varð Íslandsmeistari, en þetta sumar varð 5. flokkur félagsins bæði Íslands- og Reykjavíkurmeistari. Víkingar fengu ekki á sig mark í þessum mótum. Í ársskýrslu stjórnar fyrir starfsárið sagði m.a. að Eggert Jóhannesson þjálfari hefði unnið stórbrotið starf, hann hefði verið hinn sívakandi leiðtogi drengjanna, sem treystu honum og virtu. Af leikmönnum má nefna Þorbjörn Jónsson, markvörðinn sem hélt hreinu, Kára Kaaber, Bjarna Gunnarsson og Georg Gunnarsson. 

Í viðtali við Eggert Jóhannesson í 65 ára afmælisblaði Víkings 1973 kemur fram að Eddi byrjaði að þjálfa hjá Víkingi árið 1953, þá aðeins 15 ára gamall, og var litlu eldri en strákarnir í 4. flokki sem hann þjálfaði. Mikill fjöldi stráka æfði fótbolta með Víkingi og lagði Eggert áherslu á að sem flestir fengju tækifæri til að keppa. Þannig voru iðulega send A-, B- og C-lið til keppni. Eitt árið sigraði C-lið Víkings í móti B-liða og vann þá B-lið Víkings í úrslitaleik. 

1961 var búið að koma austurvellinum upp á Víkingssvæðinu og vestari völlurinn var tilbúinn ári síðar, 1962, en Breiðagerðisskóli fékk afnotarétt af honum á skólatíma. Þá var svæðið mælt upp og Víkingur fékk afnotarétt af svæði austan Víkingsheimilisins í átt að Réttarholtsskóla.

Hið sigursæla lið Víkings í 5. flokki árið 1961. Aftari röð frá vinstri: Guðjón Guðmundsson, Bjarni Gunnarsson, Guðjón Guðmundsson, Ólafur Hjaltason, Guðmundur Vigfússon, Óli Björn Guðmundsson, Eggert Jóhannesson, þjálfari. Fremri röð: Kári Kaaber, Ólafur Kvaran, Ragnar Þorvaldsson, Þorbjörn Jónsson, Georg Gunnarsson, Jens Þórisson og Gísli Gunnarsson.
Meistaraflokkur kvenna í handknattleik árið 1961. Hópurinn sem fór í Norðurlandaferðina en í hana völdust aðeins þær sem æft höfðu af samviskusemi. Árangurinn varð líka með ágætum. Frá vinstri: Pétur Bjarnason, þjálfari, Jóna Bjarkan, Rakel Bessadóttir, Sigríður Valdimarsdóttir, Ásrún Ellertsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Rannveig Laxdal, Elín Guðmundsdóttir, Herdís Jónsdóttir, Guðríður Jónsdóttir, Guðrún Jóhannesdóttir, Halldóra Jóhannesdóttir, Bettý Ingadóttir, Sigrún Vilbergsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Hjörleifur Þórðarson.
Meistaraflokkur kvenna í auglýsingu fyrir Consul bifreiðar árið 1960. Auglýsingin vakti mikla athygli víða um Evrópu.

1962

Starfið í Hæðargarðinum var kraftmikið og framfarir greinilegar. Víkingur varð Reykjavíkurmeistari í 5. flokki í fótbolta.

1963

Rósmundur Jónsson var fyrstur Víkinga til að vera valinn í landsliðið í handknattleik, en árið 1963 var hann valinn í landsliðið sem útileikmaður. Tólf árum síðar, 1975, var hann á ný kominn í landsliðið, en nú sem markvörður. Víkingum í landsliðshópnum fjölgaði fljótt og í kjölfar Rósmundar komu Þórarinn Ingi Ólafsson, Jón Hjaltalín Magnússon og Einar Magnússon. Af kvenfólkinu varð Rannveig Laxdal fyrst til að leika í landsliði, en Elín Guðmundsdóttir og Guðrún Helgadóttir komu fljótlega á eftir henni. 

Árið 1963 varð karlalið Víkings í öðru sæti á Íslandsmótinu, tyllti sér á milli FH og Fram, og þótti þetta mikið afrek hjá Víkingsliðinu. Liðið hafði fallið í aðra deild 1958, en unnið sig upp aftur 1961. Víkingsliðið rokkaði svolítið á milli ára á sjöunda áratugnum og allt fram til 1972.

Meistaraflokkur karla í Víkingi fór í sína fyrstu keppnisferð til útlanda er 18 manna hópur fór til Tékkóslóvakíu og Vestur-Þýskalands. Ferðin tók fimm vikur og var eftirminnileg öllum er þátt tóku. Í kjölfarið var tékkneski þjálfarinn Duzan Ruza ráðinn til að þjálfa hjá Víkingi, en hann hafði m.a. verið fyrirliði tékkneska landsliðsins. 

Víkingur lék í annarri deild í fótbolta frá 1957 til 1968 og svo slæmt var ástandið 1963 að félagið sendi hvorki lið til keppni í meistaraflokki á Íslandsmótinu né Reykjavíkurmótinu, en náði hins vegar þokkalegum árangri í bikarkeppninni þetta sumar. 

Það gladdi Víkinga mjög þetta sumar að Víkingur varð Reykjavíkur- og Íslandsmeistari í fjórða flokki í fótbolta.

Margt var reynt til að ná endum saman fjárhagslega og árið 1963 fékk Víkingur amerísku söngsveitina Delta Rhythm Boys hingað til lands og tveimur árum síðar, í febrúar 1965, kom sjálfur Louis Armstrong til Íslands á vegum Víkings. Ólafur P. Erlendsson hafði veg og vanda af þessum heimsóknum. Upphaflega stóð til að Delta Rythm Boys héldu hér ferna tónleika, en fljótlega seldist upp á þá alla. Skipuleggjendum tókst að framlengja dvöl sveitarinnar hér á landi og lék hún á tvennum tónleikum til viðbótar.

Tékkneski þjálfarinn Duzan Ruza þjálfaði handknattleiksmenn Víkings um tíma haustið 1963. Á myndinni er hann með Jóhannesi Guðmundssyni, Ólafi Friðrikssyni og Þórarni Inga Ólafssyni í leikhléi á Hálogalandi.
Handknattleiksmenn á ferð í Tékkóslóvakíu.

1964

Reiðarslag í Sleggjubeinsskarði. Skíðaskáli Víkings brann til kaldra kola á páskanótt 1964. Um 50 manns voru í skálanum og þykir mikil mildi að engin slys urðu á fólki. Hér fer á eftir frásögn Þjóðviljans 1. apríl 1964 af brunanum: „Á tíunda tímanum á páskadagskvöld varð sprenging í skíðaskála Víkings í Sleggjubeinsdal og varð hún í vélarhúsi skálans. Eldur brauzt út og brann skálinn til kaldra kola. Um fimmtíu manns voru í skálanum og björguðust allir út. Voru sumir fáklæddir og brann farangur skálabúa. Kvöldvaka var að hefjast í skálanum og voru nokkrir piltar að klæða sig upp sem fegurðardísir og átti að fara fram fegurðarsamkeppni og höfðu flestir skálabúar safnazt saman í setustofu.

Þá kvað allt í einu við sprenging. Einn skálabúa hljóp fram og opnaði dyrnar og lagði þá kolsvartan reykjarmökkinn um skálann og þil tóku að hrynja og eldtungur teygðu sig um loftið. Nokkur troðningur varð í skálanum, þegar allir hlupu til útidyra. Skálastjórinn, Ágúst Friðriksson, hljóp til og braut glugga og komust þar nokkrir út og aðrir komust út um glugga í svefnskála. Skáru sig sumir á rúðubrotum á þessum flótta. Ein stúlka fékk taugaáfall.

Reynt var að slökkva eldinn með handslökkvidælum og hringt var eftir slökkviliði úr Reykjavík og var skálinn brunninn, þegar það kom á vettvang. Flestir skálabúa fóru niður í skíðaskála Vals og fengu þar inni fyrsta kastið. Langferðabifreið frá Reykjavík sótti þó fólkið seinna um kvöldið. Talið er að sprenging hafi orðið í benzínljósavél í vélasal og hrundi þá þil milli mótorhúss og skíðageymslunnar. Lítið af farangri bjargaðist. Nokkrir svefnpokar og eitt segulbandstæki. Flestir voru skálabúar innan við tvítugt. 

Skíðaskáli Víkings var allstór og múrhúðuð bygging og reist árið 1944. Miðvikudag fyrir páska í hitteðfyrra brann þakið af skálanum.“

Íslenska kvennalandsliðið sigraði á Norðurlandamótinu sem fram fór á Laugardalsvellinum í Reykjavík 1964. Þjálfari liðsins var Víkingurinn Pétur Bjarnarson og meðal leikmanna átti Víkingur annan fulltrúa, Guðrúnu Helgadóttur, eiginkonu Péturs. Pétur starfaði í fjölda ára við þjálfun handknattleiks- og knattspyrnuflokka hjá Víkingi, auk þess sem hann var öflugur leikmaður á sínum yngri árum og sinnti félagsstörfum, en hann var formaður Víkings í eitt ár, 1959–1960.

Pétur Bjarnason skorar í leik gegn Fram í Hálogalandi.
Meistaraflokkur Víkings í handknattleik um 1965. Aftasta röð frá vinstri: Gunnar Gunnarsson, Ólafur Friðriksson, Þórarinn Ingi Ólafsson, Steinar Halldórsson, Sigurður Hauksson. Miðröð: Árni Ólafsson, Jóhann Gíslason, Hannes Haraldsson, Björn Bjarnason. Fremsta röð: Brynjar Bragason, Pétur Bjarnason, þjálfari, og Einar Hákonarson.

1965 - 1966

Í febrúar 1965, kom sjálfur Louis Armstrong til Íslands á vegum Víkings. Ólafur P. Erlendsson hafði veg og vanda af heimsóknninni. Árið 2016 setti vefritið Kjarninn þessa tónleika Louis Armstrong í fjórða sæti á topp-tíu lista yfir tónleika á Íslandi og sagði meðal annars um þá: „„Satchmo“, eitt stærsta nafn í sögu jazz-tónlistar, kom til Íslands í febrúar árið 1965 og hélt ferna tónleika í Háskólabíói, 8. og 9. þess mánaðar. Það var knattspyrnudeild Víkings sem flutti Armstrong inn til landsins og skipulagði tónleikana. Vitaskuld var troðfullt á þá alla.“

Margt fleira var gert til að afla peninga til að standa undir rekstrinum. Nefna má að Víkingur stóð fyrir dansiböllum í Breiðagerðisskóla, happdrætti voru í gangi og vel sóttur knattspyrnudagur var haldinn á félagssvæðinu.

Yngri flokkarnir stóðu sig vel ár eftir ár.

Árituð leikskrá frá tónleikum Louis Armstrong í Háskólabíói í febrúar 1965.

1967

Víkingur komst í úrslit bikarkeppninnar í knattspyrnu í fyrsta skipti og fyrst annarrar deildarfélaga. Mikil stemmning náðist í bikarleikjunum um sumarið, en Víkingur sló út bæði A- og B-lið Skagamanna. Víkingar flykktust á völlinn og sungu einum rómi „Glory, Glory, Hallelúja…“ Í leiknum á Akranesi gegn gullaldarliði Akurnesinga, B-liði þeirra, skoruðu Hafliði Pétursson, Ólafur Þorsteinsson og Jón H. Karlsson fyrir Víking í 3:2 sigri. Í undanúrslitunum á Melavellinum unnu Víkingar síðan A-lið Skagamanna 2:1 eftir framlengingu og skoraði miðvörðurinn Örn Guðmundsson bæði mörk Víkings af löngu færi. 

Í Tímanum sagði meðal annars: „Síðustu 15 mínútur í framlengingunni hljómaði um Melavöllinn „Glory, glory, halelúja …“ þessi baráttusöngur Víkinga kæfði ýlfur haustvindsins, sem hafði gert mönnum hrollkalt, og var hinu kornunga liði ómetanleg hvatning þegar það barðist gegn vindinum og „þeim gulu“ frá Akranesi, sem reyndu árangurslaust að jafna metin …“

Í úrslitaleiknum í bikarkeppninni mættu Víkingar ofjörlum sínum í KR og töpuðu 3:0, en frá upphafi keppninnar 1960 og til 1967 voru KR-ingar nánast með bikartitlana í áskrift. Engu að síður vakti árangur Víkinga mikla athygli og var sannarlega stórt innlegg í reynslubankann. 

Þá um sumarið var liðið nálægt því að tryggja sér sæti í efstu deild, en tapaði 3:2 fyrir ÍBV í úrslitaleik í riðlakeppninni. Víkingur komst yfir með mörkum Ólafs Þorsteinssonar og Hafliða Péturssonar, en Eyjamenn skoruðu tvívegis á síðasta korterinu. Liðin urðu jöfn að stigum í riðlinum og þurftu að reyna með sér að nýju og þá unnu Eyjamenn 2:0 sigur í hagléli og við erfiðar aðstæður.

1968

Vonir og væntingar höfðu vaknað meðal Víkinga um betri árangur, en þær voru skotnar harkalega niður sumarið 1968. Víkingar þurftu þá að leika aukaleiki við Ísfirðinga til að forðast fall niður í þriðju deild. Víkingar reyndust vandanum vaxnir og unnu Ísfirðinga. Sumarið á eftir kom í ljós að mun meira var spunnið í Víkingsliðið en það sýndi þetta sumar, 1968. 

Víkingar urðu Reykjavíkur-, Íslands- og haustmeistarar í fjórða flokki í fótbolta, markatalan eftir sumarið 85:16. Meðal leikmanna voru Stefán Halldórsson, Gunnar Örn Kristjánsson og Adolf Guðmundsson. 

1969

Víkingur bar sigur úr býtum í annarri deild í fótbolta og tryggði sér keppnisrétt í efstu deild eftir langa bið. Eggert Jóhannesson þjálfaði liðið og og lagði áherslu á aga meðal leikmanna og Víkingur naut góðs af uppbyggingu síðustu ára. 

Jóhannes Tryggvason og Hafliði Pétursson skoruðu mörk Víkings í úrslitaleik gegn Breiðabliki og skoraði Hafliði tvívegis úr vítaspyrnu. Víkingur lenti 2:0 undir í leiknum, en tókst að jafna og knýja fram framlengingu. Undir lok hennar var aftur dæmt víti á Blika og skoraði Hafliði einnig úr því. Síðari vítaspyrnan var umdeild og lengi umtöluð, boltinn fór í þverslá og niður. Ekki voru allir vissir um að boltinn hefði farið inn fyrir marklínuna, en dómarinn var viss í sinni sök og það eitt skipti Víkinga máli. 3:2 og Víkingur á meðal þeirra bestu.

Í Víkingsbókinni rifjar Anton Kærnested, sem var formaður knattspyrnudeildar 1966–69 og síðan félagsins 1980–82, upp eftirfarandi samtal við Hafliða: 

„Hvað hugsaðirðu þegar þú stilltir boltanum upp?“ spurði Anton.

„Elsku góði guð, láttu mig skora úr vítinu. En þú?“ svarar Hafliði. 

„Elsku góðu guð, láttu hann Halla skora úr vítinu,“ segir Anton.

Flestir leikmanna meistaraflokks í knattspyrnu sumarið 1969 er Víkingur vann sigur í 2. deild í fyrsta skipti.
Leikmenn Víkings fóru í æfingabúðir í Saltvík til að undirbúa sig undir leikinn gegn Breiðablik. Þar gátu menn æft á grasi.
Sigri fagnað á Laugardalsvelli 1969. Víkingar tollera þjálfara sinn, Eggert Jóhannesson, eftir sigurinn á Breiðablik.

1970

Víkingskonur urðu Reykjavíkurmeistarar í handbolta og var það fyrsti stóri titillinn sem Víkingur vann í meistaraflokki kvenna. Víkingur hafði um árabil sterku kvennaliði á að skipa, en herslumuninn vantaði oft. 

Víkingur átti sömuleiðis Reykjavíkurmeistara í 3. flokki í handbolta og nokkrir leikmanna þess liðs voru einnig burðarásar í fótboltanum, sterkir árgangar og góður árangur. 

Reykjavíkurmeistarar Víkings í meistaraflokki kvenna árið 1970. Aftari röð frá vinstri: Sigurður Bjarnarson, þjálfari, Guðrún Hauksdóttir, Elín Guðmundsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Auður Andrésdóttir, Elín Guðmundsdóttir, Jónína Jónsdóttir, Halldóra Jóhannesdóttir. Fremri röð: Elínborg Jónsdóttir, Agnes Bragadóttir, Guðrún Bjartmarz, Þórdís Magnúsdóttir, Ástrós Guðmundsdóttir og Sigrún Olgeirsdóttir.
3. flokkur Víkings í handbolta 1969-1970. Efsta röð frá vinstri: Magnús Guðmundsson, Jóhann Óli Guðmundsson, Ólafur Jónsson, Björgvin Björgvinsson. Miðröð: Guðmundur Gíslason, Ögmundur Kristinsson, Gunnar Örn Kristjánsson, Haukur Stefánsson. Neðsta röð: Páll Björgvinsson, Adolf Guðmundsson, Guðmundur Magnússon, Stefán Halldórsson.
Loka efnisyfirliti