KNATTSPYRNUFÉLAGIÐ VÍKINGUR
Stofnað 1908
Strákafélag í miðbænum
Strákar í miðbæ Reykjavíkur stofnuðu vorið 1908 tvö félög til að æfa fótbolta, Víking og Fram. Yngri strákar stóðu að stofnun Víkings 21. apríl 1908 og voru þeir á aldrinum 8–12 ára. Þeir áttu flestir heima við Suðurgötu, Tjarnargötu og í neðsta hluta Túngötu, í hjarta bæjarins. Stofnendur Víkings voru Axel Andrésson, Emil Thoroddsen, Davíð Jóhannesson, Páll Andrésson og Þórður Albertsson. Víkingum gekk vel í keppni við önnur félög og voru taplausir í opinberum kappleikjum fyrstu tíu árin í sögu félagsins. Víkingur tók í fyrsta skipti þátt í Íslandsmótinu í elsta aldursflokki 1918 og varð í öðru sæti. Til að keppa í mótinu fengu Víkingar undanþágu fyrir fimm leikmenn þar sem þeir voru undir 18 ára aldri.
Tvívegis Íslandsmeistarar
Glæsilegur árangur náðist árin 1920 og 1924 er Víkingur varð Íslandsmeistari í knattspyrnu. Meðalaldur leikmanna Víkings 1920 var aðeins 18,4 ár og er það lægsti meðalaldur nokkurs meistaraliðs á Íslandsmótinu í fótbolta. Góður árangur náðist einnig í öðrum flokkum sum árin, en er leið á áratuginn dofnaði áhugi félagsmanna. Axel Andrésson var formaður Víkings 1908–1924 og hann var jafnframt aðalþjálfari félagsins í sextán ár.
Erfið ár en Víkingar neituðu
að gefast upp
Framan af áratugnum gekk illa á knattspyrnuvellinum, en Víkingar neituðu að gefast upp. Þeir réðu sumarið 1939 þýskan þjálfara, Fritz Buchloh, og bjuggu Víkingar að starfi hans í mörg ár. Þegar einum leik var ólokið á Íslandsmótinu virtist meistaratign vera innan seilingar, en á aðeins þremur lokamínútum síðasta leiksins breyttist sigur í tap, en jafntefli nægði Víkingum. Árið 1938 hófust æfingar í handbolta í Víkingi og á framhaldsaðalfundi 1939 var fyrst hreyft hugmyndum um byggingu skíðaskála fyrir Víking.
Barist á ýmsum vígstöðvum
Víkingar létu til sín taka á ýmsum vígstöðvum og voru nálægt sigrum á Íslandsmótum í fótbolta í byrjun og lok áratugarins. Tveir Víkingar voru í fyrsta landsliðinu í knattspyrnu árið 1946. Víkingar sendu tvö lið til keppni í fyrsta Íslandsmótinu í handbolta 1940 og skuldlaus skíðaskáli var vígður í Sleggjubeinsskarði 1944. Félagsheimili hafði Víkingur um tíma í bragga við Suðurgötu, en hann var hluti af Trípólíkampinum, sem var braggahverfi frá stríðsárunum.
Flutningur og framfarir
Straumhvörf urðu í sögu Víkings 27. febrúar 1953 er Bæjarráð Reykjavíkur samþykkti að úthluta Víkingi svæði fyrir velli og félagsheimili við Hæðargarð. Áður hafði Víkingur fengið skika fyrir starfsemi félagsins í Vatnsmýrinni. Framkvæmdir hófust fljótlega við félagsheimili og vallargerð við Hæðargarð og smátt og smátt færðust allar æfingar félagsins á hið nýja svæði. Gróska var í starfi yngri flokka í ört vaxandi hverfi og það gladdi Víkinga mjög þegar 5. flokkur félagsins varð haustmeistari í knattspyrnu 1959.
Bikarúrslit og stórbruni
Starfið við Hæðargarð efldist með hverju árinu og sigur á Íslandsmóti 5. flokks 1961 markaði ákveðin tímamót. Haustið 1967 komst Víkingur í úrslit bikarkeppninnar í knattspyrnu í fyrsta skipti, en tapaði fyrir KR. Árið 1969 bar Víkingur sigur úr býtum í annarri deild í fótbolta og tryggði sér sæti í efstu deild eftir langa bið. Víkingskonur urðu Reykjavíkurmeistarar í handbolta 1970. Mikil mildi þótti að engin slys urðu á fólki er skíðaskáli Víkings í Sleggjubeinsskarði brann til kaldra kola á páskanótt 1964, en um 50 manns voru í skálanum.
Stórir titlar og sterk staða
Víkingur varð Íslandsmeistari í handknattleik 1975 og í hönd fóru glæsileg ár í handboltasögu félagsins. 1978 vann Víkingur bikarkeppnina í handbolta í fyrsta skipti og 1980 vann félagið bæði deild og bikar í handbolta. Víkingur varð bikarmeistari í fótbolta 1971 og smátt og smátt tókst félaginu að styrkja stöðu sína í fótboltanum. Víkingsheimilið við Hæðargarð var að fullu tekið í notkun fyrir starfsemi félagsins og 1973 hófu blak-, badminton- og borðtennisdeildir starfsemi innan Víkings. Blakkonur innbyrtu fyrstu meistaratitla sína árin 1975 og 1976.
Stórveldið Víkingur
Handboltamenn Víkings héldu sigurgöngu sinni áfram og unnu einhvern titil ár eftir ár. Knattspyrnumenn Víkings létu heldur betur til sín taka og urðu Íslandsmeistarar bæði 1981 og 1982. Þjálfararnir Bogdan Kowalczyk og Youri Sedov urðu þjóðsagnapersónur í félaginu. Blakstúlkur héldu áfram að vinna til titla og borðtennisfólk Víkings var í fremstu röð. Farið var að leika á grasvellinum í Fossvogi og framkvæmdir hófust við byggingu félagsheimilis í febrúar 1988. Borgin keypti félagsheimili Víkings og aðstöðu félagsins við Hæðargarð.
Konur í fararbroddi í Víkinni
Góður árangur framan af áratugnum var gleðiefni í Víkinni, en nýtt íþróttahús og félagsheimili með því nafni var tekið í notkun 1991. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu 1991, en féllu síðan niður um deild aðeins tveimur árum síðar. Blakkonur héldu enn uppi merkinu og nú var komið að handboltakonum félagsins að vinna stóru titlana. 1992, 1993 og 1994 varð Víkingur Íslandsmeistari í handbolta kvenna og einnig bikarmeistari 1992 og 1994. Karlaliðið í handboltanum var einnig mjög sterkt í upphafi áratugarins, en svo fór vorið 1996 að stórveldið Víkingur féll um deild í handboltanum. Borðtennisdeildin var orðin hin öflugasta á landinu og Guðmundur Eggert Stephensen varð Íslandsmeistari í einliðaleik í borðtennis í meistaraflokki karla árið 1994, aðeins 11 ára gamall, og varð tuttugu sinnum í röð Íslandsmeistari í einliðaleik í borðtennis.
Strákafélagið 100 ára
og við góða heilsu
Strákafélagið úr miðbæ Reykjavíkur varð 100 ára árið 2008 og ekki hægt að segja annað en að öldungurinn hefði það gott og væri við góða heilsu eftir atvikum. Starfið í Fossvoginum var öflugt og stöðug uppbygging í gangi þar sem áhorfendastúka og gervigrasvöllur voru stærstu framfaraskrefin. Á knattspyrnusviðinu var reynt að ná stöðugleika, en erfiðlega gekk að blása lífi í starf handknattleiksdeildar. Borðtennis-Víkingar voru í fremstu röð og Karate-Víkingar í nýrri deild í félaginu létu til sín taka.
Úr yngri flokkunum í Evrópuúrslit
Víkingar komust í Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu árið 2015 með því að ná fjórða sæti í efstu deild árið á undan. Víkingur átti sína fulltrúa í úrslitum Evrópukeppninnar í fótbolta í Frakklandi 2016, en „gömlu“ Víkingarnir Kári Árnason og Kolbeinn Sigþórsson voru fastamenn í landsliðinu og Sölvi Geir Ottesen tók þátt í leikjum í undankeppninni. Starfið í yngri flokkunum blómstrar og meistaratitlar vinnast yfirleitt á hverju ári. Keppendur Víkings í borðtennis eru í fremstu röð og hið sama má segja um karatefólk.