1908 - 1919

Strákafélag í miðbænum

Strákar í miðbæ Reykjavíkur stofnuðu vorið 1908 tvö félög til að æfa fótbolta, Víking og Fram. Yngri strákar stóðu að stofnun Víkings 21. apríl 1908 og voru þeir á aldrinum 8–12 ára. Þeir áttu flestir heima við Suðurgötu, Tjarnargötu og í neðsta hluta Túngötu, í hjarta bæjarins. Stofnendur Víkings voru Axel Andrésson, Emil Thoroddsen, Davíð Jóhannesson, Páll Andrésson og Þórður Albertsson. Víkingum gekk vel í keppni við önnur félög og voru taplausir í opinberum kappleikjum fyrstu tíu árin í sögu félagsins. Víkingur tók í fyrsta skipti þátt í Íslandsmótinu í elsta aldursflokki 1918 og varð í öðru sæti. Til að keppa í mótinu fengu Víkingar undanþágu fyrir fimm leikmenn þar sem þeir voru undir 18 ára aldri.

Yfirlitsmynd yfir kvosina árið 1908. Húsið lengst til hægri á mndinni er húsið þar sem Kf.Víkingur var stofnað árið 1908 á horni Túngötu og Garðastrætis. Þar bjó Emil Thoroddsen, tónskáld, einn stofnenda félagsins ásamt foreldrum sínum, Þórði lækni og Önnu Gudjohnsen - Ljósm. Magnús Ólafsson - Ljósmyndasafn Reykjavíkur

1908

Knattspyrnufélagið Víkingur var stofnað 21. apríl árið 1908 í geymsluplássi í kjallaranum að Túngötu 12 í Reykjavík. Á stofnfundinn mættu 32 drengir. Aðalhvatamenn og í fyrstu stjórn voru fyrirliði hópsins og fyrsti Víkingurinn, Axel Andrésson, þá 12 ára gamall, formaður, Emil Thoroddsen, 9 ára, ritari, og Davíð Jóhannesson, 11 ára, gjaldkeri. Aðrir stofnendur voru Páll, 8 ára, bróðir Axels, og Þórður Albertsson, 9 ára. „Við fengum þá flugu í höfuðið að stofna fótboltafélag eins og þeir fullorðnu höfðu gert,“ er haft eftir Axel Andréssyni.

Tilgangurinn með stofnun Víkings var að spila fótbolta og fjármagna kaup á bolta. Víkingar iðkuðu íþrótt sína gjarnan fyrstu árin á gulllóðinni sem svo var kölluð, en þar stendur nú hús Oddfellowreglunnar. Nýjabæjartúnið (væntanlega við Garðastræti) var sömuleiðis vinsæll vettvangur og þá voru götur bæjarins líka vettvangur boltaleikja strákanna, enda engin umferð bíla í bænum. Fyrsti gjaldkerinn særði tíeyringa og fimmeyringa upp úr vösum félagsmanna þar til hafðist að mestu fyrir fyrsta boltanum, en Egill Jacobsen kaupmaður er talinn hafa hjálpað til með það sem upp á vantaði. 

Víkingsstrákarnir áttu fyrstu árin flestir heima á Suðurgötu, Tjarnargötu og í neðsta hluta Túngötu, í hjarta bæjarins. Heitið Suðurgötufélagið hefur sést notað um Víking. Knattspyrnufélagið Fram var stofnað nokkrum dögum á eftir Víkingi og voru mikil tengsl á milli félaganna, sumir strákanna léku með báðum félögum. Framarar voru flestir tveimur til fjórum árum eldri. Í Frambókinni, 100 ára sögu Fram, er eftirfarandi haft eftir Kristjáni Albertssyni: „Við vildum helst ekki hafa rollingana og þeir voru of litlir til að komast í kappliðin, urðu útundan og stofnuðu þess vegna Víking.“

Tjarnargata og Vonarstræti 1908 - 1910 - Fólk á ferð - Ljósm.Magnús Ólafsson - Ljósmyndasafn Reykjavíkur

1909

Fyrstu árin fram til 1913 háði Víkingur enga opinbera kappleiki. „Æfingar voru stöðugt haldnar þegar veður leyfði,“ segir í kveri sem Íþróttasamband Íslands gaf út árið 1918 um fyrstu árin í sögu Víkings. Kver þetta er að finna aftast í bókinni Áfram Víkingur, sem kom út árið 1983.

1910

Lítið er til af rituðum heimildum um samskipti Víkings og Fram fyrstu ár þessara nágrannafélaga í miðbænum. Í fundargerðabók Fram frá því í apríl 1910 er þó greint frá því að Víkingar hafi skorað á Framara til kappleiks. Taldir eru upp sjö Framarar sem Víkingar vildu keppa við og tekið fram að Víkingur muni mæta með ellefu manna lið! Bæði Fram og Víkingur áttu fulltrúa á þessum félagsfundi Fram og var Axel Andrésson meðal fundarmanna. Tekist var á um áskorunina á fundinum, en að lokum samþykkt með átta atkvæðum gegn þremur að verða ekki við henni.

1911

Íþróttavöllurinn á Melunum var vígður í júní 1911, en ári fyrr var sameignarfélagið Íþróttavöllurinn stofnað af Fram, KR, ÍR, Glímufélaginu Ármanni, Ungmennafélagi Reykjavíkur, Ungmennafélaginu Iðunni og Skautafélagi Reykjavíkur. Víkingur varð síðar áttunda félagið sem fékk aðild að Vallarsambandinu, eftir nokkurt þref, en stofnfélögin vildu ekki fjölga í hópnum því að það hefði í för með sér skerðingu á æfingatímum þeirra.

1912

Víkingsstrákarnir kepptu oft við Fótboltafélag Miðbæinga og sigruðu ávallt, en ekki var um opinbera kappleiki að ræða. Félagar í Fótboltafélagi Miðbæinga munu um 1912 hafa gengið í raðir Víkinga.

1913

Víkingur gerðist aðili að Íþróttasambandi Íslands í júní 1913, en ÍSÍ var stofnað í janúar 1912. Víkingur lék tvo skráða leiki þetta ár, vann nemendur Landakotsskóla 7:0 og Knattspyrnufélag Menntaskólans 1:0. Víkingar voru svo fjölmennir í liði menntskælinga að þeir þurftu að fá liðsstyrk til að manna eigið lið.

1914

Víkingur vann KR 2:1 í fyrsta opinbera kappleik félagsins í júní 1914 á móti Ungmennafélags Íslands, en keppt var í 2. flokki. Verðlaunaskjalið er varðveitt í Víkinni. Þessi sömu lið öttu kappi tvisvar seinna um sumarið og varð jafntefli í öðrum leiknum, en Víkingur vann þriðja leikinn. Piltalið Víkings tapaði ekki opinberum knattspyrnuleik frá stofnun 21. apríl 1908 til 16. júní 1918 og skoraði 58 mörk gegn 16. Um það leyti sem Víkingur hóf þátttöku í opinberum kappleikjum hóf liðið að leika í röndóttum búningum, rauðum og svörtum. Skráðar voru 35 æfingar hjá Víkingi 1914.

Verðlaunaskjalið frá 1914, sem Víkingur fékk fyrir sinn fyrsta opinbera kappleik.

1915

Piltarnir í 2. flokki kepptu tvisvar við Fram sumarið 1915 og unnu báða leikina. Skráðar voru 36 æfingar og þetta ár fékk Víkingur viðurkenningu frá ÍSÍ fyrir áhuga og dugnað. Kvennaknattspyrna var æfð innan vébanda Víkings þegar á fyrstu árunum og árið 1915 æfði stór hópur stúlkna í miðbænum undir stjórn Axels Andréssonar, fyrsta formanns félagsins. Ætlun þeirra var að stofna fyrsta kvennaknattspyrnulið landsins, en boltasparkið hjá miðbæjarstelpunum varð þó ekki langlíft. Stúlkurnar sem æfðu á þessum tíma knattspyrnu hjá Víkingi voru meðal annarra Ásthildur Jósefsdóttir Bernhöft, Svava Blöndal, Ragnheiður og Elín Hafstein, Margrét Thors og Emilía og Anna Borg.

Auglýsing úr Vísi 12. júní 1917.

1916

Tveir leikir eru skráðir í kveri ÍSÍ sumarið 1916, báðir í 2. flokki gegn Fram, og unnust þeir báðir. 70 æfingar voru haldnar og vaxandi kraftur var í starfi félagsins

1917

Á aðalfundi í Bárubúð 24 apríl 1917 var Knattspyrnufélagið Knöttur tekið inn í félagið og fékk heitið Junior-Víkingur. Í júní unnu Víkingspiltar tvívegis sigur á blönduðu liði úr KR og Fram. Um haustið vann 2. flokkur Víkings leik við KR um Knattspyrnubikar Reykjavíkur og síðan Fram með markatölunni 9:4, en sá leikur var samkvæmt áskorun frá Fram. Alls voru haldnar 72 æfingar.

Kapplið II. flokks 1917. Efsta röð frá vinstri: Lárus Einarsson og Walter Ásgeirsson. Miðröð: Ragnar Blöndal, Gísli Pálsson, Tómas Jónsson, Óskar Norðmann, Jón Brynjólfsson, Stefán Pálsson, Snorri B. Arnar. Neðsta röð: Björn Eiríksson, Axel Andrésson, formaður, Hjálmar Bjarnason.

1918

Tognað hafði úr drengjunum sem stofnuðu Víking í apríl 1908 og nú voru þeir tilbúnir að taka þátt í keppni á Íslandsmóti fullorðinna. Óhætt er að segja að Víkingar hafi byrjað með látum því þeir unnu Val 5:0 í fyrsta leik sínum á Íslandsmóti 9. júní 1918. Fjórum dögum síðar unnu þeir Knattspyrnufélag Reykjavíkur 3:2. Fram sigraði hins vegar í þriðja og síðasta leik Víkinga í mótinu 6:3, en árangur Víkinga þótti mjög athyglisverður.

Til að keppa í mótinu fengu Víkingar undanþágu fyrir fimm leikmenn sína þar sem þeir voru undir 18 ára aldri. Þetta voru þeir Halldór Halldórsson, Óskar Norðmann, Gunnar Bjarnason, Þorvaldur Thoroddsen og Snorri Björnsson. Um sumarið lék meistaraflokkur Víkings, eða 1. flokkur eins og hann var kallaður, einnig tvo leiki við skipverja af Islands Falk, sem var danskt eftirlitsskip. Jafntefli varð í þeim fyrri, en Víkingur vann seinni leikinn. Um haustið tapaði Víkingur fyrir Fram í elsta aldursflokki. 2. flokkur Víkings lék tvo leiki þetta keppnistímabil, tapaði og gerði jafntefli við KR. Þriðji flokkur félagsins keppti við Fálkann, KR, og Væringja. Haldnar voru 53 æfingar.

III. flokkur 1918. Efst til vinstri: Magnús Andrésson, Geir J. Aðils, Einar B. Guðmundsson, Björn Snæbjörnsson, Kristján H. Zoega. Miðröð: Ragnar S. Thorarensen, Walter Á. SIgurðsson, Kári Forberg. Neðsta röð: Halldór Sigurbjörnsson, Bernhard B. Arnar, Axel Blöndal.

Í lögum Víkings sem voru í gildi 1918 kemur fram að árstillag hvers félagsmanns var tvær krónur og ef ekki var greitt fyrir 1. júlí misstu menn atkvæði á fundum og máttu ekki taka þátt í æfingum. Stjórn boðaði til æfinga og funda. Á tíu ára afmæli félagsins 24. apríl 1908 var stofnaður Sjúkrasjóður Víkings. Í lögum hans kemur fram að ef félagsmaður meiðist á kappleik er félagið þreytir skal félagið borga hluta af læknishjálp hans, þó ekki meira en 50 krónur. Meiðist félagi á æfingu skal stjórninni heimilt að greiða læknishjálp hans allt að 25 krónum. 25% af tekjum félagsins skulu ár hvert renna í sjúkrasjóðinn. Hver félagsmaður skal greiða eina krónu ár hvert til sjúkrasjóðsins. Aðeins þá sem greitt hafa gjöld sín í sjóðinn má styrkja, segir enn fremur í lögunum.

Á rúmlega áratug frá stofnun Víkings í apríl 1908 til 16. júní 1918 töpuðu Víkingarnir ungu ekki einum einasta leik. Fimmtán skráðir leikir fóru fram á þessu tímabili og fengu Víkingar 29 stig, andstæðingarnir aðeins eitt. Markatalan var 58:16. 

1919

Víkingur varð í þriðja sæti í Íslandsmótinu á eftir KR og Fram, en Valur rak lestina. Fyrsta erlenda knattspyrnuliðið sem heimsótti Ísland var Akademisk Boldklub frá Danmörku í ágústmánuði 1919. Tveir Víkingar voru í úrvalsliðinu sem lagði Danina 4:1 í sögufrægum leik, Óskar Norðmann og Páll Andrésson. Segja má að þarna hafi landslið Íslands í knattspyrnu verið valið í fyrsta skipti, því í úrvalsliðið voru tilnefndir bestu leikmenn landsins til að etja kappi við erlenda mótherja. Um Óskar sagði í Morgunblaðinu eftir leikinn að hann hefði verið frár og fylginn sér. Daginn fyrir leikinn höfðu Danirnir farið ríðandi til Hafnarfjarðar og voru sagðir lerkaðir af harðsperrum daginn eftir. Aðrar skýringar kunna þó einnig að vera á linku þeirra! Aðra andstæðinga sína hér á landi unnu Danirnir næsta auðveldlega. 

Í september þetta ár fóru Víkingar í keppnisferð til Hafnarfjarðar og léku við nýstofnað félag í Firðinum, sem bar nafnið Framsókn.

Loka efnisyfirliti