2001 - 2010

Strákafélagið 100 ára og við góða heilsu

Strákafélagið úr miðbæ Reykjavíkur varð 100 ára árið 2008 og ekki hægt að segja annað en að öldungurinn hefði það gott og væri við góða heilsu eftir atvikum. Starfið í Fossvoginum var öflugt og stöðug uppbygging í gangi þar sem áhorfendastúka og gervigrasvöllur voru stærstu framfaraskrefin. Á knattspyrnusviðinu var reynt að ná stöðugleika, en erfiðlega gekk að blása lífi í starf handknattleiksdeildar. Borðtennis-Víkingar voru í fremstu röð og Karate-Víkingar í nýrri deild í félaginu létu til sín taka.

Stúkan við knattspyrnuvöllinn í Víkinni.

2001

Nýja vallarsvæðið var opnað fyrir æfingar og leiki um miðjan maí, en svæðið var mjög viðkvæmt fyrir notkun í byrjun sumars. Samið var m.a. við Þrótt um að heimaleikir Víkings í fyrri umferð 1. deildar færu fram á Valbjarnarvelli, en elstu flokkarnir æfðu m.a. á Ármannsvellinum við Sigtún. Lárus Huldarsson, fyrirliði meistaraflokks, sagði að undirbúningstímabilið hefði verið erfitt; hvar á að æfa? hefði verið stærsta spurningin. Mikið álag var á æfingavelli félagsins er leið á sumarið og sýndi í hnotskurn þörf félagsins á stærra æfingasvæði. Leikir Víkings í seinni umferð fyrstu deildar fóru fram í Víkinni og tapaðist fyrsti leikurinn á nýja vellinum 3:0 fyrir Þrótti. 

Að loknum vallarframkvæmdum árið 2000 var engin aðstaða fyrir áhorfendur við nýja keppnisvöllinn. Byggingarleyfi fyrir áhorfendastúku var samþykkt í maí 2001. Samið var við fyrirtækið ÓG-bygg um framkvæmd verksins en þar var Víkingurinn Ólafur Friðriksson í forsvari. Borginni var greint frá því að Víkingur gæti fjármagnað fyrsta áfanga framkvæmda með framlögum félagsmanna, en byggingunni yrði ekki lokið án aðkomu borgarinnar. Félaginu höfðu árið 1999 borist 10 milljónir að gjöf frá Agnari Ludvigssyni, heiðursfélaga í Víkingi og miklum velgjörðarmanni félagsins. Agnar bað um að ekki yrði greint frá nafni gefandans, en hann lést 28. október 2013. Þessi upphæð lá óhreyfð á bankareikningi þar til ráðist var í byggingu stúkunnar.

Á framhaldsaðalfundi 8. febrúar 2001 voru samþykktar lagabreytingar þar sem segir að „aðalstjórn annast fjárreiður allra deilda félagsins. Aðalstjórn gerir síðan heildar rekstrar- og efnahagsreikning yfir allan fjárhag félagsins.“ Með þessu færðist bókhald inn á skrifstofu aðalstjórnar. Ennfremur segir að „aðalstjórn ber ekki ábyrgð á öðrum fjárskuldbindingum deilda en þeim sem getið er um í rekstraráætlun sem hlotið hefur samþykkt fjárhagsráðs aðalstjórnar …“ Þarna var stigið skref til að styrkja rekstrarumhverfið með því að bókhald deilda yrði fært á aðalskrifstofu og hafði þetta fyrirkomulag verið til umræðu í félaginu í allmörg ár.

Ný viðhorf og auknar kröfur um faglegt starf leiddu til þess að gerður var þjónustusamningur Íþrótta- og tómstundaráðs borgarinnar við Víking og tók hann gildi 1. ágúst 2001. Þar var meðal annars kveðið á um ráðningu íþróttafulltrúa og var Stefán Arnarson ráðinn fyrsti íþróttastjóri Víkings árið 2001, en hann hafði áður þjálfað meistaraflokk kvenna í handbolta. Bakgrunnur þessa tímamótasamnings var íþróttanámskrá Víkings frá því í maí 1999. Á næstu árum var oft fundað með borginni um framtíð og þróun þjónustusamningsins sem er hryggjarstykkið í öruggum rekstri skrifstofu félagsins. 

Meistaraflokkar karla í handbolta og fótbolta áttu ekki góðu keppnisgengi að fagna, þriðja sæti í næstefstu deild í handboltanum og sjötta sæti í fyrstu deild eða næstefstu í fótbolta. Meistaraflokkur kvenna í handbolta varð í sjöunda sæti í deildarkeppninni og tapaði fyrir Stjörnunni í átta liða úrslitum. 

Í byrjun árs 2001 gerðu knattspyrnudeildir Víkings og HK með sér samstarfssamning um rekstur meistaraflokks og annars flokks kvenna. Meistaraflokkur félaganna tók því þátt í Íslandsmótinu í fyrsta skipti í langan tíma og varð HK/Víkingur í fimmta og neðsta sæti A-riðils um sumarið.

Guðmundur Eggert Stephensen var valinn íþróttamaður Víkings árið 2001.

2002

Unnið var við stúkubyggingu og gátu áhorfendur í fyrsta skipti horft á leik úr stúkunni 27. maí er Víkingur vann Stjörnuna 2:1 í fyrstu deild karla. Í júlí léku landslið Íslands og Finnlands í Norðurlandamóti kvenna U17. Stúkan var ekki fullbúin en eigi að síður notuð.

Meistaraflokkur karla í handbolta hafnaði í fjórtánda og neðsta sæti í deildarkeppninni, en leikið var í einni deild. Meistaraflokkur kvenna í handknattleik hafnaði í fimmta sæti í deildarkeppninni og féll úr leik í fjögurra liða úrslitum gegn Haukum. Liðið varð hins vegar Reykjavíkurmeistari.

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hafnaði í fimmta sæti í fyrstu deild.

Meistaraflokkur HK/Víkings-kvenna hafnaði í fimmta sæti af sjö liðum í A-riðli. Lára Hafliðadóttir var útnefnd knattspyrnumaður Víkings 2002.

 

Ekki tókst að blása lífi í blakdeild og badmintondeild á árinu, þrátt fyrir viðleitni í þá átt. 

Guðmundur Eggert Stephensen var valinn íþróttamaður Víkings.

2003

Víkingur var með hörkulið í fótboltanum þetta sumar og vann sér sæti í efstu deild með því að ná öðru sæti í fyrstu deild undir stjórn Sigurðar Jónssonar, sem þjálfaði meistaraflokk karla tímabilin 2003–05. Miðverðir voru Grétar Sigfinnur Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen, en landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason lék á miðjunni, eins og hann gerði framan af ferlinum. 

Kári var í skemmtilegu viðtali við Kolbein Tuma Daðason í Fréttablaðinu og Vísi í september 2015 og þar segir meðal annars: „Svo tekur Siggi Jóns við þessu og það var rosalega gaman,“ segir Kári. Sigurð Jónsson þekkja flestir sparkspekingar. Skagamaður í húð og hár sem lék með bæði Sheffield Wednesday og Arsenal í atvinnumennsku … „Hann var góður þjálfari og æfingarnar voru skemmtilegar. Ég leit upp til hans enda var hann frábær í fótbolta og skemmtilegur náungi,“ segir Kári um Sigurð … 

Kári rifjar upp samtal við Sigurð sem breytti miklu: „Þú ert svona tuttugu landsleikja maður,“ voru orð Sigurðar til Kára og greinilegt að orðin höfðu mikil áhrif á Kára. Þegar hann sá að hann átti fullt erindi í keppni við betri leikmenn óx keppnisskapið sem hafði jú verið til staðar að einhverju leyti en ekki nógu mikið. Í framhaldinu bauðst samningur hjá Djurgården í Svíþjóð,“ segir í greininni. Hjá Djurgården urðu Kári og Sölvi Geir sænskir meistarar 2005 áður en leið þeirra lá um víða veröld. Kári hefur leikið 58 landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk, en landsleikir Sölva Geirs eru 28 (í febrúar 2017). 

Að loknu keppnitímabilinu 2003 var Þorri Ólafsson valinn besti leikmaður meistaraflokks karla af stuðningsmönnum Víkings. Stjórn knattspyrnudeildar valdi Þorra og Sölva Geir bestu leikmennina. Daníel Hjaltason var valinn besti leikmaðurinn af leikmönnum meistaraflokks og síðar á árinu var hann valinn íþróttamaður Víkings 2003.

Borgin svaraði jákvætt erindi Víkings um byggingu áhorfendastúku við knattspyrnuvöllinn, en kostnaðaráætlun Víkings var upp á 38 milljónir. 30 milljóna framlag borgarinnar átti að greiðast á þremur árum, auk fimm milljóna til útlagðra viðhaldsverkefna frá liðnum árum. Skuldastaða stóru deildanna var erfið og barst vandinn aðalstjórn með vaxandi þunga. Orsakir skuldasöfnunar voru m.a. halli á rekstri meistaraflokka í handbolta og fótbolta, afborganir eldri skulda og minnkandi markaðsáhugi fyrir íþróttum, sagði í skýrslu á aðalfundi. Samkvæmt lagabreytingum sem tóku gildi 1. janúar 2003 skyldi allt bókhald fært á skrifstofu félagsins og var deildum skylt að skila áætlunum og fá samþykki aðalstjórnar. 

Í upphafi keppnistímabilsins 2003 skrifaði Gísli Sváfnisson, formaður knattspyrnudeildar Víkings: „Samstarfið við HK um elstu flokkana í kvennaknattspyrnunni hefur einnig tekist vel og það er einfaldlega skylda allra hverfafélaga að gefa stúlkum kost á því að stunda íþróttina jafnt á við stráka.“ Meistaraflokkur kvenna, HK/Víkingur, lenti þetta sumar í fjórða sæti fyrstu deildar í fótboltanum.

Meistaraflokkur kvenna í handbolta hafnaði í fimmta sæti í deildarkeppninni og féll út í fjögurra liða úrslitum, á móti Haukum. Vonast var til að meistaraflokkur karla næði flugi á ný með ráðningu Gunnars Magnússonar sem þjálfara og endurkomu Bjarka Sigurðssonar og Reynis Þórs Reynissonar. 

Á aðalfundi félagsins sagðist Jón Möller byggingaverkfræðingur hafa áhyggjur af rekstri fasteigna félagsins. Hann lagði fram tillögu um að kannað yrði hvort mögulegt væri að selja eignirnar til aðila sem tæki að sér að byggja æfingahús fyrir knattspyrnu á eða við lóð Víkings ásamt því að reka fasteignir og leigja aftur til félagsins. Talsverðar umræður urðu um tillöguna, en tvo þriðju atkvæða þarf til að heimila sölu eigna félagsins. 

Daníel Hjaltason var valinn íþróttamaður Víkings.

2004

Árið 2004 féll Víkingur naumlega úr efstu deild karla í fótbolta. Síðasti leikur mótsins var gegn Grindvíkingum í Grindavík og segir í leiklýsingu að hávaðarok hafi verið meðan á leiknum stóð eða 14 metrar á sekúndu. Víkingar þurftu sigur í leiknum og útlitið var gott í hálfleik þegar staðan var 3:1 okkar mönnum í vil. Grindvíkingar skoruðu hins vegar tvö mörk í seinni hálfleik og tókst að jafna með marki aðeins þremur mínútum fyrir leikslok. 

Grétar Sigfinnur Sigurðsson varð efstur í einkunnagjöf Morgunblaðsins og af því tilefni birti blaðið viðtal við varnarjaxlinn, þar sem segir meðal annars: „Grétar átti jafna og góða leiki í vörn Víkinga, auk þess sem hann brá sér í framlínuna þegar með þurfti og endaði sem markahæsti leikmaður liðsins – skoraði 6 mörk í deildinni, eða tæpan þriðjung af mörkum nýliðanna í sumar … 

Hann lék í fyrsta skipti í efstu deild í sumar og sagði að það hefði verið gífurleg reynsla fyrir sig. „Þetta var geysilega gaman og ég er sáttur við sumarið hjá mér, nema að sjálfsögðu að við skyldum falla úr deildinni. Það dregur alltaf úr, það er erfitt að vera ánægður þegar liðið fer niður um deild. Síðustu þrjár mínúturnar í Grindavík voru grátlegar – að upplifa það að við værum að falla úr deildinni. Það fyrsta sem ég gerði þegar flautað var af var að líta upp í stúkuna, ég horfði framan í andlit stuðningsmanna okkar, og svo á Sigurð þjálfara. Mér fannst ég hafa brugðist þeim og honum …“ 

Grétar þakkar Sigurði Jónssyni, þjálfara Víkings, velgengni sína í sumar. „Siggi fann mig og gerði mig að leikmanni. Hann setti mikið traust á mig og eftir það fannst mér ég geta allt … Þetta var mjög eftirminnilegt tímabil sem ég hef lært mikið af.““

Í handboltanum urðu konurnar í sjöunda sæti í deildarkeppninni og töpuðu síðan fyrir Val í átta liða úrslitum. Karlarnir urðu í þriðja sæti í næstefstu deild. 

HK/Víkingur varð í öðru sæti A-riðils fyrstu deildar kvenna í knattspyrnu.

Áhorfendastúka með sætum fyrir 1168 áhofendur var formlega tekin í notkun í maímánuði. Þrátt fyrir rigningarsudda og óhagstæð úrslit í leiknum ríkti mikil gleði meðal Víkinga með þennan áfanga,“ sagði í frétt Morgunblaðsins. Þór Símon Ragnarsson, formaður Víkings, sagði í fréttinni að mikið sjálfboðastarf hefði verið unnið við að koma stúkunni upp og margir harðir aðdáendur félagsins hefðu unnið óeigingjarnt starf við að festa sætin og laga ýmislegt í umhverfi vallarins. 

Þór Símon áætlaði kostnað við stúkuna um 65 milljónir króna og hann hefði orðið talsvert meiri ef sjálfboðaliða hefði ekki notið við. Auk styrks frá borginni afhenti KSÍ styrk frá UEFA og velunnarar félagsins voru því hliðhollir við framkvæmdina. Agnar Ludvigsson styrkti félagið myndarlega við byggingu stúkunnar, en hann rak lengi fyrirtæki sem framleiddi Royal-vörurnar, þar á meðal Royal-búðinga og Royal-lyftiduft. Er knattspyrnudeild seldi ársmiða í betri sæti í stúkunni var því vel við hæfi að kalla þau Royal-sæti.

Aðalstjórn leitaði til Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar um möguleika á opnun ökuleiðar til suðurs úr Stjörnugróf í tengslum við kappleiki í Víkinni, þar sem oft yrðu miklar umferðartafir á leiðinni úr Stjörnugróf upp á Bústaðaveg. Að mati Víkings var þarna um öryggismál að ræða, jafnframt því að umferðartafir hefðu áhrif á aðsókn á leiki. Lyktir málsins urðu þær að Kópavogur samþykkti erindið, en borgin hafnaði því.

Á fundi aðalstjórnar 18. nóvember 2004 greindi Þór Símon formaður frá því að félagið hefði fengið fullan rétt til veðsetninga allra eigna í Víkinni með staðfestingu deiliskipulags og á grundvelli þess hefði síðan verið þinglýst lóðaleigusamningi árið 2001. Féll þar með niður sú kvöð að sækja yrði um veðheimildir til Reykjavíkurborgar. Víkingur virtist þar með hafa fulla heimild til ráðstöfunar á eignunum utan þeirrar kvaðar að þær gengju til Reykjavíkurborgar yrði félagið lagt niður. 

5. mars 2004 var haldinn stofnfundur Berserkja, stuðningsmannaklúbbs knattspyrnudeildar Víkings. Hópurinn hafði starfað óformlega frá 2001 og m.a. starfrækt öfluga heimasíðu undir forystu Guðjóns Guðmundssonar og Heimis Gunnlaugssonar, sem síðar varð formaður meistaraflokksráðs í fjölda ára. Starfið var kraftmikið um tíma en það hefur gengið misjafnlega að ná því á strik aftur. Á góðum degi eru Berserkir engum líkir!

Bjarki Sigurðsson var valinn íþróttamaður Víkings.

2005

Til athugunar var hjá Reykjavíkurborg árið 2004 að bæta Víkingi mismun á áætluðu 80% framlagi og raunframlagi borgarinnar til byggingar íþróttahússins og félagsheimilisins frá árinu 1991. Framlag borgarinnar reyndist hafa verið 69% og framreiknaður mismunur á þeim 11% sem út af stóðu nam í árslok 2005 um 55,4 milljónum króna. Samkomulag varð um að borgin greiddi Víkingi 64,8 milljónir sem skiptust í framlag vegna byggingarkostnaðar félagsheimilis og íþróttahúss 55,4 milljónir, framlag til stúkubyggingar var 6,4 milljónir og greiðsla upp í viðhald mannvirkja var þrjár milljónir. Samkomulag þetta var innifalið í þjónustusamningi Víkings og borgarinnar. 

Samkvæmt samningnum ætlaði borgin að greiða Víkingi 10 milljónir árið 2006, 21 milljón 2007 og 33,8 milljónir 2008. Gengið var til samninga við SPRON um kaup á greiðslusamningi borgarinnar og greiddi SPRON 59,6 milljónir fyrir samninginn. Frá því að samkomulagið kom til umræðu og álita gerði aðalstjórn ráð fyrir að stór hluti þessa fjár færi til þess að greiða upp margra ára skuldabagga knattspyrnu- og handboltadeilda og voru meginskuldir deildanna greiddar í lok árs 2005. Með greiðslu eldri skulda var þungu fargi létt af mörgum og gátu deildir nú einbeitt sér að rekstri. 

Í ársskýrslu formanns, Þórs Símonar, sagði meðal annars: „Skuldasöfnun deilda undanfarin ár stafar fyrst og fremst af leikmannakostnaði í meistaraflokkum. Fjárhagslegur skaði félagsins vegna þessara skulda er sárgrætilegur, en rökstyðja má að félagslegi skaðinn sé enn meiri sem m.a. lýsir sér í því að fjöldi Víkinga forðast að taka þátt í störfum félagsins af þessum sökum. Það verður höfuðverkefni næstu missera að halda þannig á málum að félagið lendi ekki í slíkum kröggum, sem yrði þá þriðja skipti ef til kæmi.“ Þetta uppgjör við borgina styrkti mjög fjárhagsstöðu aðalstjórnar og flestar deildir urðu skuldlausar eða skuldlitlar.

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu, undir stjórn Sigurðar Jónssonar, varð í öðru sæti í fyrstu deild og vann sér þar með sæti í efstu deild á nokkuð sannfærandi hátt. Liðið fékk aðeins á sig 9 mörk í 18 leikjum, en skoraði 41. Markaskorun Víkinga dreifðist mjög þetta sumar; þeir Daníel Hjaltason, Davíð Þór Rúnarsson og Jón Guðbrandsson skoruðu allir sex mörk, en markahæsti maður deildarinnar skoraði 11. Fótbolti.net gekkst fyrir vali á liði ársins og í því var að finna Víkingana Höskuld Eiríksson, Milos Glogovac og Daníel Hjaltason. Á varamennabekknum voru m.a. Víkingarnir Ingvar Þór Kale og Davíð Þór Rúnarsson.

Í handboltanum urðu meistaraflokkar karla og kvenna í sjöunda sæti. Tímabilið var það síðasta sem Bjarki Sigurðsson lék með Víkingi. Hann kom fyrst inn í meistaraflokk Víkings 1985 og varð Íslandsmeistari með félaginu. Bjarki lék 228 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 575 mörk. Hann var m.a. valinn í stjörnulið heimsmeistaramótsins í handbolta 1993. 

Guðmundur Eggert Stephensen var valinn íþróttamaður Víkings.

2006

Reykjavíkurborg samþykkti í september 2005 gerð gervigrasvallar á félagssvæðinu, en það hafði verið keppikefli félagsins í mörg ár. Ráðgert var að völlurinn yrði við Traðarland, þar sem malarvöllurinn var, en hann nýttist einnig fyrir bílastæði á kappleikjum. Fjölmargar athugasemdir bárust hins vegar frá íbúum í nágrenninu og svo fór að þessari staðsetningu vallarins var hafnað, meðal annars vegna skorts á bílastæðum samfara því að malarvöllurinn yrði lagður niður og vegna hávaða og umferðar. Minni áhyggjur virtust hins vegar vera af flóðlýsingu vallarins en búist hafði verið við. 

Gerð var ný tillaga um staðsetningu vallarins á syðsta hluta svæðisins. Sú kvöð var sett á framkvæmdina að lokinni grenndarkynningu að Reykjavíkurborg skyldi fjölga bílastæðum við Víkina. Það var síðan í júní 2012 að 60 ný bílastæði voru tekin í notkun. Segja má að með átaki borgarinnar í uppbyggingu gervigrasvalla á fyrstu árum aldarinnar hafi verið gefið út dánarvottorð fyrir malarvelli, sem voru í aðalhlutverki á íþróttasvæðum félaga ekki svo mörgum árum áður. 

Íþróttafélögin í Reykjavík gerðu á árinu nýjan þjónustusamning við borgina eftir nokkurra ára viðræður og var Örn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Víkings, í framlínunni við gerð samningsins. Með honum var eytt óvissu í samskiptum, t.d. um fjármögnun tiltekinna verkefna, og þannig var ráðning íþróttafulltrúa tryggð í þrjú ár, og eins var í samningnum kveðið á um ákveðinn styrk til reksturs skrifstofu félagsins. 

Ekki tókst að mynda stjórn í handknattleiksdeild og í fyrsta skipti í áratugi sendi Víkingur ekki lið til keppni í meistaraflokki kvenna. Víkingur lék í fyrstu deild karla í handknattleik undir merkjum Víkings/Fjölnis, eins og gert hafði verið frá haustinu 2005. Á 21. öldinni hafa margar tilraunir verið gerðar til að blása lífi í handboltastarfið í Víkingi að nýju. Þrátt fyrir öfluga yngri flokka flest árin hefur það ekki tekist og oft hefur handknattleikur í félaginu verið á forræði aðalstjórnar.

Víkingur varð í sjöunda sæti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu og konurnar í HK/Víkingi í fimmta sæti A-riðils fyrstu deildar. Frammistaða karlanna þetta sumar var nokkuð sérstök undir stjórn Magnúsar Gylfasonar, sem þjálfaði Víking 2006-07. Víkingar náðu þetta sumar í þriðju tilraun sinni á átta árum að halda sæti sínu í deild þeirra bestu í meira en eitt ár. 

Að lokinni fyrri umferðinni var liðið í öðru sæti, en er leið á mótið dapraðist okkar mönnum flugið. Liðið vann aðeins einn af leikjunum níu í seinni umferðinni, burstaði ÍBV 5:0 í Eyjum. Sterkur varnarleikur var aðalsmerki liðsins, sem aðeins þrívegis fékk á sig meira en eitt mark í leik. Liðið sýndi þó oft lipra takta þar sem Viktor Bjarki Arnarson var fremstur í flokki og þótti hafa kryddað Landsbankadeildina sumarið 2006 með góðri frammistöðu. Hann var valinn íþróttamaður Víkings þetta ár, leikmaður ársins á lokahófi Knattspyrnusambands Íslands og besti leikmaður Íslandsmótsins samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins. 

Róbert Agnarsson, sem þá var formaður knattspyrnudeildar, lét hugann reika í tímariti deildarinnar sumarið 2006: „Knattspyrnufélagið Víkingur nálgast nú aldarafmæli sitt. Hugsið ykkur að í næstum 100 ár hafa verið til rauð/svartröndóttir Víkingar. Það væri gaman að hafa tölu á þeim, eiga mynd af öllum þeim aragrúa sem hafa komið að félaginu á einn eða annan hátt. Alist upp í félaginu, leikið með félaginu og unnið fyrir félagið … Þessi langa saga félagsins segir okkur að Knattspyrnufélagið Víkingur hefur alla burði til þess að lifa góðu lífi inn í langa framtíð …“

2007

HK/Víkingur tryggði sér sæti í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu og fór liðið taplaust í gegnum Íslandsmótið. Lið HK/Víkings tapaði ekki leik í riðlakeppninni, vann síðan Hött tvívegis í úrslitakeppninni og loks Aftureldingu í hreinum úrslitaleik um efsta sætið. Það var kampakát Ellen Bjarnadóttir, fyrirliði HK/Víkings, sem tók við sigurlaununum í mótslok, en Karen Sturludóttir HK/Víkingi varð markahæst í fyrstu deildinni með 26 mörk. HK/Víkingur varð þar með nýtt lið til að leika í efstu deild, en Víkingur hafði leikið þar á árunum 1981–84. Í ársskýrslu fyrir árið 2007 sagði Þór Símon Ragnarsson formaður að sigurinn væri „árangur mikillar þolinmæði og elju þeirra sem borið hafa uppi samstarf HK/Víkings og staðið að uppbyggingu kvennaknattspyrnunnar undanfarin ár.“

Sömu sögu er ekki að segja af árangri meistaraflokks karla þetta árið því Víkingur varð í neðsta sæti efstu deildar í knattspyrnu og féll eitt liða, en þrjú lið fóru upp um deild því fjölgað var í úrvalsdeild úr 10 liðum í 12. Í bókinni Íslensk knattspyrna 2007 segir svo um Víkingsliðið: 

„Víkingur virtist framan af hafa burði til að sigla lygnan sjó og liðið gerði það lengi vel. En upp úr miðju sumri fór að halla undan fæti, liðinu gekk illa að skora og þó það ætti yfirleitt mikið í sínum leikjum og væri oft sterkari aðilinn úti á vellinum, skilaði það litlu. Stærsti veikleiki Víkings var að verjast föstum leikatriðum og hann nýttu andstæðingarnir sér óspart. Aðeins tvö stig og þrjú mörk í síðustu sjö leikjunum var of rýr uppskera og fall í 1. deild staðreynd.“

Meistaraflokkur karla í handknattleik lék í fyrstu deild undir merkjum Víkings/Fjölnis í síðasta skipti og unnið var að endurreisn kvennahandboltans.

16. janúar 2007 var Knattspyrnufélagið Berserkir stofnað og er náið samstarf með Víkingi og Berserkjum.

Öflugt starf var í Tennisdeild þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Fram kemur í ársskýrslu aðalstjórnar að í athugun sé hjá borginni bygging sameiginlegs húss tennisfélaga við hlið TBR í Laugardal.

Borðtennisdeildin bar ægishjálm yfir aðrar borðtennisdeildir eins og svo oft áður og vann stærstan hluta þeirra verðlauna sem í boði voru. Þar fór fremstur í flokki Guðmundur Stephensen sem eins og svo oft fyrr og síðar var valinn íþróttamaður Víkings 2007.

2008

Víkingur 100 ára. Aldarafmæli Knattspyrnufélagsins Víkings 21. apríl 2008. Haldin var þriggja daga hátíð 1.–3 maí með afmælisveislu og fjölskyldudagskrá í íþróttasalnum í Víkinni og á félagssvæði Víkings. Um 500 Víkingar tóku síðan þátt í hátíðarkvöldverði á Hótel Hilton. Góðar gjafir bárust félaginu á þessum tímamótum og margir Víkingar voru heiðraðir fyrir vel unnin störf. Afmælisnefnd var starfandi og skipuðu hana Ingvar Sverrisson, Hjördís Guðmundsdóttir og Stefán Pálsson. Sögusýning var sett upp í kjallara félagsheimilisins og voru Ólafur Þorsteinsson, Bjarki Eiríksson og Sigurður Georgsson í sögusýningarnefnd, en með þeim starfaði Anna Hinriksdóttir sagnfræðingur að útliti og uppsetningu sýningarinnar. 

Sögusýningarnefnd gaf út blað þar sem stiklað var á stóru í sögu félagsins í máli og myndum. Þar sagði Ólafur Þorsteinsson meðal annars: „Með sýningunni er leitast við að koma upp fyrsta vísi að varanlegu safni sem varðveita mun merka sögu og muni Knattspyrnufélagsins Víkings í 100 ár. Þetta er falleg saga, örlagasaga félags fólks á öllum aldri, sem stofnað var í miðbæ Reykjavíkur árið 1908, en einnig veigamikill þáttur í byggðasögu nýs hverfis í austurbæ Reykjavíkur, sem tók að byggjast hratt upp um miðja síðustu öld. Saga Knattspyrnufélagsins Víkings er því um leið saga Reykjavíkur og hana ber að varðveita og sýna tilhlýðilega virðingu um ókomna tíð.“

Á aðalfundi Víkings 9. júní 2008 var Guðmundur H. Pétursson kosinn formaður félagsins og tók hann við formennsku af Þór Símon Ragnarssyni, sem hafði verið formaður aðalstjórnar frá haustinu 1996. Jafnframt lét Örn Ingólfsson af störfum sem framkvæmdastjóri, en hann hóf störf hjá félaginu 1998. Þórarinn E. Sveinsson tók við af Erni vorið 2008 og starfaði fram í miðjan nóvember er Eiríkur Benónýsson tók við störfum framkvæmdastjóra. Hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri Víkings 1. maí 2010 og við tók Haraldur V. Haraldsson. Ný heimasíða Víkings fór í loftið í nóvember 2008, en hitann og þungann af verkefnavinnunni bar Atli Rúnar Halldórsson. 

Samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur 10. júlí 2008 að gefa Víkingi fyrirheit um stækkun athafnasvæðis félagsins eftir að leigusamningur borgarinnar við gróðrarstöðina Mörk rynni út árið 2016. Stærð lóðarinnar er um tveir hektarar en athafnasvæði Víkings rúmlega 5 hektarar. 

Í skýrslu formanns á aðalfundi 2009 segir að fjármál félagsins rekstrarárið 2008 hafi verið erfiðari en mörg ár á undan og miklar efnahagsþrengingar í íslensku samfélagi hafi tekið sinn toll. Rekstur aðalstjórnar og deilda hafi verið mun erfiðari en í hefðbundnu árferði og hafi verið gripið til aðgerða vegna þessa. Mikilvægt sé að sýna aðhald í rekstri á öllum sviðum.

Meistaraflokkur karla í handknattleik vann sér rétt til að leika í úrvalsdeild 2008–2009 er gömlu stórveldin FH og Víkingur urðu í tveimur efstu sætum fyrstu deildar. Þá var langt síðan Víkingur hafði átt lið í efstu deild. 

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hafði það að markmiði að fara upp í úrvalsdeild, en það náðist ekki og endaði flokkurinn í fimmta sæti. Meistaraflokkur kvenna lék í fyrsta skipti í úrvalsdeild, sem á þessum árum hét Landsbankadeild, en tókst ekki að halda sæti sínu. 

Guðmundur Eggert Stephensen var valinn íþróttamaður Víkings.

2009

Tímamót urðu í starfi Víkings þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri vígði gervigrasvöll í Víkinni 21. ágúst 2009 að viðstöddum fjölmörgum gestum. Þessi upphitaði og flóðlýsti völlur í suðvesturhorni Víkingssvæðisins gerði Víkingum og öðrum iðkendum loksins kleift að æfa á Víkingssvæðinu sumar jafnt sem vetur, en Víkingur var síðasta félagið í Reykjavík til að fá eigin gervigrasvöll. Gervigrasið þótti mjög fullkomið, svokölluð þriðja kynslóð gervigrass, og var svæðið 111 x 73 m að stærð í heildina, en völlurinn sjálfur 105 x 68 m. Vegna tilkomu gervigrasvallarins var búningsklefum fjölgað í vallarhúsinu og gerðar breytingar á skrifstofuaðstöðu í Víkinni.

Eftir að efasemdir höfðu komið fram um hversu heilsusamlegt gervigrasið væri og að það gæti jafnvel innihaldið krabbameinsvaldandi efni ákvað Reykjavíkurborg að endurnýja gervigrasvelli og var ráðist í þær framkvæmdir á Víkingsvellinum 2016. Stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra hafði látið málið til sín taka og farið fram á það við sveitarfélög landsins að gervigrasvellir sem þaktir væru gúmmíkurli úr dekkjum yrðu endurnýjaðir. 

Fyrsta skóflustunga að nýjum skíðaskála Víkings í Bláfjöllum var tekin 12. apríl 2008 og var skálinn vígður 9. maí 2009. Skíðadeildir Víkings og ÍR samnýta skálann, en félögin áttu sitt hvorn skíðaskálann í Sleggjubeinsskarði og Hamragili á Hengilssvæðinu. Reykjavíkurborg boðaði árið 2001 að skíðasvæðið í Henglinum yrði lagt niður og þurftu félögin að flytja þaðan 2006. Skíðadeildin hafði barist við snjóleysi í Henglinum ár eftir ár, en samt haldið uppi öflugu starfi. Í skýrslu aðalstjórnar fyrir 2005 kemur fram að helsta ástæða flutningsins sé hagræðing í rekstri skíðasvæða í nágrenni borgarinnar, en jafnframt að rekstur skíðasvæða í Henglinum sé ekki æskilegur við hliðina á stórvirkjun Orkuveitunnar.

Þessar breytingar mörkuðu talsverð tímamót í starfi skíðadeildar Víkings, en hópurinn á bak við hana er einn af hornsteinum félagsins. Samningur var gerður við Reykjavíkurborg um uppbyggingu í Bláfjöllum og keypti borgin eignir félaganna á Hengilssvæðinu. Þar með lauk sögu sem spannaði meira en 60 ár, en Víkingar vígðu fyrsta skíðaskála félagsins í Sleggjubeinsskarði í október 1944 og átti skíðadeildin þá skálann skuldlausan. Sá skáli brann á páskum 1964 og voru þá um 50 manns staddir þar og þótti mesta mildi að ekki urðu slys á fólki. Nýr skáli var reistur í Sleggjubeinsskarði og var hann formlega tekinn í notkun í lok febrúar 1976. 

Meistaraflokkar Víkings í knattspyrnu og handknattleik hafa oft átt betri ár. Í fótboltanum varð meistaraflokkur karla í tíunda sæti af tólf liðum, reyndar 10 stigum frá fallsæti. Þessi árangur var langt undir væntingum. Stúlkurnar í HK/Víkingi urðu í fimmta sæti í fyrstu deild. Í handknattleik féll meistaraflokkur karla úr efstu deild vorið 2009 og fyrir meistaraflokk kvenna í handknattleik reyndist efsta deildin of stór biti. Liðið endaði í neðsta sæti í deildinni og féll aftur niður. 

Aðalstjórn ákvað í samvinnu við deildir félagsins að hefja stefnumótun til næstu ára þar sem mörkuð yrði framtíðarstefna með skýr markmið. 

Karatekappinn Diego Björn Valencia var valinn íþróttamaður Víkings 2009, en hann varð meðal annars tvöfaldur Íslandsmeistari í kumite karla þar sem hann sigraði bæði í flokki +84 kg og í opnum flokki.

Vel heppnað kvennakvöld var haldið í Víkinni í mars og rann ágóðinn af kvöldinu í nýstofnaðan afrekssjóð kvenna í Víkingi.

Á sumardaginn fyrsta var 100 ára afmælisári lokað er sprækir Víkingar og velunnarar hlupu frá horni Túngötu og Garðastrætis í Víkina, en á þessum slóðum í miðbænum var Víkingur stofnaður 21. apríl 1908.

2010

Hápunktur íþróttaársins 2010 í Víkinni var öruggur sigur Víkings í fyrstu deild karla í knattspyrnu og sæti í úrvalsdeild. Þjálfari liðsins var Leifur Garðarsson. Menn þóttust sjá á liðinu að öflugt unglingastarf væri að skila sér, en það var þó reynsluboltinn og fyrirliði liðsins, Helgi Sigurðsson, sem dró vagninn og var valinn íþróttamaður Víkings árið 2010. Hann leiddi meistaraflokkinn til sigurs í fyrstu deild með sínum mikla metnaði, reynslu og seiglu. „Það eru ekki margir leikmenn á hans styrkleikabili sem koma aftur heim til uppeldisfélags síns í 1. deild í þeim eina tilgangi að aðstoða það við að ná þeim stalli, sem félaginu ber að vera á,“ segir í skýrslu formanns fyrir starfsárið.

Í bókinni Íslensk knattspyrna 2010 segir m.a.: „Víkingar léku sitt þriðja ár í deildinni og lögðu allt kapp á að koma liðinu á ný í hóp þeirra bestu eftir vonbrigðasumar 2009. Helgi Sigurðsson sneri aftur í Víkina eftir 17 ára fjarveru og með hann sem leiðtoga innan vallar voru þeir röndóttu líklegir allt sumarið. Þeir voru síðan sterkastir á endasprettinum, ósigraðir í síðustu átta leikjunum og náðu sínu takmarki. Víkingar byggja á góðum grunni og eru með fína aðstöðu …“

Stofnfundur almenningsíþróttadeildar Víkings var haldinn 14. október 2010, en skokkhópur hafði þá verið starfandi út frá Víkinni um árabil.

Víkingur varð í fjórða sæti í fyrstu eða næstefstu deild karla í handbolta og konurnar í neðsta sæti í efstu deild kvenna í handbolta. 

Loka efnisyfirliti