2011 - 2017

Úr yngri flokkunum í Evrópuúrslit

Víkingar komust í Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu árið 2015 með því að ná fjórða sæti í efstu deild árið á undan. Víkingur átti sína fulltrúa í úrslitum Evrópukeppninnar í fótbolta í Frakklandi 2016, en „gömlu“ Víkingarnir Kári Árnason og Kolbeinn Sigþórsson voru fastamenn í landsliðinu og Sölvi Geir Ottesen tók þátt í leikjum í undankeppninni. Starfið í yngri flokkunum blómstrar og meistaratitlar vinnast yfirleitt á hverju ári. Keppendur Víkings í borðtennis eru í fremstu röð og hið sama má segja um karatefólk. 

Kári Árnason og Kolbeinn Sigþórsson voru fulltrúar Víkings í landsliði Íslands í Evrópukeppninni í Frakklandi árið 2016.

2011

Fulltrúaráð Víkings afhenti félaginu stuðlabergsstand með skildi til minningar um frumkvöðla félagsins í miðbæ Reykjavíkur og stofnun félagsins. Hann stendur við aðalinnganginn á félagssvæðið í Víkinni, milli félagsheimilisins og stúkunnar. Jafnframt var gengið frá gróðurbeði í kringum standinn. Fulltrúaráð Víkings, sem einkum er skipað eldri Víkingum, hefur ævinlega staðið dyggilega við bakið á félaginu og komið að margvíslegum verkefnum, smáum sem stórum. 

Ekki vita allir að Knattspyrnufélagið Víkingur var stofnað af nokkrum peyjum í miðbæ Reykjavíkur árið 1908 og áður en félagið haslaði sér völl í Fossvoginum hafði leiðin legið á Grímsstaðaholtið í grennd við Suðurgötu, í Vatnsmýrina og síðan í Hæðargarðinn. Áður en skjöldurinn var settur upp á stuðlabergsstandinum í Víkinni hafði Reykjavíkurborg synjað fulltrúaráðinu um leyfi til að setja hann upp í miðborginni.

Margvísleg samskipti við Reykjavíkurborg voru sem endranær stór þáttur í verkefnum aðalstjórnar félagsins. Viðhald mannvirkja, Mörkin og stækkun Víkingssvæðisins og þjónustusamningur við borgina voru algeng stef á fundum aðalstjórnar. Í ársskýrslu sem lögð var fyrir aðalfund 12. júlí 2011, sagði Guðmundur H. Pétursson formaður meðal annars: 

„Það er eftir sem áður óásættanlegt að sértekjur félagsins renni til viðhalds mannvirkja og eiga skrif mín í skýrslu síðasta árs enn betur við nú en þá: „Starfsemi Víkings er órjúfanlegur þáttur í framboði Reykjavíkurborgar á íþróttaiðkun/tómstundum fyrir börn og unglinga í Reykjavík. Á þessum forsendum gerir Knattspyrnufélagið Víkingur þá kröfu að framlag Reykjavíkurborgar nægi fyrir almennum rekstrarkostnaði félagsins, en sértekjur félagsins notist til uppbyggingar á innra starfi og verkefnum sem almennt lúta að félagslegum gildum Víkings.““

Meistaraflokkur karla féll úr úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Víkingur byrjaði reyndar á því að vinna fyrsta leikinn, gegn Þór frá Akureyri í Víkinni, 2:0 og skoruðu Helgi Sigurðsson og Björgólfur Takefusa mörk Víkings. Eftir fimm umferðir af 22 hafði liðið unnið einn leik, tapað einum og gert þrjú jafntefli, þannig að allt gat gerst. Er leið á mótið seig hins vegar á ógæfuhliðina og frá því í 10. umferð til loka mótsins sat lið Víkings í fallsæti. 

Meistaraflokkar karla og kvenna léku í næstefstu deild í handbolta.

Skíðamaðurinn Brynjar Jökull Guðmundsson keppti á heimsmeistaramótinu í alpagreinum í Garmisch-Partenkirchen. Brynjar var kjörinn íþróttamaður Víkings árið 2011. 

2012

Víkingar og gestir félagsins á kappleikjum í Víkinni urðu harkalega fyrir barðinu á lögreglunni sumrin 2010 og 2011 og voru ökumenn óspart sektaðir fyrir að leggja bílum ólöglega. Lítið tillit var tekið til þess hversu fá bílastæði voru við Víkina, að hluta til vegna vanefnda borgarinnar um fjölgun bílastæða miðað við samkomulag frá árinu 2008. Víkingar ræddu við borgaryfirvöld og lögreglu um þessar sektaraðgerðir, sem höfðu í för með sér óþægindi, kostnað, tekjutap fyrir félagið og almenn leiðindi. Í júní 2012 breyttist staðan nokkuð er 60 ný bílastæði voru tekin í notkun austan við íþróttahúsið og bættu úr brýnni þörf.

Víkingur varð í sjötta sæti í fyrstu deild karla í knattspyrnu, en Ólafur Þórðarson var ráðinn þjálfari liðsins fyrir keppnistímabilið. Helgi Sigurðsson var spilandi aðstoðarþjálfari Ólafs þetta sumar, en ári síðar tók Milos Milojevic við sem aðstoðarþjálfari með Ólafi.

Í handboltanum lék meistaraflokkur karla í fyrstu deild og komst ekki í umspil. Meistaraflokkur kvenna var ekki starfræktur.

Meira flug var hins vegar í starfsemi karatedeildar og enginn flaug hærra en Kristján Helgi Carrasco, sem 2011 og 2012 var valinn karatemaður ársins af Karatesambandinu og vann Íslandsmeistaratitla bæði í flokkum fullorðinna og unglinga. Kristján Helgi var valinn íþróttamaður Víkings 2012. 

Þjónustusamningur Víkings við Reykjavíkurborg er á margan hátt akkerið í rekstri félagsins og tryggir launagreiðslur fastra starfsmanna á skrifstofu aðalstjórnar samkvæmt samningi. Frá efnahagshruni 2008 hafði samningurinn rýrnað, en í febrúar 2012 var hann uppfærður. Framlag til Víkings og annarra félaga í borginni hækkaði og þá var kveðið á um verðtryggingu samningsins frá 1.janúar. 2013. 

2013

Borðtennismaðurinn Guðmundur Stephensen vann sinn tuttugasta Íslandsmeistaratitil í röð í einliðaleik í borðtennis. Hann tilkynnti eftir sigurinn að hann ætlaði ekki að taka þátt í Íslandsmeistaramótinu árið eftir. Guðmundur byrjaði að spila borðtennis á unga aldri en 11 ára gamall vann hann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki karla. Guðmundur var óstöðvandi með félagi sínu, Víkingi, í fjölda ára og varð Norðurlandameistari. Auk þess lék hann um tíma erlendis og varð m.a. norskur og hollenskur meistari með félögum sínum. Hann var níu sinnum kosinn íþróttamaður Víkings. Í fjölda ára hafði borðtennisdeild Víkings borið ægishjálm yfir önnur félög. 

Árið 2013 var ævintýralegt í fyrstu deildinni í knattspyrnu, svo ekki sé meira sagt. Víkingur vann fjóra síðustu leiki sína og náði öðru sætinu á markatölu; þar gerði gæfumuninn 16:0 sigur á Völsungi í næstsíðustu umferðinni, en Húsvíkingar voru heillum horfnir í leiknum og misstu tvo menn út af í lok fyrri hálfleiks í stöðunni 7:0. Ógæfu Völsunga varð allt að vopni, mörkunum rigndi inn og fannst mörgum nóg um ósköpin. Þegar upp var staðið unnu Fjölnismenn deildina með 43 stig, en í næstu sætum urðu Víkingur, Haukar og Grindavík, öll félögin með 42 stig. Markatala Víkings var hins vegar hagstæð um 28 mörk, en Haukanna „aðeins“ um 14. Þar gerði sigurinn gegn Völsungi gæfumuninn.

Eftir lokaumferðina síðari hluta septembermánaðar skrifaði Tómas Þór Þórðarson m.a. eftirfarandi í Morgunblaðið: „Ótrúlegu spennusumri í 1. deild karla lauk á laugardaginn með ótrúlega spennandi lokaumferð. Þetta var endir sem sæmdi deildinni svo sannarlega en 1. deildin hefur verið eintóm skemmtun í sumar og aldrei hægt að ráða í hvaða lið voru á leið upp um deild fyrr en lokaflautið gall. Á endanum voru það Fjölnir og Víkingur Reykjavík sem unnu sér inn sæti á meðal þeirra bestu … 

Haukar, Grindavík og BÍ/Bolungarvík sátu eftir með sárt ennið þrátt fyrir sigra en þau áttu öll möguleika á að fara upp fyrir lokaumferðina. Völsungur og KF voru fallin fyrir lokaumferðina og spila í 2. deild á næsta ári. Þegar flautað var til hálfleiks í lokaumferðinni voru Grindavík og Haukar á leið í Pepsi-deildina. Fjölnir og Víkingur, sem stóðu best að vígi, voru bæði 1:0 undir en hin liðin að vinna. Bæði lið komu þó til baka … Pape Mamadou Faye reyndist hetja Víkinga en hann skoraði tvö skallamörk í seinni hálfleik gegn Þrótti og kom Fossvogsliðinu upp um deild.“

Ingvar Þór Kale, markvörður knattspyrnuliðsins, var valinn íþróttamaður Víkings árið 2013, en hann var einn af burðarásum liðsins. 

Lið HK/Víkings féll úr efstu deildinni í kvennafótboltanum eftir hetjulega baráttu, en liðið varð í níunda sæti af 10 liðum með lakari markatölu en Afturelding. 

Karlaliðið í handbolta féll úr leik eftir umspilsleiki við Stjörnuna um sæti í efstu deild. 

María Eva Eyjólfsdóttir náði athyglisverðum árangri meðal yngri skíðamanna landsins er hún varð þrefaldur Íslandsmeistari, bikarmeistari, tvöfaldur Andrésar Andar-meistari, þrefaldur Reykjavíkurmeistari og náði auk þess góðum árangri á Topiolino-mótinu á Ítalíu, sem er heimsmeistaramót barna og unglinga. 

Á laugardögum var vel mætti í getraunakaffi og fimmta árið í röð var Víkingur söluhæsta knattspyrnufélagið í getraunum. Þetta starf er hressandi og stundum „gefandi“ fyrir gamla og góða Víkinga og skapar félaginu drjúgar tekjur. Aðeins ÍFR selur fleiri getraunaseðla en Víkingur. 

Guðmundur H. Pétursson lét af formennsku í félaginu á aðalfundi 21. júní 2013 eftir fimm ára starf. Björn Einarsson var kosinn formaður.

2014

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu stimplaði sig rækilega inn í keppni þeirra bestu og endaði í fjórða sæti Pepsi-deildar. Árangurinn tryggði félaginu Evrópusæti í fyrsta skipti síðan 1992, en Víkingur varð Íslandsmeistari 1991. Margir leikmenn Víkings vöktu mikla athygli fyrir frammistöðu sína, en enginn eins mikla og Aron Elís Þrándarson, sem var seldur til Álasunds í Noregi í kjölfarið. Þá var fyrirliði liðsins, Igor Taskovic, valinn íþróttamaður Víkings, en hann hafði verið valinn í úrvalslið sumarsins af ýmsum miðlum. Ólafur Þórðarson var aðalþjálfari liðsins, en Milos Milojevic honum til aðstoðar.

Sem fyrr var borðtennisfólk Víkings í fremstu röð og varð félagið bæði Íslands- og bikarmeistari í liðakeppni. Víkingur varð Íslandsmeistari í handbolta í 5. flokki kvenna, eldri, og var þetta fjórða árið í röð sem sami árgangur varð Íslandsmeistari. Starf almenningsdeildar hélt áfram að styrkjast. 

Á aðalfundi Knattspyrnufélagsins Víkings 30. júní 2014 sagði Björn Einarsson formaður m.a. eftirfarandi í ársskýrslu um stefnu félagsins: „Knattspyrnufélagið Víkingur er á góðri siglingu þar sem innviðir félagsins eru afar þéttir og rekstur félagsins traustur … Það er afar mikilvægt að sýn okkar sé skýr. Knattspyrnufélagið Víkingur er afreksfélag í sinni skýrustu mynd … Samhliða þeim skýra fókus sinnum við samfélagsábyrgð okkar óaðfinnanlega gagnvart iðkendum okkar og foreldrum. Þá leggur félagið mikla áherslu á að sinna hverfinu okkar vel og vandlega.“

Fram kom á aðalfundi félagsins að Víkingur og Reykjavíkurborg ynnu sameiginlega að áætlun um aðgerðir þar sem dregist hefði ár eftir ár að Víkingur fengi afnot af um tveimur hekturum lands þar sem Gróðrarstöðin Mörk hefur aðstöðu og yrði svæði félagsins þá um sjö hektarar. Fyrirheit höfðu ítrekað verið gefin um að Víkingur fengi þetta svæði og var erindi frá Víkingi um þetta efni samþykkt í borgarráði árið 2008 er Víkingur fagnaði 100 ára afmæli sínu. Varla er ofmælt að hver einasta aðalstjórn frá því um 1990 hafi haft þetta mál á sinni könnu.

2015

Vorið 2015 var Víkingsliðið í handknattleik árið 1980 valið besta handboltalið Íslands, en 1980 urðu Víkingar Íslandsmeistarar í annað skipti í sögu félagsins. RÚV stóð fyrir valinu og var liðið valið af almenningi og hópi sérfræðinga. Víkingsliðið þetta ár hafði mikla yfirburði og sigraði með fullu húsi stiga og aldrei áður hafði lið unnið Íslandsmeistaratitil með svo miklum yfirburðum. 

Vorið 2015 vann meistaraflokkur karla í handbolta sér sæti í úrvalsdeild eftir hörkueinvígi við Fjölni. Goðsögnin Bogdan Kowalczyk, þjálfari sigursælla Víkingsliða á áttunda og níunda áratugnum, var heiðursgestur á fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni. Húsfyllir var á öllum leikjum, en það hafði ekki gerst í háa herrans tíð. 

Fram kom á aðalfundi Víkings að félagið myndi ekki fá landið þar sem Gróðrarstöðin Mörk hefur aðstöðu og Reykjavíkurborg hafði lofað félaginu. 

Sumarið 2015 varð Víkingsliðið í níunda sæti Pepsi-deildarinnar í fótbolta, en stóð sig ágætlega í Evrópukeppninni. Víkingur mætti FC Koper í undankeppni Evrópudeildarinnar. Heimaleikurinn, sem var fyrsti Evrópuleikurinn á grasvellinum í Víkinni, tapaðist 0:1, en liðin gerðu síðan jafntefli í Slóvakíu, 2:2. Leikmenn og þjálfarar Víkings voru óánægðir með að komast ekki áfram, eins og sjá má á eftirfarandi orðum Ólafs Þórðarsonar, annars af þjálfurum Víkings, í samtali við Víði Sigurðsson í Morgunblaðinu 10. júlí: 

„Strákarnir eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðuna. Ef þeir væru svona í hverjum leik í deildinni værum við í allt annarri stöðu þar. Við erum gríðarlega svekktir yfir því að hafa ekki komist áfram,“ sagði Ólafur Þórðarson … Koper komst tvisvar yfir en Arnþór Ingi Kristinsson jafnaði tvisvar fyrir Víking með fyrstu mörkum félagsins í Evrópukeppni í 23 ár.

„Þetta voru fín mörk hjá okkur en hins vegar svekkjandi að lenda tvisvar undir, í bæði skiptin eftir fast leikatriði. Seinna markið þeirra var reyndar algjör grís. Sjálfir fengum við þrjú dauðafæri í fyrri hálfleiknum og áttum því að skora fleiri mörk. Leikmenn Koper voru hreinlega búnir þegar leið á leikinn, eins og í leiknum heima, og það var mikil synd að nýta það ekki. Við sóttum af miklum krafti á lokakafla leiksins, og þetta var okkar langbesti leikur á tímabilinu, en því miður dugði það ekki til,“ sagði Ólafur.“

Ólafur lét af störfum sem þjálfari Víkings skömmu eftir að þátttökunni í Evrópukeppninni lauk. Milos Milojevic, sem hafði verið þjálfari samhliða Ólafi, tók nú einn við sem aðalþjálfari liðsins. 

Meistaraflokkur kvenna í HK/Víkingi vann sigur í A-riðli fyrstu deildar, en í úrslitakeppni tókst liðinu ekki að tryggja sér sæti í efstu deild. 

Karatedeild gekk í gegnum endurnýjun með uppstokkun í deildinni, eftir öflugt starf undanfarin ár.

Handboltamaðurinn Ægir Hrafn Jónsson var útnefndur íþróttamaður Víkings 2015. 

2016

Tveir uppaldir Víkingar voru áberandi í landsliðinu í knattspyrnu sem komst í átta liða úrslit á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi sumarið 2016, þeir Kári Árnason og Kolbeinn Sigþórsson. Báðir stóðu þeir sig frábærlega vel, eins og allt íslenska liðið, sem sigraði England í 16 liða úrslitum, en gerði jafntefli við Portúgal og Ungverjaland og vann Austurríki í riðlakeppni úrslitakeppninnar. Í hófi félagsins á gamlársdag var tilkynnt að aðalstjórn hefði ákveðið að sæma þá báða gullmerki Víkings og mætti Kári á æskuslóðirnar í Víkinni til að taka við sínu merki. Sölvi Geir Ottesen tók þátt í undankeppni Evrópumótsins með landsliðinu.

Víkingur sigldi nokkuð lygnan sjó um miðbik Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu sumarið 2016 og endaði í sjöunda sæti. Einn yngsti þjálfari deildarinnar, Milos Milojevic, stýrði strákunum þetta sumarið og gerði liðið aldrei raunverulega atlögu að toppnum en botninn var alltaf hæfilega langt frá okkar mönnum. Óttar Magnús Karlsson var af leikmönnum Pepsi-deildarinnar valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Hann og Aron Elís Þrándarson voru farnir að banka á landsliðsdyrnar, en þeir leika báðir í Noregi. 

Stelpurnar í HK/Víkingi voru í baráttunni um sæti í efstu deild í fótboltanum, en herslumun vantaði til að liðinu tækist að tryggja sér sæti á meðal þeirra bestu. Í handboltanum féllu strákarnir úr úrvalsdeild, en Víkingur hóf á ný þátttöku í meistaraflokki kvenna haustið 2016 eftir margra ára hlé.

Kannski verður ársins helst minnst fyrir frábæran árangur í yngri flokkum í fótbolta stráka og stelpna. Þar var efniviður á ferðinni sem gæti fleytt Víkingi langt á næstu árum. Víkingur varð Íslandsmeistari A-liða í 5. flokki stráka í þriðja skipti í sögunni eftir 44 ára bið, þjálfari var Björn bjargvættur Bjartmarz. Í annað skipti í sögunni varð Víkingur Íslandsmeistari A-liða í þriðja flokki pilta eftir 39 ára bið,  þjálfari var markahrókurinn Helgi Sigurðsson, og í fyrsta skipti í sögunni í 3. flokki stúlkna, þjálfarar voru Viggó Briem og Þórhallur Víkingsson.

Nýr gervigrasvöllur var tekinn í notkun í Víkinni um sumarið og er grasið á honum af nýjustu kynslóð. Gervigrasvöllurinn í Víkinni var upphaflega tekinn í notkun 21. ágúst 2009 og markaði þáttaskil í aðstöðu félagsins. Eftir að efasemdir höfðu komið fram um hversu heilsusamlegt gervigrasið væri ákvað Reykjavíkurborg að endurnýja gervigrasvelli. 

Víkingur féllst á að gefa borginni sveigjanleika árin 2017 og 2018 til að koma skipulagsmálum er varða Mörkina í framtíðarhorf þar sem bæði Reykjavíkurborg og Kópavogsbær eiga hlut að máli. Unnið var að samningi sem m.a. snýr að byggingu og fjármögnun þriðju hæðar ofan á Víkina og þá verður æfingasvæðið tekið upp vorið 2017. 

2017

Víkingur hefur nú leikið í efstu deild karla í fótbolta samfleytt í fjögur ár og á þeim tíma öðlast stöðugleika, sem vonandi verður hægt að byggja á til framtíðar. Milos Milojevic kom til starfa hjá félaginu sem aðstoðarþjálfari 2013, varð þjálfari við hlið Ólafs Þórðarsonar 2015 og aðalþjálfari liðsins frá miðju því ári. Leiðir skildu hins vegar eftir aðeins fimm umferðir í Íslandsmótinu 2017. Milos tók við sem þjálfari Breiðabliks en reynsluboltinn Logi Ólafsson var ráðinn  sem þjálfari Víkings, maðurinn sem hafði gert Víkinga að Íslandsmeisturum árið 1991. Honum til aðstoðar var ráðinn Bjarni Guðjónsson.

Víkingur varð í áttunda sæti Íslandsmótsins í fótbolta og eins og árið á undan gerði liðið aldrei alvöru tilkall til efstu sætanna, né var það í alvarlegri fallbaráttu. Liðið sýndi þó marga góða leiki, ekki síst á móti liðunum sem voru í topppbaráttunni.  

Stúlkurnar í HK/Víkingi báru sigur úr býtum í 1. deild kvenna og leika á meðal þeirra bestu á næsta ári. Liðið tók á móti Selfossi í Kórnum í Kópavogi í síðustu umferðinni, en fyrir leikinn voru liðin jöfn á toppnum með 36 stig en Selfoss var ofar á stigatöflunni á markamun. Aðeins þremur stigum á eftir var lið Þróttar sem átti enn von um að komast upp í efstu deild.

Mætingin á leikinn var afar góð og áhorfendur létu vel í sér heyra. Leikurinn var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu. Það var síðan á 27. mínútu sem Milena Pesic kom HK/Víkingi yfir með góðu marki úr markteignum. Milena var um sumarið lykilkona innan sem utan vallar og liðinu ómetanlegur styrkur, sagði á heimasíðu Víkings. Baráttan hélt áfram í síðari hálfeik og bæði lið fengu góð færi til að skora, en án árangurs. Norðan heiða sigraði Þróttur lið Hamranna 1-0 en það breytti engu, HK/Víkingur og Selfoss fóru upp úr 1. deild. 

Að leik loknum tók Björk Björnsdóttir, markmaður og fyrirliði HK/Víkings, við deildarbikarnum. Ekki einasta fór Björk Björnsdóttir markvörður HK/Víkings fyrir sínu liði þegar það landaði deildarmeistaratitilinum heldur gekk hún um leið til liðs við 100 leikjaklúbbinn sem leikmenn sem leikið hafa meira en 100 leiki með meistaraflokki kvenna í HK/Víkingi skipa

Þetta er í fyrsta skipti sem liðið vinnur 1. deild en árið 2012 tapaði liðið fyrir Þrótti í úrslitaleik í deildinni. Árið 2013 spilaði liðið í Pepsi-deildinni en féll úr deildinni á markatölu. Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfaði liðið, en lét af störfum í lok keppnistímabilsins af persónulegum ástæðum. Við starfi hans tók Þórhallur Víkingsson.

Víkingur tefldi fram liði í meistaraflokki kvenna í handbolta veturinn 2016–17 og aftur 2017-18 eftir nokkurra ára hlé, eins og fram hefur komið. Mikið og gott uppbyggingarstarf hefur verið unnið í yngri flokkum kvennahandboltans í Víkingi undanfarin ár og til að styrkja liðið fékk Víkingur tvo öfluga erlenda leikmenn, þær Sophie Klapperich frá Þýskalandi og Alinu Molkova frá Eistlandi. Díana Guðjónsdóttir er þjálfari meistaraflokks kvenna, en hún hefur meðal annars náð frábærum árangri með yngri flokka Víkings. Þess má geta að árin 1992–1994 urðu Víkingsstúlkur þrívegis Íslandsmeistarar í handbolta. 

Eftir harða baráttu í næstefstu deild í handbolta karla urðu Víkingar í þriðja sæti og hefðu samkvæmt því ekki átt að komast upp í efstu deild. Sú staða breyttist hins vegar óvænt þegar KR ákvað að taka ekki sæti í efstu deildinni. Víkingar fengu sæti þeirra og hófu keppni meðal þeirra bestu haustið 2017 undir stjórn Gunnars Gunnarssonar, sem á árum áður lék bæði með meistaraliðum Víkings í handbolta og fótbolta.

Loka efnisyfirliti