Framkvæmt til framtíðar Í fossvogi

Á aðeins um tíu mánuðum reis fullbúið íþróttahús Víkings í Fossvogi árið 1991. Þá var félagsheimilið einnig komið í notkun að hluta, en framkvæmdir við það hófust þremur árum fyrr. Mannvirkin voru vígð í nóvember 1991. Knattspyrnumenn félagsins höfðu þá um nokkra hríð haft aðstöðu í Fossvoginum, þar sem komnir voru gras- og malarvellir, en bygging stúku beið nýrrar aldar. Félagsheimilið við Hæðargarð var selt borginni 1988 og fyrir vellina þar átti að koma sambærileg vallaraðstaða til viðbótar við vellina í Fossvogi. 

Bygging íþróttahúss og félagsheimilis var mikið átak í sögu félagsins og verða þeim framkvæmdum gerð sérstök skil í þessari grein, en fyrst verður vikið að umræðum um íþróttahús fyrir félagið og fyrstu hugmyndum um svæðið innst í Fossvogsdalnum, sem formlega var úthlutað til Víkings árið 1976.  

Víkin, íþróttasvæði Knattspyrnufélagsins Víkings.

Í mörg ár hafði aðalstjórn Víkings fjallað um byggingu íþróttahúss og má rekja þær umræður a.m.k. allar götur aftur til ársins 1948 er Axel Andrésson mætti á almennan félagsfund og sagði að Víking skorti tilfinnanlega íþróttahús sem hægt væri að æfa í allan ársins hring. Á aðalfundi 1973 voru umræður um íþróttasvæði í Fossvogi og var samþykkt tillaga frá handknattleiks- og knattspyrnudeildum um að aðalstjórn gerði það að höfuðverkefni sínu að tryggja félaginu framtíðaraðstöðu fyrir alla starfsemi sína  á hinu nýskipulagða íþróttasvæði í Fossvogsdalnum.

Í grein í Morgunblaðinu 3. apríl 1979 er greint frá blaðamannafundi, sem aðalstjórn félagsins efndi til, en Jón Aðalsteinn Jónasson var þá formaður félagsins. Tilefni fundarins virðist hafa verið tvíþætt, að greina frá þeim miklu endurbótum sem gerðar höfðu verið á félagsheimilinu við Hæðargarð og framtíðarsýn félagsins og uppbyggingu í Fossvogi.

 

ÍR-ingar völdu Mjóddina frekar en Fossvoginn

Í greininni segir meðal annars: „Á árunum 1970–’72 sóttu Víkingar um að fá úthlutað svæði innst í Fossvogi, en samningar tókust ekki við borgina og ÍR-ingum var úthlutað þetta svæði. Er ÍR fékk vilyrði fyrir íþróttasvæði í Mjóddinni í Breiðholti afsöluðu þeir sér svæðinu í Fossvoginum. 

Árið 1974 gerðu Víkingar samning við borgaryfirvöld um að félagið fengi forgang að umræddu svæði í Fossvogi, sem borgin hugðist sjálf byggja upp með almenningsnot í huga. Hugmynd borgaryfirvalda var að svæðið yrði tilbúið til notkunar að einhverju leyti 1978 og ’79. Vegna fjárhagsörðugleika varð að fresta framkvæmdum við svæðið að mestu, en frumvinna hefur þó farið fram á svæðinu. Víkingar ákváðu því að sækja um þetta svæði fyrir félagið að nýju. 8. nóvember var umsóknin send til borgaryfirvalda og rúmum mánuði síðar var Víkingum formlega úthlutað þetta svæði.

 

Að mati Víkinga er það mikill fengur að hafa fengið svæði þetta til einkanota fyrir félagð. Það er mjög skjólsælt og gróðursælt, innst í Fossvogsdalnum fyrir vestan Gróðrarstöðina Mörk. Um leið og snjóa leysir er ætlunin að mæla svæðið út og láta síðan gera teikningar. Stefna Víkings er sú að svæðið komist í gagnið á næstu 4–6 árum og m.a. er ætlunin að þar verði heimaleikvangur 1. deildarliðs Víkings í knattspyrnu. 

Það hefur lengi verið draumur Víkinga að byggja eigið íþróttahús. Árið 1977 var sótt um til Íþróttaráðs og Íþróttanefndar ríkisins leyfi fyrir byggingu slíks mannvirkis, en svör hafa ekki borist. Íþróttahússjóður hefur verið stofnaður innan félagsins, en það segir sig sjálft að gífurlegt átak þarf til að koma slíku húsi upp. Grófir útreikningar telja kostnað vegna byggingar íþróttahúss eins og Víkingar hafa í huga vera 300–350 milljónir króna.“

Margra ára aðdragandi

Þegar kom fram á níunda áratuginn var uppbygging Víkings í Fossvogi ofarlega á baugi og samskipti við borgina voru einnig oft til umræðu, sem og stækkun Víkingssvæðisins yfir í Kópavog. Á aðalfundi 1980 var samþykkt tillaga handknattleiksdeildar um að framkvæmdir við íþróttahús skyldu vera eitt af forgangsverkefnum við uppbyggingu íþróttamannvirkja félagsins.

Á fundi í september 1980 var að tillögu Íþróttaráðs Reykjavíkur rætt um að byggja eitt íþróttahús í tilraunaskyni, en Víkingur, Valur og Fram „komi sér saman um rekstur þess“. Málið var rætt áfram á fundi í nóvember og var niðurstaða aðalstjórnar að ef ekki fengist leyfi til að byggja húsið á svæði Víkings yrði hús félaganna þriggja byggt á hlutlausum stað. Ekkert varð af þessum hugmyndum, en ári síðar var rætt um samstarf við Fram um hönnun íþróttahúss.

Í febrúar 1980 tók Anton Örn Kærnested við sem formaður Víkings af Jóni Aðalsteini Jónassyni, en sá síðarnefndi tók ári síðar að sér að leiða formennsku í svokallaðri Fossvogsnefnd félagsins. Á fundi í aðalstjórn 18. ágúst 1981 gerði Jón Aðalsteinn grein fyrir hugmyndum um uppbyggingu á svæðinu í Fossvogi. Þar var gert ráð fyrir að heimavöllur Víkings, grasvöllur, yrði á stærð við Laugardalsvöll með 4000 manna áhorfendasvæði, en þar yrði að auki grassvæði sem nýta mætti sem æfingavelli.  

Aðalstjórn heimilaði Fossvogsnefnd að halda áfram undirbúningi að byggingu íþróttahúss í Fossvogi á þeim stað þar sem íþróttahúsið stendur nú, en þar mun upphaflega hafa verið gert ráð fyrir bílastæðum. Enn fremur var gert ráð fyrir malbikuðum handboltavelli utanhúss og tennisvöllum sem pláss fengist fyrir með því að stækka svæðið til vesturs. Framkvæmdir í Fossvogi byrjuðu í lok árs 1981. 

Í bókinni Áfram Víkingur, sem út kom 1983, fjalla þrír fyrrverandi formenn Víkings, þeir Jón Aðalsteinn, Anton Örn og Sveinn Grétar Jónsson, allir um þörfina á íþróttahúsi og undirbúning að byggingu þess. Anton Örn orðaði þetta þannig að það hefði mikinn aðdraganda áður en hægt væri að panta jarðýtu á staðinn og hefja framkvæmdir. Málið þokaðist áfram og þegar leið á níunda áratuginn var komið að því að hefja framkvæmdir við vallarhús og félagsheimili í Fossvogi og íþróttahús í kjölfarið. 

Stjórnarmenn i háloftunum

Svæðið í Fossvogi var stöðugt til umræðu í félaginu og á fundi í aðalstjórn Víkings 14. maí 1987, öðrum fundinum í formannstíð Jóhanns Óla Guðmundssonar, var ákveðið að taka heildarskipulag á svæðinu í Fossvogi til endurskoðunar. Framkvæmdanefnd var falið að koma með tillögur þar að lútandi, en formaður hennar var Jón Kr. Valdimarsson. 

Á stjórnarfundi 25. júní greindi Jón frá því undirbúningsstarfi sem verið væri að vinna í Fossvogi. Mikill áhugi væri í framkvæmdanefnd á að byggja hús í samstarfi við Reykjavíkurborg, sem annars vegar væri félagsmiðstöð fyrir hverfið og hins vegar búnings- og baðaðstaða fyrir starfsemi á svæðinu. Nokkrar umræður urðu um framtíðina í Fossvogi og í fundargerð Þórðar Bergmann segir svo: „Óhætt er að segja að menn voru mjög í háloftunum um þá starfsemi sem menn vildu koma fyrir á svæðinu og voru farnir að skipuleggja breytingu á aðkeyrslum í hverfið og jafnvel farnir að fá nokkra hektara lánaða hjá Kópavogi.“

Þegar kom fram í október lá gróf kostnaðaráætlun fyrir og var hún upp á um 40 milljónir króna, miðað við 1. september. 

Teikningar höfðu þá verið sendar ásamt bréfi til Íþróttaráðs. Í kjölfarið hafði formaður samband við foreldrafélög ungmenna sem störfuðu í hverfinu og jafnframt við Bjarkarás. Allir voru sammála um að í hverfið vantaði íþróttahús og íþróttamiðstöð og fram kom á stjórnarfundi að setja þyrfti þrýsting á borgaryfirvöld.

Á fundi 12. nóvember sýndi Jón Kr. Valdimarsson frumteikningu Halldórs Guðmundssonar arkitekts af væntanlegu íþróttahúsi og búningsklefum á félagssvæðinu. Framundan væri fundur með arkitektum og verkfræðingum. Fjórum dögum síðar var málið rætt að nýju og farið yfir teikningar. Ýmsar athugasemdir og ábendingar komu fram. Á fundi 19. nóvember var á ný farið yfir teikningar og fannst mönnum ýmislegt hafa snúist til betri vegar.

Stíft fundað um framkvæmdir og fjármál

Málið var rætt áfram á flestum fundum haustið 1987 og var oft stutt á milli funda auk þess sem stjórnarmenn ýttu málinu áfram í borgarkerfinu og gagnvart sérfræðingum og verktökum sem komu að framkvæmdinni. Góður skilningur virðist hafa verið hjá borgaryfirvöldum á stöðu Víkings og þörf fyrir uppbyggingu í Fossvogsdal.

Í janúar 1988 samþykkti borgarráð framkvæmdir Víkings í Fossvogi og byggingarnefnd borgarinnar gaf út byggingarleyfi í febrúar. Samið var við verkfræðistofuna VSÓ um undirbúning framkvæmda í Fossvogi, burðarþol og lagnir. Byggingarverktaki var Kristinn Sveinsson.

Fyrsta skóflustunga að félagshúsinu í Fossvogi var tekin 27. febrúar 1988 af Agnari Ludvigssyni, einlægum stuðningsmanni félagsins í áratugi. Aðalstjórn vildi með þessu verkefni heiðra hann og þakka  fyrir mikil og vel unnin störf og áratuga stuðning við félagið. Agnar  var gerður að heiðursfélaga í Víkingi árið 1990 ásamt Gunnlaugi Lárussyni og Þorláki Þórðarsyni. Kaffisamsæti var haldið í Veitingahöllinni í Húsi verslunarinnar í Kringlunni þegar fyrsta skóflustungan hafði verið tekin í Fossvogi.

Heimaleikir Víkings í knattspyrnu fóru fram í Fossvogi sumarið 1988. Knattspyrnudeild hafði, í samvinnu við aðalstjórn, gert áhorfendastæði við grasvöllinn, sem þá var meðfram Traðarlandi, en bað- og búningsaðstaða var í Bjarkarási og Lækjarási. Séra Ólafur Skúlason, prestur í Bústaðasókn og síðar biskup, blessaði völlinn fyrir fyrsta leik. 

Fulltrúar úr aðalstjórn Víkings við leiði Axels Andréssonar í Fossvogskirkjugarði 21. apríl 1988. Frá vinstri: Bruno Hjaltested, Þórður Bergmann, Þorlákur Þórðarson, Ágúst Ingi Jónsson, Jón Kr.. Valdimarsson, Þorlákur Þórðarson, formaður Fulltrúaráðs, og Jóhann Óli Guðmundsson, formaður Víkings.

Magnús Guðmundsson var ráðinn starfsmaður Víkings til að sinna verkefnum fyrir aðalstjórn, handknattleiks- og knattspyrnudeildir og var formlega gengið frá ráðningunni á fundi aðalstjórnar 14. apríl 1988. Framkvæmdastjórinn hafði aðsetur á skrifstofu Securitas við Síðumúla, en fyrirtækið var í eigu Jóhanns Óla, formanns Víkings. Verkefnin voru ærin og tengdust þau bæði starfi allra deilda félagsins, uppbyggingu í Fossvogi og síðan flutningi úr Hæðargarðinum. Fyrstu verkefnin voru þó í tengslum við fyrrnefnda aðstöðu fyrir áhorfendur á grasvellinum við Traðarland. Þegar bygging félagsaðstöðunnar í Fossvogi var komin áleiðis flutti skrifstofa 

Fjármögnun framkvæmdanna í Fossvogi og fjármál félagsins voru til umræðu á flestum fundum aðalstjórnar. Á þessum tíma var fjárhagur knattspyrnudeildar bágur og fór mikill tími í að leysa úr þeim hnút með stjórnarmönnum í deildinni. Jafnframt þurfti að sinna ýmsum verkefnum sem tengdust fjármálum fyrri aðalstjórnar. 

Stjórnarmenn og fleiri velunnarar mættu einnig nokkrar helgar til að naglhreinsa og skafa timbur sem notað hafði verið í uppslátt undir sökkla. Rætt var innan stjórnar um ferðir Strætisvagna Reykjavíkur innan hverfisins. Þá var borginni skrifað bréf um bílastæði fyrir Víking sunnan og vestan við Lækjarás.

Barist fyrir þriðju hæðinni

Jóhann Óli formaður hafði mikinn áhuga á að félagsheimilið í Fossvogi yrði frá upphafi tvær hæðir auk kjallara, eins og húsið var upphaflega hannað. Á þriðju hæðinni gæti verið margvíslegt starf tengt æskulýðsstarfsemi í hverfinu eða starfi eldri borgara, auk þess sem Víkingur gæti leigt hluta hæðarinnar til annarrar starfsemi þar til félagið þyrfti á henni allri að halda.

Reykjavíkurborg reyndist ekki vera tilbúin að koma inn í samstarf um byggingu hæðarinnar og töldu stjórnarmenn, að undanskildum formanni, að fresta ætti byggingu þriðju hæðar hússins. Áhyggjur voru af því að hugsanlega kynnu þessar þreifingar að hafa áhrif á sölu félagsheimilisins í Hæðargarði og síðar á fjármögnun byggingar íþróttahúss. 

Í október 1988 var samþykkt í aðalstjórn að fresta því um sinn, einn mánuð eða svo, að setja þak á húsið meðan unnið væri að því að reyna að fjármagna þriðju hæðina. Formaður ræddi fram yfir áramót meðal annars við formann öldrunarráðs borgarinnar, formann Íþrótta- og tómstundaráðs og fleiri um fjármögnun þessa verkefnis. Það var síðan á fundi 11. maí 1989 að formaður lýsti neikvæðum niðurstöðum í viðræðum við Reykjavíkurborg um aðstöðu fyrir aldraða eða unglinga á þriðju hæð í húsinu í Fossvogi og sagði að hugmyndir um þriðju hæðina væru þar með aflagðar að sinni.

 

Borgin kaupir heimilið og aðstöðuna við Hæðargarð

Haustið 1988 var farið að huga að sölu á félagsheimilinu við Hæðargarð. Áður hafði verið kannað hvort Víkingur hefði heimild til að byggja á eigin vegum á svæðinu austan við félagsheimilið og selja á frjálsum markaði. Þau svör fengust að úthlutun á þessu svæði hefði verið skilyrt til íþróttaiðkunar og slík uppbygging yrði ekki heimiluð. 

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem slíkt kom til umræðu í félaginu. Þannig stakk Þorlákur Þórðarson upp á því á aðalfundi 1979 að „byggja raðhús eða íbúðarhús sem félagið svo seldi, þetta yrði góð fjáröflunarleið.“ Jón Aðalsteinn Jónasson formaður sagði að stjórnin hefði athugað þetta mál, en mörg ljón væru á veginum og þyrfti að athuga málið gaumgæfilega.

Á fundi formanns og fleiri stjórnarmanna í september 1988 með Júlíusi Hafstein, formanni Íþrótta- og tómstundaráðs, og Ómari Einarssyni, framkvæmdastjóra ÍTR, kom fram að borgin væri tilbúin að kaupa félagsheimilið við Hæðargarð af Víkingi. Á stjórnarfundi í kjölfarið kynnti formaður uppkast að bókun sem viðræðugrundvöll við borgina. Tillögur um sölu hússins og svæðisins austan við það yrðu síðan lagðar fyrir aðalfund. Einnig kom fram hugmynd um að leigja borginni heimilið við Hæðargarð til 25 ára.

Skipuð var viðræðunefnd til að ræða söluna við fulltrúa borgarinnar og áttu Jón Kr. Valdimarsson, Ágúst Ingi Jónsson og Stefán Pétur Eggertsson sæti í nefndinni, en af hálfu borgarinnar Hjörleifur Kvaran, Júlíus og Ómar. Á fundi 6. desember kom fram að borgin mæti virði félagsheimilisins 21,5 milljónir króna. 

Á stjórnarfundi 8. desember tók Stefán að sér að meta hugsanlegt verð fyrir eignina og á sama fundi var rætt um að leggja málið þannig upp gagnvart borginni að talsvert fé þyrfti að koma fyrir Hæðargarðinn svo hægt væri að koma málinu í gegn á aðalfundi Víkings.

Félagsheimili Víkings við Hæðargarð á 75 ára afmæli félagsins 1983.

Næsti fundur með borginni var haldinn 14. desember og á þeim fundi náðust samningar um söluna fyrir 32 milljónir króna. Mikil umræða var um málið á næsta stjórnarfundi og lýsti formaður ánægju með störf nefndarinnar og tóku aðrir stjórnarmenn undir með honum. Mikilvægt var talið að söluverð hafði hækkað verulega frá fyrstu hugmyndum og í samningnum var skýrt kveðið á um uppbyggingu í Fossvogi áður en hafist yrði handa við framkvæmdir á vegum borgarinnar við Hæðargarð.

Samningurinn er dagsettur 30. desember 1988 og þar segir: „Borgarsjóður kaupir félagsheimili Knattspyrnufélagsins Víkings við Hæðargarð, ásamt því sem eigninni fylgir og fylgja ber … Ennfremur yfirtekur borgarsjóður allt æfingasvæði Víkings við Hæðargarð, sem Reykjavíkurborg hefur úthlutað félaginu og gefið því fyrirheit um.“ 

Í samningnum er kveðið á um að Víkingur skuli áfram hafa full afnot af knattspyrnuvöllum vestan félagsheimilis. „Heimilt er borgaryfirvöldum að segja upp afnotaréttinum án þess að sérstök greiðsla komi fyrir, ef síðar reynist kleift að stækka framtíðarsvæði Víkings við Stjörnugróf í Fossvogi frá því sem núverandi skipulag gerir ráð fyrir, þannig að á viðbótarsvæði megi koma fyrir æfingavelli, svo fullnægjandi sé að áliti beggja aðila. Afnotarétturinn skal þó ekki falla niður fyrr en Víkingur hefur byggt nýjan knattspyrnuvöll á núverandi svæði félagsins við Stjörnugróf og a.m.k. annan knattspyrnuvöll á hugsanlegu viðbótarsvæði.“ Samningurinn var síðan samþykktur á aðalfundi Víkings og í borgarráði.

Byggingu íþróttahúss flýtt

Ný stjórn Jóhanns Óla Guðmundssonar tók við á aðalfundi 2. febrúar 1989. Nokkrar mannabreytingar urðu og m.a. kom Eysteinn Helgason inn í stjórnina og starfaði hann í byggingarnefnd á næstu árum, auk annarra verkefna. Jón Valdimarsson var áfram varaformaður og jafnframt áfram formaður byggingarnefndar. Þórður Bergmann, sem komið hafði talsvert að málum við uppbyggingu félagsaðstöðunnar í Fossvogi, tók við sem gjaldkeri af Sigurði Óla Sigurðssyni. Þá má nefna að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, tók sæti í aðalstjórn Víkings.

Bygging íþróttahúss hafði talsvert verið rædd á fundum fyrri stjórnar en á fyrsta fundi nýrrar stjórnar 25. febrúar var rætt um að flýta byggingu íþróttahúss eins og framast væri kostur og hefja þegar undirbúning og viðræður við Reykjavíkurborg um framkvæmdina. Fram kom á fundinum að Víkingur var á þessum tíma með aðstöðu fyrir starfsemi sína í níu íþróttasölum í borginni.

Allt árið 1989 var málinu þokað áfram. Á fundi 30. mars 1989 var lagt fram minnisblað Stefáns Péturs Eggertssonar og kom þar fram að kostnaður við byggingu íþróttahússins væri lauslega áætlaður 60 milljónir króna. Þá var miðað við að framlag borgarinnar næmi 80% til byggingar vallarhússins, en 40% til byggingar íþróttahússins. Nefnd til að ræða við borgina um framkvæmdir í Fossvogi var skipuð og fóru Eysteinn Helgason, Þórður, Ágúst Ingi og Stefán Eggertsson á fund borgarinnar, m.a. til að ræða um svæðið í heild, bílastæði, samgöngur innan hverfis vegna flutnings og fleira.

Í fundargerð aðalstjórnar frá 27. apríl er greint frá fundinum með borginni. Þar segir m.a. að Júlíus Hafstein borgarfulltrúi hafi lýst yfir að miðað við aðstæður væri óhætt að segja að styrkir vegna vallarhúss yrðu uppgerðir 1990 og 1991, samtals 22–25 milljónir í styrki. Júlíus staðfesti að Víkingur gæti litið á það sem „heiðursmannasamkomulag“ að leyft yrði að hefja byggingu íþróttahúss á miðju næsta ári, eftir kosningarnar 1990.

22. júní sýnir Halldór Guðmundsson arkitekt teikningar að íþróttahúsi og svæðinu í heild og greinir frá þörf á auknum fjölda bílastæða. Að mati aðalstjórnarmanna hamla þrengsli á svæðinu allri uppbyggingu íþróttamannvirkja. 9. ágúst er á fundi aðalstjórnar gerð grein fyrir samþykki skipulagsnefndar og borgarráðs fyrir væntanlegu íþróttahúsi Víkings í Fossvogi.

 

Tennisklúbbur vill byggja stórt tennishús

Það var ekki aðeins bygging íþróttahúss og félagsheimilis sem tók tíma stjórnarmanna. Nýstofnaður tennisklúbbur Víkings undir stjórn Sigurðar Halldórssonar var mjög áfram um byggingu sérstaks tennishúss á félagssvæðinu í Fossvogi nálægt vallarhúsi og tennisvöllum. Vilji klúbbsins var að byggja hús með 3.500 fermetra grunnfleti og myndi drjúgum hluta byggingarkostnaðar vera mætt með greiðslu á fyrirframleigu. 

Á fundi stjórnar tennisklúbbsins með aðalstjórn 11. maí 1989 var kynnt kostnaðargreining og teikningar að slíku húsi með fjórum tennisvöllum og hljóðaði áætlun um kostnað upp á um 50 milljónir króna. Iðkendur kæmu víða að úr þjóðfélaginu og langt utan raða Víkings, sem myndi styrkja starfið á svæðinu. Málið væri komið á það stig að brýnt væri að fá sem fyrst niðurstöðu um hvort lóð fengist á Víkingssvæðinu í Fossvogi, annars væri hætta á að leitað yrði annað.

Miklar umræður urðu um málið og framtíðarskipulag á svæðinu, en talin voru ýmis vandkvæði á að koma svo stórri byggingu fyrir. Jón Valdimarsson taldi rétt að kynna málið fyrir borgaryfirvöldum og vel væri athugandi að fá spildu af landi Markar. Hann benti á að tennishús á þessum stað myndi skýla knattspyrnuvöllum. Á fundi 18. maí var samþykkt efnislega viljayfirlýsing sem formaður lagði fram um að ráðast í byggingu tennishúss ef heppileg lóð fyndist og fjárhagslegur grundvöllur væri fyrir hendi. Framkvæmdaröð félagsins myndi þó ekki breytast frá því sem áður var ákveðið.

Á fundi aðalstjórnar í lok september 1989 var gerð grein fyrir fundi tennismanna með Vilhjálmi Vilhjálmssyni, formanni skipulagsnefndar borgarinnar, um aðstöðu fyrir tennishús. Niðurstaðan var sú að ekki yrði stuggað við Mörk næsta áratuginn. Reynt yrði að nýju að stilla upp mannvirkjum og völlum í Fossvogi, en ótti tennismanna var að tennishús yrði byggt í Kópavogi þar sem land væri í boði. 

Á næsta fundi, 3. október, var talað um möguleika á því að hafa makaskipti við Mörk sem fengi sneið af landi Víkings gegn svæði suður af íþróttahúsi. Í byrjun árs 1990 greindi formaður frá því að hann og fulltrúar tennisdeildar hefðu átt í óformlegum viðræðum við embættismann í Kópavogi um að Mörk fengi aukið land inn í Kópavog. Fram kom á fundinum að erfitt gæti verið að ná slíku fram meðan deila um Fossvogsbraut hefði ekki verið útkljáð.

22. febrúar 1990 kom í ljós að eigandi Markar hafnaði makaskiptum við Víking í viðræðum við borgina og ekkert kom út úr fundi Víkinga með eigendum Markar. Meðan á þessu ferli stóð fóru Hallur Hallsson og Eysteinn Helgason úr aðalstjórn og Sigurður Halldórsson úr tennisklúbbi meðal annars á fund Davíðs Oddssonar, borgarstjóra í Reykjavík. 

Á fundi 27. september 1990 kemur fram að Davíð Oddsson borgarstjóri hafi falið Hjörleifi Kvaran að leita samninga við eigendur Markar um kaup á landinu svo unnt sé að leysa lóðarmál Víkings til frambúðar, eins og það er orðað í fundargerð. Á fundi aðalstjórnar 31. janúar 1991 er greint frá því að viðræðum við Markarbónda hafi verið slitið þar sem of mikið hafi borið á milli.

Alverkssamningur við Hagvirki um íþróttahús

Fyrsti fundur nýrrar aðalstjórnar undir formennsku Halls Hallssonar var haldinn 31. mars 1990. Eysteinn Helgason var kosinn varaformaður og Sigurður Óli tók aftur við sem gjaldkeri. Jóni Valdimarssyni var sem fyrr falið að hafa umsjón með framkvæmdum í Fossvogi, en með honum störfuðu Eysteinn Helgason og Stefán P. Eggertsson. 

Fram kom á fyrsta fundi stjórnarinnar að fyrri stjórn hefði ákveðið að láta staðar numið um sinn í framkvæmdum við vallarhúsið en knýja á um að fjármagn fengist frá borginni til byggingar íþróttahúss. Í ársbyrjun 1990 kom fram gróf áætlun um að kostnaður við byggingu íþróttahússins yrði um 100 milljónir króna.

Á næstu mánuðum rak hvað annað í framkvæmdasögunni. Í maí 1990 fóru fulltrúar í aðalstjórn í skoðunarferð til að skoða og fá upplýsingar um íþróttahús á Álftanesi, í Garðabæ og Hafnarfirði. 12. júní 1990 var ákveðið að hefja undirbúning að alútboði í byggingu íþróttahúss. Í lok júlí kemur fram, eftir fund Halls formanns og Júlíusar Hafstein borgarfulltrúa, að líklegt sé að gengið verði frá samningi um byggingu íþróttahúss Víkings í lok júlí.

Verkfræðistofan VSÓ og Halldór Guðmundsson arkitekt,  unnu að gögnum vegna alútboðs. Viðræður við borgina voru í gangi þessa mánuði og undirbúningur fjármögnunar var að fara í gang. 17. nóvember kemur fram að byggingardeild borgarverkfræðings hafi fengið alútboðsgögn til skoðunar.

Á fundi aðalstjórnar 29. nóvember 1990 kom fram að tíminn væri orðinn of naumur til að fara í alútboð, m.a. vegna óvissu um fjárframlög frá borginni. Tímabært væri að gera svokallaðan alverkssamning við einn verktaka um framkvæmdina með fyrirvara um fjármögnun borgarinnar. Húsið yrði tekið í notkun haustið 1991 og ljóst væri af viðræðum við borgina að Víkingur væri efstur á blaði yfir slíkar framkvæmdir í Reykjavík. 

Jón Valdimarsson og Eysteinn Helgason lögðu fram uppkast að bréfi til byggingafyrirtækisins Hagvirkis þar sem fyrirtækið var beðið að gera tilboð í byggingu íþróttahússins á grundvelli útboðsgagna sem VSÓ hafði unnið fyrir Víking. Alverkssamningur yrði undirritaður í lok desember 1990, framkvæmdir hæfust í byrjun árs 1991 og húsið yrði tilbúið til notkunar 1. október 1991. Áréttaður var fyrirvari um óvissu varðandi greiðslu frá borginni og að framkvæmdir gætu ekki hafist fyrr en samkomulag hefði tekist við borgina. Afhendingartími tæki mið af því.

Sigurður Óli og Þórður Bergmann spurðu á fundinum hvort aðeins ætti að ræða við eitt fyrirtæki. Jón svaraði því til að í alverkssamningi fælust viðræður við aðeins einn aðila. Framkvæmdakostnaður lægi fyrir úr öðrum sambærilegum mannvirkjum og rætt hefði verið við sérfróða menn. Eysteinn bætti því við að byggingarframkvæmdirnar væru orðnar kapphlaup við tímann.

Fram kom á fundinum að efni bréfsins hafði verið rætt við Ómar Einarsson, framkvæmdastjóra ÍTR, og samþykkti fundurinn að senda erindið til Hagvirkis. Á næsta fundi hafði borist svar frá Hagvirki, sem taldi sig geta ráðið við verkefnið á tilsettum tíma og hafði falið Arkitektum sf. og Verkfræðistofunni Ferli að undirbúa tilboðsgerð við hönnun og miða við að skila tilboði fyrir áramót. Á fundi 10. janúar sagði Ólafur Friðriksson að leita hefði átt fleiri tilboða. Á fundinum voru lagðar fram og kynntar tillögur arkitekta.

Á fundi 31. janúar 1991 var kynnt tilboð frá Hagvirki um byggingu íþróttahússins fyrir tæplega 160 milljónir. Verktími var áætlaður átta mánuðir og auk þess tvær vikur til að ganga frá áhorfendabekkjum. Fjárveiting borgarinnar var ekki enn orðin ljós.

 

Gestum var boðið í fokhelt vallarhúsið er fyrsta skóflustunga var tekin að íþróttahúsinu.
Eysteinn Helgason lýsti fyrir hönd aðalstjórnar framkvæmdunum í Fossvogi.
Hallur Hallsson, formaður Víkings, sagði nokkur orð við athöfn er fyrsta skóflustungan var tekin.  Auk hans eru meðal annars á myndinni Júlíus Hafstein, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs borgarinnar, Davíð Oddsson, borgarstjóri, og Magnús L. Sveinsson, forseti borgarstjórnar.

Skóflustunga borgarstjóra í ársbyrjun 1991

Á þessum árum var fundað á ýmsum stöðum; m.a. í Hæðargarði, á skrifstofum Securitas, í Veitingahöllinni og í safnaðarheimili Bústaðakirkju, þar sem fundað var 22. febrúar. Þar var greint frá því að borgarstjóri hefði lýst því yfir að Víkingur fengi á næstu fjórum árum 192 milljónir vegna framkvæmda í Fossvogi, verðbættar en án vaxta. Þar með lá fyrir að íþróttahúsið yrði styrkt um 80% eins og bygging vallarhússins. Tilboð frá Hagvirki um að byggja íþróttahúsið var kynnt á fundinum og myndi það kosta með öllu 159 milljónir.  

Leitað var álits VSÓ og byggingarnefndar borgarinnar á tilboðinu. Á grundvelli þess álits var samið við Hagvirki um lækkun á tilboðinu upp á sex milljónir króna. Ákveðið var að ganga til samninga við Hagvirki á þessum grunni. Í framhaldinu var skipulag vallarhússins endurskoðað með tilliti til hönnunar íþróttahússins. Ákveðið var að stefna að því að það yrði tekið í notkun ekki síðar en íþróttahúsið.

Davíð Oddsson, borgarstjóri í Reykjavík, tók fyrstu skóflustungu að íþróttahúsinu um mánaðamótin febrúar/mars 1991 að viðstöddum fleiri fulltrúum Reykjavíkurborgar og eldri sem yngri Víkingum. Að því loknu var hátíðarsamkoma í vallarhúsinu. „Draumur Víkinga er að rætast. Bygging þessa húss markar tímamót hjá félaginu. Nýtt og glæsilegt íþróttahús rís undir austurvegg vallarhússins, sem við höfum verið að byggja síðastliðin þrjú ár. Samvinnan við borgaryfirvöld, og þá sérstaklega Íþrótta- og tómstundaráð, var hnökralaus og fagleg í alla staði,“ sagði Hallur Hallsson, formaður Víkings, þegar fyrsta skóflustungan var tekin.

„Með þessari skóflustungu hefst verkið. Að þessu verki verður staðið með öðrum hætti en áður hefur verið gert. Nú verður það ekki bara skóflustungan og síðan grunnur sem lengi gapir við heldur verður hægt að vinna verkið frá byrjun af miklum krafti. Þetta er fyrst og fremst hægt vegna þess að menn eru Víkingar – Víkingar til verka – en í annan stað verður nú haldið þannig á málum borgarinnar gagnvart þessu merka félagi, og væntanlega öðrum félögum síðar, að borgin mun leggja fram ákveðna fjárhæð strax og jafnframt fyrirheit í formi skuldabréfayfirlýsingar sem félagið getur komið í verð og þar með er fjármögnunin tryggð. Byggingakostnaður ætti að geta orðið lægri fyrir bragðið og allir græða þegar upp er staðið,“ sagði Davíð Oddsson borgarstjóri þegar hann hafði tekið fyrstu skóflustunguna, að því er Morgunblaðið greindi frá.

Vinna við húsið hófst þegar af krafti og föstudaginn 5. júlí var húsið orðið fokhelt og af því tilefni var haldið hóf fyrir starfsmenn Hagvirkis.

Fjármál voru ofarlega á baugi þessa mánuði og ítarlega rædd á stjórnarfundum, en samið var við Íslandsbanka um fjármögnun framkvæmda. Greiðslur til Hagvirkis voru látnar stemma við greiðslur frá borginni og síðan var lánum Íslandsbanka stillt saman. Þegar leið á framkvæmdatímann gaf Reykjavíkurborg út skuldabréf fyrir allri styrkupphæðinni og var samið við VÍB á grundvelli tilboða í bréfin. Hagkvæmara var talið að hafa þennan háttinn á með hækkandi vöxtum en að fá lán í Íslandsbanka til framkvæmda.

Á fundi 23. október greindi Eysteinn Helgason frá sölu hlutabréfa fyrir alls 124,2 milljónir, nafnverð 135 milljónir. Auk þess var þá til ráðstöfunar 40 milljóna framlag borgarinnar á þessu ári. Framlag borgar og sala skuldabréfa dygði fyrir byggingu íþróttahúss og frágangi á lóð, en framkvæmdalán væri tryggt í Íslandsbanka ef þörf yrði á. Fram kom á fundinum að ekkert benti til þess að framkvæmdir við félagsheimili færu yfir 18 milljónir. Kostnaður við byggingu íþróttahúss stæði í 154,5 milljónum, auk fimm milljóna í verðbætur, aukaverk væru í lágmarki, en lokauppgjöri við Hagvirki hefði verið frestað til 22. nóvember 

Er leið á sumarið var farið að huga að leigu á dagtímum í íþróttahúsinu og ákveðið að fulltrúar úr aðalstjórn færu á fund menntamálaráðherra til að minna á húsið og þarfir Brautarskóla, Bústaðaskóla, Fossvogsskóla og annarra í hverfinu. Einnig var talað við skólamálaráð borgarinnar. Þá var um sumarið byrjað að selja auglýsingar í íþróttahúsið. Um haustið óskuðu nuddstofa og dansstúdíó eftir að leigja aðstöðu í húsinu, en ekkert varð af því.  

 

Davíð Oddsson, borgarstjóri í Reykjavík, tók fyrstu skóflustungu að íþróttahúsi Víkings um mánaðamótin febrúar/mars 1991 að viðstöddum fleiri fulltrúum Reykjavíkurborgar og eldri sem yngri Víkingum.
Hópur yngri og eldri Víkinga var viðstaddur er fyrsta skóflustungan var tekin að íþróttahúsinu á fallegum vetrardegi í Fossvogi.
Framkvæmdir hófust af krafti í marsmánuði 1991.

Borgin hugsar sér til hreyfings við Hæðargarð

Bætur vegna aðstöðunnar við Hæðargarð voru oft til umræðu á stjórnarfundum þessi misserin. Á fundi 8. maí 1990 kom fram að leitað yrði til borgarinnar um að fá aðstöðu við Hæðargarð bætta, bæði malar- og grasvöll í samræmi við ákvæði í samningi um sölu á aðstöðunni við Hæðargarð, en Víkingur rýmdi félagsaðstöðuna í Hæðargarði að mestu í byrjun október 1990. 

Þegar leið á árið 1991 voru íbúar í nágrenninu farnir að óttast að borgin væri farin að hugsa sér til hreyfings við Hæðargarð. Um 1200 manns í Smáíbúða- og Bústaðahverfi afhentu borgarstjóra mótmæli gegn hugsanlegum framkvæmdum á völlunum við Hæðargarð. Samkvæmt ákvæðum í sölusamningi frá 1988 fengi Víkingur bætur og hraðari uppbyggingu valla í Fossvogi yrði byggt á vallarsvæðinu. Þá óskaði Réttarholt eftir stærri lóð fyrir íbúðir aldraðra við Hæðargarð, en Víkingur rýmdi félagsaðstöðuna þar að mestu í október 1990. Formaður tók að sér haustið 1991 að ræða við skipulagsyfirvöld um hugmyndir borgarinnar um uppbyggingu við Hæðargarð. 

Björn Bjartmars var 1. september 1991 ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og var hann valinn úr hópi 17 umsækjenda. Mikið var um að vera hjá Birni þessa haustdaga því hann var sannkallaður bjargvættur er hann kom inn á sem varamaður í síðasta leik Íslandsmótsins í knattspyrnu og var öðrum fremur maðurinn á bak við 3:1 sigur Víkings gegn Víði í Garði. Þau úrslit dugðu Víkingi til að verða Íslandsmeistari í fimmta skipti.

Björn tók við starfi framkvæmdastjóra af Magnúsi Guðmundssyni  sem verið hafði framkvæmdastjóri frá því í byrjun árs 1988. Magnús var starfsmaður knattspyrnudeildar til haustsins 1992.  

Margir lögðu sitt af mörkum við framkvæmdirnar og kom fulltrúaráðið að ýmsum verkefnum. Minningarsjóður hafði verið stofnaður um Jón Gunnlaug Sigurðsson, sem lék um árabil með Víkingsliðinu í handbolta en lést í bílslysi aðeins þrítugur að aldri. Styrkti sjóðurinn byggingu íþróttahússins á myndarlegan hátt. Fleiri einstaklingar og fyrirtæki studdu Víking meðan á uppbyggingunni stóð. 

Um sumarið var samið við þrjá mæta Víkinga um vinnu í félags- og búningaálmu vallarhússins, þá Ásmund Kristinsson múrarameistara, Hjörleif Þórðarson rafvirkjameistara og Björn Ólafsson pípulagningameistara. Það var í mörg horn að líta og mikill sprettur á iðnaðarmönnum í húsunum og á fundi 23. október var eftirfarandi skráð í fundargerð aðalstjórnar:

Vel viðraði til framkvæmda og fljótlega fór íþróttahúsið að mjakast upp úr jörðinni.
Húsið  reis á nokkrum mánuðum og unnu starfsmenn Hagvirkis af miklum krafti.

„JV gerir grein fyrir lokaátökum fyrir verklok í íþrótta- og vallarhúsi. Útlit fyrir að frágangi húss, uppsetningu klukku, malbikun bílastæða, flísalögn, pípulögn, ísetningu hurða inni og úti verði lokið að langmestu leyti 2. nóvember. Sömu sögu er að segja um raflagnir og bekki í íþróttahúsi.“ Hvað síðastnefnda atriðið varðar var um tíma útlit fyrir að áhorfendabekkir kæmu ekki til landsins í tæka tíð, en það tókst og því þurfti ekki að fresta vígslu hússins eins og óttast var um tíma.  

Haustið 1991 var leitað til Víkingsins Bjarna Guðnasonar, prófessors, fyrrverandi alþingismanns og fyrrum landsliðsmanns í knattspyrnu, um að hann tæki að sér að finna nafn á svæðið. Hann fékk Víkingana Árna Indriðason, sögukennara og áður landsliðsmann í handknattleik, og Sigurð G. Tómasson, fjölmiðla- og íslenskumann til liðs við sig. 

Á fundi með aðalstjórn 26. október greindi Bjarni frá því að nafnanefnd legði til að aðstaðan í Fossvogi yrði annaðhvort nefnd Vík(in) eða Virki(ð). Hvort nafnið sem yrði valið væri stutt, þjált í samsetningum og myndi fljótt samlagast starfsemi félagsins. Sérstakur fundur þremur dögum síðar fjallaði um heiti á félagssvæðinu, en niðurstaða fékkst ekki. Á fundi daginn fyrir vígslu íþróttahússins varð Víkin fyrir valinu og vísar nafnið til þess staðar þar sem víkingar til forna lögðu skipum sínum, söfnuðu kröftum, öfluðu vista og æfðu vopnfimi áður en þeir héldu á ný í víking

Fjölmenni á vígsluhátíð í Víkinni

Á fund aðalstjórnar 1. nóvember mættu auk stjórnarmanna Jóhann Óli Guðmundsson, fyrrverandi formaður, Júlíus Hafstein, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, Jóhannes Guðmundsson, formaður fulltrúaráðs, og fulltrúar í hátíðarnefnd. Þar þökkuðu Hallur Hallsson formaður og Jón Kr. Valdimarsson f.h. Víkings Júlíusi Hafstein og Reykjavíkurborg gott samstarf. Júlíus sagði m.a. að hann hefði frá upphafi verið sannfærður um að vel yrði unnið af hálfu Víkings að uppbyggingu mannvirkjanna. Um Jóhann Óla sagði Hallur að undir hans stjórn hefði félagið verið rifið upp úr lægð. Jóhann Óli óskaði núverandi stjórn til hamingju með árangurinn, og sérstaklega Jóni Kr. Valdimarssyni, en auk hans hefðu margir mætir menn komið að störfum.

Sérstök hátíðarnefnd tók til starfa í september og undirbjó vígslu mannvirkjanna sem var ákveðin laugardaginn 2. nóvember. Ágúst Ingi Jónsson var formaður hennar, en með honum störfuðu m.a. Ólafur Jónsson, Hannes Guðmundsson og Sigtryggur Sigtryggsson. Gefið var út átta síðna Víkingsblað af þessu tilefni. Fjölmenn vígsluhátíð var haldin í íþróttasalnum fyrir boðsgesti, iðkendur í Víkingi og íbúa í hverfinu, 300 manna félagssamkoma var í íþróttasalnum um kvöldið og loks íþróttahátíð daginn eftir, þann 3. nóvember. 

Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra var meðal þeirra sem tóku til máls er húsið var tekið í notkun, séra Pálmi Matthíasson blessaði mannvirkin, nýtt Víkingslag Valgeirs Guðjónssonar var frumflutt og Bjarni Guðnason lýsti vali á nafni svæðisins. Ungir knattspyrnumenn brugðu á leik, Guðmundur Stephensen sýndi borðtennis og margfaldir Íslandsmeistarar Víkings í handknattleik frá árunum í kringum 1980 léku gegn landsliðinu á sama tíma. Fyrsta markið í húsinu skoraði Rósmundur Jónsson fyrir Víking, en hann lék á sínum tíma landsleiki í handbolta bæði sem útileikmaður og markvörður. 

Fyrir hönd félagsins heiðraði hátíðarnefnd þá Jón Kr. Valdimarsson, Eystein Helgason, Jóhann Óla Guðmundsson, Hall Hallsson og eiginkonur þeirra á félagshátíðinni að kvöldi vígsludagsins og þakkaði frábær störf í þágu Víkings.   

Hönnuðir íþróttahússins eru Arkitektar sf., þeir Valdimar Harðarson, Páll Gunnlaugsson, Árni Friðriksson og Helgi Már Halldórsson. Burðarþol og lagnateikningar annaðist Verkfræðistofan Ferill og loftræsi- og raflagnakerfi hannaði Verkfræðiskrifstofa Sigurðar Thoroddsen. Hönnuður vallarhússins er Halldór Guðmundsson, Teiknistofunni Ármúla 6. Verkfræðistörf og hönnun loftræsikerfis annaðist Verkfræðistofa Stefáns Ólafssonar. Ásgrímur Jónasson hannaði raflagnir. Vallarhúsið var að hluta tekið í notkun á sama tíma, en nokkrir áfangar þess biðu næstu ára.

Boðið var upp á leiki fyrir utan Víkina.
Leikir fyrir yngstu börnin voru í boði fyrir utan Víkina.
Loka efnisyfirliti