1931 - 1939
ERFIÐ ÁR EN VÍKINGAR NEITUÐU AÐ GEFAST UPP
Framan af áratugnum gekk illa á knattspyrnuvellinum, en Víkingar neituðu að gefast upp. Þeir réðu sumarið 1939 þýskan þjálfara, Fritz Buchloh, og bjuggu Víkingar að starfi hans í mörg ár. Þegar einum leik var ólokið á Íslandsmótinu virtist meistaratign vera innan seilingar, en á aðeins þremur lokamínútum síðasta leiksins breyttist sigur í tap, en jafntefli nægði Víkingum. Árið 1938 hófust æfingar í handbolta í Víkingi og á framhaldsaðalfundi 1939 var fyrst hreyft hugmyndum um byggingu skíðaskála fyrir Víking.
1931 - 1937
Drungi var yfir starfi félagsins og fram eftir fjórða áratugnum gekk hvorki né rak á knattspyrnuvellinum. Fimm Íslandsmót í röð frá 1932–1936 fékk Víkingur ekki eitt einasta stig í elsta aldursflokki, liðið lék 38 leiki á Íslandsmótinu án þess að vinna leik. Það var orðin regla að setja 0 fyrir aftan nafn Víkings í stigatöflunni. Fram kemur í fundargerð frá aðalfundi 1936 „að formaður ónafngreinds knattspyrnufélags í bænum gerðist svo djarfur, að hann leyfði sér að telja vafa á því hvort telja bæri Víking meðal starfandi knattspyrnufélaga í bænum, sökum þess að félagið hefði orðið að hætta keppni í miðju Íslandsmóti sökum skorts á mannafla …“ Guðjón Einarsson benti á að hvorki meira né minna en átta af hinum ungu kappliðsmönnum félagsins hefðu orðið að ganga úr leik sökum meiðsla og kvaðst efast um að nokkurt hinna knattspyrnufélaganna hefði þolað slíkt áfall í miðju móti.
Eftir að Axel Andrésson lét af formennsku í Víkingi 1924 voru formannsskipti tíð og menn entust ekki lengi í starfinu. Hinir mætustu menn voru í forsvari fyrir félagið á þessum árum, gjarnan gamlir meistaraflokksmenn, en grundvöllur félagsins var óljós og aðstaðan engin. Óskar Norðmann tók við formennsku af Axel Andréssyni og síðan komu þeir hver af öðrum Helgi Eiríksson, Magnús Brynjólfsson, Halldór Sigurbjörnsson og síðan Axel Andrésson aftur í tvö ár 1930–32, Tómas Pétursson, Alfreð Gíslason og síðan Guðjón Einarsson frá 1934–1938.
Árið 1937 var ákveðið að senda ekki lið til keppni meðal þeirra bestu í elsta aldursflokki, sem nú var farið að kalla meistaraflokk. Í staðinn sendi félagið flokk til keppni í 1. flokki og von Víkinga var sú að góður árangur myndi verða til að vekja áhuga félagsmanna og rífa félagið upp úr þeim öldudal sem það var komið í. Árangurinn varð þó ekki betri en svo að Víkingur varð fyrir neðan miðju. Félagið vann um haustið hraðmót í 1. flokki og efldi sá sigur mjög sjálfstraust Víkinga.
Þorsteinn Ólafsson tannlæknir ólst upp í miðbænum á þeim árum sem fyrstu gullöld Víkings var að ljúka. Þannig minntist Þorsteinn þessara ára: „Ég er fæddur árið 1920 og var sex ára þegar ég byrjaði að æfa hjá Víkingi og þá með yngsta flokki, sem var III. flokkur og spannaði frá smáputtum upp í 13 ára aldurinn. Átta ára keppti ég fyrst með III. flokki félagsins og á því sést frekar hve fáliðað var í sveitum Víkings á þessum árum, en að ég hafi verið svo afburða snjall. Í þriðja flokki vorum við oft með ágætt lið og unnum vormótið 1932 …
Í II. flokki vorum við yfirleitt alltaf burstaðir, okkur fannst ágætt ef við töpuðum ekki meira en 5:0. Víkingur missti hreinlega af heilu aldursflokkunum. Það var ekkert hlúð að þessum strákum, auk þess sem slæm úrslit ár eftir ár fældu stráka frá félaginu. Að Víkingur geispaði hreinlega ekki golunni 1932–1937 vil ég þakka Guðjóni Einarssyni. Félagið átti ekki fyrir bolta, það var engin aðstaða, enginn mannskapur og skrapa varð í lið. Guðjón var það hálmstrá sem Víkingur hékk á. Sem dæmi um mannekluna get ég nefnt sjálfan mig. Aðeins 13 ára gamall lék ég með þremur flokkum. Það kom fyrir að ég mætti til leiks með III. flokki klukkan 10 á sunnudagsmorgni, klukkan 14 hófst leikur með II. flokki og þriðji leikurinn hófst svo klukkan 20.30 með I. flokki.“
1938
Víkingar vildu ekki gefast upp og enn skyldi látið á það reyna hvort félagið gæti eitthvað í fótbolta eða ekki. Segja má að ákveðin endurreisn hafi verið í félaginu í lok fjórða áratugarins, eins og svo varð aftur í lok þess fimmta.
Haustið 1937 fékk Víkingur afnot af Gamla Tjarnarbíói, sem var áður íshús, en var ekki í notkun á þessum árum. Þar var æft á moldargólfi um veturinn undir stjórn Benedikts Jakobssonar. Fyrsti leikurinn vorið 1938 var gegn KR og var leikið í ofsaroki á Melavellinum. Víkingar unnu leikinn 1:0 og skoraði Haukur Óskarsson eina mark leiksins undan vindinum í fyrri hálfleik, en í seinni hálfleik héldu Víkingar hópinn í eigin vítateig og héldu hreinu.
Í viðtali í Víkingsbókinni rifjaði Ólafur Jónsson Flosa upp þennan leik, en það var endurunnið og birt í leikskrá Víkings 2004. Þar segir meðal annars: „Haukur Óskarsson skoraði fyrir Víking undan vindi í fyrri hálfleik og eftir hlé bjuggust menn við stórskotahríð frá KR. En hálfleikurinn leið án þess að mark væri skorað og Víkingar fögnuðu ákaflega. Spennan var þvílík að Guðjón Einarsson, formaður Víkings, og Óli Flosa, gjaldkeri, höfðu ekki taugar til að fylgjast með síðustu mínútum leiksins:
,,Síðasta korterið æddum við Guðjón um gólf í búningsskúrnum án þess að segja orð. Ég mun ekki gera tilraun til að lýsa hugarástandi mínu en stundum hefur flökrað að mér hvort þessar síðustu mínútur kynnu að hafa orðið upphafið að hjartakrankleik þeim sem ég hef búið við síðustu þrjátíu árin,” sagði Ólafur Jónsson Flosa.
Víkingar voru gjarnan kallaðir „óveðursbörnin“ eftir þennan leik, sem var sá leikur sem gömlu Víkingarnir vildu helst minnast frá þessum árum. Víkingur varð að lokum í öðru sæti á Íslandsmótinu þetta ár. Árið 1938 unnu Valsmenn með fimm stig, Víkingar fengu þrjú, Fram og KR tvö stig hvort félag. Góður árangur miðað við árin á undan þegar félagið hafði barist í bökkum.
Árið 1938 hófust æfingar í handbolta í Víkingi og var Garðar S. Gíslason þjálfari.
1939
Íþróttaáhugi var mikill í Reykjavík á árunum fyrir stríð og þúsundir áhorfenda komu á stærstu leikina, fólk hreinlega streymdi á Melavöllinn úr hverfum bæjarins. Sumarið 1939 höfðu flest Reykjavíkurfélögin erlenda þjálfara í sinni þjónustu. Til Víkings kom þá um sumarið Fritz Buchloh, sem á sinni tíð lék 17 landsleiki fyrir Þjóðverja. Haukur Óskarsson skrifaði eftirfarandi um þýska þjálfarann: „Það var ærið starf sem beið hins nýja þjálfara. Knattspyrnulega séð var Víkingur ekki hátt skrifaður, en góður efniviður var fyrir hendi og það var Buchloh fyrir öllu … Æfingar voru stundaðar af miklu kappi … Árangurinn kom fljótt í ljós og menn sáu og viðurkenndu að hér var á ferðinni einhver menntaðasti og dugmesti þjálfari, er til landsins hafði komið. … þessir mánuðir er Buchloh dvaldi hér urðu félaginu ómetanlegir. Það bjó að því í mörg ár …“
Víkingur hafði mjög sterku liði á að skipa sumarið 1939 og þegar aðeins einum leik var ólokið á Íslandsmótinu virtist meistaratign vera innan seilingar. Liðið átti eftir að leika gegn Fram og nægði jafntefli. Víkingar skoruðu í fyrri hálfleik og voru yfir þar til þrjár mínútur voru eftir. Þá jöfnuðu Framarar og skoruðu síðan aftur um leið og klukkan sló. Fram varð meistari með fjögur stig, KR og Víkingur hlutu þrjú og Valur tvö.
Um þessi úrslit hafði Þorsteinn Ólafsson m.a. eftirfarandi að segja: „Þeir hirtu krúsina, en við sátum eftir með sárt ennið. Auðvitað áttum við að tefja leikinn þegar svona lítið var eftir. Að við skyldum tapa tveimur Íslandsmótum þessi ár var einfaldlega okkar græðgi og hugsunarleysi um að kenna. Við héldum, að við værum orðnir svo góðir, að við lögðum rangt mat á leikina.“
Þrátt fyrir vonbrigðin höfðu Víkingar á ný haslað sér völl meðal þeirra bestu, mannekla var ekki lengur vandamál og farið var að taka mark á félaginu að nýju. 1940 vann Valur með fimm stig, Víkingar hlutu fjögur, KR tvö og Fram eitt stig. Jafntefli í síðasta leik gegn Fram var Víkingum erfitt.
Ákveðið hafði verið að farið yrði í keppnisferð til Þýskalands 1939 og yrði liðið skipað leikmönnum þeirra liða sem yrðu í tveimur efstu sætunum á mótinu 1938. Valur varð Íslandsmeistari í knattspyrnu 1938, en Víkingur í öðru sæti. Tólf Valsarar fóru í ferðina, en sex leikmenn frá Víkingi, þeir Björgvin Bjarnason, Brandur Brynjólfsson, Ewald Berndsen, Gunnar Hannesson, Haukur Óskarsson og Þorsteinn Ólafsson. Aðalfararstjóri var Gísli Sigurbjörnsson. Til stóð að leika 4–5 leiki í ferðinni, en vegna ófriðarins varð aðeins af tveimur þeirra, sem töpuðust báðir.
Brandur Brynjólfsson rifjar upp nálægðina við stríðið á eftirfarandi hátt, en íslenska liðið var þá statt í Trier: „Er ég kom niður til morgunverðar einn daginn man ég, að Buchloh var kominn á undan mér og stóð við afgreiðsluborðið á hótelinu. Hann tók þýskt mark upp úr vasa sínum og henti því upp í loftið. Um leið og hann greip peninginn sagði hann: „Þetta er nýja pólska myntin, Brandur, við tókum Pólland í nótt.“ Þannig fékk ég að vita að stríðið væri hafið og þessum morgni í Trier gleymi ég aldrei.“
Á framhaldsaðalfundi 20. mars 1939 var fyrst hreyft hugmyndum um byggingu skíðaskála fyrir Víking. Guðjón Einarsson, þáverandi formaður, sagði frá því að vaknaður væri áhugi á því að félagið tæki fleiri greinar en knattspyrnu á stefnuskrá sína og einna mestur áhugi væri á skíðaíþróttinni. Gunnar Hannesson greindi síðan frá áhuga innan félagsins og umræðum um byggingu skíðaskála. Í máli Sighvats Jónssonar kom fram að að undanfarin ár hefði Víkingur fóðrað önnur íþróttafélög bæjarins á mörgum efnilegum íþróttamönnum vegna þess að félagið væri eingöngu fótboltafélag. Þessar fóðurgjafir þyrfti að stöðva og eina leiðin væri að fjölga íþróttagreinum í félaginu.
Á aðalfundinum nefnir Brandur Brynjólfsson þörf á að félagið eignist „club-house“.