1940 - 1950

BARIST Á ÝMSUM VÍGSTÖÐVUM

Víkingar létu til sín taka á ýmsum vígstöðvum og voru nálægt sigrum á Íslandsmótum í fótbolta í byrjun og lok áratugarins. Tveir Víkingar voru í fyrsta landsliðinu í knattspyrnu árið 1946. Víkingar sendu tvö lið til keppni í fyrsta Íslandsmótinu í handbolta 1940 og skuldlaus skíðaskáli var vígður í Sleggjubeinsskarði 1944. Félagsheimili hafði Víkingur um tíma í bragga við Suðurgötu, en hann var hluti af Trípólíkampinum, sem var braggahverfi frá stríðsárunum.

Víkingsliðið á Melavellinum árið 1950. Liðið lék þar við þýskt úrvalslið, en það var ein fyrsti leikur þýsks liðs á erlendri grundu eftir stríð.

1940

Valur vann sigur á Íslandsmótinu í fótbolta með fimm stig, Víkingar hlutu fjögur, KR tvö og Fram eitt stig. Eins og árið á undan varð jafntefli gegn Fram í síðasta leik Víkingum erfitt. Víkingur varð Reykjavíkurmeistari í fyrsta skipti, en þetta ár var leikin tvöföld umferð á mótinu. Í Reykjavíkurmótinu unnu Víkingar öruggan 4:1 sigur á Val, en Valsmenn voru á þessum árum með mjög sterkt lið. Á annað þúsund áhorfendur voru á Melavellinum og fylgdust með síðasta leik Víkings í mótinu.

Víkingur sá um framkvæmd fyrsta Íslandsmótsins í handknattleik árið 1940 ásamt Val og var mótið haldið í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu, en það var stærsta íþróttahús Reykjavíkur þar til bærinn eignaðist íþróttahúsið á Hálogalandi, sem var gamall braggi. 

Víkingur sendi tvo flokka til keppni á mótinu og varð 1. flokkur félagsins í fjórða sæti fjögurra liða. Það hamlaði árangri Víkinga að nokkrir þeirra léku með liði Háskóla Íslands, sem varð í öðru sæti á mótinu. Þeirra á meðal voru Brandur Brynjólfsson og Björgvin Bjarnason, sem Alexander Jóhannesson, rektor HÍ, bað um að leika með liði Háskólans, því góður árangur í mótinu gæti leitt til þess að framkvæmdum við íþróttahús Háskólans yrði flýtt. Sameinaðir í liði Víkings hefðu Víkingar hugsanlega getað náð alla leið og unnið sigur í mótinu.

Annar flokkur Víkings tapaði úrslitaleik á mótinu gegn Val. Leikurinn var sögulegur því er síðari hálfleikur var nýlega hafinn tók sólin að skína í öllu sínu veldi og sendi geisla sína í gegnum glugga og beint á móti markverði Víkings. Hvert skotið af öðru lenti í netinu fyrir aftan markmanninn sem var blindaður af sólinni. Þannig skoruðu Valsmenn sex mörk án þess að við nokkuð yrði ráðið og leikurinn tapaðist.

 

Reykjavíkurmeistarar Víkings árið 1940. Aftari röð frá vinstri: Vilberg Skarphéðinsson, Ólafur Jónsson, Haukur Óskarsson, Brandur Brynjólfsson, Guðjón Einarsson, Ingólfur Isebarn, Hreiðar Jónsson. Fremri röð: Einar Pálsson, Gunnar Hannesson, Ewald Berndsen, Ingvar N. Pálsson, Skúli Ágústsson og Þorsteinn Ólafsson.

Árið 1941 sendu háskólamenn ekki lið, en nokkrir úr þeirra hópi léku með Víkingi. Allt kom fyrir ekki, Víkingur tapaði fyrir Val og varð í öðru sæti. 2. flokkur tapaði báðum leikjum sínum.

Árið 1942 varð Víkingur enn í öðru sæti, tapaði úrslitaleik fyrir Val. Handknattleiksráð Reykjavíkur var stofnað 1942 og var Þorlákur Þórðarson fyrsti fulltrúi Víkings í ráðinu. Íþróttin var talsvert frábrugðin því sem nú þekkist og sex leikmenn inni á hverju sinni.

1941–1947

Undiralda var í félaginu fram eftir fimmta áratugnum og oft voru átök á aðalfundum. Á aðalfundi 1938 var Gunnar Hannesson kosinn formaður, en hann hlaut 17 atkvæði á fundinum eins og Guðjón Einarsson. Að svo búnu tilkynnti Guðjón fundarmönnum að hann drægi sig til baka. Með Gunnari í stjórn voru kosnir nokkrir af fræknustu knattspyrnumönnum Víkings á þessum árum, þeir Brandur Brynjólfsson, Þorsteinn Ólafsson, Sighvatur Jónsson, Ólafur Jónsson, Thor Guðmundsson og auk þeirra Ólafur Jónsson (Flosa) sem kosinn var gjaldkeri félagsins. Stjórnin gekk undir nafninu knattspyrnumannastjórnin og blés hún nýju lífi í starf félagsins.

Guðjón Einarsson var á ný kosinn formaður á aðalfundi 1939, einnig 1940 og enn í nóvember 1941, en hann sagði síðan af sér í febrúar 1942 og tók Ólafur Jónsson (Flosa) þá við formennsku. Guðjón varð síðan aftur formaður 1942 og 1943. Gunnar Hannesson var kjörinn formaður á aðalfundi 1944 þó svo að hann bæðist eindregið undan því og tók Þorbjörn Þórðarson við formennsku á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. 

Formannsskipti urðu síðan árlega á næstu árum: Gísli Sigurbjörnsson 1945, Brandur Brynjólfsson 1946, Þorlákur Þórðarson 1947, Ingvar N. Pálsson 1948 og síðan Haukur Eyjólfsson frá því í nóvember 1948 og fram í febrúar 1952. Áberandi í starfinu á þessum árum voru þeir Guðjón Einarsson og Ólafur Jónsson (Flosa), ólíkir menn, sem áttu það sameiginlegt að vilja veg Víkings sem mestan. Þeir voru báðir útnefndir heiðursfélagar í Víkingi á sjötta áratugnum.

Athygli vekur, þegar gömlum blöðum er flett, að á aðalfundi árið 1942 lagði Agnar Ludvigsson til að stjórnin athugaði möguleika á því að félagið eignaðist í framtíðinni sína eigin íþróttabækistöð í Reykjavík.

Árangur félagsins á knattspyrnusviðinu á þessum árum varð sá að árið 1941 varð meistaraflokkur í þriðja sæti í fimm liða keppni, 1942 í fjórða til fimmta sæti fimm liða, árið 1943 sendi Víkingur ekki lið, árið 1944 sendu aðeins Reykjavikurliðin fjögur lið til keppni á Íslandsmóti og varð Víkingur í þriðja sæti, 1945 varð félagið í þriðja til fjórða sæti fjögurra liða, 1946 í fjórða sæti sex liða og loks í fjórða til fimmta sæti fimm liða árið 1947. Í kjölfarið tóku við nokkur betri ár og segja má að ákveðin endurreisn hafi verið í félaginu í lok fimmta áratugarins. Betur gekk á fótboltavellinum, handboltamenn Víkings voru að hasla sér völl og kraftur var í starfi skíðadeildar í Sleggjubeinsskarði. 

1943

Í Víkingi hafði handknattleikur verið iðkaður frá árinu 1938 og bygging skíðaskála var hafin í Sleggjubeinsskarði. Byggingu skíðaskála fyrir Víking mun fyrst hafa verið hreyft á framhaldsaðalfundi félagsins í mars 1939. Byrjað var á framkvæmdum við skíðaskála í júlímánuði 1942, en þá var búið að ganga frá samningum um svæðið í Sleggjubeinsskarði við ÍR, sem hafði yfirráð yfir því, og vinna teikningar að skálanum. 

Baldur Bergsteinsson, mikill stuðningsmaður félagsins og síðar heiðursfélagi, rifjaði það upp í 70 ára afmælisblaði Víkings að ungir knattspyrnustrákar hefðu dvalið eina viku sumarið 1943 við Kolviðarhól. Fyrir hádegi unnu þeir að byggingu skíðaskálans, en eftir hádegi æfðu þeir og spiluðu fótbolta. 

Á aðalfundi 11. nóvember 1943 bar Brandur Brynjólfsson upp tillögu um að starfsemi félagsins yrði skipt upp í þrjár deildir eða nefndir, knattspyrnudeild, skíðadeild og deild handknattleiks og frjálsra íþrótta. Tillagan var samþykkt og á framhaldsaðalfundi 22. nóvember 1943 voru stjórnir kjörnar. Fyrstu formenn deilda voru kosnir Haukur Óskarsson í fótbolta, Brandur Brynjólfsson í handbolta og Gunnar Hannesson í skíðadeild, en Gunnar leiddi skíðastarfið frá upphafi í kringum 1940. Formaður félagsins þetta starfsár var Þorbjörn Þórðarson, en hann tók við er Gunnar Hannesson sagði af sér formennsku í félaginu á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar. Þorbjörn Þórðarson hannaði merki félagsins, sem þykir stílhreint og fallegt.

Víkingur vann í fyrsta skipti sigur í handknattleiksmóti er félagið vann Val 7:6 í úrslitaleik á vormóti Ármanns. Síðar um sumarið var haldið mót í handbolta á Melavellinum og bar Víkingur sigur úr býtum. Ellefu manns voru í hverju liði og var leikskipulagið frekar í ætt við knattspyrnu en handknattleik.

Víkingur bar sigur úr býtum í keppni 11 manna handknattleiksliða á Melavellinum sumarið 1943. Aftari röð frá vinstri: Einar Pálsson, Baldur Bergsteinsson, Ingólfur Isebarn, Brandur Brynjólfsson, Þorlákur, Þórðarson og Pálmi Möller. Fremri röð: Hafsteinn Sigurjónsson, Gunnlaugur Lárusson, Anton Sigurðsson, Benedikt Antonsson og Ingvar N. Pálsson.

1944

Skíðaskáli Víkings í Sleggjubeinsskarði var vígður 29. október 1944 að viðstöddum mörgum gestum. Á aðalfundi Víkings 31. október 1944 er eftirfarandi skráð í fundargerð: „Alexander Jóhannsson, formaður skíðanefndar skýrði þvínæst frá byggingu skíðaskálans og rakti sögu hennar nokkuð … Að lokum afhenti hann formanni skálann fullgerðan og skuldlausan. – Var ræðu hans tekið með dynjandi lófaklappi … Agnar Ludvigsson, gjaldkeri skíðanefndar, gaf síðan skýrslu um kostnað við bygginguna, gerði grein fyrir reikningshaldi öllu og las athugasemdir endurskoðanda. … Bað hann fundarmenn að lokum að klappa fyrir þeim Thor Hallgrímssyni og Gunnari Hannessyni …“ Gunnar var formaður skíðanefndar framan af byggingartímanum, en við af honum sem formaður tók Alexander Jóhannsson.

Í Morgunblaðinu segir: „Skálinn stendur á mjög fallegum stað við bestu skíðabrekkur og það er ekki meira en 15 mínútna gangur upp í Innstadal, en þar er, sem kunnugt er, besta skíðaland í nágrenni Reykjavíkur. Frágangur skálans er allur hinn vandaðasti. Hafa nokkrir Víkingsfjelagar sýnt fádæma dugnað við að koma skálanum upp og margir velunnarar fjelagsins hafa sýnt fórnfýsi og lagt til bæði vinnu og fjárframlög til skálabyggingarinnar.“

Skíðaskáli Víkings í Sleggjubeinsskarði var vígður 29. október 1944.

1945

Fyrsta Reykjavíkurmótið í handknattleik fór fram árið 1945 í bragga á Hálogalandi, en hann var áður í eigu bandaríska hersins og kallaðist þá Andrew’s Hall. Víkingur sendi tvö stúlknalið til keppni á þessu móti, auk karlaliða.

Þetta ár var Íslandsmótið í handbolta haldið í síðasta sinn í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar og var það í fjölda ára á eftir haldið á Hálogalandi. Þótti það mikil breyting að komast í svo stórt hús sem bragginn á Hálogalandi þá þótti vera.

Meistaraflokkur Víkings í knattspyrnu um 1945. Efri röð frá vinstri: Eiríkur Bergmann, Einar Pálsson, Bjarni Guðnason, Helgi Eysteinsson, Ingvar N. Pálsson, Gissur Gissurarson. Neðri röð: Gunnlaugur Lárusson, Guðmundur Samúelsson, Gunnar Símonarson, Svavar Þórhallsson, Baldur Bergsteinsson.

1946

Íslenskt landslið í knattspyrnu var valið í fyrsta skipti og lék gegn Dönum á Melavellinum 17. júlí 1946, en leikurinn tapaðist 0:3. Knattspyrnuráð Reykjavíkur sá um að velja liðið í samvinnu við enska þjálfarann Frederick Steele, en um tíma stóð til að Fram yrði gestgjafi danska landsliðsins. Víkingurinn Brandur Brynjólfsson var fyrirliði fyrsta landsliðsins, Haukur Óskarsson var einnig í landsliðinu og lék allan leikinn gegn Dönum og Anton Siugurðsson, varamarkvörður úr Víkingi, kom inn á þegar um stundarfjórðungur lifði leiks. Þátttaka Brands í leiknum var reyndar skammvinn þar sem hann þurfti að fara af velli eftir um fimm mínútna leik vegna meiðsla sem hann hlaut á æfingasvæði landsliðsins við Kolviðarhól. 

Brandur lék knattspyrnu með Víkingi frá 1933–1947 og var lengi fyrirliði liðsins, en 17 ára gamall hafði hann skipt úr Fram yfir í Víking. Brandur var valinn knattspyrnumaður Reykjavíkur 1938 í skoðanakönnun sem Alþýðublaðið stóð fyrir. Hann þótti einnig snjall handknattleiksmaður, átti bestan árangur í spretthlaupum á tímabili og hljóp 100 metra á 10,9 sekúndum. Hann var auk þessa sundmaður góður. Einnig fékkst Brandur við þjálfun og árið 1940 þjálfaði hann alla flokka Víkings. 

Landslið Íslands í knattspyrnu 1946. Haukur Óskarsson er fimmti frá vinstri í eftir röð.
Landslið Íslands á æfingu á Arsenal leikvellinum árið 1946. Frá vinstri: Einar Pálsson, Snorri Jónsson, Jón Ó. Jónasson, Ólafur Hannesson, Birgir Guðjónsson, Karl Guðmundsson, Þórhallur Einarsson, Kristján Ólafsson, Gunnlaugur Lárusson og Sigurður Ólafsson.

Í Morgunblaðinu var greint frá fyrsta landsleiknum strax daginn efir  og sagði þar meðal annars:  „Íslendingar töpuðu fyrsta landsleiknum í knattspyrnu, sem þeir háðu, eins og vonlegt var og búist hafði verið við, en ekki er annað hægt að segja, en við getum vel við úrslitin unað. Mörkin hefðu hæglega getað orðið mun fleiri, en hins vegar voru okkar menn óhepnir að skora ekki í fyrra hálfleik, þegar þeim buðust allmörg góð tækifæri….

Þegar um kl. 6 í gær fóru fyrstu áhorfendurnir að koma á völlinn og þegar leikurinn hófst hafa þeir sjálfsagt verið uppundir 10 þúsund. Forseti íslands kom á völlinn kl. 8,10 og skömmu síðar liðin. Voru flutt tvö stutt ávörp og Dönunum fagnað með húrrahrópum. Þá ljek lúðrasveit þ]óðsöngva…“ 

Fyrstu Íslandsmeistarar Víkings í handknattleik, II. flokkur karla, sem vann bæði Íslands- og Reykjavíkurmót árið 1946. Aftari röð frá vinstri: Ingimundur Pétursson, Hallur Símonarson, Jóhann Gíslason, Bjarni Guðnason. Fremri röð: Einar Jóhannsson, Sveinbjörn Dagfinnsson og Árni Árnason.

2. flokkur karla færði Víkingi árið 1946 fyrsta sigurinn á Íslandsmóti í handbolta, en liðið hafði einnig staðið sig mjög vel á Reykjavíkurmótinu um haustið. Í liðinu voru Ingi Þorsteinsson, Hallur Símonarson, Jóhann Gíslason, Bjarni Guðnason, Einar Jóhannsson, Sveinbjörn Dagfinnsson og Árni Árnason. Víkingur tapaði gullverðlaunum í 1. flokki í Íslandsmótinu þar sem félagið hafði notað þrjá leikmenn úr 2. flokki. Meistaraflokki gekk illa þennan vetur, en á vormóti Ármanns sigraði Víkingur öðru sinni.

Skriður komst á umræður um þörfina á því að Víkingur eignaðist sitt eigið félagsheimili. Í aðalfundargerð 1946 er eftirfarandi haft eftir Brandi Brynjólfssyni, formanni félagsins: „Einnig gat hann þess að félagið hefði fengið loforð um landspildu sunnan Háskólans fyrir íþróttasvæði og hefði tekið á leigu fyrrverandi „Iglo Officers Club“ í Camp Tripoli fyrir félagsheimili.“ 

Bragginn var hluti af svokölluðum Trípólíkamp, sem var braggahverfi frá stríðsárunum og stóð umhverfis Loftskeytastöðina á Melunum og þar vestur af, annars staðar er staðsetningu braggans lýst þannig að hann hafi staðið á Grímsstaðaholti við Fálkagötu. Grímsstaðaholt er skilgreint sem svæðið sunnan Mela og Haga og vestan Vatnsmýrar og Skerjafjarðar. Það er kennt við býlið Grímsstaði sem stóð þar sem síðar reis Ægisíða 62.

Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum landsins í seinni heimsstyrjöldinni sameinuðu þeir í einn tvo breska kampa, Camp Camberley og Crownhill Camp, og kölluðu hann Tripoli Camp. Í einum bragganna, sem kallaðist Tripoli-theater og var reistur 1941, starfaði Trípólíbíó á árunum 1947–1962. Tónlistarfélag Reykjavíkur rak kvikmyndahús þarna þar til Tónabíó var tekið í notkun við Skipholt árið 1962.

1947

Knattspyrnusamband Íslands var stofnað og var Víkingurinn Agnar Klemens Jónsson kosinn fyrsti formaður KSÍ. Íþróttasamband Íslands hafði staðið gegn stofnun slíks sérsambands. Agnar var lengi sendiherra og ráðuneytisstjóri og í minningabrotum sínum kallaði Ólafur Jónsson Flosa hann einn af gullaldarmarkvörðum Víkings.

Í handbolta varð Víkingur bæði Reykjavíkur- og Íslandsmeistari í 2. flokki 1947 og Íslandsmeistara átti félagið einnig í 1. flokki. 

Aðalfundargerð frá 1947 hefst á þessum orðum: „Aðalfundur Knattspyrnufélagsins Víkingur var haldinn 10. nóvember 1947 í hinu nýja félagsheimili félagsins í Camp Tripol.“ Þá er rakið mál Þorláks Þórðarsonar, formanns félagsins, og kemur fram að „mikilsverðasta verk stjórnar sinnar kvað formaður vera félagsheimilið“ og við það væru bundnar framtíðarvonir og áætlanir. Félagsheimilið var ekki lengi notað af Víkingum, en það var um tíma athvarf fyrir félagslega starfsemi Víkings. Þar voru m.a. framhaldsaðalfundur 1947, jólafagnaður 1947, aðalfundur 1948, afmælishóf á 40 ára afmælinu 1948, nokkur skemmtikvöld veturinn 1947–48 í samvinnu við Fimleikafélag Hafnarfjarðar og ýmislegt fleira fór fram í bragganum.

Á þessum árum var Háskólavöllurinn mikið notaður til æfinga, en Melavöllurinn var helsti vettvangur fyrir leiki þeirra fullorðnu. Yngri iðkendur í Víkingi æfðu einnig og kepptu á fótboltavelli á Grímsstaðaholtinu. Þar var Knattspyrnufélagið Þróttur stofnað árið 1949.

Baldur Bergsteinsson, Þorlákur Þórðarson, Helgi Eysteinsson og Gunnar Símonarson gáfu Víkingi félagsfána, sem var í notkun næstu áratugi, en er nú geymdur í skáp í félagsheimilinu í Víkinni. Merki Víkings hannaði Þorbjörn Þórðarson málarameistari, sem um tíma var formaður félagsins.

Ungir Víkingar í félagsheimilinu í bragganum á Grímsstaðaholtinu haustið 1947. Ingvar N. Pálsson, þáverandi formaður félagsins, aftast til vinstri.
Meistaraflokkur Víkings í handbolta 1947. Efri röð frá vinstri: Ágúst Jónsson, Bjarni Guðnason, Brandur Brynjólfsson, Hafsteinn Sigurjónsson. Fremri röð: Guðmundur Magnússon, Anton Sigurðsson og Baldur Bergsteinsson.

1948

Þetta ár náði Víkingur betri árangri í fótbolta en um árabil og varð í öðru sæti í Íslandsmótinu. Fjögur lið tóku þátt í mótinu, KR fékk fimm stig, en Víkingur fjögur. Leikur Víkings og KR í mótinu var sögulegur og lengi til umræðu manna á meðal. KR skoraði í fyrri hálfleik og gegn gangi leiksins fengu þeir vítaspyrnu í seinni hálfleik en skotið fór í stöng. Hiti var í leikmönnum og áhorfendum. Leikurinn þótti mjög harður og á stundum grófur og dómarinn hafði ekki mikil tök á honum.

Á 80. mínútu leiksins skoraði Bjarni Guðnason fyrir Víking, en KR-ingar töldu að knötturinn hefði ekki farið inn fyrir línuna. Dómarinn stóð fastur á sínu og gerðu KR-ingar sig líklega til að ganga af velli. Þeim snerist þó hugur og lauk leiknum með jafntefli. KR vann aðra andstæðinga sína á mótinu, en eins og áratug fyrr gerði Víkingur jafntefli við Fram og tapaði því einu stigi meira en KR-ingar. Í leiknum gegn Fram skoraði Bjarni Guðnason fyrir Víking, en Ríkharður Jónsson fyrir Fram. 

Víkingur átti engan samastað fyrir starfsemi sína fyrstu áratugina, að skíðaskálanum í Sleggjubeinsskarði undanskildum. Fundarstaðir voru margir og og margvíslegir. Sem dæmi um aðstöðuleysið má lesa eftirfarandi í fundargerð frá 1948: „Fundur haldinn í bílnum R-2438, mættir eru …“

II. flokkur Víkings árið 1948.

1949

Víkingum gekk nokkuð vel framan af Íslandsmótinu í fótbolta og unnu Fram 4:2 nokkuð óvænt í fyrsta leik sínum í mótinu, töpuðu síðan 3:1 fyrir KR og unnu síðan Skagamenn 1:0. Fram og KR voru með fimm stig og höfðu lokið leikjum sínum í mótinu. Víkingar voru með fjögur stig og áttu eftir að spila við Val, sem var með tvö stig.

Í auglýsingu fyrir leikinn við Val í Morgunblaðinu sagði: „… klukkan 8.30 í kvöld verða Víkingar meistarar eftir 25 ára baráttu.“ Bjarni Guðnason skoraði fyrir Víking strax í upphafi leiksins, sem fór fram á Melavellinum í „suðaustan stormi“ eins og sagði í Morgunblaðinu. Valur jafnaði í fyrri hálfleik og skoraði síðan tvívegis í þeim seinni. Leikurinn tapaðist 3:1, Víkingar sátu eftir með sárt ennið og máttu enn bíða í 32 ár eftir því að endurtaka afrekið frá 1924.

Aðalfundur Víkings 1949 var ekki haldinn í bragganum í Trípólí-kampi heldur í VR-húsinu. Haukur Eyjólfsson formaður sagðist ekki vilja tala um gamla félagsheimilið, fráfarandi stjórn hefði gengið frá þeim málum á vel viðunandi hátt. Aftur á móti væri það starf næstu stjórnar að koma á framkvæmdum við byggingu hins nýja félagsheimilis á svæði því sem Reykjavíkurbær hefði úthlutað, en ekki fengist formlega afhent vegna tafa frá ÍBR. Þarna er Haukur væntanlega að vísa til áforma um gerð knattspyrnuvallar og byggingu félagsheimilis í Skerjafirði. 

Þorlákur Þórðarson segir í Víkingsbókinni að endurbætur í bragganum hafi verið gerðar af vanefnum. „Við höfðum ekki ráðið við að klæða braggann að utan og hann fór því fljótlega að mígleka, það voru vandræði með upphitun og að að því kom að við misstum þetta félagsheimili út úr höndunum á okkur. Borgin tók við bragganum að nýju og hann var að lokum rifinn … Þetta ævintýri færði okkur þó heim sanninn um það að, Víkingur yrði að eiga sér samastað …“ 

Um félagsheimilið í bragganum segir Bjarni Guðnason í Víkingsbókinni: „Þá gerðu Víkingar þá skyssu að tryggja sér aðstöðu í ónýtum bragga vestur á Grímsstaðaholti. Vissulega var þetta gert af góðum hug, en það tafði fyrir því að Víkingur kæmi sér upp raunverulegu félagsheimili.“

1950

Um stöðu Knattspyrnufélagsins Víkings í kringum 1950 skrifaði Ólafur Jónsson (Flosa) m.a. í minningabrotum sínum: „Af hverju þessi endalausa lægð? Þetta höfðu hinir vitrustu menn brotið heilann um allt frá 1930 … Okkur spekingunum hafði ætíð yfirsézt aðalvandamálið, ég vil segja eina vandamálið. Við höfðum grafið of djúpt, það lá nefnilega á yfirborðinu, rétt við tærnar á okkur, og 20 árum hafði verið eytt í að berjast við vindmyllur. Við áttum nóg af forystumönnum. Okkur vantaði íþróttafólk í öllum aldursflokkum. Vandamál Víkings var mannfæð.“ Ólafur bendir á að allt starf félagsins hafi á einn eða annan hátt verið tengt miðbænum, sem hafi smátt og smátt verið að tæmast af lifandi fólki.

Víkingar urðu í þriðja til fimmta sæti fimm liða á Íslandsmótinu í fótbolta.

Mynd úr leik Víkinga gegn þýsku úrvalsliði 1950.
Reykjavíkurmeistarar í 2. flokki í knattspyrnu 1950. Aftari röð frá vinstri: Ásgeir Magnússon, Sigurður Jónsson, Gissur Gissurarson, Símon Símonarson, Björn Kristjánsson, Ægir Jónsson. Fremri röð: Einar Pétursson, Benedikt Árnason, Ólafur Eiríksson, Axel Einarsson, Eiríkur Helgason.
Loka efnisyfirliti