Afrekskonur í fararbroddi

Íslands- og bikarmeistarar Víkings í handknattleik kvenna árið 1992.

Íslandsmeistarar í handknattleik þrjú ár í röð

Kvennalið Víkings í handknattleik var stórveldi á níunda áratugnum. Þrjú ár í röð, frá 1992 til 1994, varð Víkingur Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari. Einn af burðarásunum í þessu liði og lengi fyrirliði var Inga Lára Þórisdóttir, og það vefst ekki fyrir henni að nefna nokkur atriði, sem voru að baki glæstum árangri þessi ár:

„Gott starf í yngri flokkunum, sterkur hópur leikmanna, góðir þjálfarar, nýtt og glæsilegt íþróttahús troðfullt af fólki og öll umgjörðin í Víkinni gerðu þetta að ótrúlega skemmtilegu og árangursríku tímabili,“ sagði Inga Lára í viðtali við Söguvefinn þegar hún horfði aldarfjórðung til baka, en viðtalið var tekið í janúar 2017.

Vildu faðma okkur og þakka

„Fótboltastrákarnir höfðu orðið Íslandsmeistarar haustið 1991 og íþróttahúsið var tekið í notkun nokkrum vikum seinna,“ rifjar Inga Lára upp. „Það var rosalega mikið í gangi hjá Víkingi, allir mjög spenntir og margt fólk í kringum starfið. Menn vissu að það bjó mikið í kvennaliði Víkings og þennan vetur, 1991–92, small allt saman og við urðum Íslandsmeistarar í fyrsta skipti eftir oddaleik við Stjörnuna í Garðabæ.

Úrslitakeppni hafði ekki farið fram áður í kvennaboltanum og hún sneri bókstaflega öllu við, áhugi á kvennaboltanum fór fram úr öllu sem áður þekktist. Það var troðfullt í íþróttahúsunum á báðum stöðum og algjör kúvending á athygli, eitthvað sem engan óraði fyrir. Gamlir Víkingar voru geðveikislega glaðir og ánægðir með okkur og alls konar fólk, sem ég þekkti ekki neitt og hafði aldrei séð áður, vildi faðma okkur og þakka. Þennan vetur unnum við líka bikarkeppnina þannig að Víkingur var rækilega kominn á blað og við vorum flaggskip félagsins.“

Inga Lára segir að góð breidd hafi verið í Víkingshópnum þennan fyrsta vetur, en eftirtaldir leikmenn hafi verið áberandi auk hennar: Sigrún Ólafsdóttir, Heiða Erlingsdóttir, Andrea Atladóttir úr Vestmannaeyjum, Halla María Helgadóttir, Svava Sigurðardóttir, sem kom úr ÍR, og Svava Ýr Baldvinsdóttir. Einnig nefnir hún Matthildi Hannesdóttur, Jónu Hildi, Valdísi Birgisdóttur og Hjördísi Guðmundsdóttur, en Inga Lára segir stórhættulegt að nefna nöfn í þessu sambandi því hætta sé á að einhverjar gleymist.

Sigri fagnað.

Á næstu árum bættust við öflugir leikmenn eins og Hulda Bjarnadóttir, Helga Torfadóttir, Kristín Guðmundsdóttir og Íris Sæmundsdóttir, en talsverðar breytingar urðu á leikmannahópnum frá ári til árs. Oft voru landsliðsmenn í nánast hverri stöðu í liðinu.

Víkingsliðið 1993 var tilnefnt sem eitt af sjö bestu handboltaliðum Íslands í kvennaflokki í sjónvarpsþáttum Ríkissjónvarpsins um handboltann á Íslandi sem sýndir voru árið 2015, en kvennalið Fram 1985 bar síðan sigur úr býtum. Víkingsliðið tapaði ekki leik í deildarkeppninni þetta ár og varð Íslandsmeistari eftir öruggan sigur á Stjörnunni í úrslitum. Inga Lára segir að vissulega hafi liðið verið sterkt þennan vetur og einkennst af einstaklega góðri liðsheild. Þetta Íslandsmeistaralið hafi þó kannski ekki verið sterkasta liðið á pappírnum af þeim þremur liðum sem unnu titlana þrjú ár í röð.

Þennan vetur var Víkingur hins vegar með erlendan markmann, sem Inga Lára segir að hafi vægast sagt verið sérstakur íþróttamaður. „Marja Samandizja var í marki hjá okkur og átti stóran þátt í velgengninni. Hún var löt og hreyfði sig sem allra minnst og reykti eins og strompur. Hún var ótrúlega seig og las leikinn og andstæðingana einstaklega vel. Svo var hún algjör Grýla í vítaköstum,“ segir Inga Lára og hlær að minningunni.

Stelpurnar við sama borð og strákarnir

Hún segir að þjálfarar Víkings þessi þrjú ár hafi verið mjög góðir og eigi stóran þátt í velgengninni, en það voru þeir Gústaf Björnsson og síðan Theódór Guðfinnsson. „Við æfðum mikið og Gústaf setti það sem skilyrði þegar hann tók við haustið 1990 að meistaraflokkar karla og kvenna sætu við sama borð og myndu deila bestu æfingatímunum. Fram að því hafði kvennaliðið alltaf mætt afgangi og fengið síðri æfingatíma en strákarnir. Við fengum búninga og skó eins og strákarnir og við höfðum ekki jafn mikið á tilfinningunni að við værum settar skörinni lægra.

Sterkt kvennaráð stóð með okkur og það voru allir samtaka um að koma kvennaboltanum á hærra plan. Við æfðum alltaf á laugardagsmorgnum og fengum okkur síðan morgunmat saman í Víkinni. Þetta gafst mjög vel og þjappaði hópnum saman. Öll umgjörðin í kringum liðið var mjög góð og fínt fólk í kringum þetta öll meistaraárin.“

En Róm var ekki byggð á einum degi og talsverður aðdragandi var að sigrum Víkingsstúlkna. Þær höfðu komist í úrslit bikarkeppninnar 1981 en tapað og stóru titlarnir látið bíða eftir sér. Ár eftir ár hafði starfið í yngri flokkunum hins vegar skilað titlum og smátt og smátt var Víkingsliðið tilbúið í slaginn með öflugan hóp, sem að mestu var uppalinn í félaginu.

Stóra skrefið stigið

„Þorsteinn Jóhannesson á stóran þátt í uppbyggingu kvennahandboltans í Víkingi og reyndar líka fótbolta kvenna, en það er önnur saga,“ segir Inga Lára. „Steini var meira og minna með þetta þegar ég var í yngri flokkunum þó svo að fleiri kæmu við sögu, eins og Pétur Bjarnarson, Anna Vignir og Bogdan að einhverju leyti. Mínir jafnaldrar, 67-árgangurinn, urðu Íslandsmeistarar í yngri flokkunum og árgang eftir árgang var Víkingur með marga flokka í fremstu röð. Langflestar komu stelpurnar úr gamla Víkingshverfinu, Bústaða-, Smáíbúða- og Fossvogshverfi, en sjálf er ég alin upp í Hlíðagerði 1. Svo kom líka talsvert af krökkum í Víking úr Breiðholtinu og oft var það vegna þess að foreldrarnir voru uppaldir Víkingar og vildu að börnin yrðu einnig Víkingar.

Í yngri flokkunum æfðum við aðallega í Réttó og svo í Höllinni þegar við urðum eldri, en á þessum árum fóru miklu fleiri stelpur í handbolta en núna. Víkingur varð oft Íslandsmeistari í yngri flokkunum og það var mikil samfella í starfinu, en við vorum nokkrar í meistaraflokki sem þjálfuðum yngri flokkana af miklum eldmóð. Þegar við komum fyrst í meistaraflokk töpuðum við oft stórt gegn sterkustu liðunum. Þessi barátta hlaut þó að enda með sigri í meistaraflokki. Að því kom að hópurinn var orðinn nægilega stór og sterkur þegar 71-árgangurinn kom upp í meistaraflokk og 1992 stigum við stóra skrefið og fórum alla leið.“

14 sentimetrar með tilheyrandi vaxtarverkjum

Það blasti ekki alltaf við að Inga Lára yrði afburða leikmaður í handbolta. Hún mætti fyrst á æfingu með meistaraflokki aðeins 13 ára gömul og var látin standa eins og „statisti“ í vörn. Bogdan stjórnaði æfingunni og hafði á orði að stelpan myndi aldrei ná langt í handbolta. Hún væri einfaldlega of stutt í annan endann! Á því varð breyting á næstu tólf mánuðum því þá lengdist Inga Lára um heila 14 sentimetra með tilheyrandi vaxtarverkjum, eins og hún orðar það sjálf.

Upphafið var þó ekki í Víkingi heldur á handboltavelli á malbikinu við Breiðagerðisskóla. Í hverjum einustu frímínútum í tvo vetur fóru krakkar úr tveimur árgöngum út á skólalóð ef veður leyfði og spiluðu handbolta, stelpur og strákar saman. Dómari úr hópnum var með flautu og í dómarapeysu. „Þarna kviknaði handboltaáhuginn og svo fór þessi krakkahópur á Víkingsleiki niður í höll til að horfa á karlalið Víkings í handbolta, sem var afburðagott þegar við vorum að alast upp, og fyrirmyndir okkar,“ segir Inga Lára.

Inga Lára var aðeins 15 ára þegar hún byrjaði að þjálfa og sinnti þjálfun lengst af sínum keppnisferli. Í fyrsta hópnum sem hún þjálfaði voru stelpur fæddar 1971, meðal annarra Halla María Helgadóttir, Hjördís Guðmundsdóttir og Heiða Erlingsdóttir. Inga Lára tók síðan íþróttakennarapróf og fór árið 1994 í framhaldsnám í Noregi í íþróttafræðum og sérkennslu og spilaði jafnframt með Refstad í Osló. Heim kom hún aftur 1998 og þjálfaði þá og lék með Víkingsliðinu í tvö ár. 1998 komst Víkingur í úrslit bikarkeppninnar en tapaði.

Eftir meistaraárin þrjú hafði Víkingur áfram mjög sterku liði á að skipa á tíunda áratugnum. Krafturinn sem hafði einkennt starfið dvínaði  er kom fram yfir aldamót og svo fór að Víkingur féll niður í aðra deild vorið 2006.

Áhyggjur af f kvennahandboltanum

Þegar leið á tíunda áratuginn fóru að koma brestir í starfið í yngri flokkum stelpna. Þar kennir Inga Lára meðal annars um áhugaleysi erlends þjálfara, sem lék með meistaraflokki karla, og segir að þrír árgangar hafi tapast að verulegu leyti. „Ég, Svava Ýr og Jóna Hildur vorum alltaf að þjálfa samhliða því að æfa sjálfar og fórum síðan í Íþróttakennaraskólann. Við lögðum metnað okkar í þjálfun yngri flokkanna og þar verður að leggja grunninn svo endurnýjun og samkeppni verði í elsta hópnum. Það verður erfiðara að ná upp áhuga þegar vantar fyrirmyndir í félaginu,“ segir Inga Lára.

Hún segist hafa áhyggjur af framtíð kvennahandboltans í Víkingi. Fáar ungar stelpur séu að æfa og þeim hafi farið fækkandi síðustu ár. Á sama tíma og fótboltinn hafi náð að skipuleggja sig og hafi orðið markvissari í uppbyggingu hafi handboltinn setið eftir. Inga Lára segist velta fyrir sér auknu samstarfi handbolta og fótbolta í félaginu. Hvort það gæti ekki verið styrkur fyrir báðar deildir að vera saman með boltaæfingar fyrir yngstu aldurshópana, meiri alhliða þjálfun sé bara af hinu góða. Þegar iðkendur eldist finni þeir sér sinn eigin farveg eða áhugasvið, hvort sem það er knattspyrna, handbolti eða eitthvað annað. Tvær sterkar deildir hljóti alltaf að vera styrkur fyrir félagið.

Í fremstu röð

Inga Lára var kosin handknattleikskona ársins vorið 1993 í lokahófi handknattleiksfólks og árið eftir hlaut Víkingurinn Heiða Erlingsdóttir þessa nafnbót. Við kjör íþróttamanns ársins í janúar 1994 hlaut Inga Lára 10 stig og varð í nítjánda sæti á milli ekki ómerkari íþróttamanna en Sigurðar Sveinssonar, Arnórs Guðjohnsen og Bjarna Friðrikssonar. Inga Lára var kosin Íþróttamaður Víkings 1993, og 1996 varð Halla María Helgadóttir fyrir valinu.

Inga Lára lék 62 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 131 mark, Halla María Helgadóttir lék 66 landsleiki og skoraði 273 mörk, Heiða Erlingsdóttir lék 50 landsleiki og skoraði 77 mörk, Svava Sigurðardóttir 59 leiki og Svava Ýr Baldvinsdóttir 48 leiki, svo nokkrar af landsliðskonum Víkings séu nefndar.

Á 100 ára afmæli Víkings 21. apríl 2008 birti Morgunblaðið viðtal við Höllu Maríu Helgadóttur og segir í upphafi þess að Halla María sé einhver mesta skytta sem komið hafi fram í íslenskum kvennahandknattleik. Rifjað er upp að hún hafi byrjað ung í meistaraflokki Víkings í kringum 1987, eða aðeins fimmtán ára gömul, og hafi verið orðin lykilmaður í liðinu þegar félagið varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð, 1992–1994.

Eftirminnileg úrslitarimma 1992 

„Þetta voru sterkir árgangar af leikmönnum fæddum 1971 og 1972. Við unnum mikið af titlum í yngri flokkum. Við Heiða Erlingsdóttir vorum teknar fyrstar inn í meistaraflokkinn en maður spilaði svo sem ekki mikið til að byrja með. 1992 var í fyrsta skipti spiluð úrslitakeppni og við unnum fyrstu þrjú árin eftir að úrslitakeppnin byrjaði. Þetta var bara algert ævintýri. Við vorum nýflutt í Víkina og meistaraflokkur karla var sterkur á þessum tíma, auk þess sem karlarnir urðu meistarar í fótboltanum 1991. Einnig var kvennablakið mjög sterkt. Það var rosaleg stemning í félaginu á þessum tíma og þetta var góður tími fyrir Víking,“ sagði Halla María í viðtalinu við Kristján Jónsson í Morgunblaðinu.

„Úrslitarimman 1992 var ofboðslega eftirminnileg en þá fóru tveir leikir í framlengingu og við sigruðum eftir fimm leiki. Þetta gat ekki verið meira spennandi og var náttúrulega æðislega skemmtilegt. Húsin voru alltaf troðfull af áhorfendum – nokkuð sem sést ekki í dag. Maður var ekki nema tvítug og auðvitað ótrúlega gaman að spila frammi fyrir rúmlega þúsund manns. Öll þessi þrjú ár var Stjarnan andstæðingur okkar í úrslitaleikjunum. Við gerðum grín að því að þær ættu orðið veglegan silfurborðbúnað.

Uppistaðan í landsliðshópnum var úr þessum tveimur liðum þannig að það var mjög skemmtilegt fyrir okkur að fara í landsliðsferðir eftir þessar rimmur. En þó svo að það hafi verið rígur milli liðanna var þetta alltaf á góðum nótum. Gústaf Björnsson og Theódór Guðfinnsson þjálfuðu liðið á þessum árum og eru tveir bestu þjálfarar sem ég hef haft. Í Víkingsliðinu á þessum tíma, auk okkar Heiðu, voru til dæmis Inga Lára Þórisdóttir, Svava Ýr Baldvinsdóttir, Hulda Bjarnadóttir, Hjördís Guðmundsdóttir og Svava Sigurðardóttir. Ég gæti nefnt svo margar því það voru nefnilega nokkrar breytingar á liðinu á milli ára. Það voru bara ég, Inga Lára og Svava Ýr sem spiluðum öll þessi þrjú ár. Vegna þessara öru breytinga átti maður kannski ekki von á þessari velgengni,“ sagði Halla meðal annars.

Svíþjóðarfarar í stúlknaflokki árið 1987. Stelpur sem nokkurm árum síðar áttu eftir að verða Íslandsmeistarar 3 ár í röð.
Loka efnisyfirliti