Ævintýralegur áratugur - gullöld handboltans í Víkingi

Einstæð sigurganga Víkings í handbolta hófst vorið 1975 með fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins undir stjórn Karls Benediktssonar þjálfara. Næstu árin bættust titlarnir við hver af öðrum og fram til vorsins 1987 urðu Íslandsmeistaratitlarnir alls sjö og bikartitlarnir sex. Í heilan áratug, frá vorinu 1978 fram til 1987, unnu Víkingar að minnsta kosti einn stóran titil á ári og 1983 og 1986 unnu þeir tvöfalt. Árið 2015 var karlalið Víkings 1980 valið besta handknattleikslið Íslandssögunnar. Bogdan Kowalczyk var þjálfari Víkings 1978–1983, Karl Benediktsson hljóp undir bagga veturinn 1984 og Árni Indriðason þjálfaði liðið frá 1985–1987.

 Víkingsstúlkurnar tóku við keflinu af strákunum og urðu þrisvar Íslandsmeistarar og tvisvar sinnum bikarmeistarar árin 1992 til 1994, en um þær er fjallað annars staðar á söguvefnum.

1975 Gullöld Víkinga í handbolta hófst um miðjan áttunda áratuginn, með Íslandsmeistaratitlinum 1975. Í meistaraliðinu 1975 voru meðal annarra Páll Björgvinsson, fyrirliði, Þorbergur Aðalsteinsson, Viggó Sigurðsson, Ólafur Jónsson, Jón Gunnlaugur Sigurðsson, Stefán Halldórsson, Erlendur Hermannsson, Magnús Guðmundsson, Skarphéðinn Óskarsson og Sigurgeir Sigurðsson, og einnig eldri kempur eins og Einar Magnússon, Ólafur Friðriksson, Rósmundur Jónsson og Sigfús Guðmundsson. Meistaravorið 1975 dvaldi Jón Hjaltalín Magnússon í Svíþjóð, en hann var ein mesta stórskytta í íslenskum handknattleik á þessum tíma. Jón varð fyrstur Víkinga til að keppa á Ólympíuleikum, en hann lék með landsliðinu á Ólympíuleikunum í München 1972. Jón Hjaltalín var formaður HSÍ 1984–1992.

Víkingsliðið þótti vel að sigrinum komið vorið 1975. „Undir stjórn þjálfara síns, Karls G. Benediktssonar, náði liðið að leika skínandi góðan og árangursríkan handknattleik. Allt keppnistímabilið léku þeir Páll Björgvinsson, Viggó Sigurðsson, Stefán Halldórsson og Einar Magnússon einstaklega vel og félagar þeirra stóðu líka sannarlega fyrir sínu,“ segir Steinar J. Lúðvíksson meðal annars um frammistöðu Víkinga í Handknattleiksbókinni, sem fjallar um sögu handboltans á Íslandi 1920–2010.

Tár sáust á hvarmi

Þar segir enn fremur: „Þegar jólahléið hófst voru þrjú lið, Haukar Fram og FH, með 8 stig og Víkingur með 6 stig og einum leik færra. Í seinni hluta mótsins urðu töluverð þáttaskil. Víkingar komu tvíefldir til keppninnar og unnu hvern leikinn af öðrum og á sama tíma fóru „stóru“ liðin að slá feilpúst. 12. mars mættust Víkingur og Valur og þá var komin upp sú staða að Víkingur gat landað Íslandsmeistaratitlinum með því að sigra. 

Víkingur lék þennan leik einstaklega vel. Páll Björgvinsson tók Ólaf H. Jónsson úr umferð og gerði það svo vel að Ólafur komst hvorki lönd né strönd. Allan leikinn léku Víkingar af skynsemi og þolinmæði, biðu eftir góðum færum og börðust vel í vörninni. Og úrslitin urðu sigur þeirra 13:11 og fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins var í höfn. Var ekki nema eðlilegt að tár sæjust á hvarmi einlægra fylgismanna félagsins, sem lengi höfðu beðið eftir slíkum árangri.“

Karli Benediktssyni hafði tekist að byggja upp sterka liðsheild hjá Víkingi og nýtt nafn var skráð á Íslandsbikarinn, VÍKINGUR. Oft áður hafði Víkingur haft sterku liði á að skipa, en aldrei klárað dæmið. Þáttur Rósmundar Jónssonar var sérstakur í mótinu 1975, en hann lék um árabil með Víkingi, auk þess að þjálfa hjá félaginu og starfa í stjórnum. Árið 1963 var hann valinn sem útileikmaður í íslenska landsliðið og 12 árum síðar var hann aftur í landsliðinu, að þessu sinni sem markvörður. Í bókinni Áfram Víkingur (1983) segir hann um veturinn 1975: „Hápunkturinn var síðasti leikur okkar í mótinu, gegn Val. Það var barátta fram á lokasekúnduna og við unnum. Það var ólýsanleg tilfinning að ganga af leikvellinum, sem Íslandsmeistari eftir að hafa verið í baráttunni öll þessi ár.“

1976 Víkingur varð í fjórða til fimmta sæti á Íslandsmótinu í handknattleik karla, en 1977 minntu Víkingar hressilega á sig og urðu í öðru sæti á Íslandsmótinu í handknattleik eftir hörkukeppni við Val. Þegar lokatörnin hófst var Valur með tveggja stiga forystu á Víking, Haukar og ÍR fylgdu fast á eftir. Þegar Víkingur vann síðan lið Vals 21:20 var liðið komið á toppinn og góðir möguleikar voru á að ná titlinum. 

Eftir Valsleikinn sagði Björgvin Björgvinsson, línumaðurinn snjalli, sem þá lék með Víkingi: „Það er eitt sem ég þoli ekki í handknattleik og það er að tapa fyrir Val,“ en Björgvin hafði lagt sitt af mörkum til að tryggja sigurinn og skoraði 12 mörk í leiknum. Eflaust gátu fleiri Víkingar tekið undir orð Björgvins því keppnin á milli liðanna var grjóthörð á þessum árum. Tap gegn FH í 12. umferð af 14 fór hins vegar með vonir Víkinga og Valur fékk tveimur stigum meira en Víkingur í mótinu.

Fyrstu bikarsigrarnir

1978 Komið var að Víkingum að vinna bikarkeppnina í handbolta í fyrsta skipti. FH-ingar voru ekki mikil hindrun í úrslitaleiknum og niðurstaðan varð 25:20 fyrir Víking. Liðið sýndi sínar bestu hliðar, og sérstaklega Kristján Sigmundsson sem fór á kostum í markinu. „Auk Kristjáns áttu Viggó Sigurðsson, Árni Indriðason og Björgvin Björgvinsson góðan leik og sérstaka athygli vakti frammistaða ungs pilts, Sigurðar Gunnarssonar, í Víkingsliðinu,“ skrifar Steinar J. Lúðvíksson í Handknattleiksbókinni. Mörk Víkings í leiknum skoruðu Viggó Sigurðsson 6, Ólafur Jónsson 4, Sigurður Gunnarsson 4, Þorbergur Aðalsteinsson 4, Árni Indriðason og Björgvin Björgvinsson 2 hvor og Magnús Guðmundsson, Páll Björgvinsson og Skarphéðinn Óskarsson 1 mark hver.

Víkingur varð í öðru sæti á Íslandsmótinu eftir æsilega baráttu við „mulningsvél“ Vals. Víkingur hafði eins stigs forystu fyrir síðustu umferðina, en tapaði þá með einu marki fyrir Val, 14:13. Leikir Víkings og Vals á þessum árum voru oftar en ekki æsispennandi en liðin höfðu á að skipa bestu leikmönnum Íslands. Menn gjörþekktu hver annan, gáfu sig alla í leiki þessara liða og oft munaði litlu að upp úr syði. Í landsliðinu voru Víkingar og Valsmenn hins vegar samherjar og báru landsliðið uppi ár eftir ár.

1979 Víkingur varð bikarmeistari karla í handbolta annað árið í röð og nú var Bogdan Kowalczyk mættur til leiks sem þjálfari Víkings. Liðið vann Val með einu marki í undanúrslitum, 20:19, og átti síðan ekki í teljandi erfiðleikum með ÍR í úrslitum, 20:13. Eggert Guðmundsson varði mjög vel í leiknum og skoraði að auki eitt mark yfir endilangan völlinn. Markahæstir í úrslitaleiknum voru Steinar Birgisson með 5 mörk og Páll Björgvinsson með 4 mörk. Ólafur Jónsson og Sigurður Gunnarsson skoruðu 3 mörk hvor, Árni Indriðason 2 mörk og þeir Skarphéðinn Óskarsson, Erlendur Hermannsson og Eggert Guðmundsson skoruðu 1 mark hver.

Í Íslandsmótinu voru Víkingur og Valur í sérflokki. Svo fór að Valur bar sigur úr býtum, fékk tveimur stigum meira en Víkingur. Liðin mættust í síðustu umferðinni og var um hreinan úrslitaleik að ræða, en Valur vann 21:17. Um leikinn segir í Handknattleiksbókinni: „Lögðu Valsmenn mikla áherslu á að halda besta leikmanni Víkings, Viggó Sigurðssyni, í skefjum, en það gekk þó ekki betur en svo að Viggó var langmarkahæstur Víkinga í leiknum og skoraði 9 mörk.“

Einstakt afrek

1980 Víkingar urðu Íslandsmeistarar í handknattleik árið 1980 í annað skipti í sögu félagsins. Liðið hafði mikla yfirburði og sigraði með fullu húsi stiga, en aldrei áður hafði lið unnið Íslandsmeistaratitil með svo miklum yfirburðum. Í Evrópubikarkeppninni slógu Víkingar út ungverska stórliðið Tatabánya og tryggði Þorbergur Aðalsteinsson Víkingum sigur með marki úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn. 

Víkingsliðið 1980 var valið besta karlaliðið í íslenskum handknattleik frá upphafi, samkvæmt niðurstöðum sérfræðinga og almennings í könnun sem Ríkisútvarpið stóð fyrir árið 2015. Á þessum árum og fram eftir níunda áratugnum var lið Víkings ævinlega í fremstu röð og náði ekki aðeins árangri innanlands, heldur einnig í Evrópumótunum í handknattleik og komst árið 1985 í undanúrslit gegn Spánarmeisturum Barcelona.

Fjöldi stuðningsmanna þyrptist á leiki Víkings og fótboltinn spjaraði sig líka vel á þessum árum. Það var gaman að vera Víkingur og menn voru orðnir góðu vanir. Kannski er ósanngjarnt að nefna einhverja úr Víkingshópnum, sem ávallt var vel skipaður. Það er líka ljóst að ekkert lið vinnur slíka nafnbót nema það hafi fjölda af úrvalsleikmönnum, góða þjálfara, sterka stjórnarmenn og öfluga stuðningsmenn. 

Lykilmenn í Víkingsliðunum sem urðu Íslands- og/eða bikarmeistarar frá 1978–1987 voru Páll Björgvinsson og Sigurður Gunnarsson á miðjunni, Viggó Sigurðsson og Steinar Birgisson hægra megin, Þorbergur Aðalsteinsson vinstra megin, Ólafur Jónsson vinstra horn og Guðmundur Guðmundsson hægra horn, að ógleymdum landsliðsmanninum Erlendi Hermannssyni. Árni Indriðason, Magnús Guðmundsson og Hilmar Sigurgíslason voru á línunni og lykilmenn í vörn. Skarphéðinn Óskarsson, Björgvin Björgvinsson, Hörður Harðarson, Einar Jóhannesson, Óskar Þorsteinsson, Heimir Karlsson og Gunnar Gunnarsson voru einnig virkir með liðinu á hluta tímabilsins. Markmenn þessa tímabils voru þeir Kristján Sigmundsson, Jens Einarsson, Ellert Vigfússon og Eggert Guðmundsson. Guðjón Guðmundsson, Gaupi, var liðstjóri með Bogdan mestallan tímann. Í lok gullaldarinnar var landsliðsmaðurinn Karl Þráinsson orðinn sterkur hlekkur í Víkingsliðinu, sem og Bjarki Sigurðsson og Árni Friðleifsson.

Þeir Víkingar sem héldu í atvinnumennsku í útlöndum komu flestir aftur í Víking þegar þeir sneru á heimaslóðir á ný, nefna má Viggó Sigurðsson, Þorberg Aðalsteinsson og Sigurð Gunnarsson. Það var eftirsóknarvert að vera í Víkingi og þjálfarinn einstakur á heimsmælikvarða. Landsliðsmenn voru nánast í hverri stöðu öll ár gullaldarinnar og eitt árið léku fimm landsliðsfyrirliðar með Víkingsliðinu, þeir Páll Björgvinsson, Árni Indriðason, Ólafur Jónsson, Þorbergur Aðalsteinsson og Kristján Sigmundsson. 

Bogdan Kowalczyk, fyrrverandi þjálfari Víkings og íslenska landsliðsins, fékk heiðursverðlaun á hátíð sem Ríkisútvarpið gekkst fyrir árið 2015 til að heiðra bestu handboltalið Íslandssögunnar. Framlag hans til íslensks handknattleiks verður seint að fullu metið, sagði á vef RÚV. Bogdan kom til landsins af þessu tilefni og það voru fagnaðarfundir þegar hann hitti gamla lærisveina sína í Víkingi. Bogdan fékk fálkaorðuna árið 1989.

1981 Víkingur varð Íslandsmeistari í handknattleik karla vorið 1981 og vann mótið með miklum yfirburðum. Í Handknattleiksbókinni segir: „Árangur Víkinga var engin tilviljun. Liðið var einfaldlega langbest íslenskra handknattleiksliða og lék stórgóðan handknattleik. Höfðu orðið mikil umskipti hjá því eftir að hinn pólski þjálfari þeirra, Bogdan, tók við því haustið 1978 og sigurgangan nær óslitin. Þannig náði Víkingur t.d. 91,7% árangri í leikjum sínum við íslensk lið á mótum keppnistímabilsins 1980–1981. Liðið lék mjög agaðan og árangursríkan sóknarleik og varnarleikur þess hafði batnað svo mjög að farið var að tala um vörn þess sem „járntjaldið“.

Valinn maður var í hverju rúmi: Dagblaðið sagði eftir leikinn að Víkingsliðið væri orðið algert yfirburðalið með mjög sterkum einstaklingum eins og Kristjáni, Páli, Þorbergi, Ólafi, Steinari, Árna og Guðmundi. „En þó einstaklingarnir séu sterkir var þó liðsheildin enn sterkari – sigur samheldni og samvinnu. Til hamingju Víkingar,“ sagði í Dagblaðinu.

1982 Í handboltanum var óvenju mikið um félagaskipti fyrir Íslandsmótið 1982 og var nokkuð fjallað um það í fjölmiðlum að sú félagatryggð sem löngum hefði ríkt á Íslandi væri að riðlast. Sigurður Gunnarsson kom aftur til Víkings úr atvinnumennsku í Þýskalandi og Hörður Harðarson og Hilmar Sigurgíslason gengu í raðir Víkings. Fyrir mótið var búist við sigri Víkings, en hann varð ekki eins auðveldur og margir reiknuðu með og áttu FH-ingar góðu gengi að fagna. Víkingur og FH mættust í síðasta leik mótsins í Hafnarfirði, Víkingur var með 22 stig, FH 21.

 „Gífurlegur áhugi var á leiknum. Drepið var í hverja smugu í íþróttahúsinu við Strandgötu og stóð fólk eins nærri hliðarlínunni og mögulegt var,“ segir í Handknattleiksbókinni. Víkingar unnu leikinn 16:15 eftir mikla baráttu og titilinn þriðja árið í röð. „Víkingar nutu leikreynslu sinnar á lokamínútunni, tókst að halda boltanum og tryggja sér 16:15 sigur. Mörkin í leiknum skoruðu þeir Ólafur Jónsson, 5 mörk, Sigurður, 3 mörk, Steinar, Páll og Guðmundur voru með 2 mörk hver og Árni og Þorbergur með 1 mark hvor. 

Dagblaðið sagði svo frá eftir leikinn: „Víkingur sigraði eins og áður segir þriðja árið í röð á Íslandsmótinu. Árangur liðsins þessi þrjú ár er hreint frábær. Liðið hefur leikið 42 leiki í þeim, sigrað í 39, gert eitt jafntefli og tapað tveimur leikjum. Hlotið 79 stig af 84 mögulegum á þessum þremur Íslandsmótum. Aðeins tapað fimm stigum í þrjú ár!“

Árið 1982 var Páll Björgvinsson valinn íþróttamaður Reykjavíkur og tók við viðurkenningunni úr hendi Davíðs Oddssonar, þáverandi borgarstjóra. Íslandsmeistarar Víkings í handbolta og fótbolta voru sérstaklega heiðraðir af Reykjavíkurborg í hófi á Höfða.

1983 Íslands- og bikarmeistarar í handknattleik 1983. Í deildarkeppninni varð Víkingur í þriðja sæti, en gerði það sem þurfti að gera í úrslitakeppni fjögurra liða þar sem leikin var fjórföld umferð. „Íslandsmeistaratitillinn varð því Víkinga og þótt yfirburðir þeirra væru engan veginn hinir sömu og árin næstu á undan þóttu þeir vel að sigrinum komnir og ljóst að liðið „toppaði“ á réttum tíma. Eins og áður var Víkingsliðið afskaplega vel mannað og gamli kjarninn, Þorbergur, Sigurður, Viggó, Ólafur, Páll, Árni, Guðmundur og Hilmar Sigurgíslason, stóð fyrir sínu. Markvörðurinn Ellert Vigfússon fór á kostum ásamt Kristjáni Sigmundssyni.

Víkingur og KR mættust í bikarúrslitunum og tóku Víkingar strax öll völd í leiknum. Fór allt saman hjá þeim, góð markvarsla, þétt og örugg vörn og fjölbreyttur og ógnandi sóknarleikur. Sögðu menn að Víkingar hefðu í leiknum sýnt allt það besta, sem Bogdan hefði kennt þeim og þegar þeir væru í slíkum ham réði ekkert íslenskt lið við þá,“ segir í Handknattleiksbókinni. Úrslitin urðu 28:18 og markahæstir voru Þorbergur með 9 mörk og Sigurður Gunnarsson með 6 mörk. Bogdan lét af störfum hjá Víkingi um sumarið og tók við íslenska landsliðinu.

Fjórfaldir bikarmeistarar

1984 Víkingur varð bikarmeistari 1984. Í undanúrslitum vann Víkingur lið Þróttar eftir framlengingu en Páll Björgvinsson var þá þjálfari Þróttar og lék með liðinu. Í úrslitum lék Víkingur gegn Stjörnunni og vann 24:21 eftir hörkuleik. Kristján Sigmundsson átti stórleik í marki Víkinga, en Sigurður og Steinar Birgisson voru markahæstir með sex mörk hvor. Víkingur varð í öðru sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins, en FH bar höfuð og herðar yfir önnur lið í Íslandsmótunum 1984 og 1985.

Þessi vetur gekk þó ekki þrautalaust hjá Víkingum þar sem skarð Bogdans var vandfyllt. Tékkneski þjálfarinn Rudolf Havlik stóð ekki undir væntingum og hætti hann hjá félaginu fyrir áramót. Karl Benediktsson fékkst til að aðstoða Víkinga það sem eftir var vetrar og skilaði bikarmeistaratitli í hús.

1985 Árni Indriðason var tekinn við sem þjálfari Víkings og skilaði strax bikarmeistaratitli. Í undanúrslitum bikarkeppninnar burstaði Víkingur Val 26:18 og í úrslitaleiknum vann Víkingur sigur á FH-ingum 25:21. Í báðum þessum leikjum áttu þeir Kristján Sigmundsson og Þorbergur Aðalsteinsson stórleik fyrir Víking. Víkingur varð í þriðja sæti í deildarkeppninni og einnig í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

1986 Horfið var frá úrslitakeppni 1986 og eingöngu leikin tvöföld umferð átta liða. Víkingsliðið varð Íslandsmeistari og einnig bikarmeistari fjórða árið í röð, með öðrum orðum hafði Víkingur ekki tapað leik í bikarkeppninni í heil fjögur ár. Um Víkingsliðið segir í Handknattleiksbókinni: „Sigur Víkings í mótinu þótti næsta öruggur – liðið þótti einfaldlega leika besta handknattleikinn og var vel skipað. Burðarásar þess voru hinn gamalreyndi Páll Björgvinsson og landsliðsmennirnir Guðmundur Guðmundsson, Steinar Birgisson og Kristján Sigmundsson. Yngri mennirnir í liðinu stóðu líka vel fyrir sínu, sérstaklega þeir Siggeir Magnússon og Karl Þráinsson sem báðir þóttu fjölhæfir og bráðefnilegir leikmenn.“

Árni Indriðason var þjálfari liðsins og lék jafnframt með því. Fyrirliði var Guðmundur Guðmundsson. Eftir Íslandsmótið 1986 hafði DV eftirfarandi eftir Árna Indriðasyni, þjálfara og leikmanni Víkings: „Við höfum staðið mjög vel saman. Það er höfuðmálið. Við höfum orðið fyrir miklum áföllum en það hefur bara þjappað okkur ennþá betur saman. Það var mjög góð samstaða sem gerði út um þetta í lokin.“ 

Fjórði sigurinn í röð í bikarkeppninni vannst vorið 1986. Eftir hörkuleik við Stjörnuna í úrslitaleiknum varð niðurstaðan 19:17 Víkingi í vil. Í Handknattleiksbókinni fær Finnur Thorlacius, varamarkvörður Víkings, sérstakt hrós fyrir frammistöðu sína, en það kom í ljós skömmu fyrir úrslitaleikinn að Kristján Sigmundsson gæti ekki staðið í markinu. Páll Björgvinsson var markahæstur Víkinga með sex mörk. 

1987 Víkingur varð Íslandsmeistari í handknattleik karla 1987. Um lok mótsins segir í Handknattleiksbókinni: „Víkingur gaf ekkert eftir og voru Víkingar raunar svo gott sem búnir að vinna mótið þegar þrjár umferðir voru eftir. Landsliðsmennirnir fjórir í Víkingsliðinu, Kristján Sigmundsson, Guðmundur Guðmundsson, Karl Þráinsson og Hilmar Sigurgíslason, áttu allir mjög gott tímabil, einkum þó Kristján sem oft á tíðum nánast vann leikina fyrir Víking. Í Víkingsliðinu voru einnig bráðefnilegir ungir menn, Bjarki Sigurðsson og Árni Friðleifsson, sem létu verulega að sér kveða. Þegar Íslandsmeistaratitillinn var í höfn sagði fyrirliði liðsins, Guðmundur Guðmundsson, að sigurinn hefði komið Víkingum sjálfum á óvart og mesta ánægjuefnið væri hversu vel yngri leikmenn liðsins hefðu staðið sig í mótinu.“

Árið 1988 varð Víkingur í þriðja sæti í deildinni og féll úr leik í bikarkeppninni. Í fyrsta skipti í heilan áratug kom hvorugur stóru titlanna í hlut Víkinga. Á næstu árum voru Víkingar enn yfirleitt í fremstu röð og tóku oft þátt í Evrópukeppni, en herslumuninn vantaði. Árið 1996 kom að því að stórveldið Víkingur féll niður í aðra deild. 

Toppþjálfarar með toppmannskap

Páll Björgvinsson er innfæddur Víkingur og var lengi fyrirliði meistaraflokks Víkings í handbolta. Hann á að auki að baki hátt í 100 leiki með meistaraflokki í fótbolta og lék fyrstu Evrópuleiki Víkings í knattspyrnu gegn Legia frá Varsjá 1972. Í bókinni Áfram Víkingur frá 1983 leit Páll yfir ferilinn, en hann lék fyrst í meistaraflokki árið 1967, þá á fyrsta ári í 2. flokki.

„Hjá Víkingi hafði alltaf verið hugsað fyrst og fremst um sóknarleikinn, en minna um vörnina. Fyrstu árin lék ég á milli þeirra Jóns Hjaltalíns og Einars í sókninni. Yfirleitt skaut annar hvor þeirra strax, en ef boltinn kom til baka til mín freistaðist maður til að láta eitt og eitt skot fara.

Þessi hugsunarháttur breyttist smátt og smátt og þá sérstaklega með Karli Benediktssyni. Hann fékk menn til að leggja mjög hart að sér, skipulagði leik liðsins frá grunni og eftir þrotlausar æfingar urðum við meistarar 1975 í fyrsta skipti. Það var mjög góður hópur að baki þessum árangri og síðan hefur verið úrvalsmannskapur í Víkingi. Menn hafa líka æft af fádæma dugnaði og ekki talið eftir sér að að mæta 5–6 sinnum í viku og stundum tvisvar á dag. 

Karl hélt iðulega 1–2 tíma fundi fyrir leiki og talaði þá kannski meira og minna við 2–3 leikmenn – fyrir utan hans löngu þagnir. Eigi að síður fékk hann alla til að halda athyglinni vakandi og einbeita sér að leiknum. Bogdan Kowalczyk er hins vegar gjörólíkur hvað undirbúning fyrir leiki snertir. Hann talar við okkur 10–15 mínútur og síðan er hálftíma upphitun áður en leikur hefst. Hann leggur allt upp úr leikkerfum og leikmenn verða að standa klárir á 14–15 leikaðferðum. Kunnáttu Bogdans í handbolta virðast engin takmörk sett. Hann er toppþjálfari sem hefur verið með toppmannskap hjá Víkingi,“ sagði Páll í ársbyrjun 1983.

Heilaþvottur Kalla Ben

Á gullaldarárum Víkings voru margir leikmenn liðsins fæddir og uppaldir í barnmörgu Smáíbúða- og Bústaðahverfi, þeirra á meðal var Þorbergur Aðalsteinsson, einn af lykilmönnum Víkings á þessum árum. Hann rifjar upp Víkingsárin á hraðferð: 

„Þegar ég var að byrja að æfa sem strákur röltum við Nelli, Erlendur Hermannsson, af Grensásveginum þar sem við áttum heima eftir hitaveitustokknum upp í Réttó þar sem Páll Björgvinsson þjálfaði okkur. Áður en við fengum að fara inn í íþróttasalinn áttum við að setja pening í plastpoka, einhverja tilskilda upphæð, en það voru launin sem Palli fékk fyrir þjálfunina. 

Þegar ég byrjaði síðan í meistaraflokki vorum við Palli orðnir samherjar og Kalli Ben var þjálfari, maður sem átti eftir að breyta miklu fyrir mig líkamlega en þó aðallega hugarfarinu. Hann var framsækinn, með afreksstefnu í hausnum en vissi ekki alveg hvernig hann átti að koma henni frá sér og þurfti oft að tala mikið. Við æfðum þetta 3–4 sinnum í viku og síðan voru leikir sem voru óborganlegir því alltaf var spilað fyrir fullu húsi. 

Kalli átti ábyggilega nokkur hundruð hross á þessum árum og fékk mig oft til að hjálpa sér við ýmis störf tengd hestunum og þetta voru því oft langir dagar. Meðan við vorum að vinna eða á keyrslu fór fram heilaþvottur á Þorbergi Aðalsteins og bara rætt um hvað ég þyrfti að gera til að verða betri í handbolta. Ég var akkúrat á þessum tíma mjög móttækilegur og hafði ótrúlega gott af þessum fundum með Kalla Ben við vægast sagt sérkennilegar aðstæður.

Víkingurinn Einar Magg var lengi vel mín fyrirmynd, en þó hann væri góður leikmaður var hann of hægur og snyrtilegur fyrir minn smekk. Ég fór því að horfa meira á Axel Axelsson, Framara, sem þá var upp á sitt besta og hafði notið góðs af samvinnu við Kalla. Ég var reyndar fljótur að fara fram úr þessum Framara þó hann haldi öðru fram. Ég vildi verða sá besti á Íslandi, allavega í minni stöðu, og við lögðum allir mikið á okkur til að verða bestir á Íslandi í mikilli samkeppni við Val. Félagslega var mér einstaklega vel tekið í meistaraflokki og strax frá fyrsta degi var ég einn af hópnum. 

Það voru ekki miklir peningar í handboltanum og ýmislegt var gert til ná í peninga fyrir þjálfara og upp í ferðakostnað. Við dreifðum meðal annars bókum og ég var með Hafnarfjörðinn. Ég átti Austin Mini á þessum tíma og þurfti að fara þrjár ferðir þrjú kvöld í viku eftir æfingu til að dreifa þessu og þetta verkefni stóð í á annan mánuð. 

Víkingur var vaxandi í handboltanum og farið var að taka eftir leikmönnum félagsins. Sjálfur fékk ég tilboð frá Þýskalandi 1978 og fór út í eitt ár, en meiddist strax um haustið og komst aldrei í gang. Ég var ósáttur og fór heim og lenti beint í fanginu á Bogdan. Hann var maður að mínu skapi og við fórum að æfa meira en aðrir eða 6 til 8 sinnum í viku. Hann kom eins og himnasending fyrir félagið og það varð bylting þegar karlinn kom. 

Við leikmennirnir vorum líka sterkur og þéttur hópur sem hélt vel saman. Ekki bara leikmennirnir heldur líka eiginkonur og kærustur að ógleymdum stjórnarmönnum í handboltadeildinni, sem flestir voru litlu eldri en við. Við fórum saman í utanlandsferðir, útilegur og skemmtanir af ýmsu tagi. Þetta var góður vinahópur sem náði ótrúlegum árangri,“ segir Þorbergur Aðalsteinsson.

Símtal við systur Bogdans um miðja nótt

Það var þó engan veginn sjálfgefið að Bogdan yrði þjálfari Víkings, maður sem hafði sex sinnum gert Slask að meisturum í Póllandi. Þar komu góð sambönd austur fyrir járntjald að góðum notum. Í samtali í bókinni Áfram Víkingur, sem kom út 1983, rifjar Eysteinn Helgason, sem var formaður handknattleiksdeildar er Bogdan kom til landsins, upp aðdragandann að komu hans. Þar kemur fram að Víkingar höfðu um tíma haft áhuga á að fá þjálfara frá Austur-Evrópu en ekki haft árangur sem erfiði. Víkingurinn Sigurður Jónsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, nýtti þá sambönd sín í Póllandi, m.a. við Brekula, æðsta yfirmann boltaíþrótta þar í landi, og samningar tókust við Bogdan.

 „Frá samningum við Bogdan var gengið í gegnum síma um miðja nótt, en þar sem Bogdan talaði ekki ensku og litla þýsku, þótt hann segðist tala hana reiprennandi, var systir Bogdans milligöngumaður. Hún átti að tala ensku en kunni örfá orð og þetta samtal var vægast sagt einkennilegt. Hvað um það. Bogdan kom á réttum tíma …,“ segir Eysteinn meðal annars. Hann var formaður Handknattleiksdeildar 1977–1980, Hannes Guðmundsson var formaður 1974–76 og sat í stjórn frá 1973–1982, Rósmundur Jónsson var formaður 1976–77 og Jón Kr. Valdimarsson 1981–1984. Samhentur hópur hélt um stjórnartaumana á þessum árum og ekki urðu miklar breytingar á hópnum. 

Fæddur sigurvegari

Víkingurinn og íþróttafréttamaðurinn Hallur Símonarson skrifaði athyglisverða grein í DV eftir HM í handbolta í Sviss 1986. Þar sagði meðal annars: „Pólverjinn geðþekki, Bogdan Kowalczyk, er eflaust mesti hvalreki sem rekið hefur á fjörur íslenskra íþrótta. Maðurinn er fæddur sigurvegari – ferill hans sem leikmanns og þjálfara er óslitin sigurganga … Bogdan Kowalczyk kom til Íslands sumarið 1978 og það var Víkingur sem hlaut stóra happdrættisvinninginn. Hann gerðist þjálfari hjá Hæðargarðsfélaginu með árangri sem flestir Íslendingar þekkja. Víkingur hefur verið stórveldi í íslenskum handknattleik frá því Bogdan tók þar um stjórnvölinn …“

Viggó Sigurðsson var einn snjallasti leikmaður Víkings, en lék einnig með Barcelona á Spáni áður en hann hóf þjálfun m.a. hjá FH, Haukum, Stjörnunni, íslenska landsliðinu og Wuppertal í Þýskalandi. Í hans huga er hlutur þjálfaranna hjá Víkingi ómetanlegur: 

„Þegar ég horfi til baka, til áranna sem ég varð fimm sinnum bikarmeistari með Víkingi og þrisvar Íslandsmeistari, þá geri ég mér grein fyrir því hvað stór hlekkur í keðjunni þjálfarinn er. Karl G. Benediktsson og Bogdan unnu stórkostlegt starf við slæmar aðstæður. Ég man eftir því að Bogdan hló þegar honum var sagt að við værum með sjötíu og fimm mínútna æfingatíma í íþróttahúsinu í Réttarholtsskólanum þrisvar í viku. Fyrir þann tíma voru æfingatímarnir ekki lengur en sextíu mínútur. Bogdan hló og spurði hvaða bjánagangur þetta væri. Undir hans stjórn æfðum við tíu sinnum í viku,“ sagði Viggó í samtali við Sigmund Ó. Steinarsson í Morgunblaðinu 1997.

Kröfur eins og hjá atvinnuliðum

Í Handknattleiksbókinni, sögu handknattleiks á Íslandi 1920–2010, segir Steinar J. Lúðvíksson að Bogdan hafi skapaði nýja vídd í íslenskum handknattleik: „Töluverð þáttaskil urðu í íslenskum handknattleik á áratugnum 1980–1990. Farið var að gera enn meiri kröfur til þeirra leikmanna sem léku með bestu liðunum og æfingar og undirbúningur þeirra fyrir mót og meðan á þeim stóð varð líkari því sem gerðist hjá erlendum atvinnuliðum … Annað sem setti svip sinn á íslenskan handknattleik á níunda áratugnum voru miklar hreyfingar leikmanna milli félaga. Sú félagatryggð sem ríkt hafði alveg fram á áttunda áratuginn var úr sögunni …

Upphaf þeirra miklu breytinga sem urðu í þjálfun má fyrst og fremst rekja til þess að fyrir keppnistímabilið 1979 réðu Víkingar til sín erlendan þjálfara, Bogdan Kowalczyk að nafni, og var hann jafnframt fyrsti erlendi handknattleiksþjálfarinn sem hér starfaði hjá 1. deildar félagi. Þótt Bogdan væri ungur að árum átti hann að baki langan feril bæði sem handknattleiksmaður og þjálfari. Hafði hann þjálfað pólska liðið Slask í sex ár og náð þeim frábæra árangri að gera það að pólskum meistara öll árin og liðið komst einnig í átta liða úrslit Evrópukeppninnar. Strax og Bogdan tók við þjálfun Víkingsliðsins var ljóst að kröfur sem hann gerði til leikmanna voru engu minni en tíðkuðust hjá atvinnuliðum og meiri strangleiki og agi var á æfingum hans en tíðkaðist hjá íslenskum liðum …

Víkingar þurftu ekki að bíða lengi eftir árangri þess erfiðis sem þeir lögðu á sig með tilkomu nýja þjálfarans. Á árunum 1980, 1981 og 1982 unnu þeir Íslandsmeistaratitilinn með töluverðum yfirburðum og hrepptu hann einnig eftir úrslitakeppnina 1983 eftir að hafa verið í þriðja sæti í deildarkeppninni. Það ár urðu Víkingar einnig bikarmeistarar. Öll þessi ár tóku Víkingar þátt í Evrópukeppninni, náðu oftast langt og undirstrikuðu að þeir voru með lið á heimsmælikvarða. Þessi miklu sigurár tefldi Víkingur að mestu fram óbreyttu liði … 

Þegar Bogdan hætti þjálfun liðsins 1983 og tók við íslenska landsliðinu spáðu margir því að veldi Víkinga myndi líða undir lok, en það var öðru nær. Einn af lærisveinum hans, Árni Indriðason, tók við þjálfuninni og undir hans stjórn urðu Víkingar Íslandsmeistarar 1986 og 1987, auk þess sem félagið varð bikarmeistari þrjú ár í röð, 1984, 1985 og 1986,“ skrifar Steinar J. Lúðvíksson í samantekt um níunda áratuginn.“

Magnaðir þjálfarar

Margir leikmanna Víkings á Bogdans-tímanum lögðu síðar fyrir sig þjálfun og hafa m.a. þjálfað bestu lið Íslands og Evrópu. Nefna má Viggó Sigurðsson, Þorberg Aðalsteinsson, Árna Indriðason, Sigurð Gunnarsson, Pál Björgvinsson og Guðmund Guðmundsson. Þorbergur, Árni, Sigurður og Guðmundur þjálfuðu allir Víkingsliðið um tíma. Margoft hefur komið fram að íslenskir þjálfarar í fremstu röð hafa tileinkað sér margt af því sem þeir lærðu hjá Bogdan.

Bogdan var með íslenska landsliðið árin 1983–1990 og tók Þorbergur við af honum og var með landsliðið til 1995. Guðmundur Guðmundsson var landsliðsþjálfari 2001–2004 og aftur 2008–2012. Viggó Sigurðsson var landsliðsþjálfari 2004–2006. Undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar hreppti Ísland silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Þá var Guðmundur landsliðsþjálfari Dana sem hrepptu gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Brasilíu 2016.

Í undanúrslit í Evrópukeppni

Árangurinn í Íslandsmótinu og bikarkeppninni tryggði Víkingi þátttökurétt í Evrópukeppni ár eftir ár. Yfirleitt stóðu Víkingar sig með miklum sóma í keppni við bestu lið Evrópu. Evrópuleikir félagsins í handknattleik eru komnir á fimmta tuginn, en Evrópuferðalagið byrjaði haustið 1976 er Víkingur mætti Þýskalandsmeisturum Gummersbach. Þjóðverjarnir voru of stór biti fyrir Víking á þessum árum og unnu þeir báða leikina 10:16 og 21:12. Einn leikmanna Víkings vakti sérstaka athygli þýskra blaðamanna í leiknum ytra, Rósmundur Jónsson. Hann var varamarkvörður í leiknum og sárlasinn en fór inn á um miðjan fyrri hálfleik og varði eins og berserkur og kom í veg fyrir að tapið yrði stærra en raunin varð.

Margar viðureignirnar voru ógleymanlegar, en lengst komust Víkingar veturinn 1984–85 er þeir náðu alla leið í undanúrslit eftir að hafa lagt Fjellhammer frá Noregi, Coronas Tres des Mayo frá Spáni og Crvenka frá Júgóslavíu að velli. Reyndar blasti úrslitaleikurinn við Víkingum eftir glæsilegan sigur á stórliði Barcelona 20:13 í Reykjavík, hreint út sagt frábær frammistaða í heimaleiknum þar sem Spánverjarnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Svo fór hins vegar að Barcelona vann leikinn ytra 22:12 og komst því áfram í keppninni. 

„Ég er alveg orðlaus. Víkingsliðið hefur sjaldan á sínum ferli – og hann er þó glæsilegur – leikið svona vel. Það er hreint ólýsanlegt að leika með Víkingsliðinu í dag,“ sagði Guðmundur fyrirliði Guðmundsson eftir sjö marka sigur Víkings. „Sigur okkar byggðist á frábærri markvörslu og varnarleik. Náðum góðri nýtingu í hraðaupphlaupum og lékum allan tímann af skynsemi. Möguleikarnir úti? Sjö marka sigur í Evrópukeppni á heimavelli er ekki mikið og við verðum sem fyrst að koma okkur niður á jörðina á ný,“ sagði Guðmundur.

„Sjálfir Evrópumeistarar bikarhafa í handknattleik, FC Barcelona, fengu kennslustund í góðum handknattleik á sunnudagskvöldið. Víkingar komu, sáu og sigruðu 20—13, eftir að hafa haft yfirburðastöðu í hálfleik 11–4. Troðfullt hús áhorfenda varð vitni að yfirveguðum og stórkostlega vel leiknum leik hjá Víkingum. Allt frá fyrstu til síðustu mínútu leiksins réðu leikmenn Víkings gangi leiksins og hvergi var veikur hlekkur í leik liðsins,“ sagði m.a. í Morgunblaðinu eftir leikinn.

Við ramman var reip að draga í leiknum í Barcelona, sterkir andstæðingar, hátt í tíu þúsund áhorfendur sem studdu Spánverjana dyggilega og mótdrægir dómarar. Í Morgunblaðinu sagði að Evrópudraumur Víkinga hefði snúist upp í martröð. „Á öllum mínum ferli – á Íslandi, Spáni og í Vestur-Þýskalandi – hef ég aldrei komist í kast við aðra eins dómara og nú og hef ég þó kynnst ýmsu á atvinnumannsferli mínum. Það var búið að ákveða úrslitin fyrirfram. Við hreinlega áttum ekki möguleika, svona haga hlutlausir dómarar sér ekki, þetta var sóðaskapur,“ sagði Viggó Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið.

„Auðvitað var hún hneyksli, dómgæsla júgóslavnesku dómaranna í Evrópuleik Víkings og Barcelona á laugardag. En það breytir þó ekki þeirri staðreynd, að Víkingar geta sjálfum sér um kennt að þeir létu Barcelona slá sig út úr Evrópukeppni bikarhafa,“ skrifaði Víkingurinn og íþróttafréttamaðurinn Hallur Símonarson, meðal annars, frá Barcelona að síðari leiknum loknum. Í frásögn blaðanna kemur fram að einn besti leikmaður Víkings, Steinar Birgisson, hafi fengið hnefahögg í andlitið í upphafi leiksins og ekki náð sér á strik eftir það. „Dómgæslan var hneyksli. Dómararnir dæmdu betur þegar á leið á síðari hálfleikinn en voru samt alltaf með Barcelona og stjórnuðu leiknum,“ sagði Bogdan þjálfari eftir leikinn. 

Apasveifla og brottvísun

Sannarlega voru Víkingar súrir er þessi úrslit lágu fyrir, þó svo að árangur liðsins hefði í raun verið stórkostlegur. Sömuleiðis voru Víkingar reiðir þegar Víkingi var vísað úr Evrópukeppninni haustið 1978 vegna meintra óspekta eftir sigurleik gegn Ystad í Svíþjóð. Víkingur vann heimaleikinn 23:19 og leikinn í Ystad 24:23. Leikmenn og fararstjórar fögnuðu þessu að leik loknum, galsi var í mannskapnum en gleðskapurinn þó næsta saklaus að mati Víkinga. Að auki átti hann sér stað nokkru eftir að leik lauk og fjarri keppnisstaðnum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékkst niðurstöðunni ekki hnekkt, æðsta ráð handknattleiksforystunnar í IHF sat við sinn keip. 

Gleðin var hins vegar meiri þegar Víkingur sló út ungverska stórliðið Tatabánya 1981 og var það í fyrsta skipti sem íslenskt lið sló út lið frá Austur-Evrópu. Víkingur tapaði á heimavelli 21:20, en vann leikinn í Ungverjalandi 23:22 og fór því áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Og þvílíkt sigurmark Þorbergs Aðalsteinssonar úr aukakasti með „apasveiflu“ að leiktímanum loknum. „Vélaði hann fyrst varnarmúrinn allan úr skorðum með falshreyfingu og lét síðan ríða af. Söng boltinn í netinu og olli markið trylltri gleði Víkinga, dauðakyrrð á pöllunum, en síðan langri rekistefnu dómara og tímavarða,“ segir í upprifjun Jóns Arnar Guðbjartssonar á leiknum í DV 1988. Munu Þorbergur og Bogdan þjálfari hafa lagt á ráðin um það hvernig Þorbergur skyldi framkvæma aukakastið.

Þar lýsir Þorbergur því jafnframt hvernig Guðjón Guðmundsson, sjónvarpsmaður með meiru, brást við: „Það var ótrúlega skemmtilegt að skora úr aukakastinu. Gleðin var óstjórnleg og núverandi aðstoðarþjálfari landsliðsins, sem þá sat á bekknum hjá okkur Víkingum, marséraði inn á gólfið, lagðist á það mitt og spriklaði höndum og fótum – í beinni útsendingu því leiknum var sjónvarpað um alla Austur-Evrópu. Líklega hefur fólkið þeim megin járntjaldsins hvorki fyrr né síðar litið aðrar eins hamfarir.“ 

Auk fyrrnefndra félaga má nefna andstæðinga í Evrópumótunum, eins og Halewood, Heim, Lugi, Atletico Madrid, Vestmanna, Dukla Prag, Kolbotn, Fjellhammer, Tres deMayo, Crvenka, Teka, St. Otmar, Wybrezeze Gdansk, Liverpool, Kolding og CSKA Moskva. Evrópuleikir Víkings eru komnir á fimmta tuginn og hvað eftir annað var Víkingur sleginn út með minnsta mögulega mun í frábærum leikjum. Síðasti Evrópuleikur Víkings til þessa var í Evrópukeppni félagsliða gegn Zebetar frá Tékklandi keppnistímabilið 1995–96. 

Æfingar í austantjaldsstíl

Einn af lykilmönnunum á gullaldarárunum var Ólafur Jónsson, en hann lék um 400 leiki frá 1971–1984 og afrekaði það að vinna alla meistaratitla sem Víkingur vann á þessu tímabili eða um 20 talsins þegar Reykjavíkurmót og Íslandsmót utanhúss eru talin með. Ólafur lék einkum í vinstra horninu og þegar Guðmundur Guðmundsson kom í meistaraflokkinn mátti hann gera sér að góðu að leika í hægra horninu í nokkur ár, rétthentur maðurinn. Guðmundur varð síðan fastamaður í landsliðinu og þá í réttu horni.

Að sögn Ólafs byrjaði meistaralið Víkings að mótast á árunum upp úr 1972 þegar fyrsti Reykjavíkurmeistaratitillinn kom í hús undir styrkri stjórn Péturs Bjarnarsonar þjálfara og guðföður handboltans í Víkingi, eins og Ólafur orðar það, en Pétur var á tímabili formaður deildarinnar, þjálfari og leikmaður.

Ólafur segir að síðan hafi orðið breytingar með auknum æfingum í austantjaldsstíl þegar Karl Benediktsson tók við þjálfun liðsins 1974 og gerði það að Íslandsmeisturum og síðan aftur að bikarmeisturum með hléum árin 1978 og 1984. „Æfingaprógramm Kalla Ben var fullkominn undanfari fyrir þær æfingar, og þá sérstaklega æfingaálag, sem snillingurinn Bogdan bauð okkur upp á næstu sex árin þar á eftir,“ segir Ólafur. 

„Í mínum huga og margra annarra leikmanna var lykillinn að velgengni Víkingsliðsins sá að við æfðum miklu meira en önnur lið og vorum þar af leiðandi miklu sterkari líkamlega en aðrir. Það sást best í varnarleiknum, þar sem mottó okkar var að halda markaskoruninni hjá okkur undir 17 mörkum sem þýddi að þá var sigur nokkuð vís. Það skipti ekki öllu hvaða varnarafbrigði við spiluðum, við vorum alltaf sterkari maður á móti manni. Franska landsliðið í handbolta hefur til að mynda haft þessa sömu yfirburði á önnur lið, enda ekki að spyrja að árangrinum. Mér er líka kunnugt um það að Frakkarnir hafi leitað fanga í Bogdansskólann upp úr 1990.

Bogdan var harður húsbóndi sem sást best á því að afreksmenn í handbolta sem gerðu tilraunir til að ganga til liðs við Víkingsliðið hrökkluðust á brott, væntanlega vegna ómannlegs æfingaálags og svo hins að það spiluðu yfirleitt bara sjö leikmenn hjá honum hverju sinni. Stundum var talað um að þetta væri eins og við værum að fara í gegnum erfiðasta æfingaprógramm sovéska hersins. Ég man eftir mynd sem var eitt sinn tekin af liðinu á æfingu í Laugardalshöll, þar voru þá 14 landsliðsmenn á æfingunni – en svo voru það bara þessir sömu sjö sem spiluðu nánast allan veturinn.“

Ólafur segir að það hafi verið sérstök tilfinning þegar Bogdan kom í heimsókn vorið 2015 í tilefni af útnefningu Víkingsliðsins sem besta handboltaliðsins. Veisluhöldin hjá liðinu eftir útnefninguna hafi verið alveg eins og 30 árum áður, svipaðar sögur og brandarar og vínföngin þau sömu og fyrrum. Á laugardeginum eftir útnefninguna bauð Ólafur Bogdan í bíltúr um borgina. „Við fórum um allt, ný hverfi, og hann var uppnuminn af öllum byggingarframkvæmdunum. Við fórum líka í Laugardalinn og skoðuðum Höllina og við fórum í Hafnarfjörðinn og skoðuðum Strandgötuna. Á leiðinni á hótelið fórum við upp í Réttó og stoppuðum þar fyrir utan. Þá sagði Bogdan: „Óli, þetta er besta hús í heimi,“ og ég sá örlitlum tárum bregða fyrir. Fleiri orð voru óþörf,“ segir Ólafur.

Spilað fyrir Gulla

Ólafur segir að margir leikir séu minnisstæðir frá ferlinum, en þó sitji leikurinn um Íslandsmeistaratitilinn 1982 mjög sterkt í minningunni. „Það var vegna þess að félagi okkar og fyrrum liðsfélagi, Jón Gunnlaugur Sigurðsson, lést í bílslysi á leiðinni frá Fáskrúðsfirði til að horfa á leikinn. Það var óneitanlega erfitt að undirbúa sig fyrir átökin. Ég einsetti mér að spila þennan leik fyrir Gulla og það fór þannig að ég spilaði líklega einn minn besta leik á ferlinum og við náðum að koma með enn einn Íslandsmeistaratitilinn í Hæðargarðinn.

Svo var það annar leikur á Íslandsmóti og af allt annarri gerð, sem er einhver skrýtnasti leikur sem ég spilaði. Þetta var einhvern tímann upp úr 1980 og við Víkingarnir vorum upp á okkar besta. Þessi leikur var við KR og endaði 11:11 eftir að staðan í hálfleik var 9:4 fyrir KR. Á þessum tíma voru hörkuspilarar í KR-liðinu, t.d. Alfreð Gíslason. Leikurinn þróaðist síðan þannig að KR skoraði fljótlega sitt eina mark utan af velli í hálfleiknum og við skoruðum ekkert fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleiknum. Næstu átta mínúturnar skoruðum við fjögur mörk og KR skoraði mark úr víti. Þá var staðan 11:8 og ein og hálf mínúta eftir. Á einhvern óútskýranlegan hátt náðum við að skora þrjú mörk á einni og hálfri mínútu og jafna leikinn eftir að hafa skorað fjögur mörk á 30 mínútum í fyrri hálfleik og svo fjögur mörk á 28 mínútum í seinni hálfleik. Þessi úrslit urðu líka til þess að það kom ekki rof í sigurgöngu okkar á Íslandsmóti á árunum 1980 til 1981, þ.e. við töpuðum ekki leik í rúmlega tvö ár,“ segir Ólafur.

Til að ná árangri þarf að leggja sig fram

Árni Indriðason var grjótharður varnarmaður, útsjónarsamur línumaður og skilaði síðan dýrmætum titlum sem þjálfari Víkings. Hann var ómissandi hlekkur í Víkingskeðjunni á gullaldarárunum. 

Fyrsta stóra titil sinn í handknattleik fyrir Víking vann Árni Indriðason er Víkingur varð bikarmeistari vorið 1978, en Árni hafði áður leikið með Gróttu. Hann var þá 28 ára gamall, nýútskrifaður sagnfræðingur frá Háskóla Íslands, og hóf sama ár  störf sem kennari við Menntaskólann í Reykjavík, þar sem hann starfar enn. Titlarnir áttu sannarlega eftir að hlaðast upp á vegferð Árna í Víkingi. Hann lék 60 landsleiki fyrir Ísland og var um tíma fyrirliði landsliðsins.

Haustið 1985 gerðist hann þjálfari Víkings og réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur. Mikil sigurhefð hafði skapast í félaginu og það var ekki auðvelt að feta í fótspor þeirra Bogdans Kowalczyk og Karls Benediktssonar. Árni reyndist þó vandanum vaxinn og vorið 1986 vann Víkingur bæði deild og bikar og Íslandsmótið enn einu sinni vorið 1987. Í fyrsta skipti í langan tíma vannst ekki titill veturinn 1987–88 og lét Árni af störfum sem þjálfari Víkings að Íslandsmótinu loknu.

Söguvefurinn bað Árna að lýsa forverum sínum hjá Víkingi í nokkrum orðum.

„Karl var góður þjálfari og sennilega sá færasti sem völ var á hér á landi á þessum árum. Ég var aðeins í eitt ár hjá Kalla, veturinn 1977–78, og þá var Björgvin Björgvinsson, sá snjalli línumaður, í Víkingi. Ég fékk því minna að leika í sókninni en ella, en var á mínum stað í vörninni. Mér líkaði ágætlega að vinna með Karli, sem gert hafði Víking að Íslandsmeisturum 1975,“ segir Árni. 

„Það varð hins vegar gífurleg breyting þegar Bogdan hóf störf hjá félaginu. Hann dró tjöldin frá þannig að menn skildu hvað var að gerast og hvað þeir áttu að gera. Í flestum félögum voru hæfileikaríkir strákar, sem höfðu tilfinningu fyrir boltanum. Það var hins vegar ekki fyrr en Bogdan kom að menn skildu leikinn. Hjá okkur varð allt markvissara en áður og allt sem við gerðum átti að hafa tilgang, það var ekki nóg fyrir Bogdan að menn hlypu bara til að hlaupa.

Vissulega gat Bogdan verið harður húsbóndi, en hann var ekki ósanngjarn að mínu mati. Ef menn lögðu sig fram var Bogdan ánægður og fór yfirleitt ekki fram á meira. Vissulega æfðum við meira en áður, en við sáum líka árangur af allri þeirri vinnu og það er það sem skiptir máli. Í sumum öðrum félögum var líka mikið æft, en þar uppskáru menn minna. Sá var munurinn, þökk sé Bogdan. Við vorum heppnir með þjálfara, en hann hafði líka góðan hóp leikmanna til að vinna með. Það má alveg segja að hann hafi verið heppinn með leikmenn og hann keyrði mikið á sömu 7–8 einstaklingunum.“

Árni hafði í mörg ár verið einn sterkasti leikmaður Gróttu og verið fyrirliði liðsins. Lengst af var Grótta í annarri deild en vann sig þó upp í fyrstu deild og lék þar í tvö ár. Honum fannst tími til kominn að leika með sterkara liði og berjast um titla. Víkingur og Valur voru á þessum tíma sterkustu liðin og aðalástæðan fyrir því að Árni ákvað að skipta yfir í Víking voru góð tengsl við Pál Björgvinsson, sem var fyrirliði Víkingsliðsins. Árni segir aðspurður að eflaust haldi einhverjir að hann hafi fengið peninga fyrir félagaskiptin, en svo hafi alls ekki verið. Hann hafi ekki fengið krónu fyrir að leika með Víkingi.

DV sagði að Víkingsliðið hefði verið órofa heild veturinn 1985–86 þegar Víkingur vann tvöfalt. Aðal liðsins hefði verið „skemmtileg blanda af efnilegum leikmönnum og svo reyndum jöxlum sem aldrei missa einbeitinguna þrátt fyrir að mikið gangi á og enn meira sé í húfi.“ Meðal leikmanna Víkings undir stjórn Árna má nefna Guðmund Guðmundsson, Pál Björgvinsson, Karl Þráinsson, Árna Friðleifsson, Sigurð Ragnarsson, Hilmar Sigurgíslason, Siggeir Magnússon og Bjarka Sigurðsson.

Árni segist hafa reynt að leika sem allra minnst með liðinu síðustu árin, en hafi þó alltaf verið til taks. En hvernig þjálfari var Árni? „Eðlilega notaði ég grunninn sem ég hafði lært hjá Bogdan og æfingarnar hafa sennilega verið svipaðar. Ég var þó ekki eins harður og hann og var með allt öðruvísi mannskap. Eitt árið unnum við deildina á sterkri vörn, góðri markvörslu Kristjáns og hraðaupphlaupum, þar sem Gummi var fremstur í flokki. Þetta þarf ekki að vera flókið.“ 

Eftir að ferli Árna lauk hjá Víkingi starfaði hann um tíma sem þjálfari hjá Fram, Ármanni, Gróttu og aftur hjá Víkingi 1995–96. Árni er enn skráður í Víking, þó svo að afskipti hans af starfsemi félagsins hafi ekki verið mikil í seinni tíð. Spurður hvort handboltaárin í Víkingi nýtist honum stundum í starfi sögukennara í MR segir Árni svo vera. „Til að ná árangri þarf að leggja sig fram, hvort sem það er í íþróttum eða í skóla. Þetta á auðvitað einnig við lífið sjálft.“

Íslandsmeistarar Víkings í handknattleik vorið 1982. Aftari röð frá vinstri: Bogdan Kowalczyk, þjálfari, Heimir Karlsson, Steinar Birgisson, Árni Indriðason, Þorbergur Aðalsteinsson, Óskar Þorsteinsson, Ólafur Jónsson, Sigurður Gunnarsson, Jakob Sigurðsson, Guðjón Guðmundsson, liðsstjóri. Fremri röð: Einar Magnússon, Páll Björgvinsson, Eggert Guðmundsson, Kristján Sigmundsson, Ellert Vigfússon, Guðmundur Guðmundsson, Hilmar Sigurgíslason og Hörður Harðarson.
Loka efnisyfirliti