Fimm sinnum Íslandsmeistarar í fótbolta
Hvað skyldu þeir hafa átt sameiginlegt, Axel Andrésson, Youri Sedov og Logi Ólafsson? Jú, þeir þjálfuðu lið Víkings sem urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu. Axel var oft kallaður fyrsti Víkingurinn eða faðir Víkings, en hann þjálfaði leikmenn félagsins frá stofnun þess og fram undir 1930. Undir hans leiðsögn hömpuðu Víkingar Íslandsbikarnum 1920 og 1924. Rússinn Youri Sedov var kominn til sögunnar 57 árum síðar og þjálfaði liðin sem urðu meistarar 1981 og 1982. Það var síðan Logi Ólafsson sem leiddi Víking til fimmta Íslandsmeistaratitilsins 1991.
Yngstu meistarar sögunnar
Axel Andrésson var kosinn fyrsti formaður Víkings vorið 1908 og gegndi hann þá formennsku í félaginu til ársins 1924. Hann var jafnframt leiðbeinandi og aðalþjálfari félagsins í sextán ár og dæmdi fyrir Víking. Axel var því aðeins 24 ára gamall, þegar hann þjálfaði meistarana sumarið 1920. Axel varð síðan aftur formaður félagsins 1930–1932. Axel fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1895 og lést 13. júní 1961. Hann var gerður heiðursfélagi í Víkingi árið 1938 og var hann fyrsti einstaklingurinn sem hlotnaðist sá heiður.
1920 Tognað hafði úr drengjunum sem stofnuðu Víking í apríl 1908 og sumarið 1918 voru þeir tilbúnir að taka þátt í keppni á Íslandsmóti fullorðinna. Óhætt er að segja að Víkingar hafi byrjað með látum því að þeir unnu Val 5:0 í fyrsta leik sínum á Íslandsmóti 9. júní 1918. Árangur Víkinga þótti mjög athyglisverður bæði 1918 og 1919 og þurftu þeir þó
undanþágu fyrir fimm leikmenn 1918 þar sem þeir voru undir 18 ára aldri.
Brotið var blað í sögu Knattspyrnufélagsins Víkings árið 1920 er félagið varð Íslandsmeistari í fótbolta í fyrsta skipti. Víkingur vann bæði KR og Fram á Íslandsmótinu, en Valur tók ekki þátt vegna manneklu. Víkingur var óumdeilanlega besta knattspyrnufélag landsins þetta ár, ekki aðeins í 1. flokki heldur einnig í öðrum flokkum. 2. flokkur vann bæði vor- og haustmót og 3. flokkur vann haustmótið. Víkingur naut vinsælda og náði líka árangri í öðrum greinum; fékk tvenn verðlaun fyrir boðhlaup um sumarið og einnig verðlaun fyrir hástökk, langstökk, 100 og 800 metra hlaup.
Íslandsmótið í knattspyrnu árið 1920 fór fram dagana 22.–27. júní. Fyrir fyrsta leikinn var safnast saman á Austurvelli þar sem hornablásarar léku og síðan var gengið fylktu liði suður á íþróttavöllinn á Melunum. Veður var óhagstætt í fyrsta leiknum, viðureign Víkings og Fram. Þrátt fyrir seiðandi tóna hornaflokksins voru ekki margir áhorfendur á vellinum, eins og hefði átt að vera við jafngóðan kappleik, máske einn þann besta sem farið hefur fram á vellinum, sögðu dagblöðin á þessum tíma og rifjað er upp í bók Sigmundar Steinarsson um 100 ára sögu Íslandsmótsins. Víkingar unnu leikinn 4:3 og skoraði Helgi Eiríksson tvö, en Óskar Norðmann og Ágúst Jónsson sitt markið hvor.
Víkingar unnu KR-inga örugglega í síðasta leik Íslandsmótsins, 5:2. Í Vísi segir svo um lok Íslandsmótsins. „Og það er engin tilviljun að Víkingur vann í þetta sinn og hlaut nafnbótina Besta knattspyrnufélag Íslands. Hann sýndi það í kappleiknum við KR í gærkvöldi, að hann á þá nafnbót með réttu! Leikurinn var einhver sá besti sem hér hefur sést, og svo mátti heita, að Víkingur héldi knettinum allan tímann á vallarhelmingi KR. Kapp var mikið af beggja hálfu, en Víkingar voru liprari og betur samtaka og alltaf á verði …“
Ólafur Þorsteinsson, formaður Fulltrúaráðs Víkings, hefur tekið eftirfarandi saman um þetta fyrsta meistaralið Víkings, en reyndar komu sömu leikmenn að hluta til við sögu fjórum árum síðar.
„Leikmenn Víkings voru ungir að árum er þeir urðu íslandsmeistarar árið 1920 og var meðalaldur þeirra aðeins 18,4 ár. Víkingsliðið er það yngsta sem hefur orðið Íslandsmeistari samkvæmt upplýsingum í bókinni um Íslandsmótið í knattspyrnu. Einar Baldvin Guðmundsson var yngstur leikmanna Víkings, en hann var 16 ára er mótið fór fram. Þrír leikmenn voru 17 ára, tveir 18 ára þrír 19 ára, tveir voru nýorðnir tvítugir og elstur var markvörðurinn Harald Aspelund, 21 árs. Eins og áður segir var Einar Baldvin Guðmundsson, síðar hæstaréttarlögmaður, f. 1903 og d.1974, yngsti leikmaður Víkings til að verða Íslandsmeistari, eða 16 ára. Þetta met stendur enn.
Einar Baldvin var fæddur á Hofsósi við Skagafjörð en fluttist til Reykjavíkur 1916 með móður sinni, Jóhönnu Stefánsdóttur, sem þá var orðin ekkja, nánar tiltekið í húsið nr. 2 við Skólabrú. Þar bjuggu Ólafur Þorsteinsson læknir og kona hans, Kristín Guðmundsdóttir, með sonum sínum þremur. Kristín var systir Einars Baldvins. Einar Baldvin bjó í Skólabrú fram undir árið 1929. Hann sótti nám af kappi sitt hvorum megin við Skólabrú 2, þ.e við Menntaskólann í Reykjavík, stúdent 1923, og síðar í Alþingishúsinu, en þar var Háskóli Íslands til húsa frá 1911 til 1940, þar sem hann lauk lagaprófi 1928 með láði og síðar prófi til málflutnings fyrir Hæstarétti Íslands árið 1934. Að námi loknu var Einar Baldvin ráðinn og síðar meðeigandi frá árinu 1935 að elstu málflutningsskrifstofu í Reykjavík, sem Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti Íslands, stofnaði árið 1907. Hann starfaði þar til æviloka 1974.
Segja má um Einar Baldvin að hann hafi verið eitt fyrsta ungstirnið á vettvangi knattspyrnunnar hér á landi sem eftir var tekið. Hann var mikill leiðtogi á velli, staðsettur á miðjunni og átti það til að skora mörk af löngu færi. Einar Baldvin var alla tíð mikill Víkingur og fylgdist vel með félaginu og framgangi þess. Á kontór á heimili hans að Víðimel 27 skipuðu ljósmyndir frá Víkingsárunum heiðurssess.
Sonur Einars Baldvins, Axel, hrl., f.1931–d.1986, fylgdi í fótspor föður síns. Hann var leikmaður félagsins bæði í handknattleik og knattspyrnu og mikill félagsmálamaður, síðar formaður HSÍ. Þá var systursonur Einars Baldvins, Þorsteinn Ólafsson tannlæknir, sem og sonur hans, Ólafur viðskiptafræðingur, mikilvirkir Víkingar sem leikmenn og félagsmálamenn. Ekki má gleyma tengdasyni Einars Baldvins, Árna Indriðasyni sagnfræðingi, einni af handboltahetjum landsins og liðsmanni í liði Víkings um árabil, en liðið var fyrir fáeinum árum úrskurðað í almennri atkvæðagreiðslu besta lið handboltasögunnar á Íslandi. Sonur Árna og Kristínar Klöru, dóttur Einars Baldvins, Einar Baldvin, hdl., gat sér sömuleiðis gott orð á handboltavellinum.“
Meistarar eftir framlengingu
1924 Besta knattspyrnufélag á Íslandi. Víkingur hampaði meistarabikarnum öðru sinni og vann alla þrjá leiki sína í mótinu sumarið 1924. Liðið vann Val 3:1, KR 1:0 og Fram 4:3 í síðasta leiknum, sem var hreinn úrslitaleikur. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma og var því framlengt og skoruðu Víkingar eina markið í framlengingunni. Glæsilegur sigur á mótinu og fullt hús stiga.
Meðal öflugra leikmanna Víkings á þessum árum voru Harald Aspelund, Þórður Albertsson, Óskar Norðmann, Helgi Eiríksson, Gunnar Bjarnason, Páll Andrésson, Kristinn Kristjánsson, Halldór Halldórsson, Hallur Jónsson, Þórður Albertsson, Einar Baldvin Guðmundsson, Ágúst Jónsson, Sigurður Waage, Magnús Brynjólfsson, Ingólfur Ásmundsson, Angantýr Guðmundsson, Valur Gíslason, Halldór Sigurbjörnsson, Guðjón Einarsson, Sverrir Forberg, Jakob Guðjohnsen, Þorvaldur Thoroddsen, Snorri Björnsson, Kristinn Kristjánsson, Hjálmar Bjarnason, Þorvaldur Thoroddsen og Georg Gíslason
Víkingar léku í sínum rauð- og svartröndóttu peysum á þessum árum, en athygli vekur í auglýsingu fyrir mótið 1921 að Víkingar léku í bláum buxum.
Halldór Sigurbjörnsson, einn af meisturunum 1924 og um tíma formaður Víkings, rifjaði síðar upp fótabúnað knattspyrnumanna um og upp úr 1920. „Í leikjunum voru menn í miklum klossum eða stígvélum, sem náðu upp á legginn. Takkarnir undir skónum voru, trúi ég, hálfur annar sentimetri að lengd og voru þeir negldir upp í sólann. Í raun voru takkarnir ekki annað en naglar bólstraðir með leðri og stundum kom það fyrir, að leðrið eyddist utan af svo ber naglinn stóð niður úr sólanum. Af þessu urðu oft meiðsli. Annars var Axel alltaf með pottflösku af joði með sér á leikjum og hellti miskunnarlaust í sárið ef menn meiddust, það var ekki spurt um sársaukann.“
Axel Andrésson var kosinn fyrsti formaður Víkings vorið 1908 og gegndi hann formennsku í félaginu til ársins 1924. Hann var jafnframt leiðbeinandi og aðalþjálfari félagsins í sextán ár og dæmdi fyrir Víking. Axel varð síðan aftur formaður félagsins 1930–1932. Axel fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1895 og lést 13. júní 1961. Hann var gerður heiðursfélagi í Víkingi árið 1938 og var hann fyrsti einstaklingurinn sem hlotnaðist sá heiður.
Stórkostlegt, óviðjafnanlegt
1981 Víkingur varð Íslandsmeistari í knattspyrnu í fyrsta skipti í 57 ár, eða allt frá árinu 1924. Þjálfari liðsins var Sovétmaðurinn Youri Sedov, Þór Símon Ragnarsson var formaður knattspyrnudeildar og fyrirliði liðsins var Diðrik Ólafsson. Í bókinni Áfram Víkingur, 1983, segir Diðrik meðal annars: „Það er erfitt að lýsa þeirri tilfinningu sem hríslaðist um líkamann þegar við vorum orðnir Íslandsmeistarar. Óneitanlega leið mér mjög vel og það var stórkostlegt að upplifa þetta. Þessi stund minnti mig talsvert á haustið er við fórum í fyrsta skipti upp í 1. deild (1969). Þá náðist einnig gífurlegur áfangi og um það leyti var grunnurinn lagður að þeim árangri, sem Víkingur hefur náð síðustu árin.“
Í riti Sigmundar Steinarssonar um 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu segir hann að fyrir mótið hafi Víkingar og Blikar þótt til alls líklegir með unga leikmannahópa. Víkingur var með sama leikmannahópinn og hafði sýnt tennurnar árið áður undir stjórn Rússans Youris Sedov. „Liðsheildin var aðalvopn Víkinga, en ekki hópur stjörnuleikmanna sem náði ekki saman,“ skrifar Sigmundur. Er Íslandsmótið var nýhafið ákvað Sverrir Herbertsson, einn af skæðustu sóknarmönnum KR, að ganga til liðs við Víking og varð hann löglegur með Víkingi er fjórar umferðir voru eftir af mótinu.
Diðrik markvörður þótti leika mjög vel þetta sumar, sem og Lárus Guðmundsson, sem varð markakóngur með 12 mörk ásamt Sigurlás Þorleifssyni. Eins og áður sagði var það þó liðsheildin sem tryggði sigurinn í mótinu og t.d. skoruðu varnarmennirnir Magnús Þorvaldsson, Ragnar Gíslason og Þórður Marelsson dýrmæt sigurmörk í þremur leikjum.
Í næstsíðustu umferðinni léku Víkingar einum færri frá 25. mínútu í Vestmannaeyjum, en þá var staðan 1:0 fyrir ÍBV. Víkingum óx ásmegin við mótlætið og þeir Ómar Torfason og Lárus Guðmundsson skoruðu tvö mörk og tryggðu liðinu sigur.
23 stig voru í húsi Víkinga sem nægði jafntefli gegn KR í síðustu umferðinni, þar sem Fram hafði lokið sínum síðasta leik með 23 stig, en betri markatölu en Víkingur. Eftir nokkra taugaveiklun framan af leiknum gegn KR skoruðu þeir Sverrir Herbertsson og Lárus Guðmundsson. Titillinn var í höfn eftir 57 ára bið.
„Þetta er hreint út sagt stórkostleg tilfinning, óviðjafnanlegt,“ sagði Lárus Guðmundsson í viðtali við Morgunblaðið eftir leikinn. „Ég bjóst ekki við því í vor að Víkingur yrði Íslandsmeistari. Við settum stefnuna á eitt af þremur efstu sætunum og þó að draumurinn hafi auðvitað verið fyrsta sætið bjóst ég samt ekki við því að sú yrði raunin. Þetta byrjaði vel hjá okkur, en um tíma virtist allt ætla að fara í handaskol. Diðrik missti úr leiki vegna meiðsla á mikilvægum tíma og það var ekki laust við að smá örvæntingar væri farið að gæta hjá okkur um tíma. En þetta kom allt og við erum í sjöunda himni.“
Miðvörðurinn Jóhannes Bárðarson sagði í blaðaviðtali að síðasta leiknum loknum: „Þetta er stórkostleg stund, sem við höfum beðið lengi eftir. Þetta var ekkert sérstakur leikur og spilaði taugaspenna þar inn í, en mörkin voru bæði mjög glæsileg – sérstaklega markið hans Sverris sem losaði um spennu hjá okkur.“ Jóhannes sagði ennfremur að það væri ekki hægt að neita því að gæfuhjólið hefði snúist með Víkingum. „Það var sama þótt við töpuðum þremur leikjum á stuttum tíma, alltaf héldum við forystunni. Þetta átti svo sannarlega að vera Víkingsár og ég er í sjöunda himni.“
Auk fyrrnefndra leikmanna má nefna eftirtalda úr hópi Íslandsmeistaranna 1981: Heimi Karlsson, Hafþór Helgason, Jóhann Þorvarðarson, Helga Helgason, Gunnar Gunnarsson, Gunnlaug Kristfinnsson, Sigurjón Elíasson, Aðalstein Aðalsteinsson, Jóhann Þorvarðarson, Óskar Tómasson, Róbert Agnarsson og Hörð Sigurðsson.
Víkingur lék í Evrópukeppni félagsliða haustið 1981 gegn Bordeaux og tapaði bæði heimaleiknum og leiknum í Frakklandi 4:0. Í liðinu voru þrír leikmenn sem tekið höfðu þátt í Evrópuleikjunum gegn Legia frá Varsjá 1972, Diðrik Ólafsson, Magnús Þorvaldsson og Jóhannes Bárðarson.
Alltaf þakklátur Hermanni
Gömlu Víkingarnir, sem höfðu haldið félaginu gangandi í áratugi, fögnuðu meistaratitlinum 1981 innilega, þeir höfðu jú beðið í 57 ár. Einn þeirra var Ólafur Jónsson Flosa (1905–1989) sem í áratugi var í hópi helstu máttarstólpa Víkings og íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Í minningarbrotum sínum rifjar Ólafur upp nokkra kafla úr ævi sinni sem tengjast Víkingi og greint er frá í Víkingsbókinni, Áfram Víkingur. Meðal annars er kafli sem tengist meistaratitlinum 1981, í endursögn í leikskrá knattspyrnudeildar 2004:
„Óli Flosa var áratugum saman sannfærður um að hann myndi lifa það að sjá Víkinga hampa Íslandsbikarnum í fótbolta en fór að efast sumarið 1981 þegar hann var fluttur á sjúkrahús vegna hjartaáfalls, einmitt þegar Víkingar gengu til síðasta leiks í Íslandsmótinu. Þeir voru að berjast um Íslandsmeistaratitil og urðu að sigra, jafntefli dugði ekki.
„Ég opnaði fyrir fréttatíma Útvarpsins klukkan fjögur á mínútunni daginn sem úrslitaleikurinn fór fram og heyrði fyrsta orð íþróttafréttamannsins: Víkingur. Mér hefur raunar verið hlýtt til Hermanns [Gunnarssonar] æ síðan. Þetta hafði tekist, vonir mínar og draumar höfðu ræst. Víkingur var Íslandsmeistari og ég tórði.
Daginn eftir kom læknir minn á stofugang í fylgd hóps hjúkrunarfræðinga og læknanema. Þegar allur hópurinn óskaði mér til hamingju hugsaði ég: Af hverju mér? Ekkert hafði ég lagt af mörkum til þessara frábæru afreksmanna félagsins. En með þessari glæsilegu frammistöðu höfðu þeir gert félagið mitt, Víking, að Íslandsmeisturum og ég tók með þökkum við hamingjuóskum,“ skrifaði Ólafur Jónsson Flosa.
Stórveldi í íslenskum íþróttum
1982 Stórveldi í íslenskum íþróttaheimi. Víkingar urðu Íslands- og Reykjavíkurmeistarar í knattspyrnu og Íslands- og Reykjavíkurmeistarar í handknattleik, en handboltaliðið vann þetta ár Reykjavíkurmeistaratitilinn þriðja árið í röð.
Í knattspyrnunni voru Víkingar í forystu lengst af mótinu og þegar tvær umferðir voru eftir hafði Víkingur tveggja stiga forskot á ÍBV og KR og þrjú stig á Skagamenn. Víkingur vann 2:0 sigur gegn KA þar sem Sverrir Herbertsson og Jóhann Þorvarðarson skoruðu fyrir Víking. Vestmannaeyingar unnu 2:1 á Akranesi og KR gerði jafntefli við Keflavík og staðan var því þannig fyrir síðustu umferðina að Víkingur var á toppnum með 22 stig, en Eyjamenn voru með 20 stig. Hafa ber í huga að tvö stig voru gefin fyrir sigur, en ekki þrjú eins og gert var frá árinu 1984.
Í síðustu umferðinni unnu Eyjamenn leik sinn á móti Fram á laugardegi og vissu Víkingar því hvað þeir þyrftu að gera þegar leikur þeirra gegn Skagamönnum hófst sólarhring síðar, á sunnudegi. Jafntefli nægði Víkingum og 0:0 jafntefli varð niðurstaðan þar sem Víkingar fengu betri færi. Liðið varð því meistari tvö ár í röð, besta knattspyrnulið á Íslandi.
Ómar Torfason var fyrirliði Víkings þetta sumar og sagði hann að síðasta leiknum loknum: „Ég er mjög ánægður með leikinn. Við fengum mörg færi til að skora, þrjú til fjögur dauðafæri, en jafntefli nægði. Það var mikil pressa á Víkingsliðinu – það er miklu meiri pressa að sigra tvö ár í röð. Já, miklu erfiðara. En okkur tókst það undir stjórn frábærs þjálfara,“ sagði Ómar.
„Þetta var miklu sætari sigur en í fyrra. Það kom í ljós að við erum bestir. Sigur okkar á mótinu má þakka sterkri liðsheild, við erum ellefu leikmenn er vinnum saman með hreint frábærum þjálfara,“ sagði markakóngurinn Heimir Karlsson. Hann skoraði 10 mörk í deildinni, eins og Eyjamaðurinn Sigurlás Þorleifsson, og urðu þeir markahæstir.
„Það er dásamleg tilfinning að koma heim og verða Íslandsmeistari með Víkingi, leika með sínum gömlu félögum,“ sagði Stefán Halldórsson, sem lék um sumarið í fyrsta skipti með Víkingi síðan 1975, en þá hélt hann í atvinnumennsku til Belgíu og Svíþjóðar. Áður fyrr var Stefán öflugur og marksækinn miðherji í knattspyrnu, en eftir heimkomuna lék hann sem miðvörður.
Kvennadeild Víkings studdi á þessum árum á margvíslegan hátt við starfsemi félagsins og á aðalfundi í maí 1982 gaf deildin sérstaklega hannaðan og sérsmíðaðan skáp til að varðveita verðlaunagripi félagsins. Halldóra Ólafsdóttir, formaður kvennadeildar, hafði á orði að vonandi fylltist skápurinn sem fyrst. Þeir Þór Símon Ragnarsson, formaður knattspyrnudeildar, og Jón Kr. Valdimarsson, formaður handknattleiksdeildar, fögnuðu gjöfinni og afhentu Íslandsbikara í báðum greinum til varðveislu í skápnum. Benti formaður Víkings, Anton Örn Kærnested, á að hér væru miklir hlutir að gerast, bikarar í tveimur stærstu greinum komnir í skápinn í einu og vonandi yrðu þeir þar sem lengst.
Eins og í sjónvarpinu
Víkingur keppti á móti Real Sociedad í Evrópukeppni meistaraliða haustið 1982. Spánverjarnir unnu báða leikina, 1:0 í Reykjavík og 3:2 á Spáni. Þeir Jóhann Þorvarðarson og Sverrir Herbertsson skoruðu mörk Víkings. Mark Jóhanns kom eftir um eina mínútu og var það fyrsta mark Víkings í Evrópukeppni en góð frammistaða Víkings í leiknum á Spáni vakti athygli.
Aðalsteinn Aðalsteinsson segir í samtali í Víkingsblaði sem kom út árið 1983 að Evrópuleikir Víkings hafi verið eftirminnilegir, sérstaklega leikurinn gegn Spánarmeisturum Real Sociedad í San Sebastian á Spáni í lok september 1982. „Spánverjarnir unnu 1-0 hér á Laugardalsvelli, óverðskuldað. Leikurinn úti varð ógleymanlegur, um 30 þúsund áhorfendur voru á leikvanginum, hann var troðfullur og aðstæður voru allar eins og best var á kosið, — þetta var eins og maður er vanur að sjá í sjónvarpi, en hafði aldrei dreymt um að upplifa. Við náðum mjög góðum leik úti og komumst yfir 1-0, en Spánverjar náðu að jafna þegar í næstu sókn. Það var slysalegt, en leikurinn endaði svo 3-2.
Eftir leikinn fór Ögmundur Kristinsson út til þess að sækja hanska sína, og þá hylltu áhorfendur hann. Ögmundur kallaði á okkur hina og við fórum allir út og um 30 þúsund áhorfendur hylltu okkur og við veifuðum til þeirra — það var ógleymanlegt. Spánverjarnir voru forviða á hve góðum leik við höfðum náð og sögðu að við hefðum verið eina liðið, sem hefði náð að skora tvö mörk í San Sebastian í tvö ár. Þetta lið sló svo út meðal annars Celtic frá Skotlandi og tapaði naumlega fyrir Hamburger Sportverein í undanúrslitum. Og ekkert lið skoraði tvö mörk í San Sebastian í vetur, utan Víkingur,“ sagði Aðalsteinn.
Í jólablaði Víkings frá 2005 rifjar Jóhannes Bárðarson, baráttujaxlinn mikli sem lék með meistaraflokki frá 1969 til 1982, upp minnisstæð atviki frá ferlinum: „Það má segja að við höfum átt mjög góðan leik þrátt fyrir 3:2 tap gegn þessu stórliði (Real Sociedad 1982). Á þessum velgengnisárum Víkings þjálfaði rússneski þjálfarinn Youri Sedov okkur. Youri var harður af sér og hélt uppi góðum aga á okkur leikmönnunum, og allir báru mikla virðingu fyrir honum. Youri átti sínar mannlegu tilfinningar, því inni í búningsklefanum eftir leikinn runnu tárin í stríðum straumum á karlinum, svo stoltur var hann af okkur strákunum eftir umræddan leik.“
Árið 1983 keppti Víkingur á móti Raba ETO Györ í Evrópukeppni meistaraliða í knattspyrnu og töpuðust báðir leikirnir 2:1 ytra og 2:0 á Laugardalsvelli. Magnús Þorvaldsson skoraði mark Víkings.
Einstakur maður og mikill Víkingur
Á þessum árum þjálfuðu meistaralið Víkings Rússinn Youri Sedov í knattspyrnu og Pólverjinn Bogdan Kowalczyk í handknattleik. Báðir eru þeir goðsagnir í sögu félagsins.
Þór Símon Ragnarsson var formaður knattspyrnudeildar er Sedov var upphaflega ráðinn til félagsins. Hér á eftir fara minningarbrot hans um ráðningu Rússans sigursæla:
„Enski þjálfarinn Bill Haydock hvarf af landi brott daginn fyrir útileik við Akranes 12. ágúst 1978. Diðrik Ólafsson, fyrirliði meistaraflokks, hringdi í mig að kvöldi 11. ágúst og sagði mér að Haydock hefði ekki mætt á síðustu æfingu fyrir leikinn við ÍA. Diðrik sagði þetta afar óvænt en að hann gruni að Haydock sé farinn af landinu. Það staðfestist þegar bifreið hans fannst við Leifsstöð um kvöldið. Pétur Bjarnarson og Hafsteinn Tómasson voru fengnir til að fara í stað þjálfarans í leikinn við ÍA, sem tapast illa.
Síðar fæddist í samtali okkar Diðriks hugmynd um að fá Youri Ilitchev þá landsliðsþjálfara til að taka við liðinu. Skilyrt var að KSÍ hefði forgang fyrir landsliðið. Samkomulag tókst síðan við KSÍ um að Youri Ilitchev tæki að sér þjálfun meistaraflokks Víkings út tímabilið 1978 og 1979 en þá um haustið var honum skipað af Sovétinu að snúa til heimalandsins. Sú ráðstöfun var honum þvert um geð. Víkingur vildi halda honum sem þjálfara en fékk engu um það ráðið gegn stórveldinu. Reynt var með öllum tiltækum ráðum að hafa áhrif á þessa ákvörðun sovétsins og blönduðust ráðherrar og sendiráð Íslands í Moskvu í þau mál, en allt kom fyrir ekki.
Þessar tilraunir urðu samt til þess að boðinn var annar þjáfari að nafni Youri Sedov og kom hann til landsins í marsmánuði 1980. Sedov tók þar við starfi Ilitchev með frábærum árangri. Sovétski skólinn í Víkingi hófst í ágúst 1978 og stóð samfellt til loka 1982 með glæsilegum árangri. Áhrif þessara þjálfara, sérstaklega Sedovs, eru enn mjög mikil í hugum þeirra sem honum kynntust, sem kemur sterkt fram í viðræðum og viðhorfum leikmanna frá þessum tíma.
Í minningargrein um Youri Sedov í ágústmánuði 1995 skrifaði Hallur Hallsson, þáverandi formaður Víkings, m.a. eftirfarandi um Sedov:
„Víkingum brá þegar þeir lásu frétt í Morgunblaðinu þess efnis, að hinn ástkæri fyrrverandi þjálfari þeirra hefði orðið bráðkvaddur í Rússlandi, hann sem var hreystin uppmáluð, ávallt geislandi af lífsgleði og fullur orku.
Víkingar minnast þessa mikilhæfa þjálfara síns með hlýhug, virðingu, og þakklæti. Hann leiddi Víking fyrst í Íslandsmótinu árið 1980, tók við af landa sínum Youri heitnum Ilitschev. Og strax á fyrsta ári leiddi hann Víking til sætis í Evrópukeppni félagsliða. Ári síðar, 1981, varð Víkingur Íslandsmeistari í fyrsta sinn í rúma hálfa öld. Og Víkingar endurtóku leikinn sumarið 1982, urðu Íslandsmeistarar annað árið í röð.
Youri Sedov mótaði heilsteypt og sterkt lið á þessum árum með Víkingi. Hver knattspyrnumaðurinn á fætur öðrum kom fram undir hans stjórn. Youri hafði lag á að laða fram það besta í leikmönnum. Víkingur hafði á að skipa öflugu liði með marga snjalla leikmenn innanborðs, leikmenn sem tóku út mikinn þroska og nýttu hæfileika sína til hins ýtrasta undir stjórn mikilhæfs þjálfara …
Youri Sedov var kallaður til Sovétríkjanna á haustdögum 1982, en sneri aftur á vetrarmánuðum 1986. Það var fyrst og fremst fyrir tilstilli nánasta samverkamanns og vinar Youris Sedovs á Íslandi, Jóhannesar Tryggvasonar. Og kraftaverkið lét ekki á sér standa, Víkingur vann sér sæti í 1. deild sumarið 1987. Næstu tvö árin fóru í það að festa Víking í sessi í 1. deild. Það tókst og Víkingur varð svo Íslandsmeistari árið 1991 undir stjórn annars mikilhæfs þjálfara, Loga Ólafssonar.
Youri Sedov var einstakur maður, mikill Víkingur. Hann var ávallt mættur tímanlega fyrir æfingar og heilsaði leikmönnum með handabandi þegar þeir komu. Einstakt samband myndaðist milli hans og leikmanna, sem og stjórnarmanna. „Setjum Víkingi háleit markmið“, var Youri vanur að segja. Og undir hans stjórn rættist langþráður draumur, félagið í Smáíbúðahverfi varð Íslandsmeistari í knattspyrnu 57 árum eftir að hafa hampað síðast Íslandstitli, árið 1924.
Youri Sedov naut virðingar í gömlu Sovétríkjunum. Hann var margfaldur sovéskur meistari, lék með Spartak Moskvu allan sinn feril og var fastamaður í sovéska landsliðinu á annan áratug. Koma hans hingað var hvalreki fyrir Víking og íslenska knattspyrnu. Hann kenndi mönnum að leika knattspyrnu, laðaði fram það besta í hverjum leikmanni og hafði næman skilning á leikskipulagi.“
Löng bið eftir þyrlunni
1991 Undir stjórn Loga Ólafssonar þjálfara urðu Víkingar Íslandsmeistarar í fimmta skipti. Fyrirliði liðsins var Atli Helgason og Gunnar Örn Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar. Víkingur var besta knattspyrnufélag á Íslandi í fimmta skipti, en hafði áður unnið titilinn 1920, 1924, 1981 og 1982. Ótrúleg spenna var í Íslandsmótinu þetta ár og þá sérstaklega í lokaumferðinni, en Víkingar tryggðu sér titilinn með betri markatölu en Fram.
Björn Bjartmarz kom inn á í byrjun seinni hálfleiks í lokaleiknum gegn Víði í Garði, en Víkingur var þá 0:1 undir og vítaspyrna hafði farið forgörðum. Á sama tíma var Fram yfir á móti ÍBV, en Víkingur og Fram voru jöfn að stigum fyrir leikinn. „Á sex mínútna kafla gerðum við hins vegar þrjú mörk og ég gerði tvö þeirra. Ég fagnaði þó aldrei almennilega því ég vildi fleiri mörk og hélt að þetta dygði ekki. Við heyrðum alltaf annað slagið í þyrlunni sem við vissum að sveimaði yfir með Íslandsbikarinn og formann KSÍ innanborðs. Svo fór að þyrlan lenti í Garði, við unnum mótið á markatölu og þá fyrst áttaði maður sig á því að við vorum meistarar,“ sagði Björn meðal annars í samtali við Morgunblaðið, þegar 25 ár voru liðin frá afrekinu.
Björn lék átta leiki um sumarið, en var aldrei í byrjunarliði þetta sumar, og mörkin dýrmætu gegn Víði voru einu mörk hans í deildinni þetta sumar. Mikið var um að vera hjá Birni þessa haustdaga en hann var 1. september 1991 ráðinn framkvæmdastjóri félagsins.
Miðuðum allir í sömu átt
Sá uppaldi Víkingur sem lék flesta leiki með meistaraliðinu sumarið 1991 var Hörður Theódórsson, en hann lék 16 leiki af 18 í deildinni og gerði í þeim þrjú mörk. Hann segir að hópurinn hafi verið skipaður mjög sterkum einstaklingum og Loga Ólafssyni þjálfara hafi tekist á aðdáunarverðan hátt að binda hópinn saman.
„Fyrir keppnistímabilið fengum við Guðmund Inga, Gumma Steins, Þorstein, Ólaf, Hólmstein, Martein og Tomislav, en misstum Aðalstein, Goran, Einar, Sveinbjörn og Trausta. Við náðumst að kynnast vel fyrir mót, vorum orðnir miklir vinir og í heildina var hópurinn aðeins sterkari en árið á undan,“ segir Hörður.
„Ef við tölum um einstaklinga þá skoraði Gummi Steins helling af mörkum, en ekki má gleyma því að Atli Einars var með honum frammi með sinn mikla hraða og ótrúlegu vinnslu. Saman voru þeir mjög ógnandi. Svo er nánast aldrei talað um Guðmund Inga, sem var stórkostlegur á miðjunni og var valinn í landsliðið um haustið. Hann var með bilað keppnisskap og var farinn að röfla yfir dómgæslunni áður en leikurinn byrjaði. Í hálfleik í Garðinum komst Logi varla að því Gummi Ingi var að skamma okkur alla fyrir hvað við vorum lélegir. Atli Helga var fyrirliði og batt liðið saman.“
Leikmenn komu úr ýmsum áttum og segir Hörður að innan hópsins hafi verið tveir eða þrír vinahópar fyrir utan æfingar. Hópurinn hafi þó staðið saman sem ein heild og til dæmis hafi leikmenn yfirleitt farið saman út að borða í hádeginu fyrir leik, nokkuð sem kom ekki frá þjálfurum eða stjórn. Leikmenn hafi haft mikið keppnisskap og oft hafi kastast í kekki á æfingum, sem jafnvel hafi endað með handalögmálum. Eftir æfingu hafi allir verið orðnir vinir á ný og mannskapurinn hafi yfirleitt sungið saman í sturtunni, sama hvað gengið hafði á á æfingunni. Þar hafi Atli Helgason oftast stjórnað lagavali.
Æfðu Svanavatnið
„Logi var snillingur í hópefli og það var mjög gaman á æfingum hjá honum og aðstoðarmönnunum Ragnari Gíslasyni og Diðrik Ólafssyni,“ segir Hörður. „Logi fékk til dæmis sálfræðing til að stilla okkur saman. Hann notaði örvar til að fá okkur alla til að miða í sömu átt. Síðan varð þetta þannig að ef einhver gekk ekki í takt þá voru hinir fljótir að minna hann á örvarnar. Þannig vorum við alltaf að minna okkur á að standa saman.
Daginn fyrir leiki stillti Logi upp ímynduðu liði andstæðinganna og þeir báru nöfn þeirra. Það var gott að vera aðeins búinn að stilla sig af á móti andstæðingunum áður en leikurinn hófst. Um veturinn fórum við í ballett í sal í Þjóðleikhúsinu, nokkuð sem ég held að hafi ekki verið gert áður. Eftir miklar æfingar fengum við að setja upp bút úr Svanavatninu, það hefur verið sjón að sjá!“
Sumarið 1991 verður leikmönnum jafnt sem stuðningsmönnum Víkings ógleymanlegt, en hvernig skýrir Hörður það hversu hratt Víkingum dapraðist flugið?
„Í rauninni byrjaði að fjara undan þessu sumarið 1992. Við vorum ekki vanir því að vera bestir, fengum mikla umfjöllun og svo fóru lið að spila aftar á móti okkur. Það hentaði okkur ekki eins vel því við vildum liggja aftarlega og sækja hratt.
1993 voru síðan einhverjir erfiðleikar í fjármálunum og Logi hringdi í okkur alla og bað okkur um að spila áfram með Víkingi, en fyrir minni pening. Ég held að langflestir hafi verið til í að klára þetta með Víkingi. Logi var hins vegar rekinn þegar flestir voru búnir að ákveða að vera áfram út af Loga. Þá ákváðu margir að rifta samningum og ég held að við höfum misst níu leikmenn þetta ár sem spiluðu meira en 10 leiki 1992.
Við vorum samt með lið sem ekki átti að falla. Lalli Gumm kom og þjálfaði þetta árið og ég held að hann hafi vantað reynslu til að taka á því erfiða verkefni að halda okkur uppi. Hann kom seint inn í þetta og var með alveg nýtt lið í höndunum, því fór sem fór,“ sagði Hörður Theódórsson í samtali við söguvefinn haustið 2017.
Minnisstæðasti hópurinn
Í samtali við Martein Guðgeirsson í Víkingsblaði frá 2004 rifjar Atli Einarsson, framherjinn eldsnöggi, upp árið þegar hann varð meistari með Víkingi, en hann lék með félaginu í um áratug: „Minnisstæðasti hópurinn held ég að sé sá sem ég spilaði með með árin 1990 til 1992, hann var alveg einstaklega samheldinn og skemmtilegur. Mórallinn var frábær þótt auðvitað gæfi stundum á bátinn. Stundum lá við slagsmálum á æfingum og sumir tækluðu allt sem fyrir varð, en menn stóðu samt alltaf saman þegar í leikina var komið. Logi átti auðvitað stóran þátt í því með sinni léttu lund og bröndurum.“
Í bók Sigmundar Steinarssonar um 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu er meðal annars talað við Guðmund Steinsson og segir hann svo frá mótinu 1991: „Það má með sanni segja að Íslandsmótið hafi verið lyginni líkast fyrir okkur Víkinga. Það reiknuðu ekki margir með að við stæðum uppi sem meistarar,“ sagði Guðmundur Steinsson, sóknarleikmaður Víkings, sem varð Íslandsmeistari annað árið í röð – árið áður með Fram, markakóngur og útnefndur leikmaður ársins af leikmönnum 1. deildar.
Ævintýrið í Garðinum
„Við fögnuðum meistaratitlinum á ævintýralegan hátt – í mikilli keppni við Fram,“ sagði Guðmundur, og víst er að ævintýrið í Garðinum líður þeim seint úr minni sem voru staddir í Garðinum og heyrðu hljóðið í þyrlunni nálgast í leikslok. Sumarið var þó ekki áfallalaust hjá Guðmundi, því hann kinnbeinsbrotnaði á æfingu eftir samstuð við Atla Einarsson og varð að taka sér hvíld í þrjá leiki. Stöðu hans í þeim leikjum tók hinn 16 ára gamli Helgi Sigurðsson.
Í 2:0 sigurleik á móti Fram varð Guðmundur síðan fyrir því að lenda í harkalegum árekstri við Birki Kristinsson, markvörð Fram, eftir að Guðmundur hafði skorað fram hjá honum. Á hnénu sást glitta í eitthvað hvítt og var óttast að hnéskel Guðmundar hefði brotnað. Á Borgarspítalanum kom í ljós að einn takkinn í skó Birkis hafði fest undir húðinni í hné Guðmundar og var hann fjarlægður með töng. Guðmundur var því klár í næsta leik.
Auk Guðmundar gekk varnarmaðurinn Þorsteinn Þorsteinsson til liðs við Víking frá Fram fyrir keppnistímabilið og einnig tveir yngri Framarar, þeir Hólmsteinn Jónasson og Marteinn Guðgeirsson. Fyrir voru tveir fyrrverandi Framarar í herbúðum Víkings, þeir Helgi Bjarnason og Helgi Björgvinsson. Þrír aðrir leikmenn bættust við Víkingshópinn fyrir sumarið, þeir Guðmundur Ingi Magnússon frá Skövde í Svíþjóð, Ólafur Árnason frá ÍBV og Júgóslavinn Tomislav Bosnjak.
Aðrir sem komu við sögu um sumarið voru Guðmundur Hreiðarsson, aðalmarkvörður liðsins, Jannez Zilniik, Atli Helgason fyrirliði, Hörður Theódórsson, Atli Einarsson, Björn Bjartmarz, Helgi Sigurðsson, Unnsteinn Kárason og Gunnar Guðmundsson. Af byrjunarliðinu var það í raun aðeins Hörður Theódórsson sem var uppalinn Víkingur.
Til að hlæja hver að öðrum
Logi Ólafsson lýsti spennunni á lokadeginum svo í samtali við Sigmund: „Mér leist ekki á blikuna, þegar Fram var 3:0 yfir og við 1:0 undir. Þegar við komumst í 3:1 þurftu Framarar að gera tvö mörk til viðbótar til að sigra, en ég neitaði að trúa því að þeir gætu það. Ég gældi við þá hugmynd að við gætum bætt við enn einu og tryggt þetta, en svo flautaði dómarinn af og við gátum ekki gert meira. Spennan var ofboðsleg og framundan voru einhverjar lengstu mínútur, sem ég hef lifað. Ég var með heyrnartæki á mér og hlustaði á Bjarna Felixson lýsa síðustu mínútunum á Laugardalsvelli. Það var unaðsleg stund þegar þeirri lýsingu lauk.“
Eftir aðeins fjórar umferðir á Íslandsmótinu 2017 urðu þjálfaraskipti hjá Víkingi, Milos Milojevic lét af störfum og Logi Ólafsson tók við. Logi var boðinn velkominn í Víkina á ný og liðið endaði í áttunda sæti tólf liða. Í samtali við fréttabréf Víkings á miðju sumri 2017 rifjaði Logi upp sumarið 1991:
„Sigurinn þá var sigur liðsheildarinnar – hópurinn var virkilega vel saman settur og metnaðarfullur, hann lagði mikið á sig til að ná árangri. Við fórum reyndar ekki troðnar slóðir, við nutum aðstoðar frjálsíþróttaþjálfara til að auka hraða, við stunduðum meira að segja ballett í Listdansskóla Þjóðleikhússins til að fyrirbyggja meiðsl … og til að hlæja hver að öðrum. Við vorum nú ekki beint góðir í ballett, en allt þetta bætti liðið líkamlega og andlega,“ sagði Logi í samtali við fréttabréfið.
Aðspurður um ástæðu þess að hann lét til leiðast og tók að sér þjálfun Víkings sagði hann: „Mér þykir afar vænt um félagið sem gaf mér tækifæri í upphafi míns ferils. Mér fannst strax að Víkingur ætti það inni að við a.m.k. ræddum saman þegar kallið kom. Mér fannst svo þegar á reyndi að faglegi þátturinn væri í góðu lagi; fótboltinn, liðið, stjórnin og umgjörðin voru til fyrirmyndar og þess vegna er ég kominn til baka.
Atli Helgason, fyrirliði Íslandsmeistaranna í knattspyrnu, var kjörinn íþróttamaður Víkings og var það í fyrsta skipti sem staðið var að slíku vali. Hópur Víkinga, sem kallaði sig Big-M, gaf myndarlegan bikar af þessu tilefni.
Bikarmeistarar 1971
Víkingur varð bikarmeistari í knattspyrnu árið 1971. Jón Ólafsson skoraði eina mark úrslitaleiksins gegn Breiðabliki, en leikið var á Melavellinum 11.nóvember það ár. Leiknum hafði verið frestað um nokkra daga vegna veðurs. Mark Jóns Ólafssonar er eitt það mikilvægasta í sögu félagsins. Leikurinn var sá fyrsti sem leikinn var undir flóðljósum á Melavellinum.
Guðgeir Leifsson tók aukaspyrnu við vítateigshornið gegnt norðurmarki vallarins í síðari hálfleik beint á kollinn á Jóni, sem komið hafði stormandi úr vörninni og skallaði knöttinn í netið.
Árið 1971 er eitt mesta sigurár í knattspyrnusögu félagsins. Meistaraflokkurinn fór upp um deild um haustið með fáheyrðum yfirburðum og lauk svo tímabilinu í nóvember með stæl og sveiflu með bikarmeistaratitli í fyrsta og eina skipti í sögunni. Eftirfarandi minningabrot eru tekin saman af Ólafi Þorsteinssyni, formanni Fulltrúaráðs Víkings, sem var einn af leikmönnum bikarmeistaranna:
„Einn af burðarásum liðsins var framherjinn Hafliði Pétursson, verslunarstjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands á Bræðraborgarstíg. Hafliði hafði leikið framúrskarandi vel og átt hvern stórleikinn á fætur öðrum í keppninni og á öllu tímabilinu, enda rómaður markaskorari. Það var því heilmikið áfall fyrir liðið þegar það spurðist að Hafliði hefði ráðið sig einn túr á fraktskip Eimskipafélagsins og myndi að öllum líkindum ekki ná úrslitaleiknum. Menn biðu og vonuðu, en skipinu seinkaði, þó ekki meira en svo að það lá við festar hér í ytri höfninni í Reykjavík þetta dimma nóvemberkvöld.
Forráðamenn félagsins lögðu hart að sér við að fá Halla í land og fengu yfirhafnsögumanninn í Reykjavík, þekktan Víking, í lið með sér, sem var með lóðsbát hafnarinnar tilbúinn til að sækja hann, en tollyfirvöld leyfðu það ekki. Þá gerði Hafliði sér lítið fyrir, greip síma og var nánast í stöðugu símasambandi við Melavöllinn á meðan leikurinn fór fram. Ekki lék nokkur vafi á því, að menn lögðu sig betur fram við þau tíðindi. Sigur vannst og kátastur allra var Hafliði Pétursson í leikslok. Hafliði lést löngu fyrir aldur fram í desember 1982, fæddur árið 1945.
Leikmannahópur meistaraflokks á þessum tíma, frá 1969 til og með 1974, var meira og minna óbreyttur. Áðurnefndur Jón Ólafsson, Gunnar Gunnarsson, Bjarni bróðir hans, Páll Björgvinsson, Guðgeir Leifsson, Diðrik Ólafsson, Örn Guðmundsson, f.1947, d. 2008, og Ólafur Þorsteinsson og fleiri. Þó voru að koma fram yngri menn, t.a.m Adolf Guðmundsson, Ragnar Gíslason, Gunnar Örn Kristjánsson og fleiri piltar.
Það að hópurinn hafði meira og minna leikið saman frá því í fjórða flokki, sem og heilmikil gæði inni á vellinum, skóp þennan góða árangur á þessu skeiði knattspyrnunnar í Víkingi. Síðasti stóri titill þessarar kynslóðar var Reykjavíkurmeistaratitillinn árið 1974, á 11 alda afmæli Íslandsbyggðar. Af þessu skeiði tók svo við enska tímalínan sem svo hefur verið kölluð, þegar tveir Englendingar þjálfuðu meistaraflokk Víkings, þeir Anthony Sanders og Bill Haydock, hvor á eftir öðrum, með misjöfnum árangri.
Aðalþjálfari meistaraflokksins á þessu skeiði var Eggert Jóhannesson, formenn knattspyrnudeildar voru m.a. Ólafur Jónsson og Ásgrímur Guðmundsson. Eggert hafði þjálfað meira og minna alla þessa pilta og miklu fleiri allt frá því í 4. og 5. flokki. Eggert var frumkvöðull í þjálfun yngri flokka í Reykjavík. Hann lagði mikið upp úr tæknilegum atriðum á sviði knattspyrnunnar.
KSÍ hafði á þessum árum komið sér upp sérstöku merkjakerfi þar sem yngri leikmönnum hvaðanæva af landinu gafst kostur á því að leysa tilteknar knattþrautir. Fyrir þetta fengu leikmenn brons-, silfur- og loks gullmerki, þegar tilteknum áfanga lauk. Fyrstu gulldrengir Víkings voru Skúli Jóhannesson, síðar kaupmaður í Tékk-Kristal, og Sigurjón Stefánsson, síðar læknir.
Merkin voru afhent við hátíðlega athöfn á Laugardalsvelli og voru Víkingar ansi tíðir gestir við þessar merkjaveitingar fyrir tilstilli Eggerts. Hann hafði numið þjálfarafræðin af Karli Guðmundssyni, íþróttakennara við Gagnfræðaskóla Austurbæjar um áratugaskeið, sem var áður þjálfari, leikmaður með Fram og fyrirliði landsliðsins í knattspyrnu á sjötta og fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Karl kom á fót og var upphafsmaður að hvers konar námskeiðahaldi á vegum KSÍ fyrir þjálfara í íþróttinni. Eggert sótti þau öll og tók þær gráður sem í boði voru. Styrkur Eggerts sem þjálfara kom einmitt fram í því að hann kunni að umgangast piltana, laðaði það besta fram og tæknileg atriði vöfðust ekki fyrir honum,“ skrifar Ólafur Þorsteinsson.
Reykjavíkurmeistarar 1940
Sigur Víkings á Reykjavíkurmótinu 1940 sómir sér einnig vel í þessari samantekt um stóra sigra. Sá sigur vakti mikla athygli og braut í blað í sögu félagsins, en þetta var fyrsti Reykjavíkurmeistaratitill Víkings í knattspyrnu. Þetta ár var leikin tvöföld umferð á mótinu og voru á annað þúsund áhorfendur á Melavellinum á síðasta leik Víkings í mótinu Á þessum árum voru Valsmenn með mjög sterkt lið, en Víkingar unnu m.a. öruggan 4:1 sigur á Val.
Til er í vörslu Víkings kvikmyndarbrot frá þessum leik, sem fengið var frá Kvikmyndasafni Íslands í Hafnarfirði árið 2008, þegar félagið varð 100 ára. Myndbrotið er í lit og var látið rúlla nánast viðstöðulaust á Sögusýningu félagsins, sem sett var upp í tilefni af afmælinu í Víkingsheimilinu og stóð í sex vikur vorið 2008. Þar sést einmitt vel hinn mikli fjöldi áhorfenda sem sá leikinn, í blíðskaparveðri.