Um söguvef Víkings
Þann 21. apríl 2018 voru 110 ár liðin frá því að Knattspyrnufélagið Víkingur var stofnað í miðbæ Reykjavíkur og á þeim tímamótum var Söguvef Víkings hleypt af stokkunum.
Lengi hafði staðið til að gera átak í varðveislu efnis úr sögu Knattspyrnufélagsins Víkings, meðal annars í kringum aldarafmæli félagsins árið 2008, og byggja ofan á efni bókarinnar Áfram Víkingur, sem út kom árið 1983. Af því varð þó ekki, en árið 2016 ákvað aðalstjórn Víkings að lagður skyldi grunnur að Söguvef Víkings, þar sem hægt væri að fræðast um sögu félagsins í máli og myndum
Nú þegar er hér að finna efni um langa og merkilega sögu Knattspyrnufélagsins Víkings, en sá brunnur er langt í frá þurrausinn. Áfram verður unnið að skráningu efnis og eru Víkingar hvattir til að leggja söguvefnum til efni, bæði myndir og minningar. Söguvefur Víkings á að vera lifandi og stöðugt á að uppfæra hann og bæta við nýjum upplýsingum um félagið og fólkið sem staðið hefur að baki félaginu frá upphafi og fram á þennan dag.
Víða hefur verið leitað fanga, m.a. með viðtölum við þá sem staðið hafa í eldlínunni innan vallar og utan, í fundargerðum, einkum aðalstjórnar, greinum í blöðum og tímaritum og bókinni Áfram Víkingur, sem er grunnurinn að tímalínu söguvefsins. Þá var talsvert efni að finna í öskjum á Borgarskjalasafni og verður á næstu misserum haldið áfram að vinna úr þeim og öðrum gögnum.
Höfundur meginefnis er Ágúst Ingi Jónsson, en hann ritaði einnig 75 ára afmælisrit félagsins, Áfram Víkingur. Fleiri komu að skráningu efnis og yfirlestri og má þar nefna aðra fulltrúa í sögunefnd, þá Ólaf Þorsteinsson og Þór Símon Ragnarsson. Megintextann á Söguvefnum prófarkalas Helga Jónsdóttir, cand.mag. Auðólfur Þorsteinsson annaðist uppsetningu og tæknilegan frágang. Ýmsir komu að söfnun mynda og skráningu þeirra; Sögunefndin, Auðólfur Þorsteinsson, Sigurður Georgsson og fleiri. Fannar Helgi Rúnarsson íþróttastjóri veitti margvíslega aðstoð við frágang á Söguvefnum.
Verkefnið var meðal annars unnið með styrk frá Fulltrúaráði Víkings.