1991 - 2000
Konur í fararbroddi í Víkinni
Góður árangur framan af áratugnum var gleðiefni í Víkinni, en nýtt íþróttahús og félagsheimili með því nafni var tekið í notkun 1991. Víkingar urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu 1991, en féllu síðan niður um deild aðeins tveimur árum síðar. Blakkonur héldu enn uppi merkinu og nú var komið að handboltakonum félagsins að vinna stóru titlana. 1992, 1993 og 1994 varð Víkingur Íslandsmeistari í handbolta kvenna og einnig bikarmeistari 1992 og 1994. Karlaliðið í handboltanum var einnig mjög sterkt í upphafi áratugarins, en svo fór vorið 1996 að stórveldið Víkingur féll um deild í handboltanum. Borðtennisdeildin var orðin hin öflugasta á landinu og Guðmundur Eggert Stephensen varð Íslandsmeistari í einliðaleik í borðtennis í meistaraflokki karla árið 1994, aðeins 11 ára gamall, og varð tuttugu sinnum í röð Íslandsmeistari í einliðaleik í borðtennis.
1991
Undir stjórn Loga Ólafssonar þjálfara urðu Víkingar Íslandsmeistarar í fimmta skipti. Fyrirliði liðsins var Atli Helgason og Gunnar Örn Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar. Víkingur var besta knattspyrnufélag á Íslandi í fimmta skipti, en hafði áður unnið titilinn 1920, 1924, 1981 og 1982. Ótrúleg spenna var í Íslandsmótinu þetta ár, og þá sérstaklega í lokaumferðinni, en Víkingar tryggðu sér titilinn með betri markatölu en Fram.
Björn Bjartmarz kom inn á í byrjun seinni hálfleiks í lokaleiknum gegn Víði í Garði, en Víkingur var þá 0:1 undir og vítaspyrna hafði farið forgörðum. Á sama tíma var Fram yfir á móti ÍBV, en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn. „Á sex mínútna kafla gerðum við hins vegar þrjú mörk og ég gerði tvö þeirra. Ég fagnaði þó aldrei almennilega því ég vildi fleiri mörk og hélt að þetta dygði ekki. Við heyrðum alltaf annað slagið í þyrlunni sem við vissum að sveimaði yfir með Íslandsbikarinn og formann KSÍ innanborðs. Svo fór að þyrlan lenti í Garði, við unnum mótið á markatölu og þá fyrst áttaði maður sig á því að við vorum meistarar,“ sagði Björn meðal annars í samtali við Morgunblaðið þegar 25 ár voru liðin frá afrekinu. Björn lék átta leiki um sumarið, en var aldrei í byrjunarliði þetta sumar, og mörkin dýrmætu gegn Víði voru einu mörk hans í deildinni þetta sumar. Mikið var um að vera hjá Birni þessa haustdaga, en 1. september 1991 var hann ráðinn framkvæmdastjóri félagsins.
Í bók Sigmundar Steinarssonar um 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu er talað við Guðmund Steinsson og segir hann meðal annars: „Við fögnuðum meistaratitlinum á ævintýralegan hátt – í mikilli keppni við Fram,“ og víst er að ævintýrið í Garðinum líður þeim seint úr minni sem voru þar staddir og heyrðu hljóðið í þyrlunni nálgast í leikslok. Sumarið var þó ekki áfallalaust hjá Guðmundi, því hann kinnbeinsbrotnaði á æfingu eftir samstuð við Atla Einarsson og varð að taka sér hvíld í þrjá leiki. Stöðu hans í þeim leikjum tók hinn 16 ára gamli Helgi Sigurðsson. Í 2:0 sigurleik á móti Fram varð Guðmundur síðan fyrir því að lenda í harkalegum árekstri við Birki Kristinsson, markvörð Fram, eftir að Guðmundur hafði skorað fram hjá honum. Á hnénu sást glitta í eitthvað hvítt og var óttast að hnéskel Guðmundar hefði brotnað. Á Borgarspítalanum kom í ljós að einn takkinn í skóm Birkis hafði fest undir húðinni í hné Guðmundar og var hann fjarlægður með töng svo að Guðmundur var klár í næsta leik. Guðmundur varð þarna Íslandsmeistari annað árið í röð því árið áður hafði hann unnið mótið með Fram. Hann varð markakóngur deildarinnar 1991 og var útnefndur leikmaður ársins af leikmönnum fyrstu deildar.
Auk Guðmundar gekk varnarmaðurinn Þorsteinn Þorsteinsson til liðs við Víking frá Fram fyrir keppnistímabilið, og einnig tveir yngri Framarar, þeir Hólmsteinn Jónasson og Marteinn Guðgeirsson. Fyrir voru tveir fyrrverandi Framarar í herbúðum Víkings, þeir Helgi Bjarnason og Helgi Björgvinsson. Þrír aðrir leikmenn bættust við Víkingshópinn fyrir sumarið, þeir Guðmundur Ingi Magnússon frá Skövde í Svíþjóð, Ólafur Árnason frá ÍBV og Júgóslavinn Tomislav Bosnjak. Aðrir sem komu við sögu um sumarið voru Guðmundur Hreiðarsson, aðalmarkvörður liðsins, Jannez Zilniik, Atli Helgason fyrirliði, Hörður Theódórsson, Atli Einarsson, Björn Bjartmarz, Helgi Sigurðsson, Unnsteinn Kárason og Gunnar Guðmundsson. Í byrjunarliðinu var það í raun aðeins Hörður Theódórsson sem var uppalinn Víkingur.
Á fundi aðalstjórnar Víkings 22. febrúar 1991 var greint frá því að samkomulag hefði verið gert við Reykjavíkurborg um fjármagn vegna byggingar íþróttahúss og frágangs félagsheimilis og vallarhúss. Borgin tryggði Víkingi fjármagn til þessara verkefna fram til ársins 1994, alls 175 milljónir króna, en 20 milljónir höfðu áður verið greiddar. Þegar leið á byggingartímann samþykkti borgin að gefa út skuldabréf fyrir allri upphæðinni, sem átti að greiðast á fjórum árum, og var samið um sölu bréfanna við VÍB til að hafa fjármagn á hinum stutta framkvæmdatíma.
„Það er ekki ofmælt að um tímamótasamning er að ræða; samning sem markar þáttaskil í samstarfi Reykjavíkurborgar og íþróttafélaga í höfuðborginni … Sannleikurinn er sá að Víkingur er að koma upp glæsilegasta íþróttasvæði landsins. Fossvogurinn er hreinasta perla,“ sagði Hallur Hallsson á aðalfundi Víkings í júní 1991. Davíð Oddsson borgarstjóri tók fyrstu skóflustungu að íþróttahúsinu 2. mars að viðstöddu fjölmenni og var hann síðan sæmdur gullmerki Víkings við athöfn í félagsheimilinu. Gerður var svokallaður alverksamningur við verktakafyrirtækið Hagvirki um að reisa íþróttahúsið og skyldi það vera tilbúið til notkunar í byrjun nóvember um haustið, eða aðeins átta mánuðum frá skóflustungu, og gekk það allt eftir. Íþróttahúsið tekur um 1250 áhorfendur, þar af um eitt þúsund í sæti, og er íþróttasalurinn, 44×33 metrar.
Aðalstjórn ákvað að flýta lokahönnun og framkvæmdum við vallarhús og félagsheimili þannig að taka mætti það í notkun á sama tíma. Um sumarið var samið við þrjá mæta Víkinga um vinnu í félags- og búningaálmu vallarhússins, þá Ásmund Kristinsson múrarameistara, Hjörleif Þórðarson rafvirkjameistara og Björn Ólafsson pípulagningameistara.
Haustið 1991 var leitað til Víkingsins Bjarna Guðnasonar, prófessors, fyrrverandi alþingismanns og fyrrum landsliðsmanns í knattspyrnu, um að hann tæki að sér að finna nafn á svæðið. Hann fékk Víkingana Árna Indriðason, sögukennara og áður landsliðsmann í handknattleik, og Sigurð G. Tómasson, fjölmiðla- og íslenskumann, til liðs við sig. Nafnanefndin lagði til við aðalstjórn að aðstaðan í Fossvogi yrði annaðhvort nefnd Vík(in) eða Virki(ð). Á fundi daginn fyrir vígslu íþróttahússins varð Víkin fyrir valinu eftir talsverðar umræður í aðalstjórn. Í Víkinni lögðu víkingar til forna skipum sínum, söfnuðu kröftum, öfluðu vista og æfðu vopnfimi áður en þeir héldu á ný í víking.
Sérstök hátíðarnefnd tók til starfa í september og undirbjó vígslu mannvirkjanna sem var ákveðin laugardaginn 2. nóvember. Ágúst Ingi Jónsson var formaður hennar, en með honum störfuðu m.a. Ólafur Jónsson, Hannes Guðmundsson og Sigtryggur Sigtryggsson. Gefið var út átta síðna Víkingsblað og fjölmenn vígsluhátíð var haldin í íþróttasalnum fyrir boðsgesti, iðkendur í Víkingi og íbúa í hverfinu. 300 manna félagssamkoma var í íþróttasalnum um kvöldið og loks íþróttahátíð daginn eftir, þann 3. nóvember.
Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra var meðal þeirra sem tóku til máls er húsið var tekið í notkun, séra Pálmi Matthíasson blessaði mannvirkin, nýtt Víkingslag Valgeirs Guðjónssonar var frumflutt og Bjarni Guðnason lýsti vali á nafni svæðisins. Ungir knattspyrnumenn brugðu á leik, Guðmundur Stephensen sýndi borðtennis og margfaldir Íslandsmeistarar Víkings í handknattleik frá árunum í kringum 1980 léku gegn landsliðinu á sama tíma. Fyrsta markið í húsinu skoraði Rósmundur Jónsson, sem á sínum tíma lék landsleiki í handbolta bæði sem skytta og markvörður.
Fyrir hönd félagsins heiðraði hátíðarnefnd þá Jón Kr. Valdimarsson, Eystein Helgason, Jóhann Óla Guðmundsson, Hall Hallsson og eiginkonur þeirra á félagshátíðinni að kvöldi vígsludagsins og þakkaði frábær störf í þágu Víkings.
Í handboltanum hafði lið Víkings tekið stórstígum framförum og vann Víkingur deildarkeppnina. Liðið varð hins vegar í öðru sæti í úrslitakeppninni á eftir Val og úrslitaleikurinn í bikarkeppninni tapaðist gegn ÍBV, þannig að félagið missti naumlega af tveimur helstu titlunum. Sigurður Gunnarsson var þá leikmaður og þjálfari ÍBV og var þetta fyrsti stóri titill Vestmannaeyinga í handbolta. Meðal leikmanna í Víkingsliðinu voru Guðmundur Guðmundsson, Bjarki Sigurðsson, Birgir Sigurðsson, Alexei Trúfan, Hrafn Margeirsson að ógleymdum Eyjamanninum Björgvin Þór Rúnarssyni. Um haustið var leikið í Evrópukeppni félagsliða í nýja íþróttahúsinu gegn Avidesa á Spáni.
Víkingskonur unnu tvöfalt í blaki 1991 og urðu bæði Íslands- og bikarmeistarar. Borðtennisdeildin var hin öflugasta á landinu og skilaði 19 titlum á árinu.
Atli Helgason, fyrirliði Íslandsmeistaranna í knattspyrnu, var kjörinn íþróttamaður Víkings og var það í fyrsta skipti sem staðið var að slíku vali. Hópur Víkinga, sem kallaði sig Big-M, gaf myndarlegan bikar af þessu tilefni.
1992
Víkingur varð Íslandsmeistari í handbolta kvenna í fyrsta skipti og einnig bikarmeistari. Stúlkurnar urðu einnig Íslandsmeistarar árin 1993 og 1994 og að auki bikarmeistarar seinna árið, þannig að árangurinn á þessum þremur árum var einstaklega góður. Einn af burðarásunum í þessu liði var Inga Lára Þórisdóttir íþróttakennari, en hún var lengi fyrirliði Víkingsliðsins. Í samtali við söguvefinn í janúar 2017 nefndi hún nokkur atriði sem skiptu sköpum og voru lykillinn að góðum árangri: „Gott starf í yngri flokkunum, sterkur hópur leikmanna, góðir þjálfarar, nýtt og glæsilegt íþróttahús troðfullt af fólki og öll umgjörðin í Víkinni gerðu þetta að ótrúlega skemmtilegu og árangursríku tímabili.“
Hún segir að áhersla hafi verið lögð á að kvennaliðið sæti við sama borð og strákarnir í handboltanum, en þær væru ekki settar skör lægra eins og oft hafi verið.
Úrslitakeppni fór fram í fyrsta skipti hjá konunum að lokinni deildarkeppninni og segir Inga Lára að hún hafi bókstaflega snúið öllu á hvolf og áhugi á kvennahandbolta hafi farið fram úr öllu því sem áður þekktist. Úrslit réðust ekki fyrr en í oddaleik Víkings og Stjörnunnar í Garðabæ þar sem Víkingur hafði betur. „Það var troðfullt í íþróttahúsunum á báðum stöðum og algjör kúvending á athygli, eitthvað sem engan óraði fyrir. Gamlir Víkingar voru geðveikislega glaðir og áægðir með okkur og alls konar fólk, sem ég þekkti ekki neitt og hafði aldrei séð áður, vildi faðma okkur og þakka,“ sagði Inga Lára meðal annars. Þjálfari Víkingskvenna þetta tímabil var Gústaf Björnsson.
Í blaðauka sem Morgunblaðið gaf út í tilefni af 100 ára afmæli Víkings 21. apríl 2008 ræddi Kristján Jónsson blaðamaður við Höllu Maríu Helgadóttur, einn burðarásinn í gullaldarliði Víkings. Segir í upphafi að Halla María sé einhver mesta skytta sem komið hafi fram í íslenskum kvennahandknattleik. Hún hafi oftar en einu sinni orðið markahæst í efstu deild og verið kjörin besti sóknarmaður deildarinnar. „Þetta var bara algert ævintýri. Við vorum nýflutt í Víkina og meistaraflokkur karla var sterkur á þessum tíma, auk þess sem karlarnir urðu meistarar í fótboltanum 1991. Einnig var kvennablakið mjög sterkt. Það var rosaleg stemning í félaginu á þessum tíma og þetta var góður tími fyrir Víking,“ sagði Halla María í viðtalinu.
Víkingar urðu bikarmeistarar í blaki kvenna.
Víkingur varð í öðru sæti í deildarkeppni karla í handbolta, en tapaði fyrir Selfossi í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Í bikarkeppninni tapaði Víkingur fyrir Val í undanúrslitum eftir tvær framlengingar.
Í fótboltanum náði Víkingur ekki að fylgja eftir frábærum árangri ársins 1991 og endaði liðið í sjöunda sæti, féll úr leik í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar og tapaði 3:1 fyrir Val í meistarakeppni KSÍ.
Inga Lára Þórisdóttir var valin íþróttamaður Víkings.
1993
Kvennalið Víkings í handbolta árið 1993 tapaði ekki leik í deildarkeppninni og varð deildarmeistari. Liðið varð Íslandsmeistari vorið 1993 eftir öruggan sigur á Stjörnunni í úrslitakeppni. Þetta var annar Íslandsmeistaratitill kvenna í sögu félagsins. Þjálfari Víkings var Theódór Guðfinnsson. Lið Víkings þetta ár var tilnefnt sem eitt af bestu kvennaliðum handboltasögunnar, en komst ekki í þriggja liða úrslit. Það var RÚV sem gekkst fyrir þáttaröðinni og valdi hópur sérfræðinga sjö bestu handboltaliðin í kvenna- og karlaflokki sem þóttu koma til greina.
Víkingur varð í sjöunda sæti í deildarkeppninni og tapaði strax í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar gegn FH. Þar munaði miklu að Bjarki Sigurðsson meiddist í leiknum í Hafnarfirði. Víkingur tapaði í undanúrslitum bikarkeppninnar. Bjarki Sigurðsson var valinn íþróttamaður Víkings 1993 en hann var valinn í sjö manna úrvalslið eftir heimsmeistarakeppnina í handbolta í Svíþjóð 1993. Ári síðar var Bjarki valinn til að leika í heimsliði gegn Egyptum.
Árið hófst reyndar með hvelli hjá Víkingum því í byrjun janúar var Loga Ólafssyni sagt upp störfum hjá félaginu, en hann hafði leitt Víking til sigurs á Íslandsmótinu 1991. Lárus Guðmundsson var ráðinn þjálfari meistaraflokks. Deilur fyrrverandi stjórnar og þeirrar sem nýlega hafði tekið við voru félaginu erfiðar. Skuldir deildarinnar voru miklar og gekk aðalstjórn í ábyrgð fyrir greiðslum til leikmanna vegna keppnistímabilsins á undan. Víkingur varð í tíunda og neðsta sæti í fyrstu deildinni í fótbolta og féll niður um deild. Liðið lék í næstefstu deild 1994–1998.
Víkingskonur náðu frábærum árangri í blaki og urðu bæði Íslands- og bikarmeistarar.
1994
Víkingurinn Guðmundur Eggert Stephensen varð Íslandsmeistari í einliðaleik í borðtennis í meistaraflokki karla árið 1994, aðeins 11 ára gamall, og mun enginn hafa unnið Íslandstitil í flokki fullorðinna svo ungur. Á næstu árum varð hann alls tuttugu sinnum Íslandsmeistari í einliðaleik í borðtennis og á ferli sínum vann Guðmundur allt það sem í boði var í íslenskum borðtennis. Hann var óstöðvandi með félagi sínu Víkingi og varð Norðurlandameistari. Auk þess lék hann um tíma erlendis og varð m.a. norskur og hollenskur meistari með félögum sínum. Guðmundur Stephensen var valinn íþróttamaður Víkings í fyrsta skipti þetta ár, en alls var hann ellefu sinnum kosinn íþróttamaður Víkings.
Víkingur varð Íslands- og bikarmeistari í handknattleik kvenna. Í samtali við Morgunblaðið 2008 nefndi stórskyttan Halla María Helgadóttir nöfn nokkurra þeirra leikmanna sem gerðu Víkingsgarðinn frægan árin 1992-1994: „Í Víkingsliðinu á þessum tíma auk okkar Heiðu (Erlingsdóttur) voru til dæmis Inga Lára Þórisdóttir, Svava Ýr Baldvinsdóttir, Hulda Bjarnadóttir, Hjördís Guðmundsdóttir og Svava Sigurðardóttir. Ég gæti nefnt svo margar því það voru nefnilega nokkrar breytingar á liðinu á milli ára. Það voru bara ég, Inga Lára og Svava Ýr sem spiluðum öll þessi þrjú ár. Vegna þessara öru breytinga átti maður kannski ekki von á þessari velgengni,“ sagði Halla. Á þessum árum voru landsliðsmenn í nánast öllum stöðum hjá Víkingi.
Í fótboltanum varð Víkingur í 5. sæti í 2. deild.
1995
Víkingur varð í öðru sæti karla í efstu deild í handbolta, einu stigi á eftir Val. Í úrslitakeppninni tapaði Víkingur fyrir KA í undanúrslitum. Konurnar urðu í þriðja sæti í deildarkeppninni og töpuðu síðan fyrir Fram í undanúrslitum.
Víkingar urðu í sjöunda sæti í annarri deild í fótbolta karla.
Bikarsigur blakkvenna gladdi Víkinga þetta árið, sem og góður árangur í borðtennis þar sem ungstirnið Guðmundur Stephensen var fremstur í flokki.
Halla María Helgadóttir var valin íþróttamaður Víkings.
1996
Á aðalfundi 29. ágúst 1996 segir svo meðal annars í skýrslu Halls Hallssonar, formanns Víkings: „Aðalstjórn Víkings lauk á þessu ári skuldaskilum vegna hinna miklu fjárhagsörðugleika, sem tvær efstu deildir félagsins lentu í, – knattspyrnudeild og handknattleiksdeild. Samkomulag var gert við þrjá fyrrverandi forustumenn knattspyrnudeildar og samningi náð við Þýsk-íslenska. Þar með er lokið erfiðum málum, sem höfðu tekið ómældan tíma og sett aðalstjórn í erfiða stöðu. Svo sem Víkingum er kunnugt tók aðalstjórn að sér að greiða og koma í skil 40 milljóna króna skuldum deildanna. Það kostaði erfiða nauðasamninga og ómældan tíma og fyrirhöfn aðalstjórnarmanna. Ég fullyrði að ekkert mál reyndi meira á þolrifin í aðalstjórn síðastliðin sex ár – og er uppbygging Víkurinnar meðtalin. Jafnframt er ljóst að aðalstjórn getur ekki borið ábyrgð á fjárhagsskuldbindingum í deildum. Deildir verða að bera ábyrgð á skuldbindingum sínum …“
Staðan var þessi í handbolta og fótbolta skv. skýrslu formanns: „Því miður hefur Víkingur ekki hampað miklum sigrum á íþróttavöllum síðustu misseri. Handknattleiks- og knattspyrnulið félagsins eru bæði í annarri deild. Það veldur miklum vonbrigðum og ekki síst erfið staða knattspyrnunnar. Lið okkar berst nú fyrir tilverurétti sínum í annarri deild. Miklir erfiðleikar hafa verið innan deildarinnar og á síðastliðnum fjórum árum hafa fimm þjálfarar Víkings horfið á braut – verið látnir hætta hjá félaginu. Nú síðast Aðalsteinn Aðalsteinsson. Það ber að harma og Víkingar verða virkilega að horfast í augu við atburðarás undanfarinna ára og freista þess að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið.“
Eftirfarandi yfirlit um þjálfara meistaraflokks frá 1993 til 2011 segir sína sögu um tíð þjálfaraskipti hjá félaginu: Lárus Guðmundsson (1993), Kjartan Másson (1994), Pétur Pétursson(1995), Aðalsteinn Aðalsteinsson(1996), Magnús Þorvaldsson (1997), Luka Kostić (1998–2000), Björn Bjartmarz (2001) Sigurður Jónsson (2003–05), Magnús Gylfason (2006–07), Jesper Tollefsen (2007–08), Leifur Garðarsson (2009–10), Andri Marteinsson (2011) og Bjarnólfur Lárusson (2011).
Í fótboltanum varð Víkingur í áttunda sæti tíu liða í annarri deild 1996.
Víkingur varð í ellefta sæti tólf liða í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta og þar kom að stórveldið Víkingur féll niður í aðra deild. Í bikarkeppninni tapaði Víkingur úrslitaleik gegn KA 18:21. Víkingur var yfir 15:13 en þá komu fimm KA-mörk í röð., sem gerðu út um leikinn. Markamaskínan Julian Duranona skoraði 11 mörk fyrir KA, en mörk Víkings skoruðu Árni Friðleifsson 4, Knútur Sigurðsson 4, Rúnar Sigtryggsson 3, Friðleifur Friðleifsson 2, Birgir Sigurðsson 2, Halldór Magnússon 1, Þröstur Helgason 1 og Guðmundur Pálsson 1. Í Íslandsmótinu varð Víkingur í ellefta sæti tólf liða og féll niður í aðra deild.
Handboltakonur urðu í fimmta sæti í deildinni og töpuðu fyrir ÍBV í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.
Víkingur kemur víða að starfi með yngstu aldurshópunum á félagssvæði sínu. Þannig hefur félagið frá árinu 1996 staðið fyrir samkeppni átta ára barna í Breiðagerðis- og Fossvogsskóla um mynd á jólakort félagsins. Þetta hefur verið skemmtilegt verkefni í starfinu og mörg listaverkin sem hafa prýtt jólakort Víkings. Annað skemmtilegt verkefni sem tengist fólkinu í hverfinu er skrúðganga sumardaginn fyrsta sem endar í Víkinni, en þann dag er haldið upp á afmæli félagsins, 21. apríl. Víkingur, skólarnir og kirkjan hafa staðið saman að göngunni frá því á áttunda áratugnum.
Guðmundur Eggert Stephensen var valinn íþróttamaður Víkings.
Þór Símon Ragnarsson tók við sem formaður Víkings af Halli Hallssyni á aðalfundi 16. september 1996.
1997
Víkingar urðu í fimmta sæti í efstu deildinni í handbolta karla, en konurnar í fjórða sæti í deildarkeppninni. Þær töpuðu síðan fyrir Fram í átta liða úrslitum. Í fótboltanum urðu karlarnir í áttunda sæti í fyrstu deild, annað árið í röð, og aðeins einu sæti frá falli niður í þriðju efstu deild. Víkingur sendi ekki kvennalið til keppni í Íslandsmótinu.
Handboltakappinn Birgir Sigurðsson var valinn íþróttamaður Víkings 1997. Enginn bilbugur var á borðtennisfólki sem skilaði Íslandsmeistaratitlum eins og mörg ár á undan.
Þó svo að árangurinn hafi oft verið betri á íþróttasviðinu var mikið starf í félaginu, eins og lesa má í skýrslu aðalstjórnar fyrir starfsárin 1997 og 1998: „Gróska var í íþróttastarfinu, iðkendum fór fjölgandi sem m.a. sást af því að erfiðleikar voru við að eiga næga búningsklefa þegar æfingar og leikir fóru fram. Þessi þróun kallar á framkvæmdir í kjallararými hússins sem er enn óinnréttað. Gengi keppnisliða félagsins í hinum ýmsu greinum var með ýmsu móti eins og við er að búast hjá jafn stóru félagi og Víkingi …
Íþróttadeildirnar starfa ötullega að uppeldis- og uppbyggingarstarfi sínu sem er mikilvægasti þáttur starfseminnar þó mest beri á umfangi og útgerð meistaraflokka í handbolta og knattspyrnu. Uppeldisstarfið í yngri flokkunum og afreksfólk meistaraflokkanna eru tengd órjúfandi böndum, geta hvorugt án hins verið, ef vel á að vera. Öflugt uppbyggingarstarf viðheldur og tryggir afreksþáttinn og yngri kynslóðin þarf á hvatningu og fyrirmyndum að halda frá afreksfólkinu.“
Haustið 1997 var unnið við ílögn og múrun á gólfi og veggjum í kjallara vallarhúss og var lyftinga- og líkamsræktarsalur tekinn í notkun vorið 1998. Salurinn er um 250 fermetrar og fengust lítið notuð lyftingatæki á hagstæðu verði hjá Landsbankanum.
Á ýmsu gekk hjá knattspyrnumönnum Víkings á tíunda áratug síðustu aldar, eftir að hafa landað Íslandsmeistaratitlinum 1991. Tíð þjálfaraskipti voru á næstu árum og lítil festa í starfinu þó svo að margir snjallir leikmenn hafi leikið með félaginu í lengri eða skemmri tíma á þessum árum.
Einn þessara manna var Þrándur Sigurðsson sem gekk til liðs við Víking 1994 og lék með félaginu til 1999. Þrándur er fæddur og uppalinn á Höfn í Hornafirði 1968 og hóf að leika í D-deild með Sindra á Höfn 1094, 1þá 6 ára gamall. Árið 1987 lék Þrándur með Skagamönnum í A-deildinni, 1989 lék hann með Einherja á Vopnafirði í B-deildinni, síðan aftur með Sindra og loks með Víkingi frá 1994 til 1999.
Alls lék Þrándur rúmlega 200 leiki meistaraflokki í mótum á vegum KSÍ með Sindra, ÍA, Einherja og Víkingi. Hann skoraði um 100 mörk í þessum leikjum, byrjaði sem framherji, en færðist aftar á völlinn eftir því sem leið á ferilinn. Leikir í öðrum mótum voru fjölmargir, eins og Reykjavíkurmótum og vetrarmótum, og áætlar Þrándur að þegar allt er talið hafi hann leikið um 200 leiki með meistaraflokki Víkings.
„Þessi ár sem ég var hjá Víkingi voru erfið og því miður fannst mér vanta samhug í félagið og það var stutt í leiðindi á milli manna,“ segir Þrándur í spjalli við söguvefinn sumarið 2017. „Eilíflega var verið að skipta um þjálfara, engin festa var í liðinu og árangurinn lét á sér standa. Þá vantaði meiri aga í hópinn og betri umgjörð og þetta lagaðist ekki fyrr en Lúka Kostic tók við liðinu 1998. Í leikmannahópnum voru oft góðir leikmenn og fínir strákar, en árangurinn var ekki sem skyldi.
Það er margs að minnast frá þessum árum. Sumarið 1995 vorum við í tómu basli og mikið gekk á í heimaleiknum gegn Þrótti í síðustu umferðinni. Við vorum undir í hálfleik 3:2 og þeir fóru í 4:2. en við minnkuðum muninn í 4:3. Ég var síðan réttilega rekinn af velli þegar korter var eftir, en Marteinn Guðgeirsson átti frábæran dag og skoraði þriðja mark sitt í leiknum úr vítaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok, Þrótturum til mikillar gremju. Jafntefli dugði okkur til að fá 18 stig, einu stigi meira heldur en HK, sem var með mun betri markatölu heldur en við. Við rétt héngum því uppi þetta sumar og Pétur Pétursson var ekki endurráðinn sem þjálfari, kannski því miður.
Sumarið eftir hélt barningurinn áfram, en sigrar gegn Þór og Leikni í 15. og 16. umferð voru lykillinn að því að halda sætinu því við töpuðum fyrir FH og Þrótti í tveimur síðustu umferðunum. Leikurinn við Þór er mér minnisstæður því Gunnar Örn Gunnarsson, þjálfari, ákvað að taka kallinn úr vörninni og setja í fremstu víglínu. Það heppnaðist fullkomlega því ég tók mig til og skoraði þrennu í 3:2 sigri,“ segir Þrándur.
Undir fyrirsögninni „Víkingur var Þrándur í götu Þórsara“ segir svo um leikinn í Morgunblaðinu 3. september 1996: „Víkingar nældu sér í lífsnauðsynleg stig í botnbaráttu 2. deildar karla á laugardag er þeir sigruðu Þórsara, 3:2, á heimavelli sínum í Stjörnugróf í roki og rigningu. Þrándur Sigurðsson, fyrirliði Víkinga, var hetja heimamanna í leiknum og skoraði öll þrjú mörk þeirra.“
Luka Kostic tók við liðinu 1998 og liðið fór beint upp í efstu deild og ævintýralegt mark Sigurðar Sighvatssonar gegn Stjörnunni í siðustu umferð skipti sköpum í þeirri baráttu. Víkingur fór rakleiðis niður ári síðar og segir Þrándur það hafa verið fyrir einberan klaufaskap leikmanna.
Hjá Víkingi hefur Þrándur þjálfað flesta innfædda og uppalda leikmenn félagsins, fyrst í knattspyrnuskólanum, sem hann hefur starfað við frá 1994, en það ár hóf hann einnig þjálfun 5. flokks. „Af strákunum sem voru hjá mér í 5. flokki þetta fyrsta sumar koma þeir tveir upp í hugann sem enn eru að spila, Kári Árnason og Viktor Bjarki Arnarson,“ sagði Þrándur í spjalli við söguvefinn sumarið 2017.
„Þeir voru báðir strax mjög efnilegir og hafa átt glæsilegan feril. Kolbeinn Sigþórsson er aðeins yngri en þeir og ég hef aldrei þjálfað barn með aðra eins hæfileika og Kolli hafði sem krakki. Það var gaman fyrir gamla þjálfarann að fylgjast með Kára og Kolbeini á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016.“
Sonur Þrándar og Rakelar Guðmundsdóttur, eiginkonu, hans er Aron Elís sem nú leikur með Álasundi í efstu deildinni í Noregi. Hann hafði áður leikið með Víkingi í efstu deildinni við góðan orðstí og með yngri landsliðum Íslands. Aron Elís er 23 ára, en yngri synir þeirra Þrándar og Rakelar eru Sölvi, 18 ára í 2. flokki Víkings, og Elmar Logi, 14 ára og var að færast upp í 3. flokk (skrifað haustið 2017). Þrándur er íþróttakennari að mennt og hefur starfað sem slíkur í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði frá 1991.
1998
Víkingar fóru upp í efstu deild í fótboltanum undir stjórn Luka Kostic sem þjálfaði Víkingsliðið 1998–2000 og aftur 2002. Lokaumferðin í fyrstu deildinni um haustið var vægast sagt ævintýraleg og í þætti á fotbolti.net, Tímavélinni, var atburðarásin þennan dag rifjuð upp í mars 2011. Þar segir að umferðin hafi verið ein sú mest spennandi í deildarkeppni á Íslandi frá upphafi. Þeir sem voru viðstaddir í Víkinni þennan dag geta eflaust tekið undir það. Fyrir umferðina var ljóst að Breiðablik myndi fara upp í úrvalsdeildina en FH, Víkingur og Fylkir áttu öll möguleika á að fara upp. FH var í öðru sætinu fyrir umferðina með 32 stig og Víkingur og Fylkir fylgdu á eftir með 31 stig.
FH og Fylkir áttust við í Hafnarfirði og urðu úrslitin 0:0, en á sama tíma mætti Víkingur Stjörnunni sem hafði að litlu að keppa.Víkingar höfðu átt góð færi, en ekki tekist að skora. Staðan í Víkinni var 0:0 þegar flautað var til leiksloka í Hafnarfirði, en þá voru nokkrar mínútur eftir af leik Víkings og Stjörnunnar. FH-ingar virtust því vera á leiðinni upp og þeir fögnuðu ógurlega í leikslok, enda fór sá misskilningur af stað að einnig væri búið að flauta til leiksloka í Víkinni og að leikurinn þar hefði endað 0:0.
Pétur Ormslev, þjálfari FH, var tolleraður af leikmönnum liðsins, en þegar hann var í einni flugferðinni kom reiðarslagið fyrir Fimleikafélagið. Sigurður Sighvatsson, varnarmaður Víkings, hafði skorað sigurmarkið í Víkinni með þrumuskoti fyrir utan teig þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, og fréttir af því bárust nú í Hafnarfjörð. FH-ingar trúðu því varla sínum eigin eyrum enda höfðu þeir fengið rangar fréttir um að leikurinn væri búinn í Víkinni.
Stemningin í Hafnarfirði var vægast sagt döpur eftir að fréttirnar bárust úr Víkinni en þar var sannkölluð hátíðarstemning eftir sigurmark Sigurðar sem spilaði sem hægri bakvörður í leiknum. Sigurður skoraði markið með viðstöðulausu þrumuskoti fyrir utan vítateig við gífurlegan fögnuð hjá Víkingum.
„Ég er ennþá starfandi hjá Víkingi og maður er varla þekktur fyrir annað en þetta eina skot,“ sagði Sigurður þegar Fótbolti.net fékk hann til að rifja markið upp. „Það var margt búið að ganga á og við vorum búnir að eiga sláar- og stangarskot. Það hafði oft gerst í leiknum að við áttum lélega sendingu inn í og þeir skölluðu út. Þegar ég sá í hvað stefndi ákvað ég að byrja að stela metrunum og vona að boltinn kæmi. Hann datt síðan skemmtilega fyrir mig, endaði í andlitinu á einum og svo á góðum stað í markinu… Maður hefur ekki upplifað neitt sætara í fótboltanum og væntanlega enginn af þeim sem spilaði þennan leik fyrir hönd Víkings. Þetta var eins og að vinna HM liggur við,“ sagði Sigurður.
Víkingur sendi ekki lið til keppni í meistaraflokki kvenna í fótbolta.
Víkingskonur urðu Íslandsmeistarar í blaki kvenna í áttunda skipti og má þar með segja að glæsilegri sögu blakíþróttarinnar í Víkingi hafi lokið, í bili að minnsta kosti. Starfið hélt reyndar áfram næstu misseri, en krafturinn var dvínandi og hópurinn ekki stór sem stóð að blaki í félaginu. Árangurinn var hins vegar ótrúlega góður allt frá árinu 1975 er fyrsti titillinn vannst, eins og glöggt má sjá á spjöldunum í „frægðarhöllinni“ á endaveggjunum uppi í rjáfri íþróttahússins í Víkinni. Víkingur varð Íslandsmeistari í blaki kvenna: 1975, 1976, 1980, 1981, 1987, 1989, 1991 og 1998. Bikarmeistarar hafa Víkingskonur orðið fimm sinnum: 1989, 1990,1991, 1993 og 1995.
Í handknattleik urðu Víkingskonur í sjötta sæti í deildarkeppninni, en töpuðu fyrir Haukum í undanúrslitum. Í bikarkeppninni fóru þær hins vegar alla leið í úrslitaleikinn, en töpuðu með tveimur mörkum fyrir Stjörnunni. Heiða Erlingsdóttir og Halla María Helgadóttir voru markahæstar Víkingsstúlkna, en meðal markaskorara voru einnig Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Helga Birna Brynjólfsdóttir og Anna Kristín Árnadóttir.
Karlarnir urðu í ellefta sæti 12 liða í handboltanum.
Haldið var upp á 90 ára afmæli Víkings með pompi og prakt með hátíðarsamkomu í Víkinni á afmælisdaginn þar sem m.a. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri var meðal gesta. Félaginu bárust margar góðar gjafir, m.a. gaf fulltrúaráð Víkings félaginu nýjan félagsfána. Leysti hann af hólmi eldri fána, sem þeir Helgi Eysteinsson, Baldur Bergsteinson, Þorlákur Þórðarson og Gunnar Símonarson gáfu félaginu árið 1947.
Gunnar Gylfason hætti sem framkvæmdastjóri Víkings 1. mars 1998, en hann hafði tekið við af Birni Bjartmars 1997. Örn Ingólfsson tók við sem framkvæmdastjóri.
Guðmundur Eggert Stephensen var valinn íþróttamaður Víkings.
1999
Íþróttanámskrá Víkings kom út og varð Víkingur fyrsta fjölgreinafélagið til að ljúka því verkefni. Á aðalfundi sagði Þór Símon Ragnarsson formaður að stefnan í íþróttaþjálfun væri hvergi jafn skýr og hjá Víkingi. Á heimasíðu Víkings segir að Víkingur sé hverfafélag í besta skilningi þess hugtaks. Margar fjölskyldur nefni barna- og unglingastarf félagsins sem helstu ástæðu þess að þær vilji búa í Víkingshverfunum eða hafi jafnvel flutt þangað á sínum tíma.
Á aðalfundi var tóbaksnotkun í og við félagsheimilið gerð að umræðuefni og var hún sögð ósamrýmanleg markmiðum félagsins og íþróttanámskrá; börn þyrftu að vaða tóbaksreyk og horfa upp á andlit úttroðin munntóbaki.
Víkingur varð í neðsta sæti 10 liða í úrvalsdeildinni í fótbolta, en sendi ekki lið til keppni í meistaraflokki kvenna. Í handboltanum sigraði Víkingur í næstefstu deild karla og fór upp í efstu deild. Konurnar urðu í þriðja sæti í deildarkeppninni, en töpuðu fyrir FH í átta liða úrslitum.
Tómas Viborg gekk til liðs við Víking og varð Íslandsmeistari í einliðaleik í badmintoni og endurtók afrekið tvö næstu ár. Tómas var búsettur í Svíþjóð, en keppti undir merkjum Víkings og lék fjölda landsleikja fyrir Íslands hönd. Að öðru leyti var lítil starfsemi í badmintondeild.
Guðmundur Eggert Stephensen var valinn íþróttamaður Víkings.
2000
Víkingskonur urðu deildarmeistarar í handbolta, en töpuðu fyrir Gróttu í fjögurra liða úrslitum. Helga Torfadóttir, markvörður meistaraflokks kvenna, var valin íþróttamaður Víkings fyrir árið 2000. Hún var fyrirliði kvennalandsliðsins, var kjörin besti markvörður Íslandsmótsins af þjálfurum og leikmönnum og tilnefnd af HSÍ sem besta handknattleikskona ársins 2000. Karlarnir urðu í ellefta og næstneðsta sæti efstu deildar í handbolta.
Í fótboltanum varð meistaraflokkur karla í fjórða sæti fyrstu deildar, en Víkingur sendi ekki lið til keppni í meistaraflokki kvenna.
Karate hafði verið iðkað í félaginu í nokkur misseri og stofnun sérstakrar karatedeildar var samþykkt á aðalfundi, enda góð reynsla af starfi karatehópsins. Á næstu árum unnu Karate-Víkingar til margra verðlauna.
Samskipti aðalstjórnar við Reykjavíkurborg og Kópavog vegna stækkunar á svæði félagsins í Fossvogi höfðu í fjölda ára tekið mikinn tíma af störfum aðalstjórnar. Upphafið má rekja til samningsins frá 1988 þar sem borgin skuldbatt sig til framkvæmda í Fossvogsdal í stað vallanna tveggja sem látnir voru af hendi við Hæðargarð árið 1992. Víkingur óskaði ítrekað eftir að svæði félagsins yrði stækkað og olli það erfiðleikum að semja þurfti við og á milli tveggja sveitarfélaga, þ.e. bæði Reykjavíkur og Kópavogs. Lyktir virtust hvað eftir annað vera í sjónmáli þegar snurða hljóp á þráðinn. Með kaupum Víkings á tvö þúsund fermetra erfðafestu úr landi Bústaða í landi Kópavogs haustið 1997 fyrir þrjár milljónir króna þokaðist í samkomulagsátt, en Kópavogur yfirtók samninginn fyrri hluta árs 1998.
Í fundargerð aðalstjórnar 18. apríl 1999 er hins vegar fært til bókar um málið: „Loksins, loksins, loksins!!! liggur fyrir samkomulag milli Reykjavíkur og Kópavogs um landaskipti vegna fyrirhugaðrar stækkunar á landi Víkings.“ Víkingur fékk níu þúsund fermetra úr landi Kópavogs, en HK fimm þúsund fermetra undir sína starfsemi úr landi Reykjavíkur. Síðar náðust samningar við Kópavog um stækkun Víkingssvæðisins um þúsund fermetra til viðbótar. Stækkunin tryggði mun betri nýtingu landrýmisins, mögulegt varð að fjölga grasvöllum til æfinga og keppni og staðsetja aðalkeppnisvöll félagsins ásamt nýrri áhorfendastúku. Undirbúningur hófst þegar sumarið 1999 að framkvæmdum vegna vallargerðar á nýju svæði þar sem gervigrasvöllurinn er núna.
18 apríl árið 2000 var gerður samningur við borgina um fjármögnun vallarframkvæmda. Mánuði síðar var auglýst breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur og Kópavogs ásamt deiliskipulagstillögum fyrir félagssvæði Víkings og íþrótta- og skólasvæði HK og Snælandsskóla. Samið var við verktaka skömmu síðar og framkvæmdir hófust um sumarið. Deiliskipulag félagssvæðisins fékk endanlega viðurkenningu í febrúar 2001. Gengið var frá lóðaleigusamningi við borgina og er samningurinn til 50 ára. Heildarstærð lóðar er tæplega 53 þúsund fermetrar, þar af 43 þúsund fermetrar í lögsögu Reykjavíkur, en tæplega níu þúsund í lögsögu Kópavogs.
Á þessum tíma voru bílastæðamál, að- og frákeyrsluleiðir, strætóleiðir, göng undir eða brú yfir Bústaðaveg og fleiri málefni tengd framtíðarskipulagi á Víkingssvæðinu til umræðu í samskiptum við borgaryfirvöld.
Stórt auglýsingaskilti Víkings var reist á horni Reykjanesbrautar og Bústaðavegar eftir nokkurra ára baráttu við borgina. Flettiskiltið hefur fært félaginu talsverðar og öruggar tekjur og þakkaði aðalstjórn Jóhannesi Tryggvasyni fyrir framgöngu hans í málinu og talaði um fullnaðarsigur hans í baráttu við borgarkerfið.