Áhugi, sem einblínir á einn veg

Fimm drengir innan við fermingu stofnuðu Knattspyrnufélagið Víking 21. apríl 1908 í miðbæ Reykjavíkur. Af þeim hópi hefur Axel Andrésson verið talinn helsti hvatamaður að stofnun félagsins, stundum kallaður fyrsti Víkingurinn. Hinir stofnendur félagsins voru Emil Thoroddsen, Davíð Jóhannesson, Páll Andrésson og Þórður Albertsson.​

Axel Andrésson var kosinn fyrsti formaður Víkings vorið 1908 og gegndi hann formennsku í félaginu til ársins 1924. Hann þjálfaði jafnframt marga flokka félagsins í mörg ár og dæmdi fyrir Víking. Axel varð síðan aftur formaður félagsins 1930–1932.

Tjarnarbrekkan og Suðurgata um eða rétt fyrir 1890. Á þessum slóðum hefst saga Knattspyrnufélagsins Víkings árið 1908.

Um Axel Andrésson sagði Emil Thoroddsen, sem einnig var í hópi hinna fimm ungu stofnenda félagsins: „Ég er ekki í neinum vafa um að það var Axel Andréssyni og honum einum að þakka, að Víkingur lifði þessi fyrstu ár. Hann var sá eini af okkur, sem átti þennan áhuga, sem einblínir á einn veg og eitt mark, og er sá eini eiginleiki, sem nokkru fær framgengt í þessari veröld.“

Axel Andrésson fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1895. Hann lést 13. júní 1961 og var ógiftur og barnlaus. Axel var sonur Andrésar Andréssonar, verslunarmanns við Brydes-verslun, og Kristínar Pálsdóttur húsmóður. Páll, bróðir Axels, var einnig á meðal stofnenda Víkings og tveir bræður þeirra til viðbótar komu að starfinu í Víkingi; Magnús og Baldur. Axel byrjaði ungur að stunda verslunarstörf og var lengst í þjónustu Jóns Hjartarsonar kaupmanns, sem var með matvöruverslun í Hafnarstræti.

Í upphafi greinar í 50 ára afmælisriti Víkings 1958 skrifar Axel Andrésson meðal annars: „Er ég renni huganum 50 ár aftur í tímann er margs að minnast. Reykjavík var þá lítill bær og hafði á sér mörg einkenni sjávarþorps. Ég er fæddur og uppalinn í Suðurgötunni og varð því Tjörnin og næsta nágrenni minn heimur. Og í huga barnsins var sá heimur dásamlegur. Þar stóð vagga Víkings.“

Sem sendikennari Íþróttasambands Íslands frá 1941 starfaði Axel víða um land. Hann kenndi einkum knattspyrnu og handknattleik, en fléttaði fleiri greinum inn í námskeið sín. Hann var á margan hátt brautryðjandi í störfum sínum og þróaði sérstakt kerfi, svokallað Axels-kerfi. Árið sem hann varð sextugur, 1955, kom fram í frétt frá ÍSÍ í Þjóðviljanum að Axel hefði þá sem sendikennari haldið 155 íþróttanámskeið á 48 stöðum á landinu og kennt samtals 17.452 nemendum.

Axel var gerður heiðursfélagi í Víkingi árið 1938 og var hann fyrsti einstaklingurinn sem hlotnaðist sá heiður. Saga Axels er tengd Víkingi órjúfanlegum böndum. Hann fylgdist ávallt með sínu gamla félagi og tók fyrstu skóflustunguna að félagsheimili Víkings við Hæðargarð 2. september 1953. Fyrr um sumarið hafði hann kennt á námskeiði sem Víkingur hélt á fyrsta velli félagsins á svæðinu. Strákar úr hverfinu, sem var í hraðri uppbyggingu, þyrptust á æfingar Axels og gengu um 100 drengir í félagið meðan á námskeiðinu stóð.

Axel Andrésson

Ummæli samferðamanna bregða upp mynd af þessum frumherja í Knattspyrnufélaginu Víkingi.

Sál hans býr í Víking

Í minningargrein, sem Víkingurinn Bjarni Guðnason, prófessor og fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu, skrifaði og birtist í 60 ára afmælisblaði Víkings 1968 segir svo meðal annars: „Árum saman var Axel farandkennari á vegum Í.S.Í. og kenndi æskufólki knattspyrnu og handknattleik. Axel bjó til sérstakt æfingakerfi innanhúss, og honum tókst að vekja slíkan áhuga, að hann þótti hvarvetna aufúsugestur.

Sá, sem þetta ritar, tók þátt í einu slíku námskeiði í Miðbæjarbarnaskólanum, og hefur ávallt verið minnisstætt síðan. Þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hvílíkur áhugi greip okkur strákana og spenningur. Æfingakerfi Axels var ísmeygilegt, ég sé það núna. Hann smeygði inn í almennar æfingar sífelldum keppnisatriðum, skipti okkur í flokka og gaf stig fyrir árangur, hvert spark. Mér er nær að halda, að gleði sú, sem gagntók mig við velgerðan hlut hjá Axel, hafi ekki orðið meiri og sannari síðar á knattspyrnuferli mínum.

Nú er Axel allur. Merkilegt, hvað tíminn hleypur. En Víkingar, jafnt ungir sem gamlir, búa að starfi hans og fórnarlund. Heiðursfélagi var hann kjörinn 1928, og hann stakk fyrstu skóflustunguna, er félagsheimilið var reist. Jarðneskar leifar hans hvíla í mold, en sál hans býr í Víking.“

Axel var alla tíð talsmaður drengilegra átaka á leikvellinum og lagði mikið upp úr því að kenna leikmönnum réttar leikreglur. Taldi hann að agi, réttsýni og drengskapur á leikvellinum fylgdi leikmönnum út í lífið.

Gæddi alla leiki lífi 

Í bókinni Áfram Víkingur, sem kom út 1983, rifjaði Anton Örn Kærnested, fyrrverandi formaður Víkings, upp fyrstu kynni sín af Axel Andréssyni veturinn 1955–56, en Anton var þá nemandi við héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði: „Fljótlega upp úr áramótum fóru eldri nemendur skólans að tala um að nú færi Axel að koma og þá yrði nú aldeilis líf og fjör á staðnum … Einn dimman og dökkan miðvikudag í febrúar skrönglaðist áætlunarbíllinn frá Reykjavík í hlaðið og fréttin um að Axel væri kominn barst óðfluga um skólann.

Axel hafði lag á að gæða alla leiki lífi og og draga fram í mönnum keppnisgleðina og veður og aðrar ytri aðstæður hömluðu ekki æfingum og útileikjum þegar Axel var annars vegar. Mér er minnisstætt, að einn laugareftirmiðdag átti að vera kappleikur milli bekkja, en um nóttina kyngdi niður snjó, svo að hnéhár jafnfallinn snjór huldi allan völlinn. En Axel var nú ekki aldeilis á því að fella niður leikinn, heldur var öllum nemendum safnað saman, rúmlega hundrað manns, og öll hersingin látin marsera fram og aftur um völlinn þar til hann var keppnisfær. Nokkuð sem ég held að hafi ekki verið á færi nokkurs annars en Axels að fá liðlega hundrað unglinga til að gera og sennilega alla með gleði.“

Axel Andrésson, efstur til hægri, ásamt I. flokki Víkings árið 1928.
Axel Andrésson tók fyrstu skóflustunguna að nýju félagsheimili við Hæðagarð. Hér er hann umvafinn börnum úr hverfinu.

Einn af brautryðjendum knattspyrnunnar

Frímann Helgason, blaðamaður og Valsari, ritaði minningargrein um Axel sem birtist í blaði Valsmanna 1961. Þar segir meðal annars: „Á þessu ári lézt einn af brautryðjendum knattspyrnunnar hér á landi, einn þeirra manna, sem helgaði knattspyrnunni svo að segja allt sitt líf. Maður þessi var Axel Andrésson, sendikennari ÍSÍ. Aðeins 12 ára gamall stofnaði hann knattspyrnufélagið Víking, árið 1908. Hann var fyrsti formaður Víkings og gegndi því starfi í 16 ár. Hann var fyrsti knattspyrnudómarinn hér í bæ og gegndi því starfi í 15 ár, og stofnaði Knattspyrnudómarafélag Reykjavíkur.

Árið 1933 fluttist Axel til Akraness og þar gerðist hann fljótlega forustumaður knattspyrnumála. Orðstír Axels mun þó lengst lifa frá þeim tíma, er hann starfaði sem sendikennari Íþróttasambands Íslands, en hann réðist til þess að kenna knattspyrnu fyrst og fremst og síðar handknattleik nokkuð, um land allt. Í þessu sendikennarastarfi hafði Axel verið í 20 ár, eða frá 1941, og það merkilega var, að hann hélt áfram að kenna knattspyrnu á vegum ÍSÍ þótt Knattspyrnusamband Íslands væri stofnað, og þau mál því í höndum KSÍ.

Stjórn ÍSÍ skildi fullkomlega þá þýðingu, sem Axel hafði fyrir æsku landsins, og þá sérstaklega með tilliti til knattspyrnunnar. Áhugi Axels hafði vakið landsathygli og margir skólamenn víðsvegar um land óskuðu beinlínis eftir því að fá hann til sín, þeir álitu að hann hefði örvandi og hvetjandi áhrif á skólafólkið á alla lund.

Mörg þakkarbréf til ÍSÍ frá félögum og forráðamönnum skóla tala skýru máli um þá þýðingu, sem starf Axels hafði fyrir útbreiðslu knattspyrnunnar á landinu. Munu flestir á einu máli um það, að sá knattspyrnuáhugi, sem ríkir víða um land, sé að mestu leyti hans verk. Hann hafði sérstaka hæfileika til að ná til drengjanna, sem hjá honum voru og muna nöfn þeirra. Honum tókst svo vel að fá leik og skemmtun út úr kennslunni og um leið lærdóm.

Hann bjó til sérstakt kerfi til að æfa eftir, og það gátu drengirnir svo notað eftir að hann var farinn, en það miðaði að meiri leikni og kunnáttu. Svo notaði hann það til keppni milli einstaklinga og flokka inni í litlum húsum, þegar ekki var hægt að vera úti, og var oft margt áhorfenda. Það mun ekki ofmælt, að enginn einn maður hafi átt meiri þátt í því að efla áhuga fyrir knattspyrnu hér á landi en Axel Andrésson — og mun sæti hans vandfyllt.“

Kenndi boltaleiki á vitrænan og skipulegan hátt

Axel var búsettur á Akranesi frá 1933–1941 og starfaði meðal annars sem lögreglumaður í bænum. Þar lagði hann gjörva hönd á plóg við uppbyggingu íþróttastarfs. Ásmundur Ólafsson skrifaði grein í Skessuhorn sumarið 2012 og rifjaði upp þessi störf Axels, en 80 ár voru þá liðin frá því að Axel kom til Akraness.

„Axel markaði strax djúp spor í íþrótta- og æskulýðsstörfin. Það er öllum kunnugt að Axel átti eftir að hafa meiri áhrif á framgang knattspyrnunnar á Akranesi en nokkur annar á undan honum, bæði þau átta ár sem hann var búsettur á Skaganum og einnig við sendikennslu allt fram á sjötta áratuginn. Íþróttaráð Akraness var stofnað 1934 og var Axel fyrsti formaður þess. Hann hóf að þjálfa keppnisflokka bæði hjá KA og Kára, hélt námskeið í knattspyrnu og handbolta og einnig fyrir verðandi dómara. Mikið líf færðist í alla íþróttastarfsemi á Akranesi við komu Axels. Fljótlega mótaði hann kerfi sem hann notaði við kennsluna og er talið að hann sé sá fyrsti hér á landi sem hafi kennt boltaleiki á vitrænan og skipulegan hátt,“ skrifar Ásmundur meðal annars.

Í minningargrein Benedikts Waage, forseta ÍSÍ, um Axel Andrésson segir meðal annars: „Nú að leiðarlokum þökkum vér samferðamenn Axel Andréssyni fyrir góða og trygga samfylgd og vináttu og ekki sízt fyrir það, hve mörgum hann kom til góðs íþróttaþroska. Hans glaða og hvella rödd, er vakti svo marga til drengskapar og dáða, er þögnuð, en minning hans lifir – og mun lifa – meðan íþróttir eru iðkaðar hér á landi.“

Þá hverfur fegurðin og ljótleikinn tekur við

Í fyrrnefndri afmælisgrein 1958 segir Axel meðal annars: „Margir hafa notið góðra stunda á knattspyrnuvellinum við að horfa á tilþrifamikinn og góðan leik. En taki einhver liðsmaður upp á því að sýna af sér fantaskap, og ég tala ekki um, ef allt liðið grípur til þess, þá hverfur fegurðin og ljótleikinn tekur við. Mér þykir ekki mikið til um sigur, sem fenginn er á þann hátt, því að slíkur leikur er svik við íþróttina. Hinn sanni íþróttaandi er í ætt við drengskap og fegurð og er fyrir öllu.“

 

Þann 4. febrúar 1954 var Axel haldið samsæti í Reykholtsskóla og voru margar ræður haldnar þar. Einn nemandinn, Þorsteinn Jónsson, 15 ára gamall, öðru nafni Þorsteinn frá Hamri, las þar frumort kvæði, sem birtist með grein eftir Ásmund Ólafsson í Morgunblaðinu 7. desember 2001.

Síðustu erindin eru eftirfarandi:

Sá æskunnar vin, sem við kveðjum í kvöld,

og kærasta vinsemd við bárum.

Hann minnir á fornkappans framfara öld

og frægð, sem er liðin að árum.

Sá jöfur er veitti þér þol móti þraut

og þig lét ei mótlætið baga.

Hann lýsi þér Axel, á lukkunnar braut,

og landið mun auðga þín saga.

Blómsveigur lagður á leið Axel Andréssonar.
Loka efnisyfirliti