1920 - 1930

TVÍVEGIS ÍSLANDSMEISTARAR

Glæsilegur árangur náðist árin 1920 og 1924 er Víkingur varð Íslandsmeistari í knattspyrnu. Meðalaldur leikmanna Víkings 1920 var aðeins 18,4 ár og er það lægsti meðalaldur nokkurs meistaraliðs á Íslandsmótinu í fótbolta. Góður árangur náðist einnig í öðrum flokkum sum árin, en er leið á áratuginn dofnaði áhugi félagsmanna. Axel Andrésson var formaður Víkings 1908–1924 og hann var jafnframt aðalþjálfari félagsins í sextán ár.

Knattspyrnufélagið Víkingur árið 1920 ásamt þeim verðlaunagripum sem félagið hafði unnið, þar á meðal Íslandsmeistarabikarinn 1920.

1920 / ÍSLANDSMEISTARAR

Brotið var blað í sögu Knattspyrnufélagsins Víkings árið 1920 er Víkingur varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti. Víkingur vann bæði KR og Fram á Íslandsmótinu og var óumdeilanlega besta knattspyrnufélag landsins þetta ár, ekki aðeins í 1. flokki heldur einnig í öðrum flokkum. 2. flokkur vann bæði vor- og haustmót og 3. flokkur vann haustmótið. Víkingur naut vinsælda og náði líka árangri í öðrum greinum, fékk tvenn verðlaun fyrir boðhlaup um sumarið og fékk einnig verðlaun fyrir hástökk, langstökk, 100 og 800 metra hlaup.

Íslandsmótið í knattspyrnu árið 1920 fór fram dagana 22.–27. júní. Fyrir fyrsta leikinn var safnast saman á Austurvelli þar sem hornablásarar léku, og síðan var gengið fylktu liði suður á íþróttavöllinn á Melunum. Veður var óhagstætt í fyrsta leiknum, viðureign Víkings og Fram. „Þrátt fyrir seiðandi tóna hornaflokksins voru ekki margir áhorfendur á vellinum, eins og hefði átt að vera við jafngóðan kappleik, máske einn þann besta sem farið hefur fram á vellinum,“ segir í bók Sigmundar Steinarssonar um 100 ára sögu Íslandsmótsins. Víkingar unnu leikinn 4:3 og skoruðu þeir Helgi Eiríksson 2, Óskar Norðmann og Ágúst Jónsson mörk Víkings

Víkingar unnu KR-inga örugglega í síðasta leik Íslandsmótsins, 5:2. Í Vísi segir svo um lok Íslandsmótsins: „Og það er engin tilviljun að Víkingur vann í þetta sinn og hlaut nafnbótina Besta knattspyrnufélag Íslands. Hann sýndi það í kappleiknum við KR í gærkvöldi, að hann á þá nafnbót með réttu! Leikurinn var einhver sá besti sem hér hefur sést, og svo mátti heita, að Víkingur héldi knettinum allan tímann á vallarhelmingi KR. Kapp var mikið af beggja hálfu, en Víkingar voru liprari og betur samtaka og alltaf á verði …“ Skoruð voru 17 mörk í leikjunum þremur á mótinu eða 5,66 mörk að meðaltali í leik.

Leikmenn Víkings voru ungir að árum er þeir urðu íslandsmeistarar árið 1920 og var meðalaldur leikmanna aðeins 18,4 ár. Víkingsliðið er það yngsta sem hefur orðið Íslandsmeistari samkvæmt bókinni um Íslandsmótið í knattspyrnu. Einar Baldvin Guðmundsson var yngstur leikmanna Víkings, en hann var 16 ára er mótið fór fram. Þrír leikmenn voru 17 ára, tveir 18 ára, þrír 19 ára, tveir voru nýorðnir tvítugir og elstur var markvörðurinn Harald Aspelund, 21 árs.

1921 - 1923

Víkingur varð í öðru sæti á eftir Fram bæði 1921 og 1922, en 1923 urðu Víkingur og Valur í neðsta sæti á Íslandsmótinu á eftir Fram og KR. Oft var heitt í kolunum á þessum árum og á mótinu 1922 gengu Víkingar af velli í leik gegn Fram vegna óánægju með dómarann. Ástæða brottgöngunnar var sú að Víkingar töldu að dómarinn hefði dæmt innkast í ranga átt, Víkingar hefðu átt innkastið en ekki Framarar. Fram var dæmdur sigur í leiknum, en staðan var jöfn er Víkingar hættu leik. Íþróttasamband Íslands sektaði Víking um 50 krónur fyrir tiltækið, sem var hæsta mögulega sektarupphæðin.

Víkingar léku í sínum rauð- og svartröndóttu peysum á þessum árum, en athygli vekur í auglýsingu fyrir mótið 1921 að Víkingar léku í bláum buxum. 

Það taldist til tíðinda er Víkingar fóru til Hafnarfjarðar árið 1919, eins og áður er nefnt, en næstu ár á eftir fóru þeir í ferðalög til Vestmannaeyja, Ísafjarðar 1921 og Akureyrar 1928 og var þá siglt með Gullfossi til Akureyrar með viðkomu á mörgum höfnum.

Víkingar léku þrjá leiki gegn Ísfirðingum í förinni vestur árið 1921. Myndin er tekin af kappliðinu að öðrum leiknum loknum. Víkingar á myndinni eru í aftari röð frá vinstri: Helgi Eiríksson, Gunnar Bjarnason, Serrir Forberg, Halldór Halldórsson, Óskar Norðmann, Sigurður Waage, Axel Andrésson og Þórður Albertsson. í fremri röð: Indriði Waage, Páll Andrésson, Haraldur Aspelund, Ágúst Jónsson og EInar Baldvin Guðmundsson.

1924 / Íslandsmeistarar

Besta knattspyrnufélag á Íslandi. Víkingur hampaði meistarabikarnum öðru sinni og vann alla þrjá leiki sína í mótinu sumarið 1924. Liðið vann Val 3:1, KR 1:0 og Fram 4:3 í síðasta leiknum, sem var hreinn úrslitaleikur. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma og var því framlengt og skoruðu Víkingar eina markið í framlengingunni. Glæsilegur sigur á mótinu og fullt hús stiga. Íslandsmótið var nú haldið í 13. skipti og Víkingar sóttu þarna sinn annan titil.
Félagið þurfti síðan að bíða til ársins 1981 eða í 57 ár eftir sínum þriðja titli.

Meðal öflugra leikmanna Víkings á þessum árum voru Harald Aspelund, Þórður Albertsson, Óskar Norðmann, Helgi Eiríksson, Gunnar Bjarnason, Páll Andrésson, Kristinn Kristjánsson, Halldór Halldórsson, Hallur Jónsson, Þórður Albertsson, Einar Baldvin Guðmundsson, Ágúst Jónsson, Sigurður Waage, Magnús Brynjólfsson, Ingólfur Ásmundsson, Angantýr Guðmundsson, Valur Gíslason, Halldór Sigurbjörnsson, Guðjón Einarsson, Sverrir Forberg, Jakob Guðjohnsen, Þorvaldur Thoroddsen, Snorri Björnsson, Kristinn Kristjánsson, Hjálmar Bjarnason og Georg Gíslason.

Íslandsmeistarar Víkings í knattspyrnu árið 1924. Frá vinstri: Þórður Albertsson, Einar Baldvin Guðmundsson, Halldór Halldórsson, Helgi Eiríksson, Valur Gíslason, Ingólfur Ásmundsson, Páll Andrésson, Sigurður Waage, Halldór Jónsson og Óskar Norðmann.

Axel Andrésson var kosinn fyrsti formaður Víkings vorið 1908 og gegndi hann formennsku í félaginu til ársins 1924. Hann var jafnframt aðalþjálfari félagsins í sextán ár og dæmdi fyrir Víking. Axel varð síðan aftur formaður félagsins 1930–1932. Um Axel Andrésson sagði Emil Thoroddsen, sem einnig var í hópi hinna fimm ungu stofnenda félagsins: „Ég er ekki í neinum vafa um að það var Axel Andréssyni og honum einum að þakka, að Víkingur lifði þessi fyrstu ár. Hann var sá eini af okkur, sem átti þennan áhuga, sem einblínir á einn veg og eitt mark, og er sá eini eiginleiki, sem nokkru fær framgengt í þessari veröld.“

Halldór Sigurbjörnsson, einn af meisturunum 1924 og um tíma formaður Víkings, rifjaði fyrir margt löngu upp þátttöku sína í fótboltanum í Víkingi upp úr 1920. Hann sagði meðal annars: „Víkingur var 100% Miðbæjarfélag og það var eilíft stríð við hin félögin, það er KR og Fram, en Valur var ekki almennilega vaknaður á þessum árum. Við vorum svolítið öfundaðir, því það var yfirleitt fína fólkið, sem stóð að Víkingsstrákunum … Þetta var allt öðruvísi í gamla daga. Að leikjum loknum var til dæmis þrammað í fylkingu niður Suðurgötuna og farið í kaffi að Uppsölum, sem var á horni Aðalstrætis og Túngötu … Stundum fórum við skítugir og svitastorknir í kaffið, baðaðstaðan var ekki sú sama og nú …

Í leikjunum voru menn í miklum klossum eða stígvélum, sem náðu upp á legginn. Takkarnir undir skónum voru, trúi ég, hálfur annar sentimetri að lengd og voru þeir negldir upp í sólann. Í raun voru takkarnir ekki annað en naglar bólstraðir með leðri og stundum kom það fyrir, að leðrið eyddist utan af svo ber naglinn stóð niður úr sólanum. Af þessu urðu oft meiðsli. Annars var Axel alltaf með pottflösku af joði með sér á leikjum og hellti miskunnarlaust í sárið ef menn meiddust, það var ekki spurt um sársaukann.“

1925 - 1927

Aðeins einn mótssigur vannst á þessum árum, í þriðja flokki 1925. Á aðalfundi í apríl 1927 urðu allmiklar umræður um að Víkingur sameinaðist Fram. Niðurstaðan varð sú að fundarmenn, um 20 manns, lögðust gegn slíkri sameiningu og var skorað á menn að standa saman og mæta vel á æfingar sumarsins.

Kapplið Víkings 1923 - 1927. Aftari röð frá vinstri:

1928 - 1930

Hreinn úrslitaleikur gegn KR um Reykjavíkurmeistaratitil tapaðist árið 1928 og lið Víkings varð því í öðru sæti á mótinu eins og 1924. Á Íslandsmótinu þetta ár fékk félagið ekkert stig. Lið frá háskólanum í Glasgow í Skotlandi kom til Íslands 1928 og gerði Víkingur 2:2 jafntefli við gestina. Mun það hafa verið fyrsta stigið sem íslenskt félagslið fékk í keppni við erlent lið. 1929 varð Víkingur í fjórða sæti af sex liðum á Íslandsmótinu og ári síðar fékk félagið eitt stig og varð í neðsta sæti ásamt Fram. Árið 1929 varð Víkingur Íslandsmeistari í 1. flokki.

I. flokkur 1928. Liðið sem keppti við Skotana. Efsta röð frá vinstri: Jónas Thoroddsen, Alfreð Gíslason, Tómas Pétursson, Kristján Pétursson, Guðjón Einarsson, Axel Andrésson, þjálfari. Miðröð: Halldór Sigurbjörnsson, Jakob Guðjohnsen, Erlingur Hjaltested. Neðsta röð: Þorbjörn Þórðarson, Þórir Kjartansson, Óli P. Hjaltested.

Margir knattspyrnumenn í Víkingi voru einnig snjallir í öðrum íþróttum, og má þar nefna frjálsar íþróttir og árangur Helga Eiríkssonar. Tennisháhugi var nokkur í höfuðstaðnum á þessum árum og Víkingar áberandi í íþróttinni. Á aðalfundi 1927 mælti Agnar Klemens Jónsson eindregið með því að að Víkingur kæmi sér upp tennisvelli og rak félagið tennisvöll að Sólvöllum 1928–1930. Gísli Sigurbjörnsson í Ási var vallarstjóri. Friðrik Sigurbjörnsson var í mörg ár Íslandsmeistari í tennis og Gísli einnig í fremstu röð.

Íslenskt úrvalslið fór til Færeyja 1930 og mun það hafa verið fyrsta utanför íslensks knattspyrnuliðs. Axel Andrésson var þjálfari og dómari í ferðinni og Víkingarnir Tómas Pétursson og Þórir Kjartansson voru meðal leikmanna. Íslenska liðið vann alla þrjá leiki sína í ferðinni og skoraði Tómas fyrsta markið í fyrsta leiknum, gegn Havnar Boldfelag, og þar með fyrsta mark Íslendings í opinberum kappleik á erlendri grund.

I. flokkur Víkings árið 1930. Efsta röð frá vinstri: Þorbjörn Þórðarson, Geir Borg, Tómas Pétursson, Alfreð Gíslason, Kristján Pétursson. Miðröð: H. Jackson, Erlingur Hjaltested, Óli P. Hjaltested. Fremsta röð: Guðmundur Sigfússon, Þórir Kjartansson, Björn Fr. Björnsson.
Loka efnisyfirliti