1951 - 1960

FLUTNINGUR OG FRAMFARIR

Straumhvörf urðu í sögu Víkings 27. febrúar 1953 er Bæjarráð Reykjavíkur samþykkti að úthluta Víkingi svæði fyrir velli og félagsheimili við Hæðargarð. Áður hafði Víkingur fengið skika fyrir starfsemi félagsins í Vatnsmýrinni. Framkvæmdir hófust fljótlega við félagsheimili og vallargerð við Hæðargarð og smátt og smátt færðust allar æfingar félagsins á hið nýja svæði. Gróska var í starfi yngri flokka í ört vaxandi hverfi og það gladdi Víkinga mjög þegar 5. flokkur félagsins varð haustmeistari í knattspyrnu 1959.

Axel Andrésson ásamt börnum úr Bústaðahverfinu við upphaf nýs landnáms Víkinga í Hæðargarði 1953.

1951

Víkingur átti sína fulltrúa í sigri Íslands gegn Svíum í landsleik á Melavellinum 29. júní, sigurdaginn mikla, en þá vannst einnig sigur í landskeppni í frjálsum íþróttum gegn Dönum og Norðmönnum. Úrslitin í landsleiknum urðu 4:3 fyrir Ísland og skoraði Skagamaðurinn Ríkharður Jónsson öll mörk Íslands. Bjarni Guðnason lék þarna sinn fyrsta af fjórum landsleikjum og Guðjón Einarsson hafði veg og vanda af vali íslenska liðsins og dæmdi leikinn. Hallur Símonarson, Víkingur og íþróttafréttamaður, sagði síðar að þessi leikur hefði verið besti leikur Bjarna á ferlinum: „Hann var frábær – þetta var besti leikur, sem hann nokkru sinni lék í knattspyrnu.“ Víkingur vann vormót í knattspyrnu og þótti það sterkur sigur.

Sigurvegarar á vormóti í knattspyrnu árið 1951. Aftari röð frá vinstri: Reynir Þórðarson, Ingvar N. Pálsson, Sigurður Jónsson, Helgi Eysteinsson, Gunnlaugur Lárusson, Baldur Árnason. Fremri röð: Kjartan Elíasson, Guðmundur Samúelsson, Gunnar Símonarson, Sveinbjörn Kristjánsson, Einar Pálsson.

Víkingar urðu í fjórða til fimmta sæti á Íslandsmótinu í knattspyrnu, en fimm lið tóku þátt og var keppnin jöfn og spennandi. Knattspyrnumenn frá Víkingi fóru ásamt Frömurum í keppnisferð til Þýskalands. 

Árið 1951 munu Víkingar í fyrsta skipti hafa tekið þátt í opinberri skíðakeppni og voru þeir Björn Kristjánsson og Óli J. Ólason þar fremstir í flokki, en einnig Lárus Ágústsson, Sigurður S. Waage og Margrét Hjálmarsdóttir.

Á aðalfundi 1951 var samþykkt tillaga Brands Brynjólfssonar um að kjósa sérstaka nefnd til að undirbúa stofnun fulltrúaráðs Víkings, eins og störfuðu hjá sumum félögum í bænum. 

Reykjavíkurbær hafði úthlutað Víkingi og ÍR svæði í Vatnsmýrinni og árið 1951 var hæðarmælt og grafnir skurðir í kringum skika Víkings, en árið eftir átti að ræsa hann fram. Svæðið var suður af Njarðargötu, á svipuðum slóðum og Tívolí var starfrækt og skipafélagið Hafskip hafði síðar aðstöðu. Svæðið þótti þröngt, en þar átti bæði að vera félagsheimili Víkings og einn eða tveir fótboltavellir. Víkingur og ÍR tókust á um mörk á milli svæða félaganna og jafnvel var talað um samstarf félaganna tveggja um nýtingu svæðisins. Falast var eftir stækkun svæðisins, en 1952 kom í ljós að viðbótarsvæði fengist ekki. Nábýlið við flugvöllinn þótti ekki heillandi, og auk þess voru ekki barnmörg íbúðahverfi í nágrenninu.

1952

Straumhvörf urðu í sögu Víkings árið 1952 er ákvörðun var tekin um að hætta uppbyggingu á svæði því í Vatnsmýri sem Reykjavíkurbær hafði úthlutað félaginu. Gunnar Már Pétursson var kosinn formaður Víkings í febrúar 1952 og tók hann við af Hauki Eyjólfssyni. Gunnar gegndi formennskunni í þessari lotu fram á árið 1957. Það kom í hlut Gunnars Más og þeirra sem með honum störfuðu að gera drauminn um eigið félagsheimili og íþróttasvæði að veruleika. 

Gunnar Már segir svo frá í grein sem hann skrifaði í 50 ára afmælisblað Víkings: „Þá rann upp hin sögulega stund. Á stjórnarfundi hinn 19. ágúst 1952, mælti Gunnlaugur Lárusson, gjaldkeri stjórnarinnar, eitthvað á þessa leið. „Svæðið í Vatnsmýrinni er ónothæft – ekki vegna stærðarinnar, heldur vegna staðarins. Ég legg til og mæli eindregið með, að athugað verði strax hvort annað svæði í einu af nýju úthverfum bæjarins sé fáanlegt. Þar mundi Víkingur koma til með að verða þróttmikið hverfisfélag, sem að fáum árum liðnum stæði jafnfætis bestu félögum þessa bæjar.““

Skiptar skoðanir voru í félaginu á þessu frumkvæði Gunnlaugs og vildu sumir halda ótrauðir áfram í Vatnsmýrinni. Fannst þeim erfitt að „aristókratafélag“ í miðbænum flytti í úthverfi bæjarins. Eftir miklar umræður var tillaga Gunnlaugs samþykkt. Gunnlaugur segir svo frá í Víkingsbókinni: „Þessi ákvörðun olli að mínu mati þáttaskilum í sögu félagsins og er sá þáttur í starfi mínu fyrir Víking, sem mér þykir vænst um að hafa átt frumkvæði að og barizt fyrir. Þetta var í mínum huga spurning um hvort Víkingur myndi á næstu árum veslast upp í eins konar kví milli KR og Vals eða hefjast á ný til vegs og virðingar. 

Þeir voru margir Víkingarnir sem ekki gátu hugsað sér félagið sitt í einhverju úthverfi borgarinnar. Þeim fannst það svo fjarlægt upphafinu og gerðu sér auk þessi ekki grein fyrir nauðsyn þess að fá nýtt blóð inn í félagið, en í miðbænum var þá orðið fátt eftir af ungu fólki til að efla það. Þegar hins vegar ákvörðun hafði verið tekin um að flytja úr hjarta borgarinnar í eitt af nýju úthverfunum stóðu Víkingar saman að baki þeirri ákvörðun og unnu einhuga að endurreisn félagsins.“

Á stjórnarfundi var ákveðið að fara í bíltúr um bæinn og svipast um eftir opnum og helst óskipulögðum svæðum í hverfum sem voru að byggjast. Gunnar Már þekkti til við Hæðargarðinn og vissi af opnu svæði þar. Bústaða- og Smáíbúðahverfi voru að byggjast „og það þurfti ekki gáfumann til að sjá að þar yrði nægur efniviður fyrir íþróttafélag,“ sagði Gunnar Már.

Formleg umsókn Víkings um svæðið við Hæðargarð var send yfirvöldum í Reykjavík 3. september 1952. Stöðugir fundir tóku við og áttu þeir Gunnar Már Pétursson, Gunnlaugur Lárusson og Árni Árnason 36–40 fundi á þremur mánuðum, að sögn Gunnars Más í Víkingsbókinni. Einkum var fundað með Gísla Halldórssyni, arkitekt og síðar forseta Íþróttasambands Íslands, en hann teiknaði félagsheimilið, Þorsteini Einarssyni, íþróttafulltrúa ríkisins, Þór Sandholt, skipulagsstjóra Reykjavíkur, ráðamönnum í borginni og ýmsum fleirum.

Meistaraflokkur Víkings í handbolta. Sigurvegarar á haustmóti 1954. Aftari röð frá vinstri: Ásgeir Magnússon, Björn Kristjánsson, Axel Einarsson, Sigurður Jónsson. Fremri röð: Reynir Þórðarson, Ríkharður Kristjánsson, Pálmi Gunnarsson.

Víkingur sigraði með yfirburðum á Íslandsmóti 2. flokks í handbolta og vann Víkingur alla leiki sína, markatalan 36:16. Í liðinu voru Sigurður Ólafsson, Símon Símonarson, Óli J. Ólason, Árni Jensson, Ásgeir Magnússon, Sigurður Jónsson og Björn Kristjánsson. Þeir höfðu einnig orðið Íslandsmeistarar í 3. flokki 1949. Þessir leikmenn voru kjölfestan í meistaraflokki félagsins fram yfir 1955 og sigruðu á hraðmótum HKRR 1953 og 1954. 

Í fótbolta urðu Víkingar neðstir fimm liða á Íslandsmótinu.

1953

27. febrúar 1953 samþykkti Bæjarráð Reykjavíkur að úthluta Víkingi svæði fyrir velli og félagsheimili við Hæðargarð. Þá var ekki búið að byggja Breiðagerðisskóla, en hins vegar var búið að velja honum stað. Forystumönnum Víkings fannst skólinn þrengja um of að Víkingssvæðinu og stungu upp á því við borgina í viðræðum um veturinn að hann yrði á horni Hæðargarðs og Grensásvegar, öðrum hvorum megin við Grensásveginn. Slíkt kom þó ekki til greina vegna hugmynda í þá daga um að byggja þar kirkju og hins vegar vegna umferðarþunga um Grensásveg, skv. frásögn Gunnars Más í Víkingsbókinni.

3. september 1953 tók Axel Andrésson, helsti hvatamaðurinn að stofnun félagsins, fyrstu skóflustunguna að Víkingsheimilinu við Hæðargarð. Aðrir sem viðstaddir voru athöfnina voru Jón Bergsteinsson, byggingameistari hússins, og framámenn í félaginu, þeir Gunnar Már Pétursson, Alexander Jóhannsson, Þorbjörn Þórðarson, Ólafur Jónsson útvarpsvirki, Árni Árnason og Jóhann Gíslason. Auk þeirra fylgdust 20–30 krakkar úr hverfinu með þessu nýja upphafi í sögu Víkings. Á næstu árum mæddi mikið á forystumönnum félagsins, en þó einkum þeim Gunnari Má Péturssyni og Gunnlaugi Lárussyni, sem báru hitann og þungann af framkvæmdunum.

Leikið var í tveimur þriggja liða riðlum í Íslandsmótinu í fótbolta og varð Víkingur á eftir Val, en á undan Þrótti í B-riðli. Reynir Þórðarson lék þrjá landsleiki fyrir Íslands hönd og kom hann í kjölfar fyrstu landsliðsmannanna úr Víkingi, þeirra Brands Brynjólfssonar (1), Hauks Óskarssonar (2), Bjarna Guðnasonar (4), Gunnlaugs Lárussonar (2) og Helga Eysteinssonar (1). Víkingur var næst valinn í A-landslið í knattspyrnu árið 1971 er Guðgeir Leifsson var valinn í landsliðið.

Axel Andrésson tók fyrstu skóflustunguna að Víkingsheimilinu við Hæðargarð. Hér er hann ásamt Gunnar Má Péturssyni, þáverandi formanni Víkings, og Guðjóni EInarssyni, fyrrverandi formanni.

1954

Fulltrúaráð Víkings var formlega stofnað 17. október 1954 og var Sighvatur Jónsson kosinn fyrsti formaður þess. Fyrst í stað var miðað við að fjöldi félaga yrði takmarkaður og um tíma var miðað við að 14 félagar ættu sæti í fulltrúaráðinu. Verkefni ráðsins voru margvísleg, meðal annars að létta undir með störfum aðalstjórnar, t.d. hvað varðaði fjáröflun. Einnig skyldi það vera ráðgefandi og átti stjórn félagsins að leita ráða hjá fulltrúaráðinu í málum er vörðuðu annað en daglegan rekstur. Fulltrúaráðið var því í upphafi valdastofnun í félaginu, en er árin liðu breyttist hlutverk ráðsins mikið. Ráðið hefur ævinlega stutt vel við starf félagsins, bæði félagslega og fjárhagslega, auk þess sem það var vettvangur fyrir eldri félaga til að hittast.

Axel Andrésson hélt um sumarið námskeið á túninu þar sem fótboltavellir Víkings komu síðar. Axel var farandkennari á vegum Íþróttasambands Íslands og hélt yfirleitt ekki námskeið í Reykjavík, en ÍSÍ gerði undanþágu frá því í þessu tilviki. Um 120 krakkar sóttu námskeiðið; þarna er framtíðin, sögðu gamlir Víkingar. Vandinn var hins vegar sá að strákarnir á nýja svæðinu voru mjög ungir, meistaraflokkurinn æfði og keppti vestur á Melum og skuldir hrönnuðust upp vegna framkvæmda. Félagsstarfið var erfitt og vandasamt að halda lífi í félaginu. 

Víða var bolta sparkað á túnum og blettum í Bústaða- og Smáíbúðahverfi á þessum árum og mörg strákafélög voru stofnuð. Auk túnbleðils þar sem Víkingsvöllurinn kom síðar þótti flötin á móti Bústaðabúðinni, síðar nefnd Garðaflöt, góð til að æfa fótbolta. Á hverjum degi og oft langt inn í sumarnóttina var æft af kappi.

Víkingur varð neðstur í sex liða deild í fótboltanum. Knattspyrnumenn Víkings fóru í keppnisferð til Danmerkur.

Á heimasíðu Breiðagerðisskóla er að finna fróðlega samantekt um upphaf skólastarfs í hverfinu, en sú saga er nátengd sögu Víkings. Starfsemi skólans hófst í Háagerði 1954 en hann var þá útibú frá Laugarnesskóla. Á efri hæð hússins voru þrjár kennslustofur en í kjallara var salur sem skipt var í tvennt með tjaldi til að búa til tvær kennslustofur. 

Vesturálma Breiðagerðisskóla var fyrst tekin í notkun 1956 en þá hóf skólinn formlega starfsemi. Miðhúsbyggingin var tekin í notkun ári síðar, fyrir utan íþróttahúsið sem var tekið í notkun um 1960. Austurálman var tekin í notkun 1961 og var þá fjórar kennslustofur. 1964 var byggð sundlaug við austurálmuna og tvær kennslustofur ofan á hana. Auk þess var einnig kennt í Víkingsheimilinu. Þar var teiknistofa og 4 kennslustofur. Fyrstu árin var skólalóðin ófrágengin og mikil for og eðja sem stundum myndaðist á henni. Þess eru mörg dæmi að kennarar fóru ekki milli húsa sökum forar nema mikið lægi við. Nemendur þurftu að láta sér þetta lynda þar til komið var með möl og síðar malbik.

Skólahverfið náði yfir Bústaðahverfi, Smáíbúðahverfi, Blesugróf, Fossvogsbletti, Hvassaleiti og Kringlumýrarbletti vestur að húsi Veðurstofu Íslands… Nokkuð var um einbýlishúsalóðir og fengu menn nokkuð frjálsar hendur með byggingu á þeim… Raðhúsaíbúðir sem Reykjavíkurborg byggði voru afhentar með þeim skilmálum að kaupendur ættu minnst fimm börn. Til þess að átta sig betur á þessari stöðu þarf að skoða Reykjavík í sögulegu og stærra samhengi. Þetta voru eftirstríðsárin og ætlunin að braggahverfin hyrfu. Það hefur því verið þverskurður af samfélaginu sem sendi börn sín til mennta í Breiðagerðisskóla.

Skólaþroskanámskeið voru haldin á vorin, oft kölluð Vorskóli. Þetta var gert til þess að meta og greina nemendur. Þeim var síðan raðað í bekki eftir getu. Skólinn var mjög fjölmennur fyrstu 20 árin. Flestir nemendur voru skólaárið 1963–1964 eða 1399. Bekkir voru mjög fjölmennir fyrstu árin, allt upp í 35 nemendur í getumestu bekkjunum. Í svokölluðum hjálparbekkjum voru fyrst 18 en síðan 15 nemendur. Fjöldi bekkja í árgangi var einnig mikill, oftast 8–9. Nemendum fer að fækka þegar Hvassaleitisskóli tekur til starfa árið 1965. Það sama gerist þegar Fossvogsskóli tekur til starfa árið 1971.

Um 1978 hafði nemendum fækkað niður fyrir 600 nemendur og var þá hætt að getuskipta í bekki. Getuskiptingin í bekki var frá sjónarmiði hagræðingar en ekki mismununar Við upphaf skólans voru yngri nemendur þrjár klst. á dag í skólanum og námsgreinar færri en eru í dag. Til að þjónusta alla íbúa hverfisins á þessu aldursstigi þurfti að þrísetja skólann. Já, takk, það voru þrír bekkir sem sátu í hverri skólastofu á hverjum degi sex daga vikunnar því þá var kennt á laugardögum! Það var einnig kennt í búningsklefa stúlkna og drengja áður en íþróttahúsið var tekið í notkun, segir meðal annars á heimasíðu nágranna okkar í Breiðagerðisskóla.

Blesugrófin árið 1971.

1955

Árið 1955 var félagið orðið mjög skuldsett og framkvæmdir á félagssvæðinu við Hæðargarð að stöðvast. Upp kom sú hugmynd að selja skíðaskálann í Sleggjubeinsskarði, einu fasteign félagsins, og var það rætt á mörgum fundum í félaginu, m.a. aðalfundi og framhaldsaðalfundi, og var sala skálans að lokum samþykkt. Formaður félagsins og stjórn töldu að verðmæti skíðaskálans kæmi félaginu betur að gagni væri það komið í svæðið og heimilið í bænum. 

Af sölunni varð þó ekki þar sem ÍR-ingar, sem höfðu ætlað að kaupa, kipptu að sér höndum þegar samþykki Víkinga lá loks fyrir. Árin á undan og meðan á þrefi um skálasöluna stóð var starf skíðadeildarinnar með daufasta móti. Um og upp úr 1956 hófst endurreisn skíðastarfsins og var mikið átak gert í endurbótum og lagfæringum á skálanum. 

Knattspyrnumenn Víkings urðu í fjórða sæti í sex liða fyrstu deild, en þetta sumar var í fyrsta skipti leikið í tveimur deildum í Íslandsmótinu í fótbolta og það ár féll lið í fyrsta skipti úr deildinni.

1956

Víkingar höfðu allar klær úti til að afla peninga til framkvæmda, m.a. var efnt til fjáröflunar í hverfinu. Gengið var í hús og reynt að fá fólk til að leggja fram 10 krónur mánaðarlega í uppbygginguna. Ólafur Jónsson (Flosa) orðaði það svo að peningum hefði verið safnað með „víxlum, sníkjum og slætti“. 

Um tíma stóð til að leigja félagsheimilið fyrir trésmíðaverkstæði, en þegar kom fram á sumarið 1956 var ákveðið að leigja það út til skólastarfs og var gerður samningur við borgina 25. júlí. Gunnar Már Pétursson segir svo frá í fyrrnefndu afmælisblaði: „Það var allt gert til að reyna að ná í peninga, en styrk hvers árs fengum við ekki greiddan fyrr en eftir á er framkvæmdir ársins höfðu verið gerðar upp. Sumarið 1956 var húsið orðið fokhelt, en þá var allt þetta dýra eftir, innrétting, pússning, pípulögn og fleira.

Um þetta leyti fréttum við, að bærinn ætti í erfiðleikum með að útvega skólapláss í hverfinu. Við Gunnlaugur fórum þá á fund fræðslustjórans í Reykjavík, Jónasar B. Jónssonar, sem var tilbúinn fyrir hönd bæjarins að leigja félagsheimilið af Víkingum. Sá böggull fylgdi þó skammrifi, að húsið skyldi þá vera tilbúið til kennslu 1. október. Stæði það skyldi bærinn borga Víkingi tveggja ára leigu fyrirfram. Þetta var freistandi tilboð, en aðeins réttir þrír mánuðir til stefnu og mikið var eftir og trúlega dýrara en það sem við vorum búnir með. Við sáum enga leið út úr þessu, en fannst þó ekki hægt annað en að reyna …“

Húsið var tilbúið viku af nóvember og bærinn skammaðist mikið vegna tafanna og dró einn mánuð og eina viku af tveggja ára húsaleigu. Með leigunni komust framkvæmdir fyrir vind og talsvert tókst að grynnka á skuldum. Í lánastofnunum þótti nafn Víkings ekki sérstakur pappír og þurftu stjórnarmenn því iðulega að ganga í ábyrgð fyrir lánum, sem voru orðin há. 

Félagsheimilið við Hæðargarð í byggingu.

Víkingar urðu neðstir í Íslandsmótinu í fótbolta 1956 og hlutu ekkert stig í sex liða deild. Þeir léku því í annarri deild árið eftir og reyndar urðu Víkingar að gera sé að góðu að leika í næstefstu deild allt fram til ársins 1970, en Víkingur vann sigur í annarri deild 1969. Það bar til tíðinda á Íslandsmótinu að Víkingurinn Jóhann Gíslason varði vítaspyrnu frá Þórði Þórðarsyni og varð þar með fyrstur til að verja vítaspyrnu í keppninni í fyrstu deild, en deildaskipting var tekin upp árið áður. 

Í bók Sigmundar Steinarssonar um Íslandsmótið í knattspyrnu er þetta rifjað upp: „Ég svaf ekkert nóttina fyrir leikinn vegna tilhugsunar um að vera að fara að leika gegn níu landsliðsmönnum frá Akranesi, sem höfðu verið nær ósigrandi í mörg ár og miklir markaskorarar,“ sagði Jóhann í samtali við Sigmund. Jóhann átti síðar eftir að verða betur þekktur sem handknattleiksmaður og fékk viðurnefnið „skotharði vélstjórinn“.

III. flokkur karla 1956. Þrátt fyrir slæmt gengi á Íslandsmótinu í fótbolta 1956 áttu yngri flokkar félagsins góðu gengi að fagna á næstu árum.

1957

Aðalfundur Víkings 10. mars 1957 var haldinn í nýja félagsheimilinu. Fundurinn var fjölsóttur og hafði Gunnar Már Pétursson formaður á orði að hugsanlega væri um að ræða met í sögu félagsins, aðeins aðalfundurinn 1941 væri hliðstæður. Á þessum tímapunkti var félagsheimilið í leigu, en á næstu árum fór félagsstarf Víkings að miklu leyti fram í húsinu. Enn skorti fjármagn til að fullgera malarvöll. Eigi að síður markaði þessi aðalfundur tímamót því hann var haldinn í húsnæði í eigu félagsins og Víkingar óskuðu hver öðrum til hamingju með áfangann. Formlega vígsla félagsheimilisins beið hins vegar til ársins 1973. 

Morgunblaðið greindi frá aðalfundinum og segir þar meðal annars: Árangur Víkings í knattspyrnu og handknattleik var heldur lélegur á árinu, en þó er ekki ástæða til að vera annað en bjartsýnn á framtíð félagsins, sem nú hefir í fyrsta sinn skapað sér aðstöðu sem önnur félög í bænum með byggingu félagsheimilis, og í sumar verður unnið að því, að koma upp íþróttasvæði við félagsheimilið. Þarf þá ekki að efa, að í hinu fjölmenna hverfi munu myndast sterkir knattspyrnu- og handknattleiksflokkar.  

Í Íslandsmótinu í knattspyrnu féll meistaraflokkur félagsins niður í 2. deild. Einu ljósu punktarnir á íþróttasviðinu voru árangur 3. og 4. flokks félagsins, en þessir flokkar urðu báðir í öðru sæti í sínum riðlum í íslandsmótinu og væntanlega eiga þessir ungu drengir eftir að varpa ljóma á nafn félagsins á ný. Félögum í þessum flokkum fjölgaði mjög á árinu og æfingar voru vel sóttar.

Gunnar Már Pétursson og Gunnlaugur Lárusson hættu í stjórn Víkings 1957, en störfuðu áfram í byggingarnefnd félagsins, þar sem þeir tókust á við skuldir þess og frekari framkvæmdir. Þorlákur Þórðarson var kosinn formaður í mars 1957 og gegndi starfinu til loka október 1958. Þá tók einn af ungu Víkingunum við keflinu, Pétur Bjarnarson, og var hann formaður félagsins í eitt ár. Ólafur Jónsson (Flosa) var formaður Víkings 1960–1965 er Gunnar Már Pétursson varð á ný formaður félagsins og gegndi hann formennsku í Víkingi til 1973. 

Handknattleikssamband Íslands var stofnað og var Víkingurinn Árni Árnason kosinn fyrsti formaður þess. Af öðrum viðburðum þetta ár má nefna að Laugardalsvöllurinn var vígður með landsleik gegn Norðmönnum 8. júlí 1957. 

Víkingur sendi í fyrsta skipti kvennalið til keppni í handbolta veturinn 1957–58. Brynhildur Pálsdóttir var einn leikmanna og fyrirliði liðsins og rifjar upp í Víkingsbókinni Áfram Víkingur að þær höfðu aðeins æft í einn mánuð þegar þær hófu keppni. Þær enduðu eigi að síður í úrslitum á mótinu gegn Ármanni, en töpuðu. „Andinn innan félagsins var mjög skemmtilegur, mikil samheldni og fólk taldi ekki eftir sér að vinna þau verk, sem vinna þurfti. Að vísu var þetta ekki stór hópur, en þeim mun samhentari. Um helgar var það skíðaskálinn með sínum ævintýrum og síðan handboltinn virka daga,“ segir Brynhildur í Víkingsbókinni. 

1958

Víkingur féll í aðra deild í handboltanum, en fór upp aftur 1961. Víkingar voru að styrkjast í handbolta eins og fótbolta á þessum árum og nýjar kynslóðir að taka við. Í Víkingsbókinni rifjar Pétur Bjarnarson upp að eitt árið hafi Víkingur unnið Íslandsmót í fimm flokkum og árið eftir var útlitið einnig gott þar sem félagið lenti í úrslitum í sex flokkum. Svo ótrúlega vildi hins vegar til að úrslitaleikirnir töpuðust allir. Pétur hóf að þjálfa hjá Víkingi 1956 og starfaði fram á níunda áratuginn við þjálfun handknattleiks- og knattspyrnuflokka hjá Víkingi, sum árin framan af þessu tímabili þjálfaði hann flesta handknattleiksflokka félagsins. Auk þess sinnti Pétur félagsstörfum og var formaður Víkings í eitt ár, 1959–1960.

Kvennalið Víkings á handknattleiksæfingu á Hálogalandi trúlega 1958. Fremsta röð frá vinstri: Guðrún Bergmann, Guðrún Jónsdóttir, Gréta Jónsdóttir, Margrét Jónsdóttir. Önnur röð: Sigríður Valdimarsdóttir, Birna Þórðardóttir, Sigrún Vilbergsdóttir, Guðrún Jóhannesdóttir, Halldóra Jóhannesdóttir, Fanney Þórðardóttir, Kristín Tryggvadóttir, Heiða Hallbjörnsdóttir. Þriðja röð: Pétur Bjarnason, þjálfari, Jórunn Magnúsdóttir, Rakel Bessadóttir, Svala Jónsdóttir, Ína Gissurardóttir, Rannveig Laxdal, Ásrún Ellertsdóttir, Eva Hjaltadóttir. Aftasta röð: Elín Guðmundsdóttir, Herdís Jónsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir.
Handknattleiksmenn í meistara-, 1. og 2. flokki Víkings á æfingu að líkindum árið 1958. Fremsta röð frá vinstri: Jón Margeirsson, Sigurður Gíslason, Þórður Ragnarsson, Sigurður Guðmundsson. Önnur röð: Steinar Halldórsson, Eggert Jóhannesson, Hjálmar Diego, Björn Bjarnarson, Andrés Begmann, Eyjólfur Karlsson. Þriðja röð: Pétur Bjarnason, Hjörleifur Þórðarson, Magnús Thejll, Árni Ólafsson, Bergsteinn Pálsson, Kort Sævar Ásgeirsson, Árni Waage, Gylfi Haraldsson, Jón Eiríksson. Aftasta röð: Björn Sigurbjörnsson, Þorbergur Halldórsson, Þorsteinn Sæmundsson, Sigurður Bjarnason, Rósmundur Jónsson, Sigurður Óli Sigurðsson.
3. flokkur karla 1958 - 1959. Efri röð frá vinstri: Sigurður Bjarnason, þjálfari, óþekktur, Kjartan Mogensen, Magnús H. Magnússon, Ómar Haraldsson, Kristinn Erlendsson, Jóhannes Tryggvason, Guðmundur Óskarsson, Kristján Gissurarson, óþekktur, óþekktur, Sigurður Guðjónsson, Atli Gíslason. Neðri röð: Kristján Steingrímsson, Jón Ingi Ólafsson, Rúnar Sigurðsson, Bjarni Steingrímsson, Þormóður Sveinsson, Guðni Guðmundsson, Hilmar Birgisson, Baldur Guðlaugsson, Gunnar Örn Gunnarsson, óþekktur, Ásgeir Kaaber, óþekktur, óþekktur.

1959

Ákveðin tímamót urðu í sögu Víkings er 5. flokkur félagsins varð haustmeistari í knattspyrnu. Þá var liðinn langur tími frá því að Víkingur hafði unnið unnið mót í yngri flokkunum í fótbolta og þeir leikmenn sem skipuðu sigurflokkinn áttu margir síðar eftir að koma mikið við sögu félagsins, nefna má Ólaf Þorsteinsson, Einar Magnússon og Örn Guðmundsson. Þjálfari liðsins var Eggert Kr. Jóhannesson, sem á þessum árum var allt í öllu í þjálfun yngri knattspyrnumanna Víkings. Starfið í Bústaðahverfi var farið að bera ávöxt. 

Þetta ár varð þriðji flokkur karla Íslandsmeistari í handbolta. og meðal leikmanna má nefna Ólaf Friðriksson, Brynjar Bragason, Örn Henningsson og Sigurð Hauksson. Þjálfari var Sigurður Bjarnarson og formaður handknattleiksdeildar Hjörleifur Þórðarson.

Kvennalið Víkings í handbolta fór í keppnisferð til Færeyja og mun þetta hafa verið fyrsta keppnisför handboltaliðs úr Víkingi til útlanda. Farið var með farþegaskipinu Dronning Alexandrine og hrepptu Víkingsstúlkurnar leiðindaveður á siglingunni. Í Færeyjum voru móttökur einstaklega góðar, en búið var á einkaheimilum. Ári síðar fór piltalið úr Víkingi til Danmerkur.

Haustmeistarar Víkings í 5. flokki í knattspyrnu árið 1959. Aftari röð frá vinstri: Magnús Thejll, Pétur Jónsson, Ólafur Þorsteinsson, Einar Magnússon, Bragi Guðmundsson, Örn Guðmundsson, Egill Einarsson, Eggert Jóhannesson, þjálfari. Fremri röð: Bjarni P. Magnússon, Jón Þórarinsson, Þorbjörn Jónsson, Þórður Haraldsson, Ómar Kristjánsson og Magni Jónsson.

1960

Ólafur P. Erlendsson gaf farandbikara til þeirra knattspyrnumanna sem sýnt höfðu mestar framfarir og besta ástundun keppnistímabilið á undan. Í fyrsta skipti er þessir afreksbikarar voru veittir hlutu þá Georg Gunnarsson í 5. flokki, Örn Guðmundsson í 4. flokki, Ólafur Friðriksson í 3. flokki og Sigurjón Stefánsson í 2. flokki. Þá gaf Eggert þjálfari markverðinum Þorbirni Jónssyni bikar til eignar á þessum fundi.

Meistaraflokkur Víkings í handknattleik 1960. Aftari röð frá vinstri: Guðrún Jóhannesdóttir, Halldóra Jóhannesdóttir, Rakel Bessadóttir, Eva Hjaltadóttir, Rannveig Laxdal, Ásrún Ellertsdóttir, Pétur Bjarnason, þjálfari. Fremri röð: Herdís Jónsdóttir, Guðrún Bergmann, Margrét Jónsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir.
4. flokkur Víkings árið 1960.
Loka efnisyfirliti