1971 - 1980

Stórir titlar og sterk staða

Víkingur varð Íslandsmeistari í handknattleik 1975 og í hönd fóru glæsileg ár í handboltasögu félagsins. 1978 vann Víkingur bikarkeppnina í handbolta í fyrsta skipti og 1980 vann félagið bæði deild og bikar í handbolta. Víkingur varð bikarmeistari í fótbolta 1971 og smátt og smátt tókst félaginu að styrkja stöðu sína í fótboltanum. Víkingsheimilið við Hæðargarð var að fullu tekið í notkun fyrir starfsemi félagsins og 1973 hófu blak-, badminton- og borðtennisdeildir starfsemi innan Víkings. Blakkonur innbyrtu fyrstu meistaratitla sína árin 1975 og 1976.

Víkingar urðu Bikarmeistarar KSÍ í fyrsta og eina sinn árið 1971.

1971

Víkingur varð bikarmeistari í knattspyrnu og er eina annarrar deildarliðið sem hefur náð þeim árangri. Þá vann félagið aðra deildina með yfirburðum. Á leið sinni í úrslitaleikinn unnu Víkingar meðal annars Akureyringa og Akurnesinga og eftir leikinn gegn ÍA í undanúrslitum bikarkeppninnar sagði m.a. í Morgunblaðinu um Víkinga: „Þessi frammistaða þeirra er engin tilviljun. Liðið æfir að sögn vel og er skipað ungum og jöfnum leikmönnum og það sem meira er; þeir nenna að berjast og gefa aldrei eftir.“ Víkingur vann ÍA 2:0 og skoruðu Gunnar Gunnarsson og Páll Björgvinsson mörkin. 

Í úrslitaleiknum biðu Blikar úr Kópavogi. Víkingur vann leikinn 1:0 og skoraði Jón Ólafsson markið með þrumuskalla. Í Morgunblaðinu sagði að markið hefði verið „stórkostlega fallegt“ og í Vísi sagði Hallur Símonarson að þetta hefði verið „eitthvert fallegasta skallamark“ sem hann hefði séð. 

Víkingur vann aðra deildina í knattspyrnu með yfirburðum. Liðið vann 12 leiki af 14, gerði eitt jafntefli og tapaði einum leik. Það fékk 25 stig eða átta fleiri en næsta lið og markatalan var hagstæð um 38 mörk. Hafliði Pétursson var markahæsti leikmaður deildarinnar með 20 mörk. Þjálfari Víkings þetta sumar var Eggert Jóhannesson.

Í kjöri um íþróttamann ársins 1971 varð Gunnar Gunnarsson, fyrirliði Víkings, í tíunda sæti og varð hann fyrstur Víkinga til að komast í þann hóp. Guðgeir Leifsson var valinn í landsliðið í fótbolta og var hann fyrstur Víkinga til að leika landsleik síðan Reynir Þórðarson var valinn í landslið árið 1953.

Albert Guðmundsson, formaður KSÍ, afhendir Víkingum bikar fyrir sigur í 2. deild árið 1971.

Úrslitaleikinn í bikarkeppninni gegn Breiðabliki léku Víkingar í varabúningum sínum, hvítum peysum með rauðum og svörtum röndum. Það var meðal annars gert til að leikmenn sæjust betur í flóðljósunum á Melavellinum, en einnig var hjátrú þarna að verki, og lengi vel töpuðu Víkingar ekki leik í þessum búningum. Víkingar höfðu leikið í sínum rauðröndóttu búningum allt frá stofnun félagsins, en á árunum í kringum 1950 var um tíma leikið í rauðum buxum og hvítum peysum. 

Fleiri Víkingar voru valdir í ýmis úrvalslið en áður, og í svokallað Faxaflóaúrval yngri leikmanna, sem gerði garðinn frægan þetta ár, voru valdir Björn Guðmundsson, Gunnar Örn Kristjánsson og Stefán Halldórsson. Auk þeirra voru Adolf Guðmundsson og Ólafur Stefánsson valdir í unglingalandslið. Það bar til tíðinda um sumarið að Gunnar Örn skoraði 15 mörk í einum og sama leiknum á Íslandsmóti þriðja flokks.

Guðgeir Leifsson í leik með landsliðinu í knattspyrnu.

1972

Víkingur lék í Evrópukeppni í knattspyrnu í fyrsta skipti, en liðið vann bikarkeppnina 1971. Víkingur dróst gegn pólska liðinu Legia Varsjá og töpuðust báðir leikirnir. Í Víkingsblaði árið 1981, Víkingar í vígahug, rifjaði Diðrik Ólafsson upp þessa tvo fyrstu Evrópuleiki félagsins: 

 „Við náðum mjög góðum leik gegn Legia í Reykjavík en urðum að sætta okkur við 0–2 tap. Það rigndi hreint rosalega í Varsjá þegar við lékum þar. Völlurinn var eitt drullusvað og ég er þess fullviss, að Baldur Jónsson (vallarstjóri í Reykjavík til fjölda ára) hefði aldrei leyft að leikið yrði við slíkar aðstæður. Ég man að Pólverjarnir voru með helmingi lengri takka en við, enda ekki vanþörf á í drullunni. Þeir áttu því mun betra með að fóta sig og unnu stórt, 9–0, og þrátt fyrir mörkin níu sögðu menn að ég hefði verið bezti maður liðsins!“

Hvorki gekk hins vegar né rak hjá Víkingum í fyrstu deildinni í fótbolta og liðið féll enn eina ferðina niður í aðra deild haustið 1972. Í fimmta flokki varð Víkingur Íslandsmeistari árið 1972. 

Handknattleikur innanhúss var  í fyrsta sinn keppnisgrein á Ólympíuleikanna í Þýslalandi  árið 1972. Íslenska landsliðið tryggði sér keppnisrétt með góðum árangri í forkeppni  á Spáni í  marsmánuði. Meðal leikmanna íslenska liðsins var Víkingurinn Jón Hjaltalín Magnússon, sem síðari átti eftir að verða formaður Handknattleikssambands íslands. 

Sextán lið tóku þátt og var Ísland í B-riðli ásamt Austur Þýskalandi, Tékkóslóvakiu og Túnis. Íslendingar töpuðu fyrir Austur-Þjóðverjum í fyrstu viðureign og misstu unninn leik gegn Tékkóslóvakíu niður í jafntefli. Íslenska liðið hefði þurft að vinna 22 marka sigur á Túnis í lokaleik til að komast áfram úr riðlinum, en það tókst ekki.  Íslenska liðið hafnaði að lokum í tólfta sæti.

Íslandsmeistarar 5. flokks Víkings 1972. Efri röð frá vinstri: Gunnar Már Pétursson, formaður, Hafþór Kristjánsson, þjálfari, Þorsteinn Sigvaldsson, Lárus Guðmundsson, Sigurður Sigurðsson, Björn Bjartmarz, Helgi Sigurjónsson, Birgir Gunnarsson, Ingólfur Stefánsson, Kjartan Tryggvason, Gunnar Gunnarsson, Kristján Pálsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings. Neðri röð: Arnór Guðjohnsen, Magnús Magnússon, Guðmundur Guðmundsson, fyrirliði, Björgvin Sigurbjörnsson, Steinar Kristjánsson, Ársæll Guðmundsson, Heimir Karlsson. Á myndina vantar: Gunnar Örn Kristjánsson, þjálfara og Pál Helga Olgeirsson.
Páll Björgvinsson og Bjarni Gunnarsson í baráttu gegn leikmönnum Legia frá Varsjá í fyrsta Evrópuleik Víkings árið 1972.
Jón Hjaltalín Magnússon í landsleik.

1973

Jón Aðalsteinn Jónasson tók við formennsku í Víkingi af Gunnari Má Péturssyni. Þá höfðu fyrstu umræður farið fram um útivistar- og íþróttasvæði í Fossvogi. Í Víkingsbókinni segir Gunnar Már frá því að hann hafi tekið þátt í fundum með fulltrúum borgarinnar um að Víkingur fengi grasvöll í Fossvogi, sem átti að vera tilbúinn 1976. Það var þó ekki fyrr en 1976 að félagið fékk úthlutað svæði við Traðarland í Fossvogi.

Eitt fyrsta verk stjórnar Jóns Aðalsteins var að taka Víkingsheimilið við Hæðargarð úr leigu til Reykjavíkurborgar, baggi fylgdi því að hafa ekki húsaleigutekjurnar en meira þótti um vert að hafa raunverulegan samastað fyrir starfsemi félagsins. Þrjár nýjar deildir voru stofnaðar innan félagsins í júnímánuði 1973, badminton-, blak- og borðtennisdeildir. Allar náðu þær sér vel á strik á næstu árum, Víkingur eignaðist Íslandsmeistara í greinunum þremur og í mörg ár kom íþróttamaður Víkings úr röðum borðtennismanna. Stefnt er að því að saga deildanna þriggja verði rakin ítarlega í sérstökum köflum á Söguvef Víkings, en hér á eftir verður stiklað á stóru í starfi þessara deilda

Fyrsti formaður badmintondeildar var Hersteinn Magnússon, en eftir fyrsta árið tók Þorsteinn Þórðarson við formennsku og síðan Magnús Jónsson. Unglingastarf deildarinnar varð fljótlega öflugt og nefna má að veturinn 1974–75 æfðu um 130 manns badminton hjá Víkingi. Einkum var æft í Réttarholtsskóla, Breiðagerðisskóla og Laugardalshöll. 

Fyrsti formaður blakdeildar var Árni Árnason. Guðjón Óskarsson tók við af honum 1977 og Páll Ólafsson var kosinn formaður 1980. Blakdeildin var mjög öflug þegar frá upphafi og á stofnfundinum var sérstakur fengur að hópi ungra manna úr Menntaskólanum að Laugarvatni. Þeir höfðu orðið Íslandsmeistarar í blaki undir fána Ungmennafélagsins Hvatar í Biskupstungum og vildu halda hópinn að dvölinni á Laugarvatni lokinni. Þeir gerðust stofnfélagar í blakdeild Víkings og urðu Reykjavíkurmeistarar haustið 1973, en urðu yfirleitt í öðru sæti á Íslandsmótum.

Blakdeildin færði Víkingi íslandsmeistaratitil 1975 og aftur 1976 er kvennalið félagsins bar sigur úr býtum á Íslandsmótinu. Árið 1978 réð Víkingur kínverskan þjálfara, Ni Fenggou að nafni, sem hafði í mörg ár leikið með kínverska blaklandsliðinu og var einn af þremur landsliðsþjálfurum Kína. Víkingi bættist síðan mikill og góður liðsauki 1979 er kvennalið Völsungs gekk nánast í heilu lagi í Víking. 

Árangurinn lét ekki á sér standa og Víkingskonur urðu Íslandsmeistarar 1980 og 1981 auk margra annarra titla. Starf yngri flokka Víkings í blaki var einnig mjög sterkt fram undir 1980, en þá dofnaði yfir því. Á árunum frá 1975 til 1998 urðu Víkingskonur tíu sinnum Íslandsmeistarar í blaki og fimm sinnum bikarmeistarar. Glæsilegur árangur, eins og glöggt má sjá á spjöldunum í „frægðarhöllinni“ á endaveggjunum uppi í rjáfri íþróttahússins.

Æfingar blakdeildar voru víðs vegar um bæinn og gerði það starf deildarinnar alla tíð mjög erfitt. Deildin gekkst fyrir happdrætti, svokölluðum „Lukkudögum“ sem skilaði drjúgum tekjum. Mjög dofnaði yfir starfi blakdeildar um aldamótin og fór svo að starfið lagðist niður. 

Fyrsti formaður borðtennisdeildar var Hörður Jónsson en eftir fyrsta starfsárið tók Gunnar Jónasson við formennsku og gegndi hann starfinu til ársins 1985.  Borðtennisfólkið byrjaði að æfa íþrótt sína í samkomusalnum í félagsheimilinu við Hæðargarð, en flutti þaðan í íþróttahús Fossvogsskóla árið 1978 er unnið var að endurbótum í Hæðargarðinum. Úr Fossvogi flutti deildin alla starfsemi sína í TBR-húsið við Gnoðarvog árið 1990. Aðstaða deildarinnar batnaði til muna er hún flutti í TBR-húsið og varð hún einstaklega sigursæl í kjölfarið, sú sigursælasta á landinu ár eftir ár. 

Árið 1977 átti Víkingur stærsta hóp keppenda á Íslandsmóti í borðtennis, en fram að því hafði Örninn verið með stærsta hópinn. Á Íslandsmótinu 1982 vann Víkingurinn Stefán Konráðsson sigur í einliðaleik og ásamt Hilmari Konráðssyni í tvíliðaleik. Stefán hafði gengið til liðs við Víking frá Gerplu, en Hilmar var uppalinn í borðtennisdeild Víkings. Ári síðar voru þeir Hilmar, Stefán og Kristján Jónasson valdir í landslið í borðtennis. 

Guðmundur Stephensen varð tuttugu sinnum í röð Íslandsmeistari í einliðaleik í borðtennis, síðast árið 2013, en hann var aðeins 11 ára er hann vann mótið í fyrsta skipti. Hann var 9 sinnum valinn íþróttamaður Víkings. Auk þessa vann hann til fjölmargra annarra verðlauna og viðurkenninga heima og erlendis, varð m.a. norskur og hollenskur meistari með félögum sínum. Í fjölda ára bar borðtennisdeild Víkings ægishjálm yfir önnur félög og hafði algjöra yfirburði þegar kom að söfnun verðlauna.

Sérstök kvennadeild var stofnuð innan Víkings haustið 1973 og studdi hún starfsemi félagsins dyggilega um árabil með vinnu, gjöfum og ýmsum framlögum. Um leið var hún vettvangur fyrir konur tengdar félaginu til að hittast og gleðjast saman. Fyrsti formaður deildarinnar var Lára Herbjörnsdóttir.

Haustið 1973 bar Víkingur sigur úr býtum í annarri deildinni í knattspyrnu. Þar með lauk jó-jó-tímabili félagsins þar sem skipst höfðu á skin og skúrir. Víkingur hafði unnið aðra deildina 1969 og 1971, en fallið jafnharðan niður aftur. Nú varð breyting á og félagið náði að styrkja stöðu sína í hópi þeirra bestu. 

Þegar þrjár umferðir voru eftir af mótinu taldi Sigmundur Steinarsson, þá íþróttafréttamaður á Tímanum, að sigur Víkinga í deildinni væri nokkurn veginn í höfn, sem síðan varð raunin. Hann skrifaði m.a: „Liðið hefur örugga forustu í 2. deild, enda er það sterkasta liðið í deildinni. Með liðinu leika margir snjallir leikmenn, sem eru mjög ungir að árum og eiga örugglega eftir að láta að sér kveða í framtíðinni. Víkingur hefur verið að yngja upp hjá sér liðið undanfarin ár og virðist árangurinn vera að koma fram nú og má því búast við, að liðið verði fastmótað næsta ár.“ Hann hrósaði nokkrum leikmönnum sérstaklega og vakti athygli á því að Jóhannes Bárðarson væri á meðal markahæstu manna deildarinnar þetta sumar.

Deildaskipting var tekin upp á Íslandsmótinu í fótbolta sumarið 1955 og það ár féll lið í fyrsta skipti úr deildinni. Víkingur varð í fjórða sæti sex liða það sumar, en rak lestina ári síðar og lék í annarri deild frá 1957 til 1969. Félagið komst í bikarúrslit gegn KR 1967, en tapaði 3:0. Það komst upp í fyrstu deild 1969 og þótti sá árangur marka ákveðin tímamót hjá félaginu, en féll svo niður í aðra deild strax aftur ári síðar. Víkingur sigraði með yfirburðum í 2. deild 1971 og vann bikarkeppnina. 

Víkingur varð í fjórða sæti í karlahandboltanum 1973 og konurnar í því þriðja.

Páll Ólafsson í leik með Víkingum í blaki. Elías Níelsson fylgist með.
Stefán Konráðsson í keppni í borðtennis.
Konur úr kvennadeild gæða sér á kræsingum á einni af uppskeruhátíðum félagsins. Frá vinstri: Lára Herbjörnsdóttir, Margrét Kristinsdóttir, Guðný Friðsteinsdóttir, Guðrún Þorbjarnardóttir, Sigríður Káradóttir og Helga Ólafsdóttir.
2. deildarmeistarar 1973. Efri röð frá vinstri: Pétur Bjarnason, þjálfari, Örn Guðmundsson, Gunnar Örn Kristjánsson, Gunnlaugur Kristfinnsson, Bjarni Gunnarsson Magnús Bárðarson, Gunnar Gunnarsson, fyrirliði, Eiður Björnsson, Jóhannes Tryggvason og Theódór Óskarsson, þjálfari. Neðri röð frá vinstri: Eiríkur Þorsteinsson, Jóhannes Bárðarson, Jón Ólafsson, Diðrik Ólafsson, Ögmundur Kristinsson, Magnús Þorvaldsson, Stefán Halldórsson, Þórhallur Jónasson og Ólafur Þorsteinsson.

1974

Í fótboltanum varð Víkingur í sjöunda til áttunda sæti í fyrstu deild, með níu stig eins og ÍBA, en hagstæðari markatölu. Markatala réð hins vegar ekki röð liða á þessum árum, því var breytt sumarið 1981, og þurfti því að fara fram aukaleikur Víkings og ÍBA um sæti í fyrstu deild. Víkingar unnu þann leik 3:1 og héldu sæti sínu í deildinni. Í bikarnum tapaði Víkingur í undanúrslitum fyrir Val. 

Víkingur varð Reykjavíkurmeistari í knattspyrnu 1974, en það hafði ekki gerst síðan árið 1940. Í mótinu 1974 náðu Víkingar þeim einstæða árangri að leika alla fimm leiki sína eða í 450 mínútur án þess að fá á sig mark, en í marki Víkinga á þessum árum stóð Diðrik Ólafsson, sem þá var einnig landsliðsmarkvörður Íslands. Svo skemmtilega vildi til að Ólafur Þorsteinsson, núverandi formaður fulltrúaráðs Víkings, lék í liðinu 1974 en faðir hans, Þorsteinn Ólafsson tannlæknir, var í sigurliðinu 1940, að því er fram kemur í samantekt Auðólfs Þorsteinssonar í fréttabréfi Víkings í ársbyrjun 2017. Víkingur hefur fimm sinnum orðið Reykjavíkurmeistari, fyrst árið 1940 og síðan 1974, 1976, 1980 og 1982.

Smátt og smátt náðu Víkingar að auka festuna í fótboltaliði félagsins og á árunum 1974–1979 hélt félagið sæti sínu í fyrstu deild. Þjálfarar Víkings þessi ár voru Englendingarnir Anthony Sanders, 1974 og 1975, og Bill Haydock frá 1976 og fram yfir mitt sumar 1978, er hann stakk af frá íslandi. Ágætur grunnur var fyrir hendi er Rússarnir Youri Ilitchev og Youri Sedov komu til starfa hjá Víkingi. Ilitchev hafði verið þjálfari Vals er hann var ráðinn landsliðsþjálfari og féllst KSÍ á að hann aðstoðaði Víkinga í vandræðum þeirra sumarið 1978, eftir brotthvarf Haydocks, og fram á árið 1979. Árið 1979 náðust samningar um að Youri Sedov kæmi til Víkings og átti starf hans eftir að valda straumhvörfum hjá félaginu.

Annar flokkur Víkings í fótbolta varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina skiptið í sögu félagsins fram að því. Meðal leikmanna voru Þorbergur Aðalsteinsson, Róbert Agnarsson, Haraldur Haraldsson, Gunnlaugur Kristfinnsson og Eggert Guðmundsson. 

Karlalið Víkings varð í fjórða sæti í handboltanum og konurnar í sjötta sæti.

Í grein í Morgunblaðinu 3. apríl 1979 er greint frá blaðamannafundi, sem aðalstjórn félagsins efndi til, en Jón Aðalsteinn Jónasson var þá formaður félagsins. Í greininni segir meðal annars: „Á árunum 1970–’72 sóttu Víkingar um að fá úthlutað svæði innst í Fossvogi, en samningar tókust ekki við borgina og ÍR-ingum var úthlutað þetta svæði. Er ÍR fékk vilyrði fyrir íþróttasvæði í Mjóddinni í Breiðholti afsöluðu þeir sér svæðinu í Fossvoginum. Árið 1974 gerðu Víkingar samning við borgaryfirvöld um að félagið fengi forgang að umræddu svæði í Fossvogi, sem borgin hugðist sjálf byggja upp með almenningsnot í huga,“. 

Lið Víkings að loknum sigri á Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu vorið 1974. Aftari röð frá vinstri: Anthony Sanders, þjálfari, Stefán Halldórsson, Adolf Guðmundsson, Magnús Bárðarson, Þorgils Arason, Gunnlaugur Kristfinnsson, Helgi Helgason, Róbert Agnarsson, Lárus Jónsson, Kári Kaaber, Bergþór Jónsson, Sigurður Gunnarsson, Ásgrímur Guðmundsson. Fremri röð: Óskar Tómasson, Ragnar Gíslason, Magnús Þorvaldsson, Diðrik Ólafsson, Eiríkur Þorsteinsson, Jóhannes Bárðarson og Haraldur Haraldsson.
Víkingur sigraði á Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu í fyrsta skipti árið 1940, en síðan liðu 34 ár þar til sigur vannst á því móti aftur árið 1974. Þorsteinn Ólafsson var meðal leikmanna Víkings árið 1940 en Ólafur sonur hans og Jóhannes Bárðarson árið 1974.

1975

Víkingur varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta skipti og þótti liðið vel að sigrinum komið. „Undir stjórn þjálfara síns, Karls G. Benediktssonar, náði liðið að leika skínandi góðan og árangursríkan handknattleik. Allt keppnistímabilið léku þeir Páll Björgvinsson, Viggó Sigurðsson, Stefán Halldórsson og Einar Magnússon einstaklega vel og félagar þeirra stóðu líka sannarlega fyrir sínu,“ segir Steinar J. Lúðvíksson meðal annars um frammistöðu Víkinga í Handknattleiksbókinni, sem fjallar um sögu handboltans á Íslandi 1920–2010

Þar segir enn fremur: „Þegar jólahléið hófst voru þrjú lið, Haukar Fram og FH, með 8 stig og Víkingur með 6 stig og einum leik færra. Í seinni hluta mótsins urðu töluverð þáttaskil. Víkingar komu tvíefldir til keppninnar og unnu hvern leikinn af öðrum og á sama tíma fóru „stóru“ liðin að slá feilpúst. 12. mars mættust Víkingur og Valur og þá var komin upp sú staða að Víkingur gat landað Íslandsmeistaratitlinum með því að sigra. 

Íslandsmeistarar Víkings í handknattleik árið 1975.

Víkingur lék þennan leik einstaklega vel. Páll Björgvinsson tók Ólaf H. Jónsson úr umferð og gerði það svo vel að Ólafur komst hvorki lönd né strönd. Allan leikinn léku Víkingar af skynsemi og þolinmæði, biðu eftir góðum færum og börðust vel í vörninni. Og úrslitin urðu sigur þeirra 13:11 og fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins var í höfn. Var ekki nema eðlilegt að tár sæjust á hvarmi einlægra fylgismanna félagsins, sem lengi höfðu beðið eftir slíkum árangri.“

Á þessum árum var jafnframt haldið Íslandsmót í handbolta utanhúss og sumarið 1975 báru Víkingar í fyrsta skipti sigur úr býtum í útimótinu.

Víkingur varð í fjórða sæti í fyrstu deildinni í fótbolta, en átta lið voru í deildinni.

Um árabil frá 1975 var bridge spilað vikulega í félagsheimilinu við Hæðargarð, en sérstök bridge-deild var þó ekki stofnuð innan félagsins. Stór hópur Víkinga hittist á þessum spilakvöldum og var talsverð gróska í starfinu. Í forystu voru einkum Magnús Theódórsson, Sigfús Örn Árnason, Ásgeir Ármannsson og Guðbjörn Ásgeirsson. Víkingur vann árið 1975 skákkeppni íþróttafélaga sem Taflfélag Reykjavíkur gekkst fyrir. 

1976

Víkingur lék í fyrsta skipti í Evrópukeppni í handbolta og mætti Þýskalandsmeisturum Gummersbach. Þjóðverjarnir voru of stór biti fyrir Víking á þessum árum og unnu þeir báða leikina, 16:10 í Laugardalshöll og 21:12 í Þýskalandi. Frá því að þetta Evrópuferðalag hófst hafa Víkingar leikið vel á fimmta tug Evrópuleikja og árangurinn oft verið frábær. Veturinn 1985 komst Víkingur í undanúrslit og úrslitaleikurinn blasti við eftir sjö marka sigur gegn Barcelona í Laugardalshöllinni. Í einu dagblaðanna mátti m.a. lesa að leikmenn Barcelona hefðu verið teknir í kennslustund í Höllinni. Á Spáni voru leikmenn Barcelona of sterkir og dómararnir mótdrægir Víkingum, sem töpuðu 22:12 og voru því úr leik. 

Víkingur varð í fjórða til fimmta sæti á Íslandsmótinu í handknattleik karla og konurnar í sjötta sæti.

Í fótboltanum varð Víkingur í fjórða sæti af 9 liðum í fyrstu deild og varð Reykjavíkurmeistari í þriðja skipti. 

Vinna hófst fljótlega við nýjan skíðaskála í Sleggjubeinsskarði eftir brunann á páskanótt 1964. Stórum áfanga var náð þegar fyrstu gestirnir dvöldu í skálanum síðla árs 1972. Nýr skáli var formlega vígður 28. febrúar 1976 og við það tækifæri voru þeir Agnar Ludvigsson, Ólafur Friðriksson, Björn Ólafsson og Jóhannes Tryggvason heiðraðir sérstaklega fyrir störf sín við byggingu skálans. Margir komu að vinnu við skálabygginguna og voru leikmenn meistaraflokksins í fótbolta áberandi í þeim hópi, eins og var við byggingu gamla skálans. Á sínum tíma voru uppi hugmyndir um að gera sundlaug við skíðaskálann og velli fyrir fótbolta og handbolta.

Hið sigursæla kvennalið Víkings í blaki. Myndin er tekin að loknum sigri á Íslandsmótinu 1976. Aftari röð frá vinstri: Ágústa Andrésdóttir, Karolína Guðmundsdóttir, Hugrún Ingólfsdóttir, Sunneva Jónsdóttir, Málfríður Pálsdóttir. Fremri röð: Anna Björg Aradóttir, Erna Kristjánsdóttir, Guðný Guðmundsdóttir og Margrét Jónsdóttir. Í sigurliðinu voru einnig Auður Andrésdóttir og Agnes Einarsdóttir.

1977

Víkingur varð í öðru sæti á Íslandsmótinu í handknattleik eftir hörkukeppni við Val. Þegar lokatörnin hófst var Valur með tveggja stiga forystu á Víking, en Haukar og ÍR fylgdu fast á eftir. Þegar Víkingur vann síðan lið Vals 21:20 fór Víkingur á toppinn og góðir möguleikar voru á að ná titlinum. Eftir Valsleikinn sagði Björgvin Björgvinsson, línumaðurinn snjalli, sem þá lék með Víkingi: „Það er eitt sem ég þoli ekki í handknattleik og það er að tapa fyrir Val,“ en Björgvin hafði lagt sitt af mörkum til að tryggja sigurinn og skoraði 12 mörk í leiknum. Margir Víkingar gátu tekið undir þessi orð Björgvins. Tap gegn FH í 12. umferð af 14 fór hins vegar með vonir Víkinga og Valur varð tveimur stigum hærri en Víkingur í mótinu.

Kvennalið Víkings varð í sjöunda sæti í handbolta.

Í fótboltanum varð Víkingur í fimmta sæti í fyrstu deild, en 10 lið léku í deildinni. Þriðji flokkur Víkings varð Íslandsmeistari í fótbolta og meira en það því flokkurinn varð einnig Reykjavíkur- og haustmeistari og tapaði ekki leik allt sumarið undir stjórn Hafsteins Tómassonar. Margir snjallir íþróttamenn voru í þessum hópi, nefna má Lárus Guðmundsson, Heimi Karlsson, Jóhann Þorvarðarson, Jóhannes Sævarsson, Gunnar Gunnarsson, Aðalstein Aðalsteinsson, Arnór Guðjohnsen, Björn Bjartmarz og Óskar Þorsteinsson.  

Haustið 1977 hóf sérstök göngudeild starfsemi innan Víkings. Um 120 manns tóku þátt í stofnfundinum, en þá var gengið á Skeggja, hæsta tind Hengils, ofan gamla skíðaskálans í Sleggjubeinsskarði. Ætlunin var að nýta skálann sem miðstöð en þróunin varð sú að farið var í lengri og styttri gönguferðir víða og starfið var ekki bundið við Hengilssvæðið. Víkingar komu fyrir gestabók í Skeggja og merktu gönguleiðir í Henglinum. Vilhelm Andersen leiddi þetta starf lengst af og segja má að það hafi verið undanfari almenningsíþróttadeildar félagsins.

Meistaraflokkur Víkings í knattspyrnu 1977.
Reykjavíkur-, Íslands- og haustmeistarar Víkings í þriðja flokki 1977. Þetta sumar töpuðu piltarnir ekki leik.

1978

Komið var að Víkingum að vinna bikarkeppnina í handbolta í fyrsta skipti. FH-ingar voru ekki mikil hindrun í úrslitaleiknum og niðurstaðan varð 25:20 fyrir Víking. Liðið sýndi sínar bestu hliðar, og sérstaklega Kristján Sigmundsson sem fór á kostum í markinu. „Auk Kristjáns áttu Viggó Sigurðsson, Árni Indriðason og Björgvin Björgvinsson góðan leik og sérstaka athygli vakti frammistaða ungs pilts, Sigurðar Gunnarssonar, í Víkingsliðinu,“ skrifar Steinar J. Lúðvíksson í Handboltabókinni, sem fjallar um sögu handknattleiks á Íslandi 1920–2010.

Víkingur varð í öðru sæti á Íslandsmótinu í handbolta eftir æsilega baráttu við „mulningsvél“ Vals. Víkingur hafði eins stigs forystu fyrir síðustu umferðina, en tapaði þá með einu marki fyrir Val, 14:13. 

Víkingskonur urðu í áttunda og neðsta sæti í fyrstu deild í handbolta. 

Lið Víkings sem varð bikarmeistari árið 1978.
Reykjavíkurmeistarar 3. flokks kvenna í handknattleik haustið 1978.

Í fótboltanum varð Víkingur í fjórða til fimmta sæti í fyrstu deild. Englendingurinn Bill Haydock hvarf frá starfi sínu hjá Víkingi á miðju sumri og féllst KSÍ á að landsliðsþjálfarinn og Sovétmaðurinn Youri Ilitchev aðstoðaði Víkinga í vandræðum þeirra sumarið 1978, eftir brotthvarf Haydocks, og fram á árið 1979.  

Fjórði flokkur Víkings varð Íslandsmeistari í knattspyrnu. 

Unnið var að miklum breytingum og lagfæringum í Hæðargarði og þurfti borðtennisdeild félagsins að flytja starfsemi sína. Endurbótum á félagsheimilinu lauk veturinn 1978–79 og var það nýtt undir starfsemi félagsins flest kvöld vikunnar. Fyrst var suðurálmu hússins gjörbreytt og þar gerð vönduð búningsherbergi og baðklefar. Síðan voru aðrir hlutar hússins teknir í gegn, en þar voru m.a. gott fundarherbergi, stór salur, sem m.a. var notaður fyrir stærri fundi, og rúmgott anddyri eða hol.

Um sumarið skrifaði Víkingurinn Arnór Guðjohnsen undir samning við Lokeren í Belgíu og gerðist það fyrir 17 ára afmælisdag hans. Þar með taldist hann ekki vera útlendingur í belgíska fótboltanum. Talsverður ágreiningur og eftirmál urðu af þessum félagaskiptum um sumarið og lengi á eftir var talað um Arnórsmálið.

Í frétt í DV skrifaði Hallur Hallsson, þá íþróttafréttamaður og síðar formaður Víkings, eftirfarandi 28. júlí: „Hinn efnilegi Víkingur, Arnór Guðjohnsen skrifaði i gærkvöld undir samning við belgíska 1. deildarfélagið Lokeren, en hann er aðeins 16 ára. Arnór er þvi yngsti atvinnumaður Íslands fyrr og siðar — gífurlegt efni. 

Arnór Guðjohnsen skrifaði undir samning við Lokerén án þess að fyrir lægi samþykki félags hans, Vikings eða KSÍ. Hann þarf samþykki þessara aðila til að samningurinn verði gildur. Arnór Guðjohnsen stefnir á að samningurinn taki gildi fyrir 31. júlí, það er um helgina, þvi þá telst hann ekki til „útlendinga” í Belgíu. Það er getur leikið sem Belgi í 1. deild í Belgíu. Hver framvinda mála verður er erfitt að spá um. Það er ljóst að Arnór Guðjohnsen þarf leyfi KSÍ og hann þarf leyfi Vikings til að samningurinn verði gildur.

Þór Símon Ragnarsson, sem þá sat í stjórn knattspyrnudeildar, rifjar upp málið á eftirfarandi hátt: „Fyrir forgöngu Jóns AðalsteinsJónssonar, formanns aðalastjórnar og Vilhelms Andersen formanns Knattspyrnudeildar kærði Víkingur Lokeren til FIFA fyrir að nálgast og gera samning við leikmann á keppnistímabili án þess að ræða við Víking. FIFA tók kæruna til greina og hótaði að útiloka Lokeren frá alþjóðlegum keppnum semdu þeir ekki við Víking. 

Framkvæmdastjóri Lokeren hr. DeRyker kom til landsins 25. september og gengið var frá samningum. Albert Guðmundsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu og formaður Knattspyrnusambands Íslands 1968-1973,  veitti Víkingi mikilvæga aðstoð í málinu, en hann þekkti vel til knattspyrnunnar í Evrópu sem gamall atvinnumaður. Þetta voru tímamót í samskiptum erlendra félaga gagnvart íslenskum félögum, sem sóttust eftir efnilegum leikmönnum hér á landi. 

Víkingur var gagnrýndur í fjölmiðlum og þar semma var talið að félagið væri að sækjast eftir að fá fé af samningi leikmannsins, sem aldrei var ætlunin. Þá var ef til vill ekki skilningur á því að samningur leikmanna annarsvegar og samningar milli félaga hinsvegar eru algerlega aðskilin mál. Á þingi KSÍ voru síðan samþykktar nýjar reglur um félagaskipi leikmanna til erlendra félaga sem kváðu skýrar um slík tilvik.“

Arnór Guðjónssen í heimsókn hjá knattspyrnuskóla Víkings í Hæðargarði árið 1987. Hann mætti á svæðið ásamt Lárusi Guðmundssyni, öðrum fyrrverandi Víkingi og sýndi ungum Víkingum listir sínar.

1979

Víkingur varð bikarmeistari karla í handbolta annað árið í röð og nú var Bogdan Kowalczyk mættur til leiks sem þjálfari Víkings. Liðið vann Val með einu marki í undanúrslitum, 20:19, og átti ekki í teljandi erfiðleikum með ÍR í úrslitum, 20:13. Eggert Guðmundsson varði mjög vel í leiknum og skoraði að auki eitt mark yfir endilangan völlinn. Markahæstir voru Steinar Birgisson og Páll Björgvinsson. 

Í Íslandsmótinu voru Víkingur og Valur í sérflokki. Svo fór að Valur bar sigur úr býtum, fékk tveimur stigum meira en Víkingur. Liðin mættust í síðustu umferðinni og var um hreinan úrslitaleik að ræða, en Valur vann 21:17. Um leikinn segir í Handboltabókinni: „Lögðu Valsmenn mikla áherslu á að halda besta leikmanni Víkings, Viggó Sigurðssyni, í skefjum, en það gekk þó ekki betur en svo að Viggó var langmarkahæstur Víkinga í leiknum og skoraði 9 mörk.“

Víkingskonur urðu í sjöunda sæti í fyrstu deild kvenna í handbolta.

Víkingur varð í sjöunda sæti í fyrstu deild í fótbolta, en þjálfari Víkings þetta ár var Youri Ilitchev.

Youri Ilitchev, þjálfari Víkings í knattspyrnu karla..

Í grein í Morgunblaðinu 3. apríl 1979 er greint frá blaðamannafundi, sem aðalstjórn félagsins efndi til, en Jón Aðalsteinn Jónasson var þá formaður félagsins. Í greininni segir meðal annars: „Á árunum 1970–’72 sóttu Víkingar um að fá úthlutað svæði innst í Fossvogi, en samningar tókust ekki við borgina og ÍR-ingum var úthlutað þetta svæði. Er ÍR fékk vilyrði fyrir íþróttasvæði í Mjóddinni í Breiðholti afsöluðu þeir sér svæðinu í Fossvoginum. Árið 1974 gerðu Víkingar samning við borgaryfirvöld um að félagið fengi forgang að umræddu svæði í Fossvogi, sem borgin hugðist sjálf byggja upp með almenningsnot í huga. Hugmynd borgaryfirvalda var að svæðið yrði tilbúið til notkunar að einhverju leyti 1978 og ’79. Vegna fjárhagsörðugleika varð að fresta framkvæmdum við svæðið að mestu, en frumvinna hefur þó farið fram á svæðinu. 

Bikarmeistarar Víkings í handknattleik árið 1979.
Íslandsmeistarar Víkings í 2. flokki kvenna í handknattleik vorið 1979.

Víkingar ákváðu því að sækja um þetta svæði fyrir félagið að nýju. 8. nóvember (1979) var umsóknin send til borgaryfirvalda og rúmum mánuði síðar var Víkingum formlega úthlutað þetta svæði. Að mati Víkinga er það mikill fengur að hafa fengið svæði þetta til einkanota fyrir félagð. Það er mjög skjólsælt og gróðursælt, innst í Fossvogsdalnum fyrir vestan Gróðrarstöðina Mörk. Um leið og snjóa leysir er ætlunin að mæla svæðið út og láta síðan gera teikningar. Stefna Víkings er sú að svæðið komist í gagnið á næstu 4–6 árum og m.a. er ætlunin að þar verði heimaleikvangur 1. deildarliðs Víkings í knattspyrnu. 

Það hefur lengi verið draumur Víkinga að byggja eigið íþróttahús. Árið 1977 var sótt um til íþróttaráðs og íþróttanefndar ríkisins leyfi fyrir byggingu slíks mannvirkis, en svör hafa ekki borist. Íþróttahússjóður hefur verið stofnaður innan félagsins, en það segir sig sjálft að gífurlegt átak þarf til að koma slíku húsi upp. Grófir útreikningar telja kostnað vegna byggingar íþróttahúss eins og Víkingar hafa í huga vera 300–350 milljónir króna.“ 

1980

Víkingar urðu Íslandsmeistarar í handknattleik árið 1980, í annað skipti í sögu félagsins. Þjálfari liðsins var Bogdan Kowalczyk og fyrirliði Páll Björgvinsson. Liðið hafði mikla yfirburði og sigraði með fullu húsi stiga. Aldrei áður hafði lið unnið Íslandsmeistaratitil með svo miklum yfirburðum. Í Evrópubikarkeppninni slógu Víkingar út ungverska stórliðið Tatabánya. Þorbergur Aðalsteinsson tryggði Víkingum sigur með marki úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn. Víkingur tapaði á heimavelli 21:20, en vann leikinn í Ungverjalandi 23:22 og fór því áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Mun þetta hafa verið í fyrsta skipti sem íslenskt lið sló út lið frá Austur-Evrópu.

Víkingsliðið árið 1980 var vorið 2015 valið besta handboltalið Íslands. Á þessum árum og fram eftir níunda áratugnum var lið Víkings ævinlega í fremstu röð og náði ekki aðeins árangri innanlands, heldur einnig í Evrópumótunum í handknattleik og komst árið 1984–85 í undanúrslit gegn Barcelona.

Konurnar urðu í fjórða sæti í handboltanum.

Víkingsliðið 1980 var valið besta handknattleikslið Íslands árið 2015.

Í knattspyrnu varð Víkingur í þriðja til fjórða sæti í fyrstu deildinni og tryggði það sæti liðinu rétt til að taka þátt í Evrópukeppni haustið eftir, í annað skipti í sögu félagsins. Víkingur varð Reykjavíkurmeistari 1980 og framfarir liðsins voru greinilegar, sá stóri var handan við hornið!

Eyjólfur Ólafsson var í mörg ár einn fremsti knattspyrnudómari landsins og milliríkjadómari. Hann er sonur Ólafs P. Erlendssonar, sem var um árabil ötull og útsjónarsamur forystumaður í knattspyrnunni í Víkingi. Ólafur fæddist árið 1924, en það ár varð Víkingur Íslandsmeistari í knattspyrnu í annað skipti. Hann lést árið 1981, langt um aldur fram, aðeins 57 ára gamall, skömmu áður en Víkingur varð Íslandsmeistari í þriðja sinn. 

Í samtali við leikskrá Víkings árið 2001 segir Eyjólfur meðal annars: „Ég flutti í Víkingshverfið þegar ég var fimm ára gamall og fór með pabba á flesta leiki og lifði og hrærðist í fótboltanum. Ég fann mig þó ekki á æfingum og var einhvern veginn alltaf til hliðar við þetta starf og æfði sáralítið. Árið 1980 voru dómaramálin í molum í félaginu og tóm leiðindi og vandræði í kringum þessi mál hjá okkur, auk þess sem við þurftum að greiða sektir vegna slælegrar frammistöðu. Pabbi plataði mig á dómaranámskeið og síðan lenti ég í varastjórn knattspyrnudeildar. 

Eyjólfur Ólafsson var um árabil einn fremsti knattspyrnudómari landsins og milliríkjadómari.

Um mitt sumar 1980 tók ég að mér það verkefni að skipuleggja dómaramálin í Víkingi. Þá átti félagið eftir að útvega dómara á 15 leiki. Ég var fullur áhuga og byrjaði strax að hringja í gamla og góða Víkinga til að fá þá til að dæma og koma inn í starfið. Þessir sárafáu menn sem við höfðum á skrá reyndust langþreyttir á kvabbinu og þetta fór þannig að menn höfðu ekki tíma, voru á leið út úr bænum eða fundu sér eitthvað annað til að sleppa við dómgæsluna. Ég var ekkert að flækja málin frekar og dæmdi sjálfur þessa fimmtán leiki. Okkur tókst smátt og smátt að stækka dómarahópinn og fengum góðan stuðningi frá félagi knattspyrnudómara.“

Árið 1980 lét Jón Aðalsteinn Jónasson af formennsku í Víkingi og tók Anton Örn Kærnested við sem formaðu Knattspyrnufélagsins Víkings. Anton Örn skrifaði minningargrein um Jón Aðalstein er hann lést 25. nóvember 2011, 85 ára að aldri. 

Anton segir í upphafsorðum sínum um þennan dugmikla og atorkusama forystumann í félaginu að Jón Aðalsteinn hafi komið eins og hvítur stormsveipur til starfa fyrir Knattspyrnufélagið Víking árið 1973 og haldið styrkri stjórn til ársins 1980. Í greininni segir Anton Örn síðan: 

„Jón hafði þá góðu leiðtogahæfileika að mynda sínar stjórnir með dugmiklum framkvæmdamönnum sem áttu það sameiginlegt að vera forkólfar hver á sínu sviði víðsvegar í atvinnulífinu. Framkvæmdagleðin og stórhugur réðu flestum hans gjörðum og meðfram rekstri á stærstu sportvörubúð landsins, Sportvali, tókst honum ásamt sínum mönnum að koma miklu lífi og fjöri í starfsemi Víkings og m.a. að stofna margar nýjar deildir innan félagsins og að manna þær allar með hæfileikaríku fólki sem axlaði ábyrgð á nýju deildunum.

Þessi frumstarfsemi átti síðar eftir að færa Víkingi marga góða keppnistitla, og ekki sló neinum fölva á framgang handknattleiksdeildarinnar þessi ár, en þarna var lagður grunnur að ótrúlegu skeiði handknattleiksmanna innan Víkings sem stóð með miklum blóma á annan áratug. Knattspyrnudeild félagsins var og í góðri sókn á þessum árum en Víkingur varð Íslandsmeistari árið 1981 og 1982 eftir 57 ára bið frá síðasta Íslandsmeistaratitli. Þessi ofangreind gullaldarár Víkings voru mikið til að þakka fastri og öruggri undirbyggingu sem Jón Aðalsteinn og hans stjórnarmenn byggðu upp. Knattspyrnufélagið Víkingur kveður hér í dag mikilvægan forystumann sinn sem letraði nafn sitt vel og dyggilega í sögu Víkings.“

Loka efnisyfirliti