1981 - 1990

Stórveldið Víkingur

Handboltamenn Víkings héldu sigurgöngu sinni áfram og unnu einhvern titil ár eftir ár. Knattspyrnumenn Víkings létu heldur betur til sín taka og urðu Íslandsmeistarar bæði 1981 og 1982. Þjálfararnir Bogdan Kowalczyk og Youri Sedov urðu þjóðsagnapersónur í félaginu. Blakstúlkur héldu áfram að vinna til titla og borðtennisfólk Víkings var í fremstu röð. Farið var að leika á grasvellinum í Fossvogi og framkvæmdir hófust við byggingu félagsheimilis í febrúar 1988. Borgin keypti félagsheimili Víkings og aðstöðu félagsins við Hæðargarð. 

Íslandsmeistarar Víkings í handknattleik vorið 1982. Aftari röð frá vinstri: Bogdan Kowalczyk, þjálfari, Heimir Karlsson, Steinar Birgisson, Árni Indriðason, Þorbergur Aðalsteinsson, Óskar Þorsteinsson, Ólafur Jónsson, Sigurður Gunnarsson, Jakob Sigurðsson, Guðjón Guðmundsson, liðsstjóri. Fremri röð: Einar Magnússon, Páll Björgvinsson, Eggert Guðmundsson, Kristján Sigmundsson, Ellert Vigfússon, Guðmundur Guðmundsson, Hilmar Sigurgíslason og Hörður Harðarson.

1981

Víkingur varð Íslandsmeistari í knattspyrnu í fyrsta skipti í 57 ár, eða allt frá árinu 1924. Þjálfari liðsins var Sovétmaðurinn Youri Sedov, Þór Símon Ragnarsson var formaður knattspyrnudeildar og fyrirliði liðsins var Diðrik Ólafsson. Í bókinni Áfram Víkingur, 1983, segir Diðrik meðal annars: „Það er erfitt að lýsa þeirri tilfinningu sem hríslaðist um líkamann þegar við vorum orðnir Íslandsmeistarar. Óneitanlega leið mér mjög vel og það var stórkostlegt að upplifa þetta. Þessi stund minnti mig talsvert á haustið er við fórum í fyrsta skipti upp í 1. deild (1969). Þá náðist einnig gífurlegur áfangi og um það leyti var grunnurinn lagður að þeim árangri, sem Víkingur hefur náð síðustu árin“.

Í riti Sigmundar Steinarssonar um 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu segir hann að fyrir mótið hafi Víkingar og Blikar þótt til alls líklegir með unga leikmannahópa. Víkingur var með sama leikmannahópinn og hafði sýnt tennurnar árið áður undir stjórn Rússans Youris Sedov. Liðsheildin var aðalvopn Víkinga. Diðrik markvörður þótti leika mjög vel þetta sumar, sem og Lárus Guðmundsson, sem varð markakóngur með 12 mörk ásamt Sigurlási Þorleifssyni. Eins og áður sagði var það þó liðsheildin sem tryggði sigurinn í mótinu og t.d. skoruðu varnarmennirnir Magnús Þorvaldsson, Ragnar Gíslason og Þórður Marelsson dýrmæt sigurmörk í þremur leikjum.

Í næstsíðustu umferðinni léku Víkingar einum færri frá 25. mínútu í Vestmannaeyjum, en þá var staðan 1:0 fyrir ÍBV. Víkingum óx ásmegin við mótlætið, þeir Ómar Torfason og Lárus Guðmundsson skoruðu tvö mörk og tryggðu þar með liðinu sigur. Herkænska Youris Sedov þótti sanna sig vel í þessum leik. 23 stig voru í húsi Víkinga sem nægði jafntefli gegn KR í síðustu umferðinni, þar sem Fram hafði lokið sínum síðasta leik með 23 stig, en betri markatölu en Víkingur. Eftir nokkra taugaveiklun framan af leiknum gegn KR skoruðu þeir Sverrir Herbertsson og Lárus Guðmundsson. Titillinn var í höfn eftir 57 ára bið.

„Þetta er hreint út sagt stórkostleg tilfinning, óviðjafnanlegt,“ sagði Lárus Guðmundsson í viðtali eftir leikinn. Miðvörðurinn Jóhannes Bárðarson sagði í blaðaviðtali að síðasta leiknum loknum: „Þetta er stórkostleg stund, sem við höfum beðið lengi eftir.“ Víkingar fengu mesta aðsókn allra liða þetta sumar og var greinilegt að Víkingshjörtun slá víða.

Víkingur lék í Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu haustið 1981 gegn Bordeaux og tapaði bæði heimaleiknum og leiknum í Frakklandi 4:0. Í liðinu voru þrír leikmenn sem tekið höfðu þátt í Evrópuleikjunum gegn Legia frá Varsjá 1972, Diðrik Ólafsson, Magnús Þorvaldsson og Jóhannes Bárðarson.  

Víkingur varð Íslandsmeistari í handknattleik karla vorið 1981 og vann mótið með miklum yfirburðum. Í Handboltabókinni segir: „Árangur Víkinga var engin tilviljun. Liðið var einfaldlega langbest íslenskra handknattleiksliða og lék stórgóðan handknattleik. Höfðu orðið mikil umskipti hjá því eftir að hinn pólski þjálfari þeirra, Bogdan, tók við því haustið 1978 og sigurgangan nær óslitin. Þannig náði Víkingur t.d. 91,7% árangri í leikjum sínum við íslensk lið á mótum keppnistímabilsins 1980–1981. Liðið lék mjög agaðan og árangursríkan sóknarleik og varnarleikur þess hafði batnað svo mjög að farið var að tala um vörn þess sem „járntjaldið“ Valinn maður var í hverju rúmi: Páll Björgvinsson, Þorbergur Aðalsteinsson, Ólafur Jónsson, Steinar Birgisson, Stefán Halldórsson og hinn bráðefnilegi Guðmundur Guðmundsson – að ógleymdum Kristjáni Sigmundssyni markverði.“

Einnig varð Víkingur Íslandsmeistari í blaki kvenna 1981, þannig að einstakt góðæri ríkti hjá félaginu um þessar mundir. Á aðalfundi 1981 var gróskumiklu starfi og einhug í félaginu sérstaklega fagnað. 

Víkingur sendi í fyrsta skipti kvennalið til keppni í knattspyrnu og stóð liðið sig bærilega á Íslandsmótunum 1981–83, en 1984 féllu Víkingsstúlkur hins vegar niður í aðra deild. Fyrst var keppt á Íslandsmóti kvenna í knattspyrnu árið 1972. Víkingurinn Brynja Guðjónsdóttir var í fyrsta kvennalandsliði Íslands gegn Skotum í Kilmarnock 20. september 1981, en Skotar unnu leikinn 3:2. Brynja er eina konan sem hefur verið valin í landsliðið úr Víkingi, en hún lék alls átta landsleiki. 

Aðalstjórn skipaði sérstaka Fossvogsnefnd hinn 19. maí 1981 vegna uppbyggingar í Fossvogi og var formaður hennar Jón Aðalsteinn Jónasson, fyrrverandi formaður Víkings. Nefndin setti fram hugmyndir um keppnisvöll í knattspyrnu, æfingavelli, malbikaðan handboltavöll, þrjá tennisvelli og byggingu íþróttahúss. Framkvæmdir hófust undir lok árs, en byrjað var á því að ræsa svæðið fram og girða það af. Framkvæmdir í Fossvogi og samskipti við Reykjavíkurborg voru til umræðu á fjölmörgum stjórnarfundum, en jafnframt var unnið að endurbótum á félagsheimilinu og svæðinu við Hæðargarð. 

Íslandsmeistarar Víkings í knattspyrnu 1981.
Árið 1981 urðu þeir Heimir Karlsson og Gunnar Gunnarsson Íslandsmeistarar með Víkingi bæði í handknattleik og knattspyrnu.
Heimir Karlsson varð árið 1982 markakóngur Íslandsmótsins í knattspyrnu ásamt Sigurlási Þorleifssyni úr ÍBV. Þeir skoruðu 10 mörk hvor. Sigurlás lék eitt sumar með Víkingum og varð þá einnig markahæstur á Íslandsmótinu.

1982

Stórveldi í íslenskum íþróttaheimi. Víkingar urðu Íslands- og Reykjavíkurmeistarar í knattspyrnu og Íslands- og Reykjavíkurmeistarar í handknattleik, en handboltaliðið vann þetta ár Reykjavíkurmeistaratitilinn þriðja árið í röð.

Í knattspyrnunni voru Víkingar í forystu lengst af mótinu og þegar tvær umferðir voru eftir var Víkingur með tveggja stiga forskot á ÍBV og KR og þrjú stig á Skagamenn. Víkingur vann 2:0 sigur gegn KA þar sem Sverrir Herbertsson og Jóhann Þorvarðarson skoruðu fyrir Víking. Vestmannaeyingar unnu 2:1 á Akranesi og KR gerði jafntefli við Keflavík þannig að staðan var sú fyrir síðustu umferðina að Víkingur var á toppnum með 22 stig, en Eyjamenn voru með 20 stig. Hafa ber í huga að tvö stig voru gefin fyrir sigur, en ekki þrjú eins og gert var frá árinu 1984. 

Í síðustu umferðinni unnu Eyjamenn leik sinn á móti Fram á laugardegi og vissu Víkingar því hvað þeir þyrftu að gera þegar leikur þeirra gegn Skagamönnum hófst sólarhring síðar, á sunnudegi. Jafntefli nægði Víkingum og 0:0 jafntefli varð niðurstaðan þar sem Víkingar fengu betri færi. Liðið varð því meistari tvö ár í röð, besta knattspyrnulið á Íslandi.

Ómar Torfason var fyrirliði Víkings þetta sumar og sagði hann að síðasta leiknum loknum: „Ég er mjög ánægður með leikinn. Við fengum mörg færi til að skora, þrjú til fjögur dauðafæri, en jafntefli nægði. Það var mikil pressa á Víkingsliðinu – það er miklu meiri pressa að sigra tvö ár í röð. Já, miklu erfiðara. En okkur tókst það undir stjórn frábærs þjálfara.“ 

„Þetta var miklu sætari sigur en í fyrra. Það kom í ljós að við erum bestir. Sigur okkar á mótinu má þakka sterkri liðsheild, við erum ellefu leikmenn sem vinnum saman með hreint frábærum þjálfara,“ sagði markakóngurinn Heimir Karlsson. Hann skoraði 10 mörk í deildinni eins og Eyjamaðurinn Sigurlás Þorleifsson og urðu þeir markahæstir.

Víkingur keppti á móti Real Sociedad í Evrópukeppni meistaraliða. Spánverjarnir unnu báða leikina, 1:0 í Reykjavík og 3:2 á Spáni. Þeir Jóhann Þorvarðarson og Sverrir Herbertsson skoruðu mörk Víkings. Mark Jóhanns kom eftir um eina mínútu og var það fyrsta mark Víkings í Evrópukeppni. Góð frammistaða Víkings í leiknum á Spáni vakti athygli.  

Víkingur vann Vestmannaeyinga 2:0 í meistarakeppni Knattspyrnusambandsins og varð Reykjavíkurmeistari í fótbolta. Víkingur hefur fimm sinnum orðið Reykjavíkurmeistari, fyrst árið 1940 og síðan 1974, 1976, 1980 og 1982. Í Reykjavíkurmótinu 1982 þurftu Víkingar nauðsynlega á þremur stigum að halda í lokaleiknum, sem var gegn Fylki. Á þessum árum var tveggja stiga reglan enn í gildi en í Reykjavíkurmótinu var aukastig gefið þegar lið skoraði þrjú mörk. Það tókst, Víkingur vann 3–0 og hlaut einu stigi meira en Fram á mótinu, að því er fram kom í samantekt Auðólfs Þorsteinssonar um sigra Víkings í Reykjavíkurmótunum í fréttabréfi Víkings í ársbyrjun 2017.

Í handboltanum var fyrir mótið búist við sigri Víkings, en hann varð ekki eins auðveldur og margir reiknuðu með. FH-ingar áttu góðu gengi að fagna, en Víkingur og FH mættust í síðasta leik mótsins. Víkingur var með 22 stig, FH 21. Liðin mættust í síðustu umferðinni í Hafnarfirði og var gífurlegur áhugi á leiknum. „Drepið var í hverja smugu í íþróttahúsinu við Strandgötu og stóð fólk eins nærri hliðarlínunni og mögulegt var,“ segir í Handboltabókinni. Víkingar unnu leikinn 16:15 og titilinn þriðja árið í röð. 

Árið 1982 var Páll Björgvinsson valinn íþróttamaður Reykjavíkur og tók við viðurkenningunni úr hendi Davíðs Oddssonar, þáverandi borgarstjóra. Íslandsmeistarar Víkings í handbolta og fótbolta voru sérstaklega heiðraðir af Reykjavíkurborg í hófi í Höfða.

Kvennadeild Víkings studdi á þessum árum á margvíslegan hátt við starfsemi félagsins og á aðalfundi í maí 1982 gaf deildin sérstaklega hannaðan og sérsmíðaðan skáp til að varðveita verðlaunagripi félagsins. Halldóra Ólafsdóttir, formaður kvennadeildar, hafði á orði að vonandi fylltist skápurinn sem fyrst. Þeir Þór Símon Ragnarsson, formaður knattspyrnudeildar, og Jón Kr. Valdimarsson, formaður handknattleiksdeildar, fögnuðu gjöfinni og afhentu Íslandsbikara í báðum greinum til varðveislu í skápnum. Benti formaður Víkings, Anton Örn Kærnested, á að hér væru miklir hlutir að gerast, bikarar í tveimur stærstu greinum komnir í skápinn í einu og vonandi yrðu þeir þar sem lengst. 

Á aðalfundi í maí 1982 var Sveinn Grétar Jónsson, sonur Jóns Aðalsteins Jónassonar, fyrrverandi formanns, kosinn formaður Víkings, en Anton Örn gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Sigurður Bjarnarson, varaformaður, starfai náið með Sveini Grétari.

Sigurður Gunnarsson skorar gegn FH í síðasta leik Íslandsmótsins í handknattleik árið 1982. Um hreinan úrslitaleik var að ræða og var leikurinn í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Víkingar sigruðu leikinn 16:15.
Páll Björgvinsson hampar Íslandsbikarnum 1982.
Íslandsmeistarar Víkings í 2. flokki kvenna 1982.
Íslandsmeistarar Víkings í knattspyrnu karla.

1983

Íslands- og bikarmeistarar í handknattleik karla 1983. Í deildarkeppninni varð Víkingur í þriðja sæti, en gerði það sem þurfti að gera í úrslitakeppni fjögurra liða þar sem leikin var fjórföld umferð. „Íslandsmeistaratitillinn varð því Víkinga og þótt yfirburðir þeirra væru engan veginn hinir sömu og árin næstu á undan þóttu þeir vel að sigrinum komnir og ljóst að liðið „toppaði“ á réttum tíma. Eins og áður var Víkingsliðið afskaplega vel mannað, en atkvæðamestir í úrslitakeppninni voru þeir Þorbergur Aðalsteinsson, Sigurður Gunnarsson, Viggó Sigurðsson og ekki síst markvörðurinn Ellert Vigfússon,“ segir í Handboltabókinni.

Víkingur og KR mættust í bikarúrslitunum og tóku Víkingar strax öll völd í leiknum. Fór allt saman hjá þeim, góð markvarsla, þétt og örugg vörn og fjölbreyttur og ógnandi sóknarleikur. Sögðu menn að Víkingar hefðu í leiknum sýnt allt það besta sem Bogdan hefði kennt þeim og þegar þeir væru í slíkum ham réði ekkert íslenskt lið við þá.  Úrslitin urðu 28:18 og markahæstir voru Þorbergur með 9 mörk og Sigurður Gunnarsson með 6 mörk. Bogdan lét af störfum hjá Víkingi um vorið og tók við landsliðinu.

Youri Sedov, sem gert hafði Víkinga að tvöföldum meisturum í knattspyrnu 1981 og 1982, var farinn heim til Sovétríkjanna. Víkingar sömdu í staðinn við annan Sovétmann, Logofet að nafni, en er kom fram í febrúar varð ljóst að Logofet kæmi ekki til starfa hjá Víkingi. Í staðinn var Belgíumaðurinn Jean-Paul Colonval ráðinn til Víkings, en hann kom ekki til landsins fyrr en tveimur vikum fyrir mót. Hann hafði því lítinn tíma til að undirbúa liðið og byrjun liðsins á Íslandsmótinu var erfið. Svo fór að Víkingur endaði í sjöunda sæti Íslandsmótsins.

Víkingur keppti á móti Raba ETO frá Ungverjalandi í Evrópukeppni meistaraliða í knattspyrnu og töpuðust báðir leikirnir, 2:1 ytra og 2:0 á Laugardalsvelli. Mark Víkings skoraði Jóhann Þorvarðarson er hann jafnaði 1:1 í útileiknum með stórkostlegu marki. Liðið þótti standa sig vel gegn ungversku meisturunum og þá  sérstaklega í útileiknum.

Víkingur vann Akranes 2:0 í meistarakeppni KSÍ. 

Vegleg afmælishátíð var haldin í tilefni af 75 ára afmæli félagsins 21. apríl. Víkingar notuðu tækifærið til að koma saman og einnig til að minna á öflugt starf félagsins, en í fyrsta skipti fagnaði Víkingur slíkum tímamótum sem íþróttafélag í fremstu röð á Íslandi.Víkingar komu saman í Bústaðakirkju, Tónabæ og Lækjarhvammi á Hótel Sögu. Bókin Áfram Víkingur kom út, skrifuð af Ágústi Inga Jónssyni, en þar er stiklað á stóru í sögu félagsins fyrstu 75 ár þess. 

Knattspyrnudeild Víkings minntist tímamótanna með því að fá Stuttgart í Þýskalandi með Ásgeir Sigurvinsson innanborðs í heimsókn. Stuttgart lék tvo leiki, vann Víking 3:0, en tapaði 2:0 fyrir stjörnuliði Víkings. Stjörnuliðið var skipað mörgum  íslenskum landsliðsmönnum, en einnig þekktum erlendum knattspyrnumönnum, meðal leikmanna má nefna: Piet Sehrivers, Ajax, Jóhannes Eðvaldsson, Motherwell, Sævar Jónsson, CS Brugge, Aríe Haan, Eindhoven,  Magnús Bergs, Tongeren, Ragnar Margeirsson, CS Brugge, Lárus Guðmundsson, Waterschei, og Johan Boskamp, Lierse.

Víkingsliðið sigraði bæði Íslands- og bikarmeistaratitilinn í handknattleik árið 1983.
Bókin Áfram Víkingur kom út á afmælisárinu 1983. Flestar myndir úr þeirri bók eru hér á söguvef Víkings.
Skrúðganga á 75 afmælisdeginum árið 1983. Gengið var frá félagsheimilinu við Hæðargarð að nýju svæði félagsins í Fossvogi.

1984

Víkingur varð þriðja árið í röð bikarmeistari í handknattleik. Í undanúrslitum vann Víkingur lið Þróttar eftir framlengingu en Páll Björgvinsson var þá þjálfari Þróttar og lék með liðinu. Í úrslitum lék Víkingur gegn Stjörnunni og vann 24:21 eftir hörkuleik. Kristján Sigmundsson átti stórleik í marki Víkinga, en Sigurður Gunnarsson  og Steinar Birgisson voru markahæstir með sex mörk hvor. Í stað Bogdans réðu Víkingar tékkneska þjálfarann Rudolf Havlik til starfa hjá félaginu, en hann var látinn taka pokann sinn í október. Karl Benediktsson, sem hafði gert liðið að Íslandsmeisturum 1985, tók við liðinu ásamt fleirum og varð Víkingur bikarmeistari um vorið.

Víkingur varð í öðru sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins, en FH bar höfuð og herðar yfir önnur lið í Íslandsmótunum 1984 og 1985. 

Víkingurinn Sigurður Gunnarsson tók þátt í Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og einnig á OL í Seoul 1988. Sigurður varð sjötti markahæsti leikmaðurinn í Los Angeles og var valinn í Heimsliðið árið 1985. Hann tók þátt í HM í Sviss 1986 og í Tékkóslóvakíu 1990.

Í fótboltanum varð Víkingur í fimmta sæti í fyrstu deild undir stjórn Björns Árnasonar og sigldi um miðja deild allt sumarið. Sex leikir unnust, sex töpuðust og sex sinnum gerði Víkingur jafntefli. Þetta gerði 24 stig því um sumarið var þriggja stiga reglan tekin upp.

Á aðalfundi 12. júlí 1984 var Jósteinn Kristjánsson kosinn formaður Víkings í stað Sveins Grétars Jónssonar. 

Víkingar urðu bikarmeistarar í handknattleik árið 1984 og var það þriðja árið í röð.

1985

Í undanúrslitum bikarkeppninnar burstaði Víkingur Val, 26:18, og í úrslitaleiknum vann Víkingur sigur á FH-ingum, 25:21. Í báðum þessum leikjum áttu þeir Kristján Sigmundsson og Þorbergur Aðalsteinsson stórleik fyrir Víking. Víkingur varð í þriðja sæti í deildarkeppninni og einnig í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

Hvorki gekk né rak hjá Víkingi á fótboltavellinum og hætti Björn þjálfari Árnason að loknum átta umferðum. Hafsteinn Tómasson tók við af honum. Allt kom þó fyrir ekki, Víkingur endaði í neðsta sæti deildarinnar og féll þar með í aðra deild. 

Fyrst var keppt á Íslandsmóti kvenna í knattspyrnu árið 1972, en Víkingur hóf þátttöku árið 1981. Víkingsstúlkur urðu efstar í A-riðli annarrar deildarinnar í knattspyrnu árið 1985. Árangurinn var glæsilegur það sumar, af átta leikjum unnust sjö, en einn tapaðist. Markatalan var 23:2 og sæti í fyrstu deildinni tryggt.  

Veturinn 1984–85 fóru Víkingar alla leið í undanúrslit í Evrópukeppni bikarhafa. Víkingar lögðu Fjellhammer í fyrstu umferðinni, en báðir leikirnir fóru fram í Noregi að skipun Alþjóða handknattleikssambandsins. Um þessar mundir stóð yfir verkfall opinberra starfsmanna á Íslandi og var þess vegna ekki hægt að leika í Laugardalshöllinni. Í næstu umferð unnu Víkingar Coronas frá Tenerife, 56:42, í tveimur leikjum sem báðir fóru fram ytra. Víkingurinn Sigurður Gunnarsson var þá nýlega genginn til liðs við spænska liðið, en var ekki gjaldgengur með því gegn sínum fyrrverandi samherjum. Júgóslavnesku bikarmeistararnir Crvenka voru næsta fórnarlamb hins sterka Víkingsliðs en liðin mættust í átta liða úrslitum. Í tveimur leikjum sem fram fóru í Laugardalshöll 25. og 27. janúar 1985 unnu Víkingar í tvígang, 25:20 og 25:24.

Í undanúrslitum mætti Víkingur enn Barcelona. Í troðfullri Laugardalshöll og rífandi stemningu hinn 24. mars 1985 sýndu Víkingar allar sína bestu hliðar gegn stórliði Barcelona og unnu með sjö marka mun, 20:13, eftir að hafa náð mest tíu marka forskoti. Nokkurrar bjartsýni gætti eftir leikinn og fóru menn jafnvel að leggja drög að úrslitaleik. Í seinni leiknum í Barcelona 31. mars fór allt á versta veg fyrir Víkinga. Dómarar leiksins léku þar stórt hlutverk. Þeir voru afar hliðhollir heimaliðinu og m.a. var Steinar Birgisson rotaður án þess að það hefði afleiðingar fyrir leikmenn Barcelona. Barcelona vann með tíu marka mun, 22:12, og lék til úrslita en Víkingar sátu eftir með sárt ennið.

Tilgangur Víkingsblaðs sem kom út árið 1985 var meðal annars að kynna starf félagsins og áform þess. Í inngangsorðum segir Jósteinn Kristjánsson meðal annars að Víkingar standi á tímamótum. Byrjað sé að girða svæðið í Fossvogi og vonast sé til að taka megi fyrsta áfangann í notkun á næsta ári, en félagið standi með tvær hendur tómar. „Síðan mun auðna ráða um framhaldið. Þess vegna er nú brýnt að sem flestir gangi til liðs við félagið, og sem fyrst, svo við getum búið íþróttafólki og æskunni verðuga aðstöðu á sem skemmstum tíma.“ 

Í Morgunblaðinu 29. júni er að finna frétt um stofnun bílaleigu á vegum Víkings. Í fréttinni segir svo: 

„Í Lögbirtingablaðinu þann 27. júní er greint frá því að stofnuð hafi verið hér í bæ Bílaleigan Víkingur hf. með aösetur við Hæðargarö, en það er félagsheimili Knattspymufólagsins Víkings. Til að forvitnast nánar um þetta nýja fyrirtæki ræddum við við Jósteín Kristjánsson formann félagsins. 

„Jú, það er rétt, það eru Víkingar sem standa að þessari bílaleigu og þetta er einn liöur í því aö reyna að afla einhvers staðar tekna fyrir félagið. Við erum þegar byrjaðir á rekstrinum og eigum nú þegar fjóra bíla. Þetta lofar góðu það sem af er, það eru að vísu byrjunarerfiðleikar eins og skortur á mannskap en það eru bara byrjunarörðugleikar,” sagði Jósteinn. 

Hann sagði að Vikingar hefðu staðið í miklum framkvæmdum við félagsheimili sitt við Hæðargarða að undanförnu og einnig á hinu nýja svæði félagsins í Fossvogi. „Það er búið að taka allt heimilið í gegn og auk þess hafa farið um þrjár milljónir í nýja svæðið. Við höfum líka unnið mikið í gamla svæðinu okkar en nú nýverið kom það uppá að einn völlurinn hallar of mikið og er því ólöglegur aö mati eins dómarans hér sem neitaði að láta leika á honum um daginn. Það hefur verið leikið á þessum velli frá því ég var smá pottormur en núna allt i einu er hann ekki nógu góður.”

Bílaleigan mun hafa verið rekin á vegum Víkings í um tvö ár, en varð ekki sú tekjulind fyrir félagið sem vonast hafði verið til.

1986

Tvöfalt í handboltanum! Handboltalið karla varð Íslandsmeistari og einnig bikarmeistari fjórða árið í röð, með öðrum orðum hafði Víkingur ekki tapað leik í bikarkeppninni í heil fjögur ár. Þjálfari liðsins þennan vetur var Árni Indriðason. Horfið var frá úrslitakeppni 1986 og eingöngu leikin tvöföld umferð átta liða. Guðmundur Þórður Guðmundsson var valinn  Íþróttamaður Reykjavíkur 1986 og Handknattleiksmaður ársins 1986.

Um Víkingsliðið segir í Handboltabókinni: „Sigur Víkings í mótinu þótti næsta öruggur – liðið þótti einfaldlega leika besta handknattleikinn og var vel skipað. Burðarásar þess voru hinn gamalreyndi Páll Björgvinsson og landsliðsmennirnir Guðmundur Guðmundsson, Steinar Birgisson og Kristján Sigmundsson. Yngri mennirnir í liðinu stóðu líka vel fyrir sínu, sérstaklega þeir Siggeir Magnússon og Karl Þráinsson, sem báðir þóttu fjölhæfir og bráðefnilegir leikmenn.“

Fjórði sigurinn í röð í bikarkeppninni vannst vorið 1986. Eftir hörkuleik við Stjörnuna í úrslitaleiknum varð niðurstaðan 19:17 Víkingi í vil. Í Handboltabókinni fær Finnur Thorlacius, varamarkvörður Víkings, sérstakt hrós fyrir frammistöðu sína, en það kom í ljós skömmu fyrir úrslitaleikinn að Kristján Sigmundsson gæti ekki staðið í markinu. Páll Björgvinsson var markahæstur Víkinga með sex mörk. 

Víkingur varð í þriðja sæti í annarri deild karla í fótboltanum, á eftir KA og Völsungi.

Víkingskonur tryggðu sér sæti í fyrstu deild 1985, en stjórn knattspyrnudeildar ákvað að senda ekki lið til keppni í efstu deild og var erfið fjárhagsstaða sögð ástæðan. Víkingskonum gramdist þetta mjög, eins og nánar er fjallað um í sérstakri grein um kvennaknattspyrnu á söguvefnum. Flokkurinn leystist upp og fóru flestar stúlknanna í KR. Margar þeirra léku landsleiki á komandi árum og náðu góðum árangri með liðum sínum. 

Á aðalfundi 26. nóvember 1986 kom fram talsverð gagnrýni á aðalstjórn fyrir starfshætti og fátæklega ársskýrslu. Í lok fundar tilkynnti Jósteinn Kristjánsson að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs og var aðalfundi frestað.  

Íslands- og bikarmeistarar Víkings í handknattleik karla.
6. flokkur karla varð Pollamótsmeistari árið 1986. Strákarnir ásamt Einari Einarssyni, þjálfara sínum.

1987

Víkingur varð Íslandsmeistari í handknattleik karla 1987. Guðmundur Þ. Guðmundsson var valinn besti sóknarmaður 1. deildar karla 1986-1987. Um lok mótsins segir í handboltabókinni: 

„Víkingur gaf ekkert eftir og voru Víkingar raunar svo gott sem búnir að vinna mótið þegar þrjár umferðir voru eftir. Landsliðsmennirnir fjórir í Víkingsliðinu; Kristján Sigmundsson, Guðmundur Guðmundsson, Karl Þráinsson og Hilmar Sigurgíslason, áttu allir mjög gott tímabil, einkum þó Kristján sem oft á tíðum nánast vann leikina fyrir Víking. Í Víkingsliðinu voru einnig bráðefnilegir ungir menn, Bjarki Sigurðsson og Árni Friðleifsson, sem létu verulega að sér kveða. Þegar Íslandsmeistaratitillinn var í höfn sagði fyrirliði liðsins, Guðmundur Guðmundsson, að sigurinn hefði komið Víkingum sjálfum á óvart og mesta ánægjuefnið væri hversu vel yngri leikmenn liðsins hefðu staðið sig í mótinu.“

Rússinn Youri Sedov kom aftur til starfa hjá Víkingi 1987 og var með liðið til 1989. Víkingar báru sigur úr býtum í annarri deildinni í knattspyrnu 1987 og færðust upp í fyrstu deild ásamt Leiftri frá Ólafsfirði. Vorið 1987 komu nokkrir Víkingar saman til að leita leiða til að fjármagna nýráðinn þjálfara meistaraflokks Víkings í knattspyrnu og var Youri-sjóðurinn, síðar Þjálfarasjóður Víkings, settur á laggirnar árið 1987. 

Sjóðurinn stóð straum af kostnaði vegna starfa Youris, sem hafði gert Víking að meisturum 1981 og 1982. Jóhannes Tryggvason, Dengsi, var upphafsmaður að stofnun sjóðsins og helsti drifkrafturinn í starfi hans, en Jóhannes starfaði í nokkur ár sem framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar frá því í febrúar 1982. Dengsi hafði mikil samskipti við Sedov og sovéska sendiráðið meðan á dvöl hans hér á landi stóð í síðara skiptið.  Jóhannes var alla tíð ötull Víkingur og starfaði innan knattspyrnu-, skíða- og handknattleiksdeilda félagsins. Hann var gerður að heiðursfélaga 2015, en hann lést í mars 2017. Ýmsir komu að starfi fyrir Youri-sjóðinn og má þar nefna Jóhannes Guðmundsson og Ásgrím Guðmundsson. 

Fjár var aflað á þann hátt að leitað var til gamalla íbúa í Víkingshverfinu og þeir beðnir um mánaðarleg fjárframlög. Nöfnin voru fundin í gömlum bekkjarskrám Réttarholtsskóla. Margir í hverfinu höfðu sterkar taugar til félagsins og voru tilbúnir að inna af hendi mánaðarlegar greiðslur. Sjóðurinn fékk síðar heitið Þjálfarasjóður Víkings og kom að mörgum verkefnum með fjárframlögum. Hann færðist um 1990 undir aðalstjórn og var meðal annars notaður til að rétta af fjárhag knattspyrnu- og handknattleiksdeilda á tíunda áratugnum. Eftir því sem árin liðu dró úr tekjum Youri-sjóðsins, en átak var þó gert í fjáröflun fyrir sjóðinn árið 1997. Árið 2017 skilaði hann enn nokkrum tugum þúsunda inn í starf félagsins árlega.

Íslandsmeistarar í blaki kvenna. 

Framhaldsaðalfundur var haldinn 26. mars 1987 að beiðni formanns fulltrúaráðsins, Þorláks Þórðarsonar, til að kanna fjárhagsstöðu félagsins vegna kjörs nýs formanns og aðalstjórnar. Á fundinum voru mál skýrð og talsvert var rætt um stöðu deilda gagnvart aðalstjórn áður en fundi var frestað. Á fundinum var Bílaleigan Vík nokkuð til umræðu, en hún var rekin í um tvö ár á vegum félagsins frá árinu 1985. Á framhaldsaðalfundi 29. apríl 1987 var Jóhann Óli Guðmundsson kosinn formaður Víkings. Í máli hans á fundinum kom fram að mikil vinna væri fram undan í Fossvogi, en jafnframt að nýta svæðið við Hæðargarð. Hann boðaði aukna virkni foreldra barna í hverfinu og annarra íbúa hverfisins.

Youri Sedov kom aftur til starfa hjá Víkingi árið 1987 og var með liðið til 1989. Hér er hann að störfum við girðingarrif við vallarsvæði Víkings við Hæðargarð.
Strákar úr meistaraflokki karla við girðingarrif. Brotthvarf Víkinga úr Hæðargarði var þá hafið.

1988

Fyrsta skóflustunga að félagsheimili Víkings og búningsaðstöðu í Fossvogi var tekin af Agnari Ludvigssyni 27. febrúar 1988. Heimaleikir Víkings í knattspyrnu fóru fram í Fossvogi sumarið 1988. Knattspyrnudeild hafði, í samvinnu við aðalstjórn, gert áhorfendastæði við grasvöllinn, sem þá var með fram Traðarlandi, en bað- og búningsaðstaða var í Bjarkarási og Lækjarási. Séra Ólafur Skúlason, prestur í Bústaðasókn og síðar biskup, blessaði völlinn fyrir fyrsta leik. Magnús Guðmundsson var ráðinn starfsmaður Víkings til að sinna verkefnum fyrir aðalstjórn, handknattleiks- og knattspyrnudeildir og var formlega gengið frá ráðningunni á fundi aðalstjórnar 14. apríl 1988.

Framkvæmdastjórinn hafði aðsetur á skrifstofu Securitas við Síðumúla, en fyrirtækið var í eigu Jóhanns Óla, formanns Víkings. Verkefnin voru ærin og tengdust þau bæði starfi allra deilda félagsins, uppbyggingu í Fossvogi og síðan flutningi úr Hæðargarðinum. Fyrstu verkefnin voru þó í tengslum við fyrrnefnda aðstöðu fyrir áhorfendur á grasvellinum við Traðarland. Þegar bygging félagsaðstöðunnar í Fossvogi var komin áleiðis flutti skrifstofa félagsins í suðvesturhornið í kljallaranum og var þar í nokkra mánuði. 

Þann 14. desember 1988 var gengið frá samningum við borgina um sölu á félagsheimilinu við Hæðargarð og enn fremur yfirtók borgin æfingasvæði Víkings við Hæðargarð. Fyrir eignirnar greiddi borgin 32 milljónir, en jafnframt var kveðið á um að afnotaréttur af æfingavöllum vestan félagsheimilisins félli ekki niður fyrr en Víkingur hefði gert nýjan knattspyrnuvöll á núverandi svæði félagsins við Stjörnugróf og a.m.k. annan knattspyrnuvöll á hugsanlegu viðbótarsvæði. Samningurinn var samþykktur á aðalfundi Víkings í febrúar 1989 og í borgarráði.

Í skýrslu formanns á aðalfundi í febrúar 1989 segir svo: „Eftir mikið stapp um mögulegt samstarf við borgina varðandi útleigu húshluta í Fossvogi varð það niðurstaðan að selja borginni eign okkar Víkinga við Hæðargarð. Borgin gat hvenær sem var tekið af okkur svæðið austan við heimilið enda hennar eign. Það er því byggt á misskilningi ef menn hafa talið okkur geta selt það svæði. Brunabótamat okkar húss var mjög hátt fyrir hús sem þarfnast mikilla viðgerða og sums staðar algerrar endurnýjunar. Borgin sýndi okkur mikla sanngirni í þessum viðskiptum.“ Greint var frá því á fundinum að framkvæmdaröð í Fossvogi væri bygging félagsheimilis, íþróttahúss, keppnisvallar fyrir fótbolta og að lokum bygging tennisvalla innanhúss. 

Árið 1988 varð Víkingur í þriðja sæti í Íslandsmótinu í handknattleik og féll úr leik í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Í fyrsta skipti í heilan áratug kom hvorugur stóru titlanna í hlut Víkinga. Í maí 1988 efndi Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur til hófs fyrir handknattleiksmenn Víkings. Tilefnið var að heiðra Víking fyrir tíu ára samfellda sigurgöngu, en árin 1978 til 1987 unnu Víkingar annaðhvort Íslandsmótið eða bikarkeppnina og tvö árin bæði mótin. Einn leikmaður, Kristján Sigmundsson, vann það einstæða afrek að vinna til allra titlanna á þessu árabili. Á næstu árum voru Víkingar enn yfirleitt í fremstu röð og komust nokkrum sinnum í Evrópukeppni, en herslumuninn vantaði. 

Víkingar urðu í áttunda sæti tíu liða í efstu deild í knattspyrnu, en þó langt fyrir ofan liðin tvö sem féllu; Leiftur frá Ólafsfirði og Völsung frá Húsavík. Nefna má að Víkingurinn Trausti Ómarsson varð fyrstur til að skora mark á gervigrasi á Íslandsmóti í knattspyrnu. Það var í 2:2 jafnteflisleik gegn KR í Laugardalnum 15. maí. 

Svo getið sé um starf annarra deilda þetta ár, þá segir í ársskýrslu sem lögð var fyrir aðalfund 1988 að blakstarfið hafi verið dauft liðið starfsár. Nokkrum stúlkum var gefinn kostur á að halda úti starfi í deildinni, en ekkert starf var í yngri flokkum. Badmintondeild starfaði af atorku víðs vegar um borgina og hagur borðtennisdeildar var talinn allgóður. Snjólítil ár hömluðu hins vegar starfsemi skíðadeildar, en deildin var eigi að síður sú eina sem skaffaði félaginu Íslandsmeistara 1988, er Þórdís Hjörleifsdóttir varð Íslandsmeistari í samhliða svigi.

Tennisklúbbur var stofnaður í félaginu í desember 1988 og voru félagar þar fljótlega komnir á annað hundrað. Tennis hafði verið iðkaður innan innan vébanda Víkings um 60 árum fyrr og voru þeir bræður í Ási, Halldór og Gísli Sigurbjörnssynir, þar fremstir í flokki. 

Unnið að uppsetningu áhorfendapalla á grasvellinum við Traðarland.

1989

Víkingskonur urðu Íslands- og bikarmeistarar í blaki 1989.

Víkingar urðu í sjöunda sæti í Íslandsmótinu í handbolta karla og konurnar í sjötta sæti, en í bikarkeppninni töpuðu þær í undanúrslitum fyrir Stjörnunni.

Víkingur varð í áttunda sæti í fótboltanum og hélt sæti sínu í efstu deild með betri markatölu en Fylkir. 

Margrét Svavarsdóttir varð Íslandsmeistari í tennis 1989. Óskir voru um byggingu tennishúss, sem yrði að verulegu leyti fjármagnað með fyrirframgreiddum æfingagjöldum, en lítið landrými er fyrir svo stórt hús á Víkingssvæðinu. Því var meðal annars horft til svæðisins þar sem gróðrarstöðin Mörk er, en tilraunir Víkings til að fá afnot af því svæði hafa ekki borið árangur.

1990

Víkingur varð Íslands- og bikarmeistari í blaki kvenna, en stúlkurnar sáu alfarið um útgerð deildarinnar. Í starfi blakdeildar var einungis um þennan eina flokk að ræða. Á árunum frá 1975 til 1998 urðu Víkingskonur tíu sinnum Íslandsmeistarar í blaki og sex sinnum bikarmeistarar. 

Í handboltanum urðu karlarnir í sjöunda sæti en konurnar í því fjórða. Guðmundur Guðmundsson tók haustið 1989 við þjálfun meistaraflokks karla og lék jafnframt með liðinu, en hætti þjálfun þess vorið 1992. Guðmundur hóf að leika handbolta með meistaraflokki Víkings árið 1979, þar sem hann lék allan sinn feril. Hann var fyrst valinn í íslenska landsliðið árið 1980 og lék 230 landsleiki og skoraði 356 mörk á glæstum tíu ára ferli með liðinu sem lauk árið 1990. Hann lék meðal annars með liðinu á Ólympíuleikunum árin 1984 og 1988 í Los Angeles og Seoul. Guðmundur hefur náð frábærum árangri á þjálfaraferli sínum heima og erlendis. Hann var þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og þegar það vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Enn fremur var hann landsliðsþjálfari Dana er þeir urðu Ólympíumeistarar í Brasilíu 2016.

Í fótboltanum hafði Logi Ólafsson tekið við stjórnartaumunum og endaði liðið í sjöunda sæti efstu deildar fyrsta ár hans með liðið

Á aðalfundi 22. mars 1990 lét Jóhann Óli Guðmundsson af formennsku og var Hallur Hallsson kosinn formaður Víkings. Í lokaorðum sínum í skýrslu formanns talaði Jóhann Óli nokkuð um endurreisnarstarfið sem hefði verið unnið í félaginu. „Það er góð tilfinning að yfirgefa ykkur nú þegar skútan með götin og slagsíðuna siglir með þann meðbyr sem á seglunum sést,“ sagði Jóhann Óli meðal annars. Um vorið var leitað til borgarinnar um að fá aðstöðu við Hæðargarð bætta, bæði malar- og grasvöll, í samræmi við ákvæði í samningi um sölu á aðstöðunni við Hæðargarð. Víkingur rýmdi félagsaðstöðuna í Hæðargarði að mestu í byrjun október 1990. 

Erfiðleikar voru í starfi handknattleiksdeildar og kynslóðaskipti bæði inni á vellinum og í stjórnun. Jóhann Óli talaði í skýrslu sinni um kaup á leikmönnum og að „fjárfrekja“ þeirra bitnaði á öðru starfi deildarinnar. Knattspyrnudeild væri í viðjum gamalla fjármálasynda og leikmannakaup að sliga starfið eins og í handboltanum. Fjármagnskostnaður beggja deilda væri óviðunandi. Nýkjörinn formaður Víkings, Hallur Hallsson, þakkaði fyrir traustið og sagði að spennandi starf væri framundan hjá félaginu við að byggja upp glæsilegt íþróttasvæði. „Íþróttalega erum við í lægð en hjartað slær,“ sagði Hallur.

Mikil umskipti urðu í starfi Borðtennisdeildar Víkings er deildin flutti alla starfsemi sína í TBR-húsið við Gnoðarvog. Deildin var stofnuð í júnímánuði árið 1973 og var fyrst í stað með aðstöðu í félagsheimilinu við Hæðagarð, en flutti síðan í íþróttahús Fossvogsskóla. Aðstaða deildarinnar batnaði til muna er hún flutti í TBR-húsið og varð deildin einstaklega sigursæl í kjölfarið.

Loka efnisyfirliti